Ársrit Skógræktarfélags Íslands - 15.12.1990, Blaðsíða 128
MINNING
Andrés Kristjánsson
10. sept. 1915-9. apríl 1990
Andrés Kristjánsson var einn af þeim
mönnum, sem tekið var eftir á mannamótum.
Þegar hann kvaddi sér hljóðs, flutti hann mark-
viss erindi og þá var hlustað enda talaði hann
mjög gott mál. Þótt honum lægi ekki hátt rómur
kom hann vel til skila skoðunum sínum á
málefnum og oft lagði hann sérkennilegan þunga
í róm sinn þegar honum blöskraði eitthvað,
einkum í menningarlegum efnum. Eg, sem
þessar línur rita, kynntist Andrési fyrir um 15
árum sem félagi í Skógræktarfélagi Kópavogs.
Andrés var einn af stofnendum félagsins og sat í
stjórn þess frá upphafi, 1969 til 1987 eða í 18 ár.
Ævinlega var leitað til hans þegar þurfti að
leysa ýmis menningarmál varðandi félagsstarfið,
og kom þá í ljós hve frábærlega hann var heima í
öllum slíkum málum og tillögugóður um úrlausn
þeirra.
Andrés sat í varastjórn Skógræktarfélags
Islands um árabil og þar bar hann upp margar
ágætar hugmyndir til eflingar skógrækt, má þar til
nefna tillögu hans um skógrœktarþing, sem fyrst
kom fram á aðalfundi Skógræktarfélags íslands
1985. Tillagan hljóðaði svo:
„Vegna mjög vaxandi skógræktaráhuga meðal
þjóðarinnar og í mörgum félagasamtökum, sem
sum hver hafa eflingu skógræktar á starfsskrá,
þótt meginhlutverk þeirra sé annað, verði
kannað hvort ekki sé unnt og æskilegt að efna til
opins skógræktarþings, þegar ástæða þykir til,
eða á ákveðnu árabili, þar sem fjallað verði um
skógræktina sem mál er alþjóð varðar“.
Þessari hugmynd Andrésar var hrundið í fram-
kvæmd af Skógræktarfélagi íslands árið 1987,
með glæsibrag, og vakti svo sannarlega þá
umræðu sem ætlast var til og síðar fylgdu fram-
kvæmdir, sem alþjóð er kunnugt um. Ég nefni
þetta hér þar sem tillaga Andrésar lýsir svo vel
hugsjónum hans og þrá til að koma þeim á fram-
færi við almenning og ráðamenn þjóðarinnar.
Andrés var frábærlega ritfær maður, hann var
einn af aðalritstjórum Tímans um árabil. í því
blaði er fjöldi greina eftir hann, margar hverjar
markverðar, og á síðari árum skrifaði hann
greinar í ýmis önnur blöð og tímarit. Hann var
virtur gagnrýnandi á bækur. Þó eru eftirminnileg-
ust erindi, sem hann flutti á tímabili í Ríkisút-
varpið Um daginn og veginn og þótti mér ævin-
lega gaman að hlýða á Andrés, þar sem hann var
fundvís á meinsemdir í þjóðfélaginu, en það
særði réttarvitund hans ef rangsleitni var viðhöfð
í þjóðfélaginu og þá sérstaklega þegar níðst var á
lítilmagnanum. Andrés tók nokkurn þátt í
stjórnmálum, hann sat sem varabæjarfulltrúi,
126
ÁRSRIT SKÓGRÆKTARFÉLAGS ÍSLANDS 1990