Morgunblaðið - 18.06.2010, Blaðsíða 4

Morgunblaðið - 18.06.2010, Blaðsíða 4
4 FréttirINNLENT MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 18. JÚNÍ 2010 Baldur Arnarson baldura@mbl.is „Við erum að vinna í málinu. Þetta verður væntanlega unnið eins hratt og vel og hægt er,“ segir Halldór Jörgensson, forstjóri Lýsingar, spurður um viðbrögð sín við úrskurði Hæstaréttar um gengislán. – Áttu von á að þetta muni koma fyrirtækinu illa? „Að sjálfsögðu.“ – Telurðu að þið munið standa af ykkur þá hríð? „Kröfuhafar okkar þurfa að segja til um það hvað þeir vilja gera.“ – Telurðu að svigrúmið til afskrifta sé það mikið að þið ráðið við þetta? „Já, ég tel það. Ég tel að það sé leið út úr þessu en það er annarra að taka þá ákvörðun.“ – Kom þetta ykkur á óvart? „Já, þetta kom mér á óvart. Það verður að segjast alveg eins og er. Mjög svo.“ – Þannig að þú áttir von á að Hæstiréttur færi í hina áttina? „Já.“ Endanlegt dómsvald – Telurðu að þessu verði áfrýjað einhvers staðar? „Hæstiréttur er endanlegt dóms- vald í mínum huga. Ég sé ekki önnur úrræði.“ – Þannig að þið búið ykkur undir að þetta sé hinn nýi veruleiki? „Að sjálfsögðu. Þetta eru tímamót fyrir okkur og alla á Íslandi. Ég held að fólk sé ekki búið að gera sér grein fyrir því hvaða afleiðingar þetta get- ur haft til lengri tíma litið. Ég held að öll áhrifin séu ekki komin í ljós.“ – Hvað áttu við? „Ég held að áhrifin verði víðtæk- ari.“ – Þá til neysluaukningar? „Nei. Aðrir verða að reikna það út. Ég held að orðspor okkar Íslendinga hafi beðið hnekki.“ Ekki gott afspurnar – Hvernig þá? „Það að það skuli hafa verið dæmd ólögleg lán og samningar sem hafa viðgengist í liggur við að segja 10 ár, tugþúsundir samninga. Það er ekki gott afspurnar. Ég held að þetta séu áhrif sem koma kannski ekki strax í ljós,“ segir Halldór. Magnús Gunnarsson, fram- kvæmdastjóri Avant, fagnar því að niðurstaða skuli loks liggja fyrir í málinu. „Það sem er fagnaðarefni er að þessari réttaróvissu er aflétt. Það er það sem skiptir mestu máli. Svo verð- um við að reyna að lesa rétt í dóminn og átta okkur á hvaða afleiðingar hann hefur og hvernig við leysum úr okkar málum. Mér sýnist hann vera nokkuð skýr, dómurinn í sjálfu sér.“ – Telurðu að þið getið staðið af ykkur afskriftir? „Já. Við stefnum á það. Eins og staðan er í augnablikinu er auðvitað sama hvaða fyrirtæki á í hlut. Þetta heggur svo að fyrirtækjunum að þau þurfa að gera ákveðnar ráðstafanir ef þau eiga hreinlega að lifa af.“ – Ertu þá að tala um uppsagnir? „Nei, miklu frekar hvernig eigend- ur og kröfuhafar þessara fyrirtækja koma að málum, miklu frekar það. Og hvernig eigendurnir eru í stakk búnir til að mæta þessum áföllum, því þetta er auðvitað gríðarlegt áfall hjá hverju fyrirtæki fyrir sig sem skiptir tugum milljarða.“ Ráða við afskriftir – Er svigrúm til afskrifta? „Já. Auðvitað leitast fyrirtækin við að afskrifa í takt við aðstæður í þjóð- félaginu hverju sinni en þarna er ekki um eðlilega afskrift að ræða heldur skiptir þetta gríðarlega miklu máli. Þetta er högg, mikið högg.“ – Er rekstrargrundvöllurinn sem skapast við þessar afskriftir góður? „Eigum við ekki að segja að það virðist ekki vera nokkuð gott í þessu þjóðfélagi í dag. Atvinnuleysið er mikið og lítið að gerast á hinum al- menna vinnumarkaði,“ segir Magnús Gunnarsson. „Orðspor Íslendinga beðið hnekki“ Bílalán Margir hafa misst bíla vegna hækkunar gengistryggðra lána. FRÉTTASKÝRING Skúli Á. Sigurðsson skulias@mbl.is Samkvæmt dómi Hæstaréttar í mál- um um gengistryggð bílalán sem féll á miðvikudag er öll gengistrygging lánsfjár í íslenskum krónum ólög- mæt. Er þetta samdóma álit sér- fróðra lögfræðinga en í dóminum seg- ir orðrétt: „Lög nr. 38/2001 [um vexti og verðtryggingu] heimila ekki að lán í íslenskum krónum séu verðtryggð með því að binda þau við gengi er- lendra gjaldmiðla.“ Eru því ákvæði allra gerðra lána- samninga um lán í íslenskum krónum sem kveða á um gengistryggingu ólögleg og ekki skuldbindandi fyrir samningsaðila. Engu máli skiptir að ekki hafi verið dæmt um samningana; samkvæmt meginreglum samninga- réttar eru ólögmæt samningsákvæði almennt ekki bindandi. Þrátt fyrir að niðurstaða Hæsta- réttar sé að þessu leyti skýr eru enn eftir ýmsir lausir endar. Eins og mál standa eru þeir sem tóku gengis- tryggð lán nú með lán sem ekki eru verðtryggð á nokkurn hátt og bera jafnvel mun lægri vexti en almennt tíðkast. Er hæpið að lánþegar hefðu á sínum tíma fengið lán á slíkum kosta- kjörum. Ekki er fjarri lagi að álykta að lánasamningarnir hefðu með rétt- um forsendum frá upphafi kveðið á um lögmæta verðtryggingu, tengingu við vísitölu neysluverðs, og eftir at- vikum hærri vexti. Neysluverðsvísitala í staðinn? Eyvindur G. Gunnarsson, lektor við lagadeild Háskóla Íslands, hefur hreyft því að komið gæti til lagfær- inga á samningsákvæðum í þá veru að gengistryggingu yrði skipt út fyrir lögmæta verðtryggingu og vaxta- ákvæðum eftir atvikum breytt. Þetta telur hann helst koma til greina í lánasamningum til lengri tíma. Óljóst er hvernig leiðréttingu af þessu tagi yrði komið við en líklegast yrði hún að koma til með lögum eða samkvæmt dómi. Ekki er líklegt að lánveitendum yrði talið heimilt að leggja einhliða til grundvallar lög- heimila verðtryggingu þar sem um það var ekki samið í upphafi. Hallar á lánardrottna Þar sem ekki var gerð varakrafa í málinu, sem dæmt var í fyrradag, um einhvers konar leiðréttingu samn- ingsákvæðanna gat Hæstiréttur af réttarfarsástæðum ekki tekið afstöðu til þess hvort miða ætti við lögmæta verðtryggingu frekar en algera nið- urfellingu tryggingarinnar. Hefði varakrafa um leiðréttingu verið gerð og hefði Hæstiréttur orðið við henni hefði hún getað dregið úr skellinum sem lánafyrirtækin standa nú frammi fyrir. Um síðustu áramót námu gengisbundin lán heimila, fyr- irtækja og annarra 885 milljörðum króna og eru því háar fjárhæðir und- ir. Raunin varð að ákvæðin voru dæmd óskuldbindandi og njóta þeir sem tóku gengistryggð lán á sínum tíma nú að því er virðist betri kjara en líklegt er að þeir hefðu nokkurn tíma fengið. Lánveitendur bera því nokkuð skarðan hlut frá borði miðað við upp- haflegar forsendur þeirra. Til greina kemur fyrir lánafyrir- tæki að freista þess að rétta hlut sinn með því að sækja mál á grundvelli 36. greinar samningalaga en hún heim- ilar að samningi sé breytt í heild eða hluta ef hann yrði óbreyttur talinn ósanngjarn eða and- stæður góðri viðskiptavenju. Því ákvæði hefur verið beitt mjög varlega í framkvæmd og þá aðallega til hagsbóta fyrir neytendur. Er því alls óvíst að það komi lánveit- endum að nokkru haldi en komi til álita að beita grein- inni hlýtur mat á því hvort samningurinn telst, án allrar verð- tryggingar, ósanngjarn í garð lánveit- enda að ráða niðurstöðunni. Endurgreiðsla kemur til álita Fyrir liggur að með því að greiða afborganir af lánum sem reiknaðar voru á grundvelli hinnar ólögmætu gengistryggingar hafa lántakar, að minnsta kosti einhverjir, greitt lán- veitendum sínum of mikið fé. Vaknar því sú spurning hvort þeir geti með einhverjum hætti endurheimt það sem ofgreitt var. Endurkrafa vegna óréttmætrar auðgunar kemur til álita hvað þetta varðar en slík krafa stofnast þegar maður eða lögaðili augðast með ólög- mætum hætti á kostnað annars. Gætu lánþegar þá gert kröfu um uppgjör miðað við breyttar forsendur, farið fram á eins konar afturvirka leiðrétt- ingu afborgana sinna. Með þessum hætti gætu lánþegar mögulega fengið það fé sem ofgreitt var til baka með vöxtum samkvæmt almennum reglum. Þetta getur þó verið háð því að gerður hafi verið fyrirvari við greiðslur þegar þær voru inntar af hendi. Hafa dómstólar gjarna talið að greiði menn fyrirvaralaust án þess að þeim beri til þess skylda firri þeir sig rétti til endurgreiðslu. Er þannig ekki sjálfgefið að lánþegar endurheimti of- greiddar afborganir. Lausir endar þrátt fyrir dóm  Lánþegarnir gætu eignast endurkröfu á hendur lánardrottnum sínum vegna ofgreiddra afborgana  Varakrafa fyrir dómi hefði getað dregið úr skellinum  Enn óljóst hvort og hvernig verður leiðrétt Í Hæstarétti Þrátt fyrir að Hæstaréttardómur hafi fallið um lögmæti gengistryggingu lána í íslenskum krónum eru ekki öll kurl komin til grafar ennþá. Morgunblaðið/Eyþór Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra segir að dómar Hæstaréttar muni frekar hafa já- kvæð áhrif á efnahagslífið í heild en neikvæð. Létt sé byrði fólks sem sligað var af háum afborg- unum gengistryggðra lána. Það komi sér ekki aðeins vel fyrir fólk- ið sjálft heldur hagkerfið í heild og verði til þess að örva efnahags- lífið. „Þetta er fyrst og fremst áfall fyrir þá sem eru hluthafar í bönk- unum,“ segir Gylfi um þýðingu niðurstöðu Hæstaréttar fyrir stóru bankana. Reiknar hann ekki með að dómurinn muni hafa áhrif á viðskiptavini bankanna eða þau kjör sem bankarnir bjóða nú. Gylfi segir að niðurstaðan komi sér vissulega illa fyrir bankana en áfallið sé innan þolmarka. Hann segir það ekki rétt sem fram hefur komið að dómurinn geti haft þær afleiðingar að allt að 2/3 af eigin fé bankanna muni hreinlega þurrk- ast út. „Þeirra eigin fjárstaða verður eftir sem áður góð þó hún verði eitthvað lakari en ef dómurinn hefði gengið á hinn veginn,“ segir Gylfi en vill ekkert fullyrða um hvernig smærri fyrirtækjum sem sérhæfðu sig í að veita geng- istryggð lán og eiga jafnvel allt sitt undir slíkum muni reiða af. Reglulegur ríkisstjórnarfundur verður haldinn í dag og gerir Gylfi fastlega ráð fyrir að málið og áhrif þess verði rædd þar. Í dag fer einnig fram sameiginlegur fundur efnahags- og skattanefndar og við- skiptanefndar þar sem aðal-dagskrárefnið er nið- urstaða dómsins. Á mið- vikudag sat Gylfi fund efnahags- og skattanefndar um málið. Segir hann að við- brögð stjórn- valda verði sennilega ákveðin á allra næstu dögum. Áfall fyrir hluthafa bankanna SEGIR AÐ BANKARNIR MUNI STANDA AF SÉR STORMINN Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.