Mímir - 01.06.1981, Page 94
til þess að upphefja fortíð viðkomandi þjóð-
ar; og gömlum sögnum sem villst höfðu á
prent var stillt upp sem skjalfestri staðfest-
ingu þess, að í æðum þjóðarinnar rynni göf-
ugra blóð en það sem finna mátti í æðum
annarra þjóða. Þannig að þótt hetjusögurnar
séu ekki þjóðernislegar bókmenntir, hafa þær
víða átt sinn þátt í að skapa þjóðernistilfinn-
ingar.
Þær fornu hetjusögur sem við nútímamenn
þekkjum hafa borist til okkar á bók. Ein-
hverntíma á þróunarferli sögunnar hefur hún
verið rituð niður og þannig slitin úr tengsl-
um við hina lifandi frásagnarhefð sem hún
var hluti af. Hvernig sagan var áður og
hvernig hún þróaðist eftir að textinn var
færður í letur er ekki alltaf gott að vita, né
heldur hvaða breytingum hún tók í hendi
skrifarans. í Norður-Evrópu kom ritlistin
samfara nýjum sið, kristninni, og kristinn
hugsunarháttur hafði að sjálfsögðu áhrif á
hinar fornu sögur. Þetta er mjög greinilegt
í Bjólfskviðu þar sem fornt sagnaefni er tek-
ið til endurmats af kristilega þenkjandi skrif-
ara. Þannig fór saman tilkoma ritmáls og
nýrra viðhorfa, sem gerðu það að verkum að
allt það gamla sagnaefni sem ritað var niður,
var undir áhrifum frá hinum nýja sið, svo að
þau viðhorf sem koma fram í hetjusögunum
eru ekki ætíð þau sömu og þær eru upphaf-
lega sprottnar úr. Þó gátu hinir kristnu skrif-
arar engan veginn sneitt hjá öllum heiðnum
viðhorfum, enda er ekki víst að þeir hafi kært
sig um það, svo samgróin voru þau bæði efni
og formi sagnanna. Af þessu leiðir vissan
tvískinnung í ýmsum verkum, eins og t.d.
Bjólfskviðu, þar sem heiðin örlagahyggja
blandast kristinni guðstrú, og forn norræn
hetja fær svip af þeim suðræna kristi o. s. frv.
Þetta verður að hafa í huga þegar fjallað er
um kappana sjálfa. Þeir eru ekki alltaf sjálf-
um sér samkvæmir vegna þess að saga þeirra
er ekki samin af einum manni með það í
huga að lýsa ákveðinni persónu, heldur af
mörgum mönnum sem höfðu ekki allir sama
viðhorf til efnisins. Þessi tvískinnungur er
augljós hjá Bjólfi en kemur líka fram hjá Sig-
urði Fáfnisbana þótt í minna mæli sé.
Ymsir virðast telja það mikinn skaða, þeg-
ar fornar bókmenntir svo sem Eddukvæði
verða fyrir áhrifum af nýjum viðhorfum áð-
ur en þær eru færðar í letur. En þess ber að
minnast, að þær hetjubókmenntir sem geymst
hafa munnlega áður en þær komust á prent,
eiga sér engan einn réttan frumtexta, heldur
hafa þær þróast og breyst vegna nýrra menn-
ingarstrauma, málbreytinga o. fl. Sá texti sem
að síðustu er skrifaður hlýtur því að saman-
standa af mörgum „lögum“, sem smám sam-
an hafa verið að hlaðast um einhverja beina-
grind, sem gæti verið sannir atburðir úr lífi
einhvers konungs eða herkappa eins og t.d.
Gunnars Gjúkasonar eða Agamemnons At-
reifssonar. Þegar textinn svo loksins er kom-
inn til okkar á prenti er engin leið að segja
nákvæmlega til um hvað er upphaflegt og
hvað eru viðbætur; og tækist að reyta af hon-
um allar viðbæturnar gæti eins verið að sá
kjarni sem leitað var að hafi verið gleymdur
löngu áður en textinn var skráður og sé því
alls ekki til staðar. Slíkt er því líkast sem
undið sé ofan af bandhnykli til að sjá hvað
er inni í honum, þótt fingurnir sem fyrst var
vafið um hafi verið dregnir út úr hnyklinum
löngu áður en hann var fullvafinn.
3.
Hetjum má skipta í tvo flokka eftir þeim
andblæ sem fylgir þeim, „bjartar hetjur“ og
„dimmar“, stundum er líka talað um Sigurð-
ar- og Grettistýpurnar. Samkvæmt þessu eru
kappar eins og Sigurður, Akkilles, Kári Söl-
mundarson og Helgi Hundingsbani „bjartar
hetjur“ en t. d. Bjólfur og Grettir Ásmundar-
son „dimmar hetjur“.
Auðvitað er þessi skipting ekki einhlít, og
vel má færa rök að því, að Bjólfur eigi ekki
síður margt sameiginlegt með Sigurði en
Gretti. En það sem ég er að reyna að gera er
92