Morgunblaðið - 10.05.1979, Blaðsíða 18

Morgunblaðið - 10.05.1979, Blaðsíða 18
18 MORGUNBLAÐIÐ, FIMMTUDAGUR 10. MAI 1979 Minning: Kristján Jónsson kaupmaður Fæddur 20. september 1911 Dáinn 1. maí 1979 Kristján Jónsson í Kiddabúð var hlédrægur maður og æðrulaus. Engum reyndist kleift að skyggn- ast undir yfirborð margslungins hugans, nema allra nánustu vin- um hans, en hann var lika sannur vinur þeirra, staðfastur og tröll- tryggur, einkum ef þeir áttu við erfiðleika að etja. Einbeitni hans og hreinskilni voru fágætlega samtvinnuð lífsbaráttu hans og veraldarstríði, þrotlausri baráttu gegn ólæknandi sjúkdómum. Kristján var hraustur og lífs- þyrstur unglingur, sem stöðugt þráði að teyga af lindum náttúr- unnar, ganga á fjöll og busla í jökulvötnum, hlaupa, dansa og ólmast, hlusta á tónlist og tilbiðja Guð og listir. En hann hafði tæplega slitið barnsskónum er skriðan hljóp í veg fyrir þetta glaðlynda veraldarbarn og engin ráð voru til að stöðva. Þegar við síðast gengum saman á Snæfellsjökul fyrir 40 árum, var vor í lofti eins og núna, en svo var hitinn þá brennandi að ennþá má sjá örin á andlitum okkar ef grannt er skoðað. Man enn hve létt við hlupum upp og ofan brekkurnar, en stirðleikinn í liðunum kann að eiga eftir að lagast er við flytjum í sumarbústaðina og röbbum saman um sameiginlegan ástvin okkar, Ljósvíkinginn hans Halldórs. Þá þurfti nú ekki vélsleða til að komast leiðar sinnar. Ragnar Jónsson. Fregn af andláti góðs vinar fylgir ávallt þungur hljómur, jafn- vel þótt hún hafi ekki komið á óvart. Nú þegar Kristján Jónsson er genginn, loðir slíkur hljómur í hlustum mér og sameinast með einhverjum hætti miklum vor- kulda. Ég lít um öxl og verð sannast sagna undrandi, þegar það rennur upp fyrir mér, að senn eru fjörutíu og þrjú ár liðin síðan kynni okkar hófust. Ég kom hing- að til Reykjavíkur að áliðnu sumri 1936, hugðist semja hér skáldsögu, svo sem títt var um ýmsa sveita- pilta á þeim árum, og fór að spyrjast fyrir um herbergi. Þá bárust mér þau skilaboð frá Kristjáni Jónssyni, sem ég þekkti naumast í sjón og hafði aldrei rætt við, að hann byði mér að vera um tíma mér að kostnaðarlausu í herbergi einu í íbúð sinni að Eiríksgötu 25, þar sem hann bjó ásamt Herdísi Kristjánsdóttur móður sinni, Bjargmundi Sveins- syni stjúpföður sínum og þremur systkinum. Þegar ég ætlaði að fara að taka á mig náðir fyrsta kvóldið í þessu ágæta herbergi, birtist Kristján í dyrunum, hávax- inn maður, hraustlegur og vask- legur, bjartur yfirlitum og svip- hreinn. Ertu ekki til í að hlusta með mér á plötu? spurði hann blátt áfram og bauð mér inn í stofu sína, þar sem hann átti fyrirtaks grammófón á þeirrar tíðar kvarða og allmargar hljóm- plötur með sígildri tónlist. Síðan bar það oft við meðan ég bjó hjá honum og fólki hans, að við hlustuðum saman á tónverk, sem urðu mér eins og opinberun feg- urðar og unaðssemda. Mér vannst líka vel á Eiríksgötu 25. í nóvem- ber lauk ég við einhverskonar skáldsögu og las þvínæst af henni prófarkir, en á jólaföstu kvaddi ég velgerðarmann minn og sigldi til Kaupmannahafnar. Mig fór þó brátt að gruna, að sakir reynslu- leysis og margháttaðrar fávizku hefði mér ekki auðnazt að semja góða bók. Um hitt þurfti ég ekki að efast, að ég hafði kynnzt góðu og ógleymanlegu fólki. Kristján Jónsson hafði yndi af útivist í tómstundum sínum, og á árunum fyrir síðari heimsstyrjöld mun hann hafa iðkað nokkuð íþróttir, til að mynda skíðaferðir og fjallgöngur. En snemma á styrjaldarárunum hafði ég veður af því, að þessi knálegi atgervis- maður gengi ekki lengur heill til skógar. Hann var sjálfur óvílsam- ur, gerði lítið úr lasleika sínum og kvaðst mundu hrista hann af sér. Um svipað leyti stofnaði hann heimili, og hygg ég að allir geti undir það tekið, sem kynnzt hafa konu hans, Sigríði Helgadóttur, að um mannkosti eigi hún fáa jafn- ingja. Þau hjónin eignuðust dótt- ur, mikið efnisbarn, sem hlaut nafn Herdísar ömmu sinnar og varð eins og geta má nærri eftir- læti foreldra sinna. Enn skugginn hélt áfram að dökkna: Sjúkdómur Kristjáns, asmaveikin, ágerðist án afláts og gekk brátt svo nærri honum, að hann afréð að reyna að leita sér lækninga vestur í Banda- ríkjum, sigla á miklum hættutím- um yfir þvert Atlantshafið. Mér er í minni hvað mér hnykkti við, þegar fundum okkar bar saman vestanhafs á útmánuðum 1944. Svo mjög hafði hann látið á sjá — og gat nú ekki framar dulið fyrir öðrum, hversu þjáður hann var. Því fór samt fjarri, að hann kvartaði, heldur taldi hann góðar horfur á því, að hann kæmist senn til fullrar heilsu með aðstoð fær- ustu sérfræðinga. Þær vonir brugðust honum að mestu. Hann átti eftir að leita aftur og aftur á fund erlendra lækna, og vissulega urðu þeir honum að miklu liði, en sjúkdóminn losnaði hann aldrei við. Til hinztu stundar varð hann dag hvern að halda honum í skefjum með lyfjum, en vissi þó einlægt af honum og var með köflum illa haldinn. Þrátt fyrir þessa þungbæru raun var Kristján eljumaður á hverju sem gekk, starfsamur og kappsamur. Hann var upp alinn við fátækt, tók snemma þátt í lífsbaráttunni og reyndist þegar á barnsaldri hörkuduglegur. Af sjálfsdáðum tókst honum að afla sér verulegrar menntunar bæði hér og erlendis, en á samfelldu námi í menntaskóla og háskóla, sem hugur hans stóð til, voru engin tök. Hann sneri sér að verzlunarstörfum og varð skjótt kunnur á því sviði, rak hér áratug- um saman nokkrar matvörubúðir, sem höfðu orð á sér sakir snyrti- brags og vöruvöndunar, en einnig stýrði hann rekstri fleiri fyrir- tækja, svo sem bókaverzlana. Aðrir munu þó færari en ég til að fjalla um störf hans öll á þessum vettvangi; en mig langar til að drepa lítillega á annan þátt í ævi hans, sem fáum mun vera kunnyr vegna áskapaðrar hlédrægni hans og eindreginna fyrirmæla um að láta sín þar að öngvu getið. Kristján hafði sem sé um langt skeið drjúg áhrif á framgang margra þeirra hluta í íslenzku menningarlífi, sem horfðu til heilla. Yndi hans af listum og lifandi áhugi hans á viðgangi þeirra og vexti spratt af innri þörf. Hann varð ungur vinur og félagi þjóðkunns manns, Ragnars Jónssonar bókaútgefanda, og hyKg ég að allar götur síðan hafi þeir haft samvinnu og samráð um menningarleg efni. Hann komst einnig ungur í kynni við marga helztu listamenn og rithöfunda þjóðarinnar og bar verk þeirra og hag mjög fyrir brjósti. Ég nefni hér einungis þrjá: Halldór Laxness, Agrím Jónsson og Jóhannes Kjarval. Sá síðastnefndi var í raun tengdur honum, þar eð Bjargmundur, stjúpfaðir Kristjáns, var bóðir Kjarvals. Sennilega er það á fárra manna vitorði, hvílíkan hauk í horni Kjarval átti, þar sem Kristján var, enda má segja að gagnger umskipti hafi orðið um aðbúð þessa meistara og jafnframt um viðhorf annarra til hans eftir að þeir kynntust. Vakinn og sofinn kappkostaði Kristján að verða honum að liði: hjálpaði honum að sýna verk hans og selja þau, bað honum að búa í húsi sínu og hafa þar ákjósanlega vinnustofu auk þeirrar sem hann leigði í Austur- stræti, gætti þess að eftir honum væri munað á hátíðisstundum í lífi hans, sýndi honum í einu orði fágæta umhyggju og drengskap. Þegar ákveðið var að Helgafell gæfi út bók um Kjarval, féll það að verulegu leyti í hlut Kristjáns að draga að föng í hana. Og þar var nú ekki verið að kasta höndun- um til neins: Heimsfrægur snillingur var fenginn til að semja formála að bókinni, litprentanir allar gerðar hjá víðkunnu erlendu firma og jafnframt vandaðri myndamót en hér höfðu áður sézt, úrvalspappír keyptur og bezta prentsverta sem völ var á, bók- bandsefni valið af mikilli kost- gæfni og smekkvísi. Fyrirmæli um umbrot, röðun og skipan mynda, gaf Kristján einnig. Og meðan á vinnslu bókarinnar stóð mátti heita, að hann væri með annan fótinn í prentsmiðjunni til þess að sjá um að ekkert færi úrskeiðis. Ég dreg ekki í efa að sitthvað megi finna að útliti og frágangi þessar- ar bókar um Kjarval; en þó er ég sannfærður um, að þegar hún kom út haustið 1950 hafi naumast verið unnt að knýja fram hérlendis betri árangur um gerð hennar alla. Fjölmörg dæmi önnur um hug Kristjáns til íslenzkra listamanna eru mér kunn, en ég tel mér ekki heimilt að rekja þau í þessari fátæklegu kveðju minni. Hann var maður höfðingsskapar og mikillar lundar, þar sem ekkert smálegt fékk þrifizt. Vinum sínum reyndist hann tryggðatröll og einstaklega fundvís á leiðir 'til að sýna þeim ræktarsemi og gleðja þá. Sá var til að mynda háttur hans árum saman að bjóða mér á hverju sumri, og stundum oft, austur á æskustöðvar mínar við Sog, ýmist með sér einum ellegar góðum félögum. Margar þessara ferða urðu mér ekki aðeins til mikillar hressingar og skemmtun- ar, heldur og til andlegs ávinnings. Kristján var að eðlis- fari alúðin sjálf, glaðvær og ræð- inn, en í ofanálag bráðskarpur, svo að unun var að blanda geði við hann, ekki sízt í einrúmi, þegar talið snerist um þau efni sem hann bar sérstaklega fyrir brjósti. Seint munu mér líða úr minni þeir morgnar, þegar við gengum sam- an um döggvot kjörr í bungóttu hrauninu við Sog, ellegar þau kvöld, þegar við sátum á fljóts- bakkanum undir roðnandi himni og hlustuðum á tónlist flúða og strengja. Kristjáni unni ættjörð sinni heitu hjarta og skynjaði fegurð hennar af miklum næm- leika, eins og ljósmyndir þær og kvikmyndir, sem hann tók stund- um sér til gamans, báru glöggt vitni um. Ein þessara stuttu kvik- mynda hans er þar að auki ákaf- lega merk heimild. Hún er tekin á Þingvöllum, líklega fyrir aldar- fjórðungi eða svo, á haustdegi eins og þeir geta orðið fegurstir. Kjarval er að keppast við að mála á barmi Almannagjár, runnar og lyngþúfur glóa, vatnið er samfelld skuggsjá himins og góðveðurs- skýja. Þegar degi tekur að halla og Kjarval er í þann veginn að ljúka við málverk sitt, ber það til tíðinda að bifreið á suðurleið nemur staðar á þjóðveginum og út úr henni snarast enginn annar en Ásgrímur Jónsson listmálari. Meistararnir heilsast með miklum glæsibrag, ræðast við í bróðerni nokkra stund og kveðjast síðan. Ég leyfi mér að spá því, að þessi stutta kvikmynd veroi talin ger- semi þegar fram líða stundir — og muni þá verða sýnd þjóðinni oft og mörgum sinnum. Þeir einir sem reynt hafa, munu geta um það borið, hvílík þraut er í því fólgin að þurfa að stríða við heilsubrest áratug eftir áratug, svo sem Kristján Jónsson varð að gera. Að öðru leyti var hann mikill gæfumaður. Hann átti frábærlega góða konu og elskulega dóttur. Honum varð vel til vina, því að öllum sem kynntust honum eitthvað að ráði hlaut að þykja vænt um hann og láta sér annt um hann. Honum var sú gáfa gefin að geta notið þeirra verðmæta sem hvorki mölur né ryð frá grandað: náttúrufegurðar, lista og bók- mennta. Nú þegar hann hefur verið kvaddur brott með þungum hljómi, býr þakklæti, söknuður og tregi í hugum vina hans og félaga. Við hjónin og synir okkar vott- um öllum ástvinum hans dýpstu samúð á skilnaðarstund. Blessuð sé minning þessa mikil- hæfa manns og góða drengs. Blessuð sé minning Kristjáns Jónssonar. Ólafur Jóhann Sigurðsson. Vinur minn, Kristján Jónsson, er allur. Sú fregn barst skyndilega, en ekki fyrirvaralaust. Við, sem vor- um vinir hans, höfðum hin seinni ár fylgst með tvísýnni baráttu hans við illvígan sjúkdóm. Aldrei mælti hann æðruorð í þeim ójafna leik. Engu að síður vissum við, vinir hans, að hverju fór. Nú er þessu hljóðláta stríði lokið. Vinátta okkar á sér djúpar rætur. Þess vegna á ég bágt með að finna þessum orðum mínum stað, þegar ég mæli eftir hann. Það er ef til vill við hæfi. Sjálfur var hann maður dulur. Hann flíkaði litt tilfinningum sínum. Samt gat engum dulist, sem þekkti hann, að hann var tilfinn- ingaríkur maður. Fáir, sem kynntust honum í hversdagslegri umgengni, vissu hvern mann hann hafði að geyma. Hann hafði ekki fetað troðna slóð. Honum var hvergi vísað til sætis í skjóli frændgarðs, skólagöngu eða bræðralags sameiginlegra hags- muna. Það Sem hann var, var hann af sjálfum sér. Einn og óstuddur. En þótt honum yrði vel ágengt á veraldarvísu, miklaðist hann ekki af því. I návist hans og orðræðu fór ekki milli mála, að honum þótti flest eftirsóknarverðara en auðsæld eða ríkidæmi. Það veittist honum, að því er virtist, fyrir- hafnarlaust. Hann hafði þess vegna efni á að láta sér annara um önnur gæði. Og fannst miður, að ævikjör æskuáranna leyfðu ekki, að hann beitti kröftum við önnur viðfangs- efni. Skólaganga hans var ekki löng. Samt var hann betur menntaður en margur sem eyðir ævinni á skólabekk. Hann las mikið. Og það sem meira var, hann mundi það sem hann las, bæði í bundnu máli og óbundnu. Og kunni með að fara á fárra vina fundi. Daglegt brauð Kidda, en svo var vinum hans tamast að kalla hann, var kaupmennska og annar atvinnurekstur. Það starf rækti hann af fyrirhyggju og atorku. Hugur hans stóð þó til annars. Hversu margir hafa þeir ekki verið, íslenzkir góðbændur, sem bjuggu góðu búi, þótt hugur þeirra stæði til mennta og fræða. Og máttu blóta á laun. Það var líka hlutskipti Kidda. Á unga aldri stundaði hann fjallgöngur og útilíf af kappi. Hann hafði næmt auga fyrir náttúrufegurð. I stað þess að festa hana á léreft, festi hann hana á filmu, en ljósmyndir hans báru smekk hans órækt vitni. Málverkið var samt hans ástríða. Það átti hug hans allan Skáldskaparþörf og fegurðarskyn áttu þar sitt óðal. Góðu heilli fékk sú lífsnautn byr undir báða vængi í vináttu hans við sjálfan meistara Kjarval. Áratugum saman var hann sérstakur trúnaðarmaður og ráðgjafi meistarans. Málverka- safn þeirra hjóna Kidda og Siggu á vart nokkurn sinn líka í einstaklingseigu hérlendra manna. Þeir sem báru gæfu til að kynnast Kidda náið, eða eignast vináttu hans, munu fyrst og fremst minnast hans sakir óvenju- legra mannkosta, sem hann hafði til að bera. Gáfur hans, skarp- skyggni og hispursleysi fengu ekki dulist. Hann ávann sér traust samferðamanna. Orð hans voru gulls í gildi. Að leiðarlokum ber að þakka áratuga gamla trygga vináttu við okkpr hjónin og fjölskyldu okkar. Ógleymanlegar verða okkur sam- verustundirnar á fallega heimil- inu að Njálsgötu 64, við Álftavatn- ið bjarta og Fljótið helga. Sönn vinátta er eitt það besta og dýr- mætasta sem til er í lífinu. Blessuð sé minning hins látna heiðursmanns. Björgvin Schram. Um áratugi settu „Kiddabúðir" svip á bæinn. Þessar búðir voru matvöruverzlanir og þekktar fyrir góðar vörur og alúðlega afgreiðsluhætti og snyrti- mennsku. Eigandi þessara verzlana og maðurinn á bak við þetta þekkta nafn var Kristján Jónsson, — Kiddi í Kiddabúð. En Kristján rak einnig glæsilegar bókaverzlanir undir nafninu Helgafell, og eru tvær þeirra starfandi af fullum krafti í dag. Eins og að líkum lætur, þurfti mikið starflið í svo margar og stórar verzlanir, og segir það sína sögu að hjá Kristjáni vann oft sama fólkið i áratugi. Margir sem verið höfðu verzlunarstjórar hjá Kristjáni urðu síðar kaupmenn og forystu- menn í félögum og samtökum kaupmanna og þótti gott vega- nesti, það sem þeir höfðu hjá honum lært í verzlun og viðskipt- um. Kristján var þátttakandi í mörgum fleiri fyrirtækjum, en hér hafa verið talin. Hann var m.a. einn af stofnendum og eigendum Bananasölunnar h.f., sem var brautryðjandi fyrirtæki, hér á landi, á sínu sviði. Auk þess að vera svo umsvifa- mikill kaupsýlsumaður, lét Kristján að sér kveða í félags- málum kaupmanna. Hann var einn af aðalhvata- mönnum að stofnun Kaupmanna- samtaka Islands og var kjörinn varaformaður í fyrstu stjórn þeirra. Árið 1954 var Kristján kjörinn formaður samtakanna og skipaði þann sess nokkur ár. Hann sat í stjórn Innkaupasam- bands bóksala hf. frá stofnun þess og til dauðadags. Hann var í stjórn Félags bókaverzlana frá stofnun þess félags og þar til fyrir tveimur árum. Hann var um ára- bil í ritnefnd Verzlunartíðind- anna. Kristján Jónsson var traustur og ráðhollur í öllum sínum störf- um og vann stétt sinni ómetanlegt Kagn. Félag bókaverzlana og Kaup- mannasamtök íslands þakka hon- um óeigingjarnt forystuhlutverk á liðnum áratugum og senda fjöl- skyldu hans samúðarkveðjur. -jib.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.