Bændablaðið - 09.02.2023, Blaðsíða 12
12 Bændablaðið | Fimmtudagur 9. febrúar 2023
FRÉTTIR
Minna flutt út af hrossakjöti
Tæp 200 tonn af hrossakjöti voru flutt út árið 2022
samkvæmt tölum Hagstofunnar.
Það er töluvert minna en árið áður, þegar rúm
320 tonn voru seld út. Meðalverð á kíló reyndist
479 kr. sem er umtalsvert hærra en árið áður, þegar það
var 337 kr. Heildarverðmæti á útfluttu hrossakjöti var
tæp 95 milljónir króna.
5 tonn til Kasakstan
Ekkert kjöt fór til Þýskalands, sem hefur á undanförnum
árum verið stærsti innflytjandi íslensks hrossakjöts.
Mest fór til Belgíu árið 2022, tæp 66 tonn á 182
kr/kg, en hæsta kílóverðið var á kjöti til Sviss, 1.376
kr/kg. Rúm 5 tonn fóru til Kasakstan, sem er nýtt á
lista innflutningslanda íslensks hrossakjöts. Ekkert var
flutt til Rússlands sem hefur áður verið nokkuð stórt
viðskiptaland með vöruna. /ghp
Áburðareftirlit 2022:
Þrjár áburðartegundir
teknar af skrá
Niðurstöður áburðareftirlits Mat-
vælastofnunar (MAST) fyrir
síðasta ár hafa verið birtar.
Þrjár áburðartegundir Skeljungs
reyndust með magnesíum undir
leyfðum vikmörkum og hafa verið
teknar af skrá Matvælastofnunar.
Ein áburðartegund Sláturfélags
Suðurlands (NPK 25-2-6) reyndist
með kadmíum innihald við hámark,
eða 54,69 milligrömm á kíló fosfórs
þar sem almenn vikmörk eru 50
milligrömm á kíló fosfórs, en ekki
þurfti að taka hana af skrá. Í skýrslu
MAST um niðurstöðurnar kemur
fram að vegna stríðsátaka í Úkraníu
– og viðskiptaþvingana á Rússland –
þótti sýnt að ekki yrði unnt að útvega
kadmíumsnauðan fosfór fyrir árið
2023, en sá fosfór kemur aðallega
frá Kólaskaga. Því var ákveðið
með reglugerð að hækka leyfilegt
magn kadmíum í fosfór upp í 150
milligrömm á kíló. Reglugerðin er
sett til bráðabirgða og gildir einungis
út árið 2023.
Áburðartegundunum
má ekki dreifa
Þessar þrjár áburðartegundir með
of lítið magnesíum má ekki dreifa
til notenda fyrr en Matvælastofnun
er búin að taka sýni af þeim og láta
efnagreina og niðurstöður þeirra sýni
að áburðurinn stenst kröfur.
Í áburðartegundinni Sprettur 22-7-
6 mældist magnesíum 0,59 prósent
undir skráðu gildi, en má mest vera
0,55 undir skráðu gildi. Niðurstöður
fyrirtækisins gáfu gildi fyrir
magnesíum 0,64 prósent undir skráðu
gildi, en til að áburðartegund sé tekin
af skrá þurfa bæði niðurstöður MAST
og fyrirtækisins að bera saman um
að viðkomandi áburður standist
ekki kröfur. Í Spretti 20-10-10+Se
mældist köfnunarefni 1,1 prósent
undir skráðu gildi sem er á leyfðum
vikmörkum en magnesíum 0,62
prósentustig undir skráðu gildi.
Niðurstöður fyrirtækisins gáfu gildi
fyrir köfnunarefni 0,40 prósent
undir skráðu gildi en magnesíum
0,82 prósentustig undir skráðu gildi.
Áburðartegundin er því tekin af skrá
vegna lágs gildis magnesíums.
Í áburðartegundinni Sprettur
20-12-8+Se mældist magnesíum
0,73 prósent undir skráðu gildi.
Niðurstöður fyrirtækisins gáfu gildi
fyrir magnesíum 0,77 prósent undir
skráðu gildi. Áburðartegundin er því
tekin af skrá.
Tuttugu innflutningsfyrirtæki
Á árinu 2022 fluttu 20 fyrirtæki inn
áburð og jarðvegsbætandi efni, alls
334 tegundir. Magn innflutts áburðar
og jarðvegsbætandi efna var alls
50.809 tonn.
Valgeir Bjarnason, sem hefur
umsjón með áburðareftirliti MAST,
segir að samkvæmt reglugerð beri
stofnuninni að birta niðurstöður
áburðareftirlits fyrir lok viðkomandi
árs. Það sé hins vegar ekki hægt
þar sem skýrslan eigi að ná yfir
áburðarmarkaðinn ár hvert og árið
nái alveg til 31. desember. Því sé
reynt að klára það eins fljótt og hægt
er í janúar.
Tímafrekt eftirlitsferli
Í áburðareftirliti MAST eru birtar
niðurstöður um áburð sem bændur
hafa þegar dreift á sín ræktarlönd.
Stundum hafa áburðartegundir
verið langt frá því að standast
kröfur. Spurður um hvort þetta sé
ekki óheppilegt fyrirkomulag, segir
Valgeir að þessu sé ekki hægt að
breyta því fylgja þurfi ákveðnu
tímafreku ferli samkvæmt reglugerð.
Ekki má setja hindranir
á innflutning
„Áburðurinn er í frjálsu flæði
samkvæmt EES-samningi og því
má ekki setja á hann hindranir
vegna innflutnings eða dreifingar
nema í þeim tilfellum sem rök-
studdur grunur er um að hann
standist ekki kröfur. Megnið af
þessum áburði sem ætlaður er til
landbúnaðar kemur í apríl og flest
sýnin eru tekin þá. Sýnataka og
undirbúningur sýna til sendinga
tekur nokkra daga frá hverju
fyrirtæki. Sýnunum er skipt í
fjögur lokasýni og fær fyrirtækið
eitt sýni til að geta andmælt
niðurstöðum Matvælastofnunar.
Sýnin eru send til faggiltrar
rannsóknastofu í Þýskalandi,
niðurstöður koma eftir um fjórar
vikur eða í lok maí eða byrjun
júní ár hvert. Þá er megnið af
áburðinum kominn á tún og akra.
Niðurstöðurnar þurfa að
fara til viðkomandi fyrirtækja
og þeim veittur andmælaréttur
til að andmæla niðurstöðum
Mast, en það er samkvæmt
stjórnsýslulögum. Fyrirtækin
þurfa tíma til að senda
andmælasýni til rannsóknastofa
og fá niðurstöður þaðan og senda
til Matvælastofnunar.
Þessi samskipti geta teygst fram
í september ár hvert, því stundum
þurfa fyrirtækin að fá frest til að
skila sínum niðurstöðum, til dæmis
vegna sumarleyfa erlendis,“ segir
Valgeir. Ferlinu sé því ekki hægt
að breyta. Áburður, eins og flest
önnur vara, sé framleiddur undir
gæðaeftirliti framleiðandans og
það sé fyrirtækjanna að tryggja
að hann standist kröfur.
„Þar að auki er komin ný
reglugerð í Evrópu sem er í
innleiðingaferli hér sem gerir
ráð fyrir að allar áburðarvörur á
markaði séu CE vottaðar sem á að
tryggja enn betur að þær standist
kröfur,“ segir Valgeir að lokum.
/smh
Áburðareftirlit á Íslandi er í höndum Matvælastofnunar.
Valgeir Bjarnason.
Land Magn(kg) Verð/kr. (FOB) Kr. pr. kg
Belgía 65.875 11.966.376 182
Finnland 23.652 8.131.766 344
Færeyjar 23 31.282 1360
Holland 6.710 2.282.541 340
Japan 11.712 9.627.454 822
Kasakstan 52.000 11.165.220 215
Sviss 37.260 51.263.606 1376
Svíþjóð 19 9.232 486
Alls 197.251 94.477.477 479
Frumvarp um strandveiðar:
Afturför til
ólympískra veiða
Matvælaráðuneytið hefur birt í
samráðsgátt stjórnvalda drög að
frumvarpi til laga um breytingu
á lögum um stjórn fiskveiða við
svæðaskiptingu strandveiða.
Landssamband smábátaeigenda
telur frumvarpið afturför og auka
slysahættu.
Í frumvarpinu er lagt til að
aflaheimildum til strandveiða verði
skipt á fjögur landsvæði líkt og gert
var áður en núverandi fyrirkomulag
var sett á árið 2018.
Ætlunin er að skipting afla-
heimilda fari eftir fjölda báta sem
skráðir eru á hvert svæði. Þegar
leyfilegum heildarafla hvers tímabils
á viðkomandi svæði verður náð skal
Fiskistofa stöðva veiðar á því svæði.
Neikvætt skref
Örn Pálsson, framkvæmdastjóri
Landssambands smábátaeigenda,
segir að í greinargerð sem fylgir
frumvarpsdrögunum komi fram
að landssambandið sé á móti
breytingunum og einnig önnur minni
samtök smábátaeigenda.
„Við teljum þetta almennt vera
neikvætt skref aftur á bak til þess
tíma þegar ólympískar veiðar voru
stundaðar á landsvísu og skapi aukna
slysahættu og hafi önnur neikvæð
áhrif á aðstæður til strandveiða.
Fiskgengd á grunnslóð
misjöfn milli ára
Í máli Arnar kemur fram að allt
mæli með því að viðhalda því sem
smábátaeigendur hefðu aðlagast
og að líta verði til þess að veður
og fiskgengd á grunnslóð sé afar
misjöfn milli ára.
„Á síðustu tveimur árum hafi
hvort tveggja verið með miklum
ágætum og því með ólíkindum að
ekki hafi verið tekið tillit til þess.
Árið 2022 skilaði rúmum 11 þúsund
tonnum af þorski sem leiddi til þess
að ekki hafi verið heimilt að róa
frá og með 25. júlí til loka ágúst.
Stöðvun olli því að heildarþorskafli
fiskveiðiársins varð 2.500 tonnum
minni, hefði endað í 242.719
tonnum en ekki 240.219 tonnum.
Fiskveiðistjórnunarkerfi sem
er svo niðurnjörvað að það
heimili ekki svigrúm upp á 1%
þegar 712 útgerðir smábáta
eiga í hlut getur ekki talist besta
fiskveiðistjórnunarkerfi í heimi. Í
ljósi þessa á matvælaráðherra að
setja frumvapsdrögin niður í skúffu
og leggja þess í stað til að Alþingi
felli burt ákvæðið um að Fiskistofu
sé skylt að stöðva strandveiðar
þegar ákveðnum afla verði náð.
Það myndi tryggja 48 daga
til strandveiða sem allir strand-
veiðisjómenn kalla eftir og yrði
til að auka sátt þjóðarinnar til
stjórnkerfis fiskveiða.“
Í frumvarpinu eru svæðin ekki
skilgreind þar sem ákvæði er um að
ráðherra skuli með reglugerð kveða
nánar um skiptingu landsvæða og
aflaheimilda á tímabil og landsvæði.
Umsagnarfrestur er til og með 15.
febrúar 2023.
/VH
„Fiskveiðistjórnunarkerfi sem er svo niðurnjörvað að það heimili ekki
svigrúm upp á 1% þegar 712 útgerðir smábáta eiga í hlut getur ekki talist
besta fiskveiðistjórnunarkerfi í heimi,“ segir Örn Pálsson. Mynd / VH