Skógræktarritið - 15.10.2014, Page 32

Skógræktarritið - 15.10.2014, Page 32
SKÓGRÆKTARRITIÐ 201430 næsta fylki fyrir sunnan Sogn- og Fjarðafylki, hófst ferðin á stuttri heimsókn um þann forna höfuðstað. Stutt yfirlit um land og skóg Jarðsaga Noregs er ákaflega merkileg og spannar alla jarðsöguna. Noregur hefur því að geyma flestar þær bergtegundir sem finna má í heiminum nema þær sem finnast á virkum eldfjallasvæðum en síðast var eldvirkni á Óslóarsvæðinu á Perm-tímabilinu (fyrir 280-225 milljón árum). Tvisvar í jarðsögunni hafa Noregur og Grænland náð saman og hinir miklu fjall- garðar Noregs eru hluti af kaledónískum fellingafjöllum sem ná frá Skotlandi (gamla nafnið á Skotlandi var Kaledónía) og norður til Svalbarða. Grjótharðar umbreyttar bergtegundir eins og granít og gneis eru nokkuð algengar en fágætari umbreytt bergtegund er fylkisbergtegundin eklógít (eklogitt). Hún er frekar fágæt en hana má finna á nokkrum stöðum, aðallega í Nordfjord innanverðum. Storkubergið amfíbólít kemur fyrir eins og djúpbergtegundin anorþósít (anortositt). Harðpressuð setlög eins og völuberg (konglomerat) og flöguberg (skiffer) eru einnig nokkuð algeng. Harka og efnainnihald bergtegunda hafa eins og gefur að skilja mikil áhrif á jarðvegsmyndun og eðli jarðvegs og þar af leiðandi á skóginn og þær tegundir sem þar vaxa. Bestur er jarðvegurinn þó jafnan þar sem ísinn skildi eftir jökulruðninga eða þar sem land hefur risið úr sæ. Landslag í Sogni og Fjörðum er stórbrotið með sínum vogskornu fjörðum allra lengda en Sognarfjörðurinn er dýpsti (lengsti, um 207 km) fjörður í heimi ef frá er talið Scoresby- sund sem oftast er þakið ís. Há og hvöss fjöllin rísa úr sæ en undirlendi og aðdragandi upprisu þverhníptra fjallanna er víðast hvar afar takmarkað. Út með ströndinni er úrkomubelti sem bætir upp takmörkuð jarðvegsgæði fyrir skóginn en lengra inn til landsins ber skógurinn meiri svip af meginlandsskógi og ríki skógarfurunnar styrkist. Sogn og Fjarðafylki er um 18.623 km2 og íbúafjöld- inn um 110 þúsund og telst stöðugur. Í Noregi er nýtanlegur skógur (produktiv skogareal) skilgreindur þannig að krónuþekja sé að lágmarki 10% af yfirborði lands og að framleiðslugeta bolviðs sé yfir 1 m3 á hektara/ári. Slíkur skógur þekur um 2.550 km2 af Sogn og Fjarðarfylki eða um 14% af heildarflatarmáli. Þar af er laufskógur ríkjandi á 54%, fura á 32% og greni á 14% af flatarmáli nýtanlegra skóga. Náttúrulega hefur greni þó aðeins náð tak- markaðri útbreiðslu innst í Sogni en mest af greninu hefur verið gróðursett. Ilmbirki er aðaltegund lauf- skóganna en gráelri er einnig talsvert algengt, sem og rauðölur og heggur. Á góðum vaxtarstöðum inn til landsins má finna eðallaufskóga með aski, álmi, rauðelri og hengibjörk. Standandi bolviðarmagn í laufskógunum er 11 milljónir m3 en 10 milljónir m3 af greni og 9 milljónir m3 af furu. Árlegur heildarviðarvöxtur er 0,8 milljónir m3 en sjálfbær viðartekja talin vera við ríflega 0,7 milljónir m3. Árlega eru höggnir um 350 þúsund m3, langmest greni en um 20 þúsund m3 af furu. Greni- skógræktin hefur því skilað mikilli framleiðniaukningu í skógunum á mælikvarða viðarvaxtar og efnislegrar verðmætasköpunar. Ferðasaga Laugardagur 30.08 Eftir tíðindalausa liðlega tveggja tíma flugferð tók Björgvin vel á móti okkur. Eftir viðkomu á Thon Hotel Bryggen sem er við Hákonarhöllina og gömlu bryggjuna (Bryggen) var dagurinn frjáls, hvort sem var til að anda að sér borgarblænum, skoða tré og byggingar eða kíkja í búðir og veitingahús. Sumir tóku toglestina upp til Fløyen en þaðan er einstakt útsýni yfir borgina og borgarskógurinn býður upp á góðar gönguleiðir, áningarstaði, fjölbreytileika í trjátegundavali og gömul og tignarleg tré. Skógurinn flokkast sem „Bergen Naturpark“ og þar er Skógræktar- félagið í Bergen (Bergens skog- og træplantningssel- skap) í forsvari. Sunnudagur 31.08 Á sunnudagsmorgninum tók á móti okkur Bernt - Håvard Öyen, afkastamikill skógvísindamaður og nú forstjóri Bryggen og vararæðismaður Íslands, auk þess að vera stjórnarmaður í Skógræktarfélagi Hörða- lands. Leiddi hann hópinn um gömlu bryggjuna sem er líkt og Þingvellir á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna sem menningarminjar. Sögu bryggjunnar má rekja um 1000 ár aftur í tímann en í valdatíð Ólafs kyrra um 1070 fær Björgvin hlutverk höfuðstaðar á vesturströnd Noregs og staðurinn verður biskups- setur. Síðar flyst konungsvaldið frá Niðarósi til Björgvinjar sem verður þar með höfuðstaður Noregs og um tíma Íslands. Á valdatíma Hákonar V Magnús- sonar Háleggs (1299-1319) flyst konungsvaldið frá Björgvin til Ósló. En mikilvægi Björgvinjar sem miðstöðvar verslunar og viðskipta og samskipta yfir hafið hafði vaxið. Bærinn var um tíma fjölmennasta borg Norður-Evrópu. Fiskur frá vesturströndinni og Norður-Noregi var fluttur út í gegnum Björgvin en

x

Skógræktarritið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Skógræktarritið
https://timarit.is/publication/1996

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.