Helgarpósturinn - 12.05.1988, Blaðsíða 26

Helgarpósturinn - 12.05.1988, Blaðsíða 26
nokkuð pottþétt uppskrift. Og það er gaman. Að segja annað væri lygi- mál. Hins vegar. Það er ekkert ofsalega gaman. Astæðurnar eru þessar: I fyrsta lagi. Leikritið er alltof langt. Þrír og hálfur tími er meira en ríflegt til að koma þessari sögu á framfæri, svo og tónlistinni. Hefði verið vel til fundið að skera niður. Mikið. Ef það er hægt að skera niður Hamlet úr fimm tímum í þrjá með góðum árangri þá er hægt að skera niður Fiðl- arann án þess að vinna á honum helgispjöll. í öðru lagi. Þetta er söngleikur. I söngleik þarf góða söngvara. Góður leikari getur að vísu sungið þó hann geti alls ekki sungið og Theódór Júlíusson (Tevje) sýnir það og sannar. Hins vegar; geti vondur leikari ekki sungið þá getur hann ekki sungið. Það verður hallærislegt. Ég er sennilegast ósanngjarn. Og af hverju? Sýning sem er sett á svið sem afþreying, — á nokkuð að gera til hennar aðrar kröfur en þær að hún standist sem slík? Kannski ekki. Og vissulega stenst þessi sýning þær kröfur. Á hinn bóginn finnst mér leiðinlegt að sjá, sýningu eftir sýningu fyrir norðan, að LA stendur ekki til boða að nýta þá fjölmörgu góöu atvinnulausu leikara sem mæla göturnar í höfuðborginni. Þetta er leikarafélaginu, leiklistar- yfirvöldum, bara einhverjum yfir- völdum einhvers staðar, til skamm- ar. Leiklist er stunduð víðar en í höfuðborginni og það verður að vera hægt að gera það. Til þess þarf leikara, góða leikara. Það virðist hins vegar eins og það eigi að senda menn í menningarlega útlegð ef þeir eru beðnir að fara norður og leika í einni sýningu í nokkra mán- uði. Og að auki má benda á að um- talsverður fjöldi leikara í Þjóðleik- húsinu er verkefnalaus hálfu og heilu veturna. Á fullum launum og hvað er sjálfsagðara en nýta sér slíkt fólk. LA hefur, a.m.k. í vetur, þurft að notast við fólk sem hefur jú sennilegast áhuga á að leika en það þarf meira til en bara áhugann, þó hann sé alls góðs maklegur í sjálfu sér. Fiðlarinn er þar engin undan- tekning á. Ef frá er skilinn hinn fasti og reyndi kjarni LA (Theódór, Sunna, Þráinn, Skúli Gautason) byggist hópurinn á nýútskrifuðum, áhugafólki og svo lærðu fólki sem sést á sviði með löngu millibili eða þá alls ekki. Það sér hver sem vill sjá að slíkt gengur ekki í atvinnuleik- húsi. Það er ekki nóg að kalla í Stef- án Baldursson, þó hann sé snjall. Fiðlarinn á þakinu er mannmörg sýning. Mér telst til að á stundum séu u.þ.b. þrjátíu manns á sviðinu í einu. Þennan manngrúa ber við leik- mynd (málverk) Sigurjóns Jóhanns- sonar sem er máluð í anda Chagalls, kúbísk flatarmálsaugu innan um mörg af helstu myndefnum meistar- ans og áferðin allt frá því að minna á grófar útlínur nýja málverksins yfir í naívisma. Það er mikið vafa- mál hvort leiksviðið í gamla sam- komuhúsinu tekur þennan mann- fjölda og það þarf svo sannarlega að hafa fyrir að koma öllum þannig fyr- ir að það virki. Og það gerir það því miður ekki alltaf. Stundum er það ekki annað en klúðurslegt. Og þá bætir leikmyndin ekki úr skák. Hún þrengir sjónrænt að sviðinu, þjapp- ar því saman frekar en að gefa til- finningu fyrir víddum og rými. Þessi litríka leikmynd, sem er uppfull af fyrirbærum, næstum óteljandi smá- myndum, á ef til vill í takt við mann- fjöldann á sviðinu að gefa tilfinn- ingu fyrir þrengslum og nærgengni. Samfélag gyðinganna er ótrúlega nærgöngult, allir vita allt um alla, skipta sér af öllum, ef einhver eign- ast barn koma allir og óska til ham- ingju. Ef einhver verður fyrir ógæfu vita það allir (en sýna þó ekki endi- lega samúð frekar en við íslending- ar). En hvað um það, þá finnst mér þarna of langt gengið í að þjappa saman í rými og víddum. Sýningin verður oft fyrir vikið göslaraleg og rennur ekki nógu vel, leikararnir hoppa, syngja og dansa en maður hefur á tilfinningunni að þeir megi hafa sig alla við til að stíga ekki á tærnar á næsta manni. Þetta á við um þau hópatriði sem fjölmennust eru, hins vegar er strax mikill mun- ur þegar leikurum fækkar aðeins, 26 HELGARPÓSTURINN þá gengur allt mjög vel og er oft skemmtilega útfært. Leikurinn er eins og við var að bú- ast. Theódór er fantagóður Tevje, Þráinn og Sunna fara vel með sitt. Margrét Pétursdóttir hefur Ijómandi fallega rödd og flestir áhugaleikar- arnir standa fyrir sínu. Þetta er góð skemmtan en það sem mér finnst mjög miður er að hún hefði svo auð- veldlega (miðað við það sem ég hef áður sagt) getað verið betri. Eins og Tevje veit svo gjörla þá er dýrt að vera fátækur. Og því syngur hann, eins og LA sjálfsagt líka: Ef ég væri ríkur... Kristján Kristjánsson TÓNLIST Seinni vortónleikar 1988 Ég skellti mér á nemendatónleika Tónmenntaskóla Reykjavíkur á laugardaginn var, í Gamla bíói. Skól- inn hét áður Barnamúsíkskólinn, og var í daglegu tali kallaður Barna- mús. Svo var nafninu breytt af ein- hverjum ástæðum. Ég kann alltaf betur viö gamla nafnið. Þetta er líka gamall skóli. Þar hóf ég tónlistar- nám, 10 ára gamall, hjá doktor Edel- stein, föður Stefáns sem nú er skóla- stjóri. Skólinn hefuralltaf verið fremstur meðal jafningja í þeirri miklu, vandasömu og fögru list, að kenna börnum músík. Þar á bæ hafa menn fylgst vel með nýjungum úti í heimi. Þar var, og er kannski enn, iðkað Orff-kerfi sem ég hafði alltaf hálf- gerða skömm á — kannski vegna áhrifa frá Adorno. Hann lét Orff gamla aldeilis fá það óþvegið. Og svo kom ungverska aðferðin, kennd við öðlinginn Kodály, og það líkaði mér miklu betur. Nú eru án efa merkilegar nýjungar í gangi, sem ég kann ekki skil á. En ég veit að kenn- arar skólans hafa verið opnir, sveigj- anlegir — og að þar hefur aldrei gætt stöðnunar. Þetta þakka ég Stefáni skólastjóra, en hann og Wolfgang bróðir hans eru miklir skólamenn. Ég held að gott og samvalið kenn- aralið hafi starfað við skólann, enda er hann einkar vinsæll: aðsókn hef- ur löngum verið meiri en unnt var að anna. Vortónleikar tónlistarskólanna hér á Reykjavíkursvæðinu skipta tugum og nálgast sennilega hundr- aðið. Annars staðar á landinu er sennilega hið sama að gerast. Það er mikil gróska í tónlistinni og ekki verður annað sagt en æðri eða al- varleg tónlist dafni vel um þessar mundir. Þó hefur þessi tónlistariðk- un ekki fengið mikla blaðaumfjöll- un. Miklu minni en bílskúrsbönd poppsins. Raunar fjalla blöð lítið um músík (ég tel ekki síbyljujukkið með, því poppskrifin eru auglýsingar fyr- ir framleiðendur og innflytjendur) að undanskildu Morgunblaðinu. Þar hefur Sigrún Davíðsdóttir ritað um músík af vandvirkni, kostgæfni og þekkingu. En þetta voru miklir tónleikar með einleik og allskonar samleik, á flestallar tegundir hljóðfæra. Og efnisskráin fjölbreytt eftir því; allt frá Bach til Prókófíeff. Og svo var meira að segja glænýtt verk eftir Atla Ing- ólfsson, tónskáldið okkar unga, sem hét Þrjár andrár, fyrir flautu og píanó. Þetta er undrafögur smásmíð sem var prýðilega flutt. Ég óska öllum sem þátt tóku í þessum tónleikum til hamingju. Hinir fyrri hafa áreiðanlega ekki verið síðri. Og ég þakka fyrir mig. Atli Heimir Sveinsson Yggdrasil á leiö til Islands Færeyski Jótinn Kristian Blak er mikill kraftaverkamaður. Þann tíma er hann hefur búið í Þórshöfn hefur hann lyft djasslífi eyjaskeggja í æðra veldi. En hann heggur víðar strand- högg. Hljómsveit hans Yggdrasil er skipuð danska saxófónleikaranum John Tchicai, sem er af kongóskum ættum. Hann var í fararbroddi djass- ins upp úr 1960 er hann lék með Archie Shepp, Don Cherry og John Coltrane. Hann kom hingað með Blak 1982 og hélt fræga dúótónleika með Áskeli Mássyni í Djúpinu. Þrír eru sænskir: flautu- og saxófónleik- arinn Andreas Hagberg, gítaristinn Lelle Kullgren, er lék hér með Sala- möndrunum 1983, og trommarinn Christian Jormin er bróðir bassa- leikarans Andreasar sem nú leikur með Gary Burton. Hann sló áður bassann í Yggdrasil. Er hann hvarf vestur um haf tók Japaninn Yasu- hito Mori sæti hans, en sá býr í Gautaborg. Þessi fjölskrúðuga hljómsveit er nú að halda í tónleikaför um Norð- urlönd og hittast þeir félagar í Reykjavík og halda ferna tónleika hérlendis. Þeir fyrstu verða á Hótel Selfossi á föstudagskvöld. I Nor- ræna húsinu leika þeir á laugardag kl. 16 og flytja m.a. nýtt verk eftir Kristian Blak: Bröitingar. Á sunnu- dag kl. 15 leikur hljómsveitin í Al- þýðuhúsinu á Akureyri í boði Jazz- klúbbs Akureyrar og um kvöldið ljúka þeir íslandsferðinni í Heita pottinum í Duus-húsi. Þar mun John Tchicai ráða ferðinni að nokkru og verður sveiflan þá heit og myrk ef að likum lætur. Kristian Blak hefur sent frá sér átta breiðskífur og er sú síðasta ný- komin út: Antifonale, og leika þar m.a. með honum Pierre Dörge og Marlyn Mazur. Hún fæst ekki hér- lendis en aðrar skífur hans má fá hjá Istóni. Þær eru allar frumsamdar ut- an Kingolög (HJF 16) þar sem hann byggir á þjóðlegri arfleifð. Fyrsta skífa Yggdrasils nefndist Heygar og dreygar (Tuti HJF 15) en áður höfðu þrjár djasssvítur Kristi- ans Blak verið útgefnar: Snjóuglan 1979 (HJF 7), Den yderste 0 Í981 (HJF 12) og Ravnating 1982 (KJF 1982). John Tchicai blés á tveimur þeim síðarnefndu og flutti Den yd- erste 0 ásamt Kristian og félögum í Norræna húsinu 1982. Heygar og dreygar er samin kringum færeyska þjóðtrú og má heyra sjávarnið og öldugjálfur undir tónlistinni á stund- um. Svítan er skrifuð í kirjutónteg- undunum. Kristian, Tchicai og Kull- gren leikar þar ásamt færeyska flautuleikaranum Ernst Dalsgarð, Andreas Jormin bassaleikara og Karin Korpelainen trommara. Svít- an upphefst á blúsuðum sjódraug og fer Tchicai á kostum í tenórsólói sínu þar, Jormin ræður ríkjum í ljúfu dvergamáli, ómstrítt bassaklarinett Tchicai leggur marmeynni orð í munn en ljúf og lagræn flauta Dals- garðs á þar síðasta orðið. Þá tekur við frásagnartónlist en lokaþáttur- inn er skrifaður í þeim ljóðræna inn- sæisstíl sem Kristjáni er svo eigin- legur og fá Kullgren og Tchicai að njóta sín í löngum, innblásnum sóló- um. Concerto Grotto (HJF 18) er tekin upp í helli á Sandey árið 1984. Hér hefur Andreas Hagberg leyst Ernst Dalsgarð af hólmi. Tónlistin hefst á barrokksku en brátt er Lelle kominn með rafgítarinn og bláu tilfinning- una. Jormin fer á kostum og Tchicai leikur einn kaflann einn og minnir okkur á þá tíma er hann var í farar- broddi frjálsdjassins í Bandaríkjun- um í slagtogi við Archie Shepp og John Coltrane. Undir allri tónlistinni dunar sjávarniðurinn gegnum gjótu hellisins. Dálítið tilbreytingarlaust til lengdar en bregður oft þokka á tónlistina, sem er heldur lausari í reipunum en sú er heyra má á Heyg- um og dreygúm. De tre tárner (KJF 19) er skrifuð fyrir Islenska dansflokkinn. Var skíf- an hljóðrituð í júní 1985. Verkið er innblásið af Ijóði Williams Heine- sen: Barnetegning. Þar segir frá turnunum í vestri, austri, suðri og norðri: Tárnet i nord hedder Rok. / Det stár pá fjeldet Rokkebok. / Det har en glug og en hejseblok. / Og det er nok. Tónlistin er margþætt, spannar allt frá ljóðrænum smálögum til hermihljóða. Tchicai fer hamförum á tenórinn að vanda og þá er bara að bíða þess að fá að heyra hann hér að nýju. Hljómplötur þessar allar má fá hjá Istóni. Vernharður Linnet Pere Ubu — The Tenement Year ★★★★★ Hljómsveitin Pere Ubu var stofn- uð í septembermánuði árið 1975 í borginni Cleveland í Ohio. Það var þó ekki fyrr en nýbylgjan hélt inn- reið sína árið 1978 að farið var að taka eftir þessari sérstæðu en stór- merkilegu hljómsveit. Þeir sendu þá frá sér plötuna Modern Times, sem enn í dag þykir með merkari plötum sem út komu á þessum tíma. Á eftir henni fylgdu ágætisplötur, svo sem Dub Housing, New Picnic Time og 360 Degrees of Simulated Stereo. Árið 1982 hætti Pere Ubu störfum og söngvarinn, David Thomas, sneri sér að sólóferli og m.a. hefur hann tvívegis komið hingað til lands til hljómleikahalds. Nú hefur Pere Ubu verið endur- reist og frá þeim er komin platan The Tenement Year. Það er skemmst frá því að segja að þessi plata er ein sú albesta sem komið hefur út á þessu ári og þó aftar væri leitað í tímabilinu. Þeir eru nú að fást við aðgengilegri tónlist en áður, sem þýðir þó ekki að hún sé minna spennandi eða verri. Undirleikur er allur vandaður og góður. Gitar er áberandi og grípandi og bassa- og trommuleikur er stórgóður. Þetta er síðan kryddað með hljóðeffektum úr synthesizer Allens Ravenstine, en leikur hans ásamt sérstæðum söng Davids Thomas er það sem minnir helst á gömlu Pere Ubu. Tón- listaráhrif eru úr ýmsum áttum, svo sem nýju og gömlu rokki, popptón- list og síðast en ekki síst má víða finna áhrif frá breskri þjóðlagatón- list. Ef þið eruð að leita að sérstæðri tónlist, þá er The Tenement Year svarið. Tónlistin er þó ekki þung, ekki létt. Hún er ef til vill óaðgengi- leg fyrir suma, en samt er hún að- gengileg. Þetta er einfaldlega Pere Ubu eins og þeir gerast bestir. The Clash — The Story of the Clash, Volume 1 ★★★★★ Ég held að það blandist fáum unn- endum rokktónlistar hugur um að hljómsveitin The Clash hafi verið einhver besta rokkhljómsveit sem starfað hefur. Því miður urðu óregla og illdeilur innan hljómsveitarinnar þess valdandi að trommuleikarinn Topper Headon og gítarleikarinn Mick Jones voru flæmdir úr sveit- inni og eftir það bar hún ekki sitt barr. Tveggja platna albúmið The Story of the Clash Volume 1 segir tónlist- arsögu þessarar merkilegu hljóm- sveitar á trúverðugan hátt. Hér má finna lög af öllum breiðskífum nema þeirri síðustu, Cut the Crap, sem gerð var eftir að Jones og Fleadon voru á bak og burt. Flest lögin eru af fyrstu plötunni sem kom út árið 1977 svo og af London Calling, sem leit dagsins ljós tveimur árum síðar. Aðeins tvö lög eru hins vegar af þriggja platna albúminu Sandinista, sem er nokkuð í samræmi við þann hróður sem af þeim plötum fer í dag. Nefnilega að plöturnar í þessu

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.