Morgunblaðið - 22.09.1979, Blaðsíða 16

Morgunblaðið - 22.09.1979, Blaðsíða 16
16 MORGUNBLAÐIÐ, LAUGARDAGUR 22. SEPTEMBER 1979 Flóttabúðalíf Flóttamannabátarnir dreifast frá Viet Nam til nálægra landa, þar sem fólkið safnast í flóttamannabúðir. í október, þegar monsúnvindur tekur að blása, mun hann bera bátana hratt til Malasíu og þá er búist við að flóttamannastraumurinn muni aukast. Þótt verra verði í sjóinn, þá eru líka meiri líkur til að bátarnir sjáist ekki og sleppi fram hjá varðbátum og sjóræningjum. Hrísgrjónin möluð eða hreinsuð í heimagerðri kvörn. í „transitbúðunum“eða millilendingabúðunum fá menn bara sitt svefnpláss á stórugólfi og þámá búa sér svona þægilegan svefnstað. — í stað þess að reyna að framleiða matvæli og rækta meira, sagði einn flóttamannanna við mig, þá kusu þeir að fara í stríð og ráðast inn í annað land, Kambódíu, og að berjast við Kínverja. Þessi stríð hafa ruglað öllum áætlunum um úrbætur. Þjóðin sveltur og heldur áfram að svelta. Þetta kemur heim og saman við ummæli dr. Ton That Tungs, hins fræga læknis úr orrustunni við Dien Bien Phu og einkalæknis Ho Chi Minhs í Hanoi í viðtali í blaðinu New Straits Times í Singapore. Hann sagði, að heil kynslóð Vietnama mundi bera þess merki að hafa nú of lítið að borða. Hann talaði á frönsku í viðtalinu í viðurvist blaðafulltrúa utanríkisráðuneytisins í Hanoi. — Þið getið sjálfir séð það á andlit- um fólksins, sagði gamli læknir- inn. Það er fölt og horað. Ég finn það afstarfsfólkinu á sjúkrahúsinu hjá mér. Eftir tvo uppskurði eru skurðlæknarnir orðnir þreyttir. Sömu upplýsingar fékk sami fréttamaður hjá erlendum kenn- urum í Hanoi, sem sögðu að eftir tvo tíma væru nemendur þeirra ófærir um að taka við meiru, og að þreytumerki sæjust á hverjum manni. Og dr. Tung bætti við, að stöðug vannæring gerði það að verkum að það hefði enga mót- stöðu gegn sjúkdómum, 15 manns í sama húsi og hann lægju í rúminu, og mest áhrif hefði þetta á börnin, meðalþyngd hefði lækk- að verulega. Við höfum aldrei verið grænmetisætur, sagði lækn- irinn, en nú erum við að verða grænmetisætuþjóð. Kjötskammt- urinn er 200 gr. á mánuði og ef kjöt fæst á opnum markaði kostar það 10 dong, sem er fjórðungur úr mánaðarlaunum verkamanns. Hrísgrjón eru líka naumt skömmtuð. Og sjúkrahús þess fræga læknis, sem mun best búið af sjúkrahúsum landsins, vantar allt, frá undirstöðulyfjum upp í j sápu, frá plastleiðslum upp í i korktappana, sem þær eru festar í glösin með, segir hann. Flóttamennirnir segja, að með því einu að skammta naumt skömmtunarseðla megi gera óæs- kilegum ófært að lifa. Svo stjórn- völd hafa í hendi sér, hverjum tekst að draga fram lífið. Nú koma Vietnamar að vísu með eitthvað af hrísgrjónum frá hinni hungruðu Kambódíu, sem ekki er aflögufær, en það dugir skammt. Og ástandið í Kambódíu er orðið slíkt, að flóttafólk kemur skjögrandi af hungri yfir til Thailands. En leyfi hefur nú fengist til að hjálpar- stofnanir megi fljúga frá Bangkok með eitthvað af birgðum til Phom Penh. Og fór Cargolux-flugvél með einn af fyrstu förmunum. En það er önnur saga. • Veslast upp á „eínahagssvæðum“ „Að ýta fólki út á sjó er bara einn liður vandans," sagði Hoang Van Hoan, varaforseti vietnamska þingsins eftir flóttann til Kína um daginn. Fólkið, sem eftir er heima, er ennþá brjóstumkennanlegra. Það hefur iðulega verið hrakið af þeim stöðum, þar sem það hefur lifað margar kynslóðir. Allt af því tekið, land, hús og persónulegar eigur. Það er hrakið á staði, sem erfitt eiga uppdráttar fjárhags- lega, til að vinna nýtt land. En það fær engin tæki til að vinna þetta land eða efnivið til að komast af stað. Hvernig á það að sjá fyrir sér og sínum undir slíkum kring- umstæðum? Það veslast hægt upp af illri aðbúð og vannæringu?. Fólkinu hefur beinlínis verið smalað á vanþróaðasta hluta landsins, til að deyja úr hungri. Þetta er lýsing, sem ég heyrði hvað eftir annað hjá flóttafólkinu. Þarna er lýst hinum svokölluðu „nýjum efnahagssvæðum". En þangað höfðu verið sendir nokkrir þeirra, sem ég talaði við, oftast eftir að hafa setið í fangelsi eða því sem víetnömsk stjórnvöld kalla „endurhæfingu", að þeir sögðu. Eftir stríðið var mönnum, sem höfðu unnið fyrir fyrri stjórn- völd, verið í hernum eða þóttu ekki nægilega traustir af einhverjum ástæðum safnað í þessar „endur- hæfingarbúðir", sem þeir sögðu ekkert annað en vinnubúðir og fangelsi. Þegar þeim var sleppt þaðan, áttu þeir oft kost á að fara á „nýju efnahagssvæðin" með haka og fara að rækta jörðina við hin verstu skilyrði. Sumir höfðu verið sendir þangað með fjölskyld- ur sínar, aðrir einir, og þaðan struku þeir. Sumum Kínverjunum virðist hafa verið gefinn kostur á að fara á „nýju efnahagssvæðin" eða koma sér úr landi, að þeir sögðu. Einn maður af kínverskum ætt- um sagði mér því til sönnunar að það væri meðvituð og skipuleg stefna pólitískra stjórnvalda í Viet Nam að hrekja burt og flytja út borgara landsins af kínversku bergi brotnu, sér til fjárhagslegs ávinnings, að Sovéthöfundurinn M.A. Andrej hefði 1975 skrifað bók, þar sem hann hvatti „frelsis- hreyfingar til að hefja fjöldaflutn- inga á kínverska minnihlutanum og koma honum brott." Og talaði þar um þá eins og júðana, að því er hann sagði. • Norður-Víetnamar sitja yfir allra hlut Ýmsir flóttamannanna töluðu um að „Norðanmenn", sætu yfir hvers manns hlut í Suður-Viet- nam. Margir, sem studdu þá og Viet Kong í stríðinu, höfðu ímynd- að sér, að eftir fall Saigons og brottför Bandaríkjamanna, gætu þeir bara sagt við herliðið að norðan: — Þakka ykkur kærlega fyrir. Nú getum við sjálfir! Nú megið þið fara heim! En það hefði svo sannarlega ekki reynst svo. Og í raun gæti svo farið að menning þjóðflokka Suður-Vietnams yrði þurrkuð út og hyrfi. Það hefði fyrr komið fyrir á þessu Iandsvæði. Til dæmis hefðu Chamarnir í mið- hluta Vietnams á sínum tíma verið þurrkaðir út á þann hátt, eftir að þeir urðu undir í deilum þjóðflokkanna á þessu svæði. Og svipað væri að henda suma ætt- flokka í Suður-Vietnam nú. íri nokkur, sem nú býr í Singa- pore með kínverskri konu sinni, og mikið var í Viet Nam í verzlunar- erindum fyrir og fyrsta árið eftir stjórnarskiptin, sagði mér að eftir fall Saigon hefði eitthvert fram- leiðslufyrirtæki í Viet Nam, sem stjórnvöld höfðu tekið yfir, beðið hann um að koma á sambandi við viðskiptaaðila í Singapore. Sem hann gerði. En í hvert skipti, sem komið var saman til fundar í Saigon til að semja um viðskiptin, var einum Norður-Vietnamanum fleira hinum megin við borðið og einum Suður-Vietnamanum færra, þar til þeir voru alveg horfnir. Og taldi hann það dæmi- gert fyrir það sem gerðist þar í borg eftir 1975. • Flóttamanna- straumurinn eykst í október Er vandi flóttamannanna þá ekki að lagast, úr því svo margar þjóðir hafa nú gert átak til að taka við flóttafólki, og Vietnamar lofuðu í Genf að binda enda á flóttamannastrauminn? Þessa spyrja nú margir. Því miður er málið ekki svo einfalt. í fyrsta lagi er rangt að straumur bátafólks frá Viet Nam hafi nokkurn tíma stöðvast. Ég var á þessum slóðum einmitt á þeim tíma, sem svo átti að vera, og nær daglega voru í blöðunum frásagnir af flóttabát- um, sem höfðu komið einhvers staðar að landi, m.a. með 200 manns til Singapore 27. ágúst, sem fengu ekki að koma í land fyrr en Hollendingar höfðu lofað að taka þá síðar. Og daginn áður lofaði Belgía að taka 291, sem eins var ástatt um. En það er einmitt það, sem þessar þjóðir, sem mest mæðir á, gera nú. Þær taka ekki við fleir- um, nema búið sé að tryggja að jafnmargir komist áfram til þriðja landsins. Þetta eru líka Thailendingar farnir að gera með flóttamennina frá Kambódíu. Svo ómannúðlegt sem þetta er, er erfitt að vera með ásakanir eftir að hafa kynnst vanda þessara þjóða. í Malasíu hefur með mikilli varkárni verið unnið að því að halda sátt milli kynþáttanna, Malajanna, sem eru rúmlega 50% og Kínverjanna, sem eru 30%, eftir að upp úr sauð 1969. Það er gert með því að veita Malajunum á ýmsan hátt forgang í menntun og störfum, til að hefja þá svolítið upp á móti hinum betur menntuðu og duglegu Kínverjum. Þetta hef- ur tekist bærilega. En þegar inn í landið streyma tugir þúsunda fólks af kínverskum ættum, óttast menn að það kunni að rugla jafnvægið og valda vandræðum. Og sú staðreynd, að flóttafólkið kemur að austurströndinni, fá- tækasta hluta landsins, hefur valdið óánægju og óróleika, því hinir fátæku íbúar telja að þeir muni taka frá sér vinnu. Halda því fram að verðlag á matvælum hafi þegar hækkað við að hjálparstofn- anir kaupa matvæli til að senda út í flóttamannabúðirnar. Og þeir segja hart, að stjórnvöld leggi svo mikið í að hjálpa útlendingum, þegar þeir séu svo þurfandi sjálfir. Þegar kom að kosningum í vor, sauð upp úr, og það mun hafa verið aðalástæða þess að hafist var handa við að halda bátafólk- inu frá. En því má ekki gleyma, að þá voru þar í landi þegar um 80 þúsund flóttamenn, og ýtt er burtu 100 á móti hverjum þúsund, sem tekið er við. Viðtökur flótta- fólksins byggjast því á hvort aðrar þjóðir geta tekið kúfinn. Með öllu er óvíst hvort og í hve ríkum mæli dró úr flóttamanna- straumnum. Þegar það gerðist að sögn blaða, æddi fellibylurinn Hope yfir þetta svæði, og talið er að hann hafi sópað öllum flótta- mannabátum af yfirborði sjávar. Og nú er búist við að straumurinn aukist aftur í október, bæði frá Kambódíu til Thailands og af bátafólki frá Viet Nam. A hverju byggist það? í fyrsta lagi lofuðu vietnömsk stjórnvöld aðeins að stöðva flóttamanna- strauminn um stuttan tíma. En þeir sem þekkja aðstæður, veður og vind, hafa uppi önnur rök fyrir þeirri skoðun sinni. Það, sem skiptir þar miklu máli, er monsúnvindatíminn og regn- tíminn. í októbermánuði stendur vindur af Viet Nam og ber báta hratt í átt til Malasíu. Þótt þá sé kannski meiri hætta á sjó vegna veðurs, þá munu flóttamennirnir telja sig eiga meiri möguleika á að komast alla leið, þar sem öldur eru háar og bæði malasísku varðbát- arnir og thailensku ræningjarnir eiga erfiðara með að koma auga á þá. Þeir sjást ekki í ratsjá, og gætu því komist fram hjá þeim. Því er talið að bátastraumurinn til Malasíu muni aukast. A endanum á monsúntímanum telja kunnugir að hernaðarátök í Kambódíu muni harðna, og muni það, ásamt vaxandi hungri í land- inu, einnig auka flóttamanna- strauminn yfir landamærin. Raunar er þegar vitað, að Heng Samrimstjórnin er þegar farin að flytja víetnamskar hersveitir vestur að landamærunum, vænt- anlega í þeim tilgangi að herða að sveitum Pol Pot í fjöllunum og við það hafa hungraðir borgarar safn- ast saman þeim megin, og má búast við að í örvæntingu sinni þrýstist þeir inn í Thailand, þegar bardagar harðna. Útlitið er því allt annað en glæsilegt. En gleymum því ekki, að þarna er um að ræða hrjáða einstaklinga, yfir helmingurinn börn, sem spyrja eins og gamla konan, sem sat með barnabarn sitt í fanginu og sagði við mig: Hvað ætla þeir að gera við okkur?

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.