Ársrit Skógræktarfélags Íslands - 15.12.1990, Side 131
tekinn að skrýða það meir og meir með hverju ári
sem líður. Landnám birkisins þar sem áður var
svartur sandur norðan núverandi þjóðvegar hjá
Ásbyrgi, má rekja til þess að Erlingur flutti
skógarlim, sem féll til við grisjun inni í Ásbyrgi,
og lagði á sandinn.
Þegar Ásbyrgi var friðað af Skógræktinni árið
1928 var skógurinn sagður mjög á fallanda fæti.
Tveir skógarreitir, Leirutjarnarskógur og Botns-
skógur stóðu einir eftir og voru mjög feysknir,
svo að fúasprekin þóttu til mikillar óprýði.
Ásbyrgi var þá þegar orðið fjölsóttur ferða-
staður og eftirsóttur staður til mannfunda,
þannig að mikils þótti um vert að þar væri allt
með sóma.
Það kom eðlilega í hlut Ásbyrgisbónda að sjá
um Byrgið fyrir Skógræktina og mun hafa komið
nokkurt gjald fyrir, þó að fráleitt hafi öll fyrir-
höfn verið reiknuð. Þar þurfti margt að laga og
st.öðugt að hreinsa og líta eftir tjaldstæðum og
samkomusvæðum. Skógarleifarnar tóku og ört
við sér og brátt spratt nær samfelldur skógur um
mestan hlutaByrgisins. Þáþurfti að grisjaoggera
gönguleiðir til helstu skoðunarstaðanna. Þarna
gegndi Erlingur í raun bæði hlutverki skógar- og
landvarðar eins og þau störf eru nú skilgreind.
Það var árið 1947 að fyrst var plantað erlendum
trjám í Byrgið og þá og lengi síðar á vegum Skóg-
ræktar ríkisins en síðar einnig á vegum Skógrækt-
arfélags Norður-Þingeyinga, en öll var plöntunin
í umsjá Erlings á meðan hann var í Ásbyrgi.
Skógræktarfélag Norður-Þingeyinga var
stofnað árið 1947. Framan af starfaði það í
tveimur deildum og var Erlingur þá formaður
Kelduhverfisdeildar en síðan eftir sameiningu
deildanna í stjórn félagsins þar til hann flutti á
brott árið 1961.
Síðustu tíu árin sem Erlingur bjó í Ásbyrgi eða
frá ársbyrjun 1951 var hann ráðinn skógarvörður
fyrir sýsluna og hafði fyrir hálf laun. Varla mun sú
skipan þó hafa breytt miklu um störf hans sem
alla tíð voru svo sterklega tengd fegrun nágrenn-
isins og aðhlynningu gróðurs.
Erlingur var kvaddur til ýmissa starfa fyrir sveit
sína og hérað, þó að fjarri væri skapi hans að
sækjast eftir því, sem ýmsum finnast vegtyllur.
Hann var snemma kosinn í hreppsnefnd og var
mjög lengi oddviti sveitar sinnar eða frá 1942-
1961. í sýslunefnd sat hann frá 1938-1961 og
gegndi jafnframt trúnaðarstörfum fyrir kaupfé-
lag sitt. Kunnugt er mér að vænst þótti honum um
þátt sinn í að reisa Skúlagarð, félagsheimilið og
skólasetrið í Kelduhverfi.
Eins og fram hefur komið fluttist fjölskyldan til
Reykjavíkur 1961. Þá fékk Erlingur starf hjá
Búnaðarbanka íslands og vann mest við Stofn-
lánadeild landbúnaðarins og veit ég að hann þótti
þar starfsamur og traustur starfsmaður.
Erlingur var maður einkar prúður í framkomu
og bar sig aldrei á torg en hann var jafnframt
skoðanafastur og gat vel sett þær fram. Hann var
gæddur ríkum gáfum, víðlesinn og fjölfróður.
Hann unni enda mjög öllum góðum bókmennt-
um, en þó fyrst og fremst góðum Ijóðum. Skáld
hans voru Einar Benediktsson og Stephan G.
Stephansson. Ljóð þeirra kunni hann að því er
virtist flest utan bókar, svo mjög dáði hann
mannvit þeirra og snilli.
Sjálfur var hann ekki aðeins góður hagyrðing-
ur, heldur og skáld, þó að mest setti hann saman
sér til hugarhægðar og flíkaði aldrei.
Eftirfarandi vísur eru úr litlu ljóði, sem hann
nefndi Tvennar tíðir. Það er í senn kveðja hans til
lífsins og skóganna hans fyrir norðan.
Vorið bíður, vorið kallar
vaknar allt og lifna fer,
kvikur fugl í lundi ljóðar.
Skógurinn angar mjúkum grænum greinum.
Hárin grána, hárin falla
hrukkast kinn og blikna fer
eins og hendir allan jarðargróður
svo sem blöð af barkarlitum greinum.
Jónas Jónsson
ÁRSRIT SKÓGRÆKTARFÉLAGS ÍSLANDS 1990
129