Upp í vindinn - 01.05.2014, Side 66

Upp í vindinn - 01.05.2014, Side 66
PÓLITÍK ER SKEMMTILEG Ég er nemandi í umhverfis- og byggingarverkfræði við Háskóla íslands, en er þó á mikilli hægferð núna. 1 þessum pistli langar mig að segja frá því sem ég hef fengið að takast á við undanfarna mánuði. Það „gerðist" fyrir tæpu ári að ég komst á þing, hið háa Alþingi íslendinga. Ég skal viðurkenna það að í fyrstu var ég hræddur en samt spenntur og var ekki viss hvernig ég ætti að undirbúa mig. Það hefði svosem ekki skipt miklu máli hvernig ég byggi mig undir starfið. Starfið kom verulega á óvart og ætla ég að segja frá minni upplifun og lýsa vinnustaðnum Alþingi. Skökk mynd Því miður er myndin sem dregin er upp í fjölmiðlum af Alþingi ekki góð. Mest lesnu fréttirnar eru fréttir af ágreiningi og hitamálum. Reyndin er hins vegar sú að sjaldan er mikill ágreiningur á milli þingmanna ólikra flokka. Um90%aföllummálumsem fara í gegnum þingið eru mál sem allflestir eru sammála um. Þvert á flokka er unnið að breytingum á löggjöf. Samvinna í nefndum er almennt mjög góð en þeir fundir eru oftast lokaðir fjölmiðlum. Þar vinna allir saman að farsælli niðurstöðu. Vandamálið tel ég að liggi í gamalli umræðuhefð og skotgrafarhernaði í nokkrum dagskrárliðum þingsins, sem ég neita að taka þátt í. í annan stað er það fréttnæmara að fólk sé ósammála. Þar hjálpast að fjölmiðlar og lesendur þjóðfélagsins að halda uppi fréttum af ágreiningi, með meiri eftirspurn eftir þannig fréttum frekar en jákvæðum. Skriffinnskuflóð Allir þingmenn hafa ákveðið hlutverk inni á þingi, fyrir utan hin hefðbundnu eftirlits- og þingstörf. Þingmennska er mikil vinna og mikið sem þarf að lesa, kynna sér og skilja. Sætta þarf sjónarmið og finna leiðir til að efla samfélagið og aðlaga löggjöf að nútímanum. Það kemst enginn yfir allt það skriffinnskuflóð sem fer um á hverjum degi. Sérstaklega ekki ef maður tekur virkan þátt í umræðum og andsvörum inni i þingsal. Það hlutverk sem mér var falið inni á Alþingi er seta í umhverfis- og samgögnunefnd og í Þingvallanefnd. Áhugamál og þekking skipta máli þegar raðað er í nefndir en þó fá ekki allir sína óskanefnd. Þingmenn verða að setja sig vel í þau málefni sem tengjast þeirra nefndum og tala fyrir þeim málum í þingsal. Aðrir þingmenn treysta því að nefndarmenn þeirra setji sig vel inn í málefni nefndarinnar og komi þeim upplýsingum á framfæri við sinn þingflokk. Mér er alveg sama Þó ég hafi verið kosinn þingmaður suðurkjördæmis fyrir Framsókn þá finnst mér ég vera talsmaður unga fólksins. Þetta er ekki bara mitt tækifæri, þetta er tækifæri unga fólksins til að gera breytingar og vera breytingin. Einnig að brúa bilið milli skoðana og sjónarmiða ungs fólks og þeirra sem taka ákvarðanirnar. Einnig tel ég að það skipti máli fyrir ungt fólk að hafa fyrirmynd og vona ég að seta mín á Alþingi sé öðru ungu fólki hvatning til að taka þátt í stjórnmálum. Ég vil að ungt fólk trúi því að það þurfi ekki að vita allt um allt til að geta haft áhrif og breytt því sem það telur vert að breyta. Pólitík er skemmtileg. Umræðuefnin eru reyndar misskemmtileg, en þeim mun áhugaverðari því betur sem maður kemst inn í efnið. Þess vegna hvet ég þá sem hafa áhuga á samfélaginu að láta til sín taka. Aðra sem hafa lítinn áhuga hvet ég til að kynna sér eitt eða tvö málefni og hafa skoðun á þeim og fylgja þeim eftir. Það þarf samt ekki að komast á Alþingi til að hafa áhrif. Dæmi um óbein og bein áhrif er að vera þátttakandi í stjórnmálahreyfingu og móta stefnu flokka, skrifa í blöðin, spjalla á vinnustöðum, vera hluti af einhvers konar samtökum. í lýðræðislegu þjóðfélagi ber okkur skylda til að fylgjast með þeim sem taka ákvarðanir í okkar umboði. Bara „ekki gera ekki neitt!" og ekki segja, „mér er bara alveg sama!“ Mín mál - Nokkur málefni sem ég hef mikinn áhuga á og er að vinna að: • Að leyfa hægri beygju á umferðarljósum, mót rauðu Ijósi. • Breyting á meginreglu um forræði barna, að foreldrar fái jafnt forræði yfir börnum ef þau eru ekki í skráðri sambúð eða hjónabandi. • Bættar samgöngur á gömlu fornleiðunum um hálendið, eins og um Kjöl og Sprengi-sand. • Hvetja ungt fólk til að taka þátt í pólitík og umræðu og mynda sér sjálfstæðar skoðanir. • Annað sem tengist börnum, unglingum og ungu fólki, eins og hækkun frítekju-marks námsmanna, iðnnám verði láns-hæft og ýmsar tímaskekkjur sem þarf að leiðrétta í menntakerfinu, efling íþrótta og heilsuvitundar, svo dæmi séu tekin. Haraldur Einarsson Höfundur er 26 ára þingmaður Framsóknarflokksins og nemi í Umhverfis- og byggingarverkfræði. 66 I . upp í vindinn

x

Upp í vindinn

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Upp í vindinn
https://timarit.is/publication/1929

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.