Rökkur : nýr flokkur - 01.06.1975, Blaðsíða 15
13
það kom eins og af sjálfu sér, að við fórum þegar að rabba saman eins
og kunningjar, og þegar hún komst að raun um hverrar þjóðar ég var,
leyndi sér ekki áhugi hennar, og hún spurði margs, og fyrst af öllu
um landhelgismálið. Gerði ég því nokkur skil í stuttu máli, og sagði
hún þá:
„Við Manarbúar skiljum vel afstöðu ykkar. Hér eru öll beztu mið
upp urin, og er þar um að kenna ágengni franskra togara og annarra
erlendra fiskiskipa með sín þéttriðnu net“.
Hér hafði þá gerzt hið sama og við strendur Skotlands. Það varð
nú úr þessu alllöng rabbstund, og aðeins hlé á, er hún þurfti að sinna
öðrum, og mætti ætla, að ég væri farinn að ókyrrast því að ekki var
þessi alúðlega kona neitt farin að grennslast um gistingu fyrir mig,
og sannast að segja var enginn asi á mér, og mér þótti gaman við
hana að spjalla, og svo hafði ég hugboð um, að hún hefði eitthvað í
pokahorninu. Héldum við enn áfram rabbi okkar, og svo sagði hún
allt í einu:
„Ég held, að ég hafi nú dottið niður á hvað bezt sé að ég geri
varðandi gistinguna. Ég ætla að hringja til góðkunningja sem á hús
í miðbænum, skammt frá baðströndinni, og tekur á móti gestum á
sumrin. Hann kann að vera hættur móttöku til næsta vors, en svo
gætu verið gestir hjá honum enn. Það er aldrei að vita“.
Og svo hringdi hún til góðkunningjans, lofaði mitt „ágæti“ ef ég
má svo að orði komast, — því að engu var líkara en hún væri að tala
um gamlan kunningja, og að loknu rabbi í símann, sagði hún mér,
að þetta væri í lagi, og ég gæti verið viss um, að það færi vel um mig
hjá þessu kunningjafólki hennar. Og hún bætti því við, að gestgjafinn
væri söngmaður góður, einsöngvari í einum helzta kirkjukórnum í
Douglas, ætti ágæta konu og unga dóttur, og mundi mér geðjast vel
að þessu fólki. Og um það reyndist hún sannspá.
Fyrstu kynni í Douglas.
Ég kvaddi nú brátt þessa nýju kunningjakonu mína, tók mér sæti
i næsta flugstöðvarbíl, sem var í þann veginn að leggja af stað til
bæjarins (Douglas), og er þangað kom ók ég í leigubíl til einkagisti-
húss Allans Wilcocks, en svo hét gestgjafinn, — kunni betur við það,
þótt ég vissi, að ekki mundi þetta löng leið, ef til vill aðeins steins-