Skógræktarritið - 15.10.2014, Page 11

Skógræktarritið - 15.10.2014, Page 11
SKÓGRÆKTARRITIÐ 2014 9 inni á Eyjólfsstöðum og Sigurður rakti fyrir mig sögu þeirra frá því þau voru fræ í Bandaríkjunum. Að vera í samvistum við Sigurð var alltaf fræðandi og það var sama hvar borið var niður þar sem nokkur tré stóðu saman, á þeim vissi hann öll deili líkt og góður fjárbóndi þekkir sínar kindur. Mér hlotnaðist sá heiður árið 1999 að vinna að bók um 100 ára sögu skógræktar á Íslandi með Sigurði Blöndal. Það var mikil en skemmtileg vinnutörn og ég lærði margt við fótskör meistarans. Öguð vinnu- brögð hans og reglusemi, t.a.m. varðandi skráningu ljósmynda, vöktu aðdáun mína. Sigurður treysti ekki á tölvur heldur dagbækur og eigið minni, sem lengst af var óskeikult. En það var ekki nóg með að hann vissi allt um skóga landsins. Hann var víðlesinn og fróður um allt milli himins og jarðar. Sérstakt dálæti hafði hann á bókmenntum og það var einstaklega gaman að setjast með honum í ársbyrjun og ræða jólabækurnar. Þá komu nú ýmsar skoðanir til tals á mönnum og málefnum og tíminn flaug í stofunni hjá þeim Sigurði og Guðrúnu. Sigurður Blöndal var frændi Gunnars Gunnarssonar og rifjaði oft upp kynni sín af skáldinu. Hann studdi dyggilega hugmyndir um endurreisn Skriðuklausturs undir formerkjum Gunnarsstofnunar og veitti mér góð ráð við fyrstu skrefin í forstöðumannsstarfi. Hann og Guðrún sóttu flesta viðburði sem menningarsetrið stóð fyrir meðan heilsa Sigurðar leyfði og þau nutu þess að skreppa í kaffi í Klaustur. Eitt af því sem Sigurður hafði mikið yndi af var að spila lomber, líkt og frændi hans Gunnar. Sérstaklega eru minnis- stæðar góðar ferðir norður í Eyjafjörð að taka lomber- slag við Húnvetninga, en á níræðisaldri lét Sigurður sig hafa það að koma með í nokkrar slíkar. Ég vil einnig minnast á ljósmyndasýningu sem Sigurður hélt í gallerí Klaustri árið 2005. Allir vita hve góður náttúruljósmyndari hann var en á þessari sýningu sýndi hann svarthvítar myndir af fólki. Ég leyfi mér að segja að hvaða lærði portrett-ljósmyndari sem er hefði verið fullsæmdur af þeim myndum. Sigurður hafði næmt auga fyrir góðri myndbyggingu eins og myndasafn hans ber fagurt vitni um. Þær munu lifa lengi allar þær góðu stundir sem tengjast Sigurði Blöndal í mínum huga, hvort sem var í veislum skógarmanna, við að rýna í myndir eða á eintali úti í skógi. Síðustu árin vorum við nágrannar í skóginum eina og gjarna hefðu þær mátt vera fleiri heimsóknirnar á Kvíaklett til þeirra Guðrúnar. En þakka ber þær stundir sem gáfust, þær voru gjöfular. Sigurður Blöndal var aðlaður af náttúrunni sjálfri og orður hans sjáum við í vaxandi skógum um land allt. Minning hans lifir í þeim grænu lundum. Skúli Björn Gunnarsson „Þetta var mesta hörmung sem ég hef nokkru sinni séð.“ Svona lýsti Sigurður heitinn Blöndal miðhálendi Íslands eftir að hafa ekið Sprengisandsveg með Benedikt syni sínum á björtum sumardegi fyrir nokkrum árum síðan. Hann sat þá á skrifstofu minni á Egilsstöðum og við ræddum málin. Í staðhæfingunni fólst ákveðin glettni, því Sigurður var vel meðvitaður um miðhálendisumræðuna, hvað þar væri dásamlegt, ósnortið víðerni, mestu náttúruperlur landsins o.s.frv. Hins vegar meinti hann þetta innilega – gróðurlausar auðnir voru í hans augum hörmung á að horfa, jafn- vel á góðviðrisdegi og óháð því að aðrir dásömuðu þær. Það vafðist ekki fyrir honum að gróið land væri betra en ógróið og að skógur væri besta gróður- lendið, sérstaklega skógur vaxinn stórum og öflugum trjám. Öðru sinni, veturinn 2004, sátum við á skrifstofunni og ræddum um sitkagreni. Þá var Sigurður með handrit að fyrstu greininni í ritröð um innfluttu skógar- trén sem birta átti í Skógræktarritinu, einmitt um sitkagreni. Var hann þá búinn að viða að sér öllum mögulegum tölum um innflutning fræs, plöntufram- leiðslu, gróðursetningu og vöxt. Hann mundi þetta allt vel, tölurnar voru bara til staðfestingar. „Plöntur- nar drápust í milljónavís í gróðrarstöðvunum“ sagði hann og sá greinilega mjög mikið eftir því hvað menn voru lengi að ná tökum á plöntuframleiðslunni. „Ímyndaðu þér ef hér væri tuttugu sinnum meiri sitkagreniskógur frá sjötta áratugnum“ sagði hann. Sigurði var umhugað um að ná árangri. Það skipti hann máli að trén yxu vel og að það tækist að klæða landið skógi að verulegu marki. Sigurður naut þess að lifa tíma mikilla framfara í skógrækt og átti sjálfur stóran þátt í þeim framförum. Hann ólst upp í mesta skóginum í annars nær algjörlega skóglausu landi. Af lýsingum Sigurðar frá bernsku- árum sínum sem kúasmali að dæma var sá skógur þó að mestu kjarr á strjálingi og víða ekki einu sinni það, ekkert í líkingu við Hallormsstaðaskóg dagsins í dag. Þegar hann tók þar við sem skógarvörður um miðjan sjötta áratuginn var Guttormslundur kominn í tveggja til þriggja metra hæð en að öðru leyti lítið

x

Skógræktarritið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Skógræktarritið
https://timarit.is/publication/1996

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.