Helgarpósturinn - 11.12.1986, Blaðsíða 21

Helgarpósturinn - 11.12.1986, Blaðsíða 21
eftir Helga Má Arthúrsson mynd: Jim Smart Skúli Jensson lamaðist fimmtán ára. Hann er afkastamikill þýðandi. Lauk lögfræðiprófi 1949. Hann bjó sér til veröld á Vífilsstöðum. SAKNA ÞESS AÐ SJÁ EKKIHAFIÐ Hann hefur búib á Vífilsstöbum frá árinu 1956. Þar er heimur hans. Ver- öldin, sem hann hefur búib til, og er frábrugbin þvísem flest okkar þekkja. Skúli Jensson er nafnib. Margir kannast vib þab, en koma því ekki fyrir sig hver maburinn er. Hann er lögfrœbingur. Hann er lamabur og hefur verib frá fimmtán ára aldri. Hann hefur þýtt yfir 200 bœkur og er óhœtt ab full- yrba, ab flestir landsmenn hafi einhvern tíma lesib þýbingar hans. Skúli Jensson er fæddur vestur í Bolungarvík og ólst þar upp á mörkum fortíðar og nútíma. Hann er fæddur árið 1920. Faðir hans var kenn- ari á Bolungarvík. Það átti sinn þátt í því að Skúli varð snemma það sem kallað er bókaormur. Bókaáhuginn hefur e.t.v. hjálpað honum eftir að hann lamaðist. Af bókum hafði hann félagsskap og þær skópu honum sömuleiðis ævistarf, sem hann er sáttur við. En fyrst æskan. Bolungarvíkurárin. „Til að lýsa tímanum í Bolungarvík er best að lýsa bátunum. Vélbátar voru flestir fjögurra til sjö tonna. Hafnaraðstaða var sama og engin. Hafnaraðstaðan fólst í svokölluðum brimbrjóti, sem átti að hlífa bátunum. Þeir voru oftast settir upp eftir hvern róður, enda Víkin opin fyrir norð-austan áttinni. Þarna voru í rauninni engin mannvirki. Og það var með mig, eins og aðra, sem alast upp í sjávarplássi, að ég byrjaði snemma í fiski — saltfiski. Við þetta vann ég öll sumur. Þá áttu menn engar sérstakar frístundir, nema þegar ekki var unnið: Útgangspunktur lífsins var vinn- an. Ég minnist bernskunnar með hlýjum hug. Það var frjálslegt í þorpinu. Fjöllin há og enda- laus víðátta hafsins blasti við. Ég átti góða bernsku, þrátt fyrir mikla fátækt, sem ég sá allt í kringum mig. Sjómenn og verkamenn í Bol- ungarvík voru fátækir þá. Húsnæði var venju- lega byggt uppúr verbúðum, sem stóðu á kambi niður við sjó. Oft sambyggð. Mörg húsanna voru byggð þannig, að uppi á lofti svaf fólk. Niðri voru beitningaskúrar og geymslur. Hagur manna var þröngur. Það sem bætti úr var landbúnaður. Menn höfðu ær og oft geitur — og áttu jafnvel kú í félagi. Þar fyrir utan gekkst verkalýðsfélagið fyrir því um 1930, að kartöflur voru ræktaðar í sandinum í Bolungarvík." LÖMUN Á SEXTÁNDA ÁRI Faðir Skúla átti eins og aðrir nokkrar geitur, sem mjólkuðu vel. Þær voru kýr efnalausra, á annað hundrað í Bolungarvík þess tíma. „Það var þannig víða í þorpum, að ráðnir voru sérstakir geitasmalar og var ég tvö sumur, sem aðstoðarmaður smalans. í göngum haustið 1935 fór ég Tungudal, til hægri við Tunguhorn. Réttin var á Skeiði. Ég fann fyrir óþægindum í höfði þegar ég gekk út me_ð Erni — fjallinu, sem ég hafði á hægri hönd. Ég komst heim og fannst höfuðið vera að klofna. Eg minnist þess að hafa séð auglýsingu um skemmtun á vegg, á lejðinni heim. Hún var tvöföld í mínum augum. Ég var drifinn í rúmið og vissu menn ekki hvort ég var haldinn slæmri inflúensu, sem þá gekk, eða hvort þetta var eitthvað annað. Það var svo eftir þrjá daga, að lömunin fór að koma fram. Ég lam- aðist smám saman á næstu þremur dögum. Al- gerlega. Það var rétt að ég gæti velt til höfði, hreyft þumalfingur á hægri hendi og stóru tá hægri fótar. Lömunin kemur víst oft einkennilega fram. Ég sté meira í vinstri fótinn á leið minni meðfram fjallinu og beitti mér öllum meira til vinstri. Og lamaðist meira þeim megin.“ Smalamennskan var síðasta gönguferð Skúla Jenssonar. Aðspurður um það, hvort hann hugs- aði til þessarar siðustu gönguferðar sagði hann að hann gerði það ekki. Engar sérstakar minn- ingar væru tengdar smalaferðinni. Sú síðasta væri í hans huga eins og hver önnur smalaferð. „Eftir að ég Iamaðist var rétt á mörkunum að ég næði andanum og í rauninni áttaði ég mig ekki á því sem hafði gerst. Dagarnir liðu og ég var ekkert að hugsa um framtíðina. Ég hugsaði með mér að þetta kæmi allt saman, þegar fram liðu stundir. Ég man það stóð þannig á þetta haust, að meiningin var að fara í gagnfræðaskólann á ísafirði. Ætlun mín var sú að vera þar í hálfan vetur, en halda svo til Akureyrar og reyna að komast þar uppí annan bekk — í Menntaskólan- um á Akureyri. Lömunarveikin gekk þá um land allt og skólanum á ísafirði var frestað og ég hugsaði með mér, að ég yrði aftur kominn á kreik þegar skólahald hæfist aftur. Ég lá þrjár vikur heima, en var síðan fluttur á spítala á ísafirði. Og þegar átti að fara að hreyfa mig voru liðamót öll stirð. Þurfti að rífa allt upp til að ég gæti hreyft handleggina." VONAÐIST TIL AÐ GETA GENGIÐ Skúli sagði, að innst inni hefði hann alltaf reiknað með því að hann lagaðist með tíman- um. Að einhvern tíma myndi hann geta gengið á ný. Samt sem áður hafi lömunin aldrei tekið verulega á hann. Hann lagðist ekki í þunglyndi, og hann segir að í rauninni hafi sér ekki verið brugðið. Hann segist oft hafa fundið fyrir því, þegar eitthvað var að gerast, sem hann langaði til að vera með í, að hann hafi fundið fyrir löm- uninni, „en ég var svo heppinn að geta alltaf fundið mér eitthvað til uppfyllingar í staðinn." Skúli lá rúmfastur á spítalanum á ísafirði í sex mánuði. Siðan var hann fluttur til Bolungarvík- ur aftur. Þar var hann með fjölskyldunni í þrjá mánuði, en síðan var hann fluttur á Landspítal- ann og lá þar í tvö ár samfleytt. Fjölskyldan flutti suður til að geta stundað hann og til þess að Skúli fengi notið bestu læknishjálpar sem þá var völ á. „Lífið snerist vitskuld um það að finna sér eitt- hvað til að gera. Og þegar ég kom á Landspítal- ann tók ég uppá því að sækja Sundhöllina í Reykjavík. Ég fékk mikið út úr því að fara í sund. í fyrsta lagi styrktist ég mjög í sundinu og í öðru lagi var ég úti á meðal fólks og hafði af því fé- lagsskap. Hvoru tveggja styrkti mig mjög þótt með ólíkum hætti væri. Ófeigur Ófeigsson, sem þá var nýr læknir á Landspítalanum og var ný- kominn frá Bandaríkjunum, hvatti mig mjög til að fara í sund. Og ég hafði svo gott af þessu að ég synti annan hvern dag allan þann tíma sem ég var á Landspítalanum, eða til 1956 að ég flutt- ist hingað til Vífilsstaða. Við reyndum að taka veikindum mínum eins og hverju öðru áfalli, sem alltaf getur dunið yfir í þessu lífi. Eftir að ég kom heim af spítalanum kenndi ég skólakrökkum í aukakennslu og hafði af því bæði gagn og gaman. Það var mikil til- breyting í því.“ STÚDENTSPRÓF — LAGANÁM Skúli lét ekki deigan síga þótt hann væri lam- aður. Hann stundaði skóla — ingimarsskóla — án þess nokkurn tíma að sækja hann, heldur las námsefnið utanskóla. Þaðan tók hann gagn- fræðapróf. Það kom svo í ljós að ráðamenn í Menntaskólanum í Reykjavík töldu gagnfræða- próf Skúla heldur losaralegt og ekki fullgilt. Hann tók því gagnfræðapróf að nýju. „En þegar ég sótti um það næsta vor, að fá að taka stúdentspróf, þá þótti þeim það furðulegt, enda gerðu þeir sér ekki grein fyrir því, að ég hafði fylgst með bróður mínum og félögum hans að meira og minna leyti og var í rauninni búinn að lesa miklu meira en til var ætlast. Mér fannst þetta allt ofur eðlilegt, enda tók ég stúdentspróf- ið vorið eftir — 1943. Að loknu stúdentsprófi velti ég því fyrir mér, hvaða grein í Háskólanum hentaði mér best og hvaða grein það væri sem myndi gagnast mér mest á lífsleiðinni. Niðurstaðan varð sú, að ég valdi lögfræði. Og útskrifaðist ég úr lögfræði ár- ið 1949. Ég las lögfraeðina utan skóla og kom þar aldrei nema í próf. Ég man að helstu kennarar voru Ólafur Lárusson og Theódór Líndal. Þeir voru ákaflega elskulegir og góðir við mig á allan hátt og það sama er að segja um þá skólafélaga mína sem ég kynntist. Þetta gekk allt eðlilega fyrir sig.“ Ég spurði Skúla hvort skólagangan hefði verið staðfesting á því fyrir honum sjálfum, að hann gæti stundað nám. Gæti leyst verkefni sem aðrir — þeir sem gengu heilir til skógar — gátu. „Já, ég var að staðfesta það fyrir sjálfum mér að ég gæti þetta, eins og aðrir. Þetta var bæði praktískt, en ekki síður sálrænt fyrir mig að gera þetta. Sömuleiðis vildi ég sýna umhverfi mínu að þetta væri hægt, enda vonast ég til að þetta hafi orðið öðrum, sem stríddu við svipaða erfið- leika og ég nokkur hvatning. Þetta hafði ekki verið gert áður hér á landi.“ Herbergi Skúla Jenssonar á Vífilsstöðum er hlaðið bókum. Hann sat í rafdrifnum hjólastól við skriftir þegar ég kom. Gömul belgvél frá IBM stóð á borði, hlöðnu bókum. f hillu yfir skrif- borðinu var sjónvarpstæki og gegnt dyrum opn- aðist útsýni um glugga yfir Vífilsstaðavatn. Sími hringdi og Skúli gaf línuna áfram. Hann starfar nefnilega á símanum þann tíma sem skiptiborðið niðri stendur ómannað. Á sumrum selur hann veiðileyfi í vatnið. Hann er umboðs- maður SÍBS á staðnum. Selur matarmiða og að- stoðar menn á spítalanum, ef þeir þurfa á lög- fræðilegri aðstoð að halda. Aðalstarf hans eru hins vegar þýðingar. „Ég fékk berkla árið 1956 og kom þá hingað til Vífilsstaða. Þá var ég beð- inn að taka hér símavörslu og hef verið við það síðan. Fékk aðstöðu til þýðinga og hef fengist við eitt og annað í sambandi við spítalann. Þegar ég kom hingað var ég búinn að gefa upp von um að ég myndi Iagast. Ég hélt að þetta myndi kannski lagast eitthvað, en vonin um bata var horfin. Ég gerði mér ekki von um að geta gengið framar." HLAUPANDI f DRAUMI — Huernig var þad þegar þú komst aö þeirri niöurstööu? Greip þig enginn söknuöur eftir þuí sem þú haföir misst af? - „Það kom ekki mikið fram með beinum hætti. Það kom fram í draumum mínum. Mig dreymdi þá oft og ansi mikið til baka — aftur í tímann. Ég var yfirleitt yngri og hlaupandi í draumi. Venju- lega kom þó eitthvað fyrir í draumnum. Það gerðist eitthvað, sem hindraði mig. Það var eins og ég kæmist ekki yfir hindrun. Það má kannski segja að mér hafi tekist í svefni að leysa eitthvað af þeim árekstrum sem komu upp í mér um það leyti að ég gerði mér grein fyrir að ég myndi aldrei hlaupa aftur. Ég man að ég velti þessu stundum fyrir mér þegar bræður mínir voru virkir í farfuglahópi. Ég gat ekki tekið þátt í þessu, en ég kynntist hópnum og heyrði þá tala um ferðirnar. Ég leysti þessa löngun með því að taka að mér að sjá um félagaskrá fyrir hópinn. Stundum fór ég með þeim á skemmtanir og kynntist þessum ferðum á minn hátt þar. Ég reyndi að finna einhvern snertiflöt á þeim málum sem ég hafði áhuga á út frá mínum forsendum." Fyrir þessi jól koma út sjö bækur, sem Skúli Jensson þýddi. Alls hefur hann þýtt yfir 200 bókatitla. Unglingabækur, spennusögur, ástar- sögur og glæpasögur, sem flestir hafa lesið, eða gluggað í. Höfundar eins og Victor Appleton, Margit Söderholm, Bodil Forsberg, Helen Wells, Francis Clifford, lan Flemming, Victoria Holt og Ib Henrik Cavling. Allt eru þetta höfundar sem Skúli hefur þýtt. Hann segir sjálfur, að hann „ís- lenski" bækurnar. Við spurðum hvernig staðið hafi á því að hann hóf störf sem þýðandi. „Þegar ég sótti Sundhöllina var þar sundkenn- ari Jónas Halldórsson og hann gaf út í félagi við kunningja sína blað sem ég man ekki hvað hét. Jónas hafði nefnilega aðstoðað mig við að kom- ast heim úr sundinu. Og hann bað mig að þýða fyrir sig greinar í þetta blað. í framhaldi af því kom Oliver Steinn að máli við mig og bað mig að þýða fyrir sig. Og ég byrjaði að þýða barna- og unglingasögur fyrir hann. Síðan bættist Hörpu-útgáfan á Akranesi við og Gunnar S. Þor- leifsson hjá Bókaútgáfunni Hildi. Ég hef þýtt fyr- ir þessa þrjá aðila öll árin síðan. Fyrsta þýðingin kom 1953 og nú eru þær orðnar rúmlega 200 talsins." SPENNUSÖGUR ÍSLENSKAÐAR í lítilli stílabók heldur Skúli skrá yfir allar bæk- urnar. Og titlana. Á frummálinu og hinn íslensk- aða titil. í skránni getur að líta nöfn eins og Tom Swift, sem unglingsdrengir og stúlkur lásu á sjötta áratugnum og biðu jafnan spennt eftir um hver jól. Sömuleiðis Leyndardómur flug- freyjunnar og Flugfreyjan og dularfulla húsið, eftir Helen Wells. Nöfn eins og Kjarnorkukafbát- urinn og Sækoptinn eru í skránni. Og ósjálfrátt framkalla þessi nöfn spennu og „mystík" kalda- stríðsáranna. Þarna var meira að segja Rann- sóknarstofan fljúgandi. Allur „sæens fiksjón litt- eratúr" kalda stríðsins á íslandi. Ég spurði Skúla um afstöðu hans til verka úr þessari hillu bók- menntanna — léttmetishillunni — ég spurði hvað honum fyndist um afþreyingarbókmenntir af þessu tagi. „Yfirleitt hef ég ekki viljað fara út í eiginlegar þýðingar á alvarlegri bókmenntum. Til þess þyrfti ég meiri ró og frið. Meiri yfirlegu. Það er mikill erill í kringum mig, sem myndi trufla mig við þess konar þýðingar. Þar sem þarf að hyggja að efnismeðferð og stíl verður að vanda til hlut- anna. Aðstæður mínar leyfa það ekki og því hef ég ekki farið útí það. Og ég á mér enga sérstaka drauma í sambandi við þýðingar. Eg hóf þær hálfpartinn í greiðaskyni og hélt því áfram vegna þess að þær hentuðu mér. Þessar bækur urðu mér ágætis uppfylling í til- verunni, en auðvitað eru þetta engin bók- menntaverk og það lítur enginn á þetta sem slíkt. Ég hafði hins vegar gaman af þessu lengi framan af — sumar urðu ágætis félagar, en þetta er hálf- gerð vella. Sumt af því. Efnistökin eru svipuð og efnið stundum líkt. Suma höfunda þekki ég orð- ið það vel að ég þýði þetta fyrirhafnarlaust beint á vélina." Skúli ákvað að dvelja áfram á Vífilsstöðum eft- ir að hann hafði náð sér að fullu eftir berklaveik- ina. Hann hafði í nógu að snúast. Skóp sér smám saman grundvöll í tilverunni. Bjó sér til heim innan veggja spítalans þar sem hæfileikar hans nýttust í samræmi við langanir hans og þrár. í samræmi við kringumstæður hans. Hann tók virkan þátt í líflegu félagslífi spítalans. Kom nálægt heimilisútvarpi staðarins og reyndi eftir fremsta megni að lifa eðlilegu lífi. Þá hefur hann lagt sig fram um að halda annars góðu bókasafni Vífilsstaða við. BJÓ MÉRTIL HEIM „Ég sætti mig við það, þegar ég kom hérna inn, að ég kæmist aldrei miklu lengra en hingað. Ég leit hins vegar ekki á það sem svo, að ég væri kominn á endastöð. Ég átti möguleika á því að komast í Hátún 12 og eins á Reykjalund, en ég sá ekki að neitt ynnist við það og því ákvað ég að vera kyrr hér. Hér hafði ég örugga vinnu og vinnuaðstöðu að öðru leyti. Ég er búinn að vera í þessu herbergi í tólf ár. Annars var ég á neðri hæðinni í nokkur ár, það- an sá ég hafið. Og hér bjó ég mér til heim. Ég er í sambandi við umheiminn í gegnum síma, sjónvarp, bækur og það fólk sem hingað kemur. Ég er búinn að vera hér svo lengi, að hingað koma margir, ef þá vantar upplýsingar. Ég er fullkomlega sáttur við þann heim sem ég hef búið mér til. Mér fannst oft, að ýmsir sem hingað komu gerðu of lítið í því að taka sér eitthvað fyrir hendur. Það er nöturlegt að horfa uppá unga og fríska menn ráfa um og gera ekki nokkurn skap- aðan hlut — nema að láta sér leiðast. Það eru alltaf einhverjir möguleikar í kringum menn og þeir verða að nýta sér þá. Menn verða að búa ánægjuna til sjálfir.” Við spurðum Skúla, sem hefur að sumu leyti staðið utan heimsins, hvernig honum þætti hinn heimurinn hafa þróast. „Mér finnst að við höfum hlaupið svolítið út- undan okkur sem þjóð. Á stríðsárunum flæddu peningar um allt þjóðfélagið og allir höfðu meira en nóg um tíma. Og eldri kynslóðin virtist mér tapa áttum. Hún vildi eins og knýja yngri kynslóðina til að gera það sem hún sjálf náði ekki að gera á sínum yngri árum. Kannski fyrst og fremst í sambandi við menntun. Stundum þykir mér eins og þessar kröfur hafi leitt til aftur- kasts hjá yngri kynslóðinni. Kröfurnar eru margfaldar miðað við það, sem menn lifðu sælir við áður. En þegar kröfurnar eru miklar, þá er alltaf hætta á því að menn verði alltaf óánægðir. Sumir virðist mér aldrei fá nóg. Mér finnst svolítið eins og mál hafi farið úr bönd- um. Þjóðin er ekki í takt við sjálfa sig finnst mér. Menn leita of mikið út fyrir sjálfa sig eftir ánægju. Fólk kann ekki að njóta þess að vera með sjálfu sér. Það verður alltaf eitthvað að vera að gerast, en kannski umfram allt, það verður alltaf að vera að gera eitthvað fyrir fólk. Ánægj- an er fyrst og fremst fóigin í því að gera hlutina sjálfur. Ekki alltaf að láta gera hlutina fyrir sig. Það má vissulega gera miklu meira fyrir fólk, sem svipað er ástatt fyrir og mér. Hjálpin, sem veitt er, er oft þannig að hún kemur ekki að réttu gagni. Völdin eru svolítið tekin af okkur og það er mikið um það að það er talað yfir höfuðið á þessu fólki. Það er t.d. alþekkt að stundum, þeg- ar læknar koma og líta til fólks, þá er það ekki spurt sjálft, heldur þriðji aðili. Það er talað yfir fólk og það sjálft ekki sett í samband við það sem spurt er um. Það er oft komið fram við fólk eins og það sé dauður hlutur, sem aðrir fylgjast með.“ ALBERT OG PARÍSARFERÐ Skúli Jensson hefur orðið fyrir því að um- hverfið meðhöndlaði hann eins og hann væri fyrir. Að hann væri til óþæginda. Hann hefur ekki látið slíkt hafa áhrif á sig heldur skapað sér aðstæður á eigin forsendum. Þótt óliklegt sé hef- ur Skúli t.a.m. farið til útlanda. Árið 1951. Við spurðum hann um aðdraganda þess. „Það má þakka Albert Guðmundssyni Parísar- ferð mína. Þannig var, að Albert vann um tíma sem sundhallarvörður og þar kynntist ég hon- um þegar ég stundaði Sundhöllina. Þetta var á árunum fyrir 1950. Þegar hann kom í heimsókn úr atvinnuknattspyrnunni, þá kom hann við í lauginni á morgnana til að hitta mig. Svo var það eitt sinn, 1951, að hann sagði við mig, að ég þyrfti endilega að koma til sín áður en hann færi frá París, en það stóð þá til. Þá var hann hjá Rac- ing Club í París. Hann herti mig uppí að fara og bauðst til að sækja mig til London og skila mér þangað aftur. Og petta gerði hann. Við hittumst í London og flugum til Parísar í þrumuveðri og eldingum. Mér þótti mjög gaman að því. Ég minnist þess enn að hafa séð neista- flugið standa aftur af vélinni. Mig minnir að Al- bert hafi liðið hálf illa. Albert fékk frí frá æfingum í heila viku og fór með mig um allt. Og ég var afskaplega þakklát- ur fyrir það sem hann gerði fyrir mig. Ég man sérstaklega eftir því hve vinsæll hann var í Cha- ville — smábæ utan Parísar — þar sem hann bjó. Hjá liðinu hitti ég félaga hans. Skoðaði æfinga- svæði félagsins og borðaði þar með honum og það var greinilegt á öllu að hann var mikils virtur hjá liðinu, enda lék hann sér með drengj- um úr þorpinu í fótbolta. Albert stóðu allar dyr opnar. Þetta er eina utanlandsferðin sem ég hef farið. Og aldrei haft neinn sérstakan áhuga á þessum Suðurlandaferðum." Skúli Jensson var með þýðingu á borðinu hjá sér þegar ég kom. Hann var hálfnaður með næstu bók. Sagðist reyna að halda vel á spöðun- um og eiga alltaf nokkrar bækur á lager. Þegar ég spurði hann hvort hann aetti sér draum, þá leit hann út um gluggann. Út á ísi lagt Vífils- staðavatn. Hann hugsaði sig um — og sagði nei. Ég ítrekaði spurninguna. Eftir stutta umhugsun sagði Skúli: „Mér hefur alltaf þótt ánægjulegt að hafa útsýni útá hafið. Ég ólst upp í Bolungarvík. Og sakna þess stundum að sjá ekki hafið."

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.