Morgunblaðið - 29.03.1980, Blaðsíða 31
MORGUNBLAÐIÐ, LAUGARDAGUR 29. MARZ 1980
31
Guðrún Helgadóttir, borgarfulltrúi:
Inngangur
Fyrri helmingur kjörtímabils
núverandi borgarstjórnar er senn
á enda. Morgunblaðið hefur tæp-
lega sinnt þeirri sjálfsögðu skyldu
sinni við lesendur sína að skýra
þeim frá störfum hinnar nýju
borgarstjórnar, heldur hefur tekið
þann kost að ráða fyrrverandi
borgarstjóra til að annast þær
upplýsingar, og má nærri geta,
hversu hlutlaus sú frásögn er. Ég
hygg að vísu, að þau furðuskrif
hafi alls ekki þjónað tilgangi
sínum — menn hafi einfaldlega
hugsað til refsins og súru berj-
anna — , en þessi skortur á
upplýsingum stærsta og útbreidd-
asta blaðs landsmanna hefur hins
vegar orsakað það, að reykvík-
ingar hafa ekki yfirsýn yfir hvað
hinn nýi borgarstjórnarmeirihluti
er að fást við. Allar þær þúsundir
manna, sem þora ekki að snerta
Þjóðviljann nema með fingurgóm-
unum, hafa ekki hugmyndaflug til
að lesa Tímann og vita ekki, að
Alþýðublaðið er til, hafa sáralitla
vitneskju um það sem er að gerast
í borgarstjórn.
Vissulega hefur hinum nýja
meirihluta vegnað betur en nokk-
urt okkar þorði að vona, þegar
óvígur borgarmúrinn opnaðist
óvænt fyrir okkur, en það er ekki
umræðuefni mitt í þessari grein.
Hvenær sem þetta ágæta blað
óskar þess, skal ég gefa lesendum
þess skýrslu um störf okkar, sem
eru mikið á annan veg en Birgir
ísleifur Gunnarsson hefur frá
skýrt hingað til. Tilefni þessarar
greinar er þvert á móti að taka
undir gagnrýni á störf okkar, og
þá einkum vegna fyrstu skynsam-
legrar greinar um störf okkar,
sem birst hefur á síðum blaðsins,
en það er grein Þóris Einarssonar
prófessors í Morgunblaðinu 14.
mars sl. Grein þessi hefur flesta
þá kosti, sem skrif um stjórnmál
eiga að hafa, þ.e. stjórnmálamenn
geta haft gagn af þeim.
Höfðabakkabrúin
Tilefni greinar Þóris Einarsson-
ar er ákvörðun 10 borgarfulltrúa
Reykjavíkur um að byggja marg-
nefnda Höfðabakkabrú gegn at-
kvæðum okkar Alþýðubandalags-
mannanna 5 gegn vilja fjölmargra
samtaka íbúanna beggja megin
brúarinnar væntanlegu, auk þess
sem þjóðminjavörður, borgar-
minjavörður og aðrir ekki
ómerkari aðilar vöruðu við þessari
framkvæmd. Meirihluti þeirra
nefnda, sem um málið fjölluðu,
svo sem umhverfismálaráð og
skipulagsnefnd og þróunarstjóri
voru einnig andvíg byggingu
brúarinnar, sem upphaflega var
skilyrði fyrir lagningu Fossvogs-
brautar en nú er ljóst að hún
verður tæplega lögð. Þó skyldum
við ekki lengur vera svo viss um
það eftir þetta. Er nokkur frekari
ástæða til að fara að vilja Foss-
vogsbúa en íbúa Árbæjar og
Breiðholts? Það er því ekki að
undra, þó að Þórir Einarsson
spyrji, hvers vegna þetta sé sam-
þykkt, hver ráði þessu í raun og
veru. Eru það borgarfulltrúar
meirihlutans eða minnihlutans
eða eru það embættismenn? Það
er ljóst að það eru ekki borgar-
búar. Sú spurning verður þá áleit-
in, hvort borgarbúar hafi kosið
rétta fulltrúa til að taka ákvarð-
anir um mál sín, og því geta þeir
svarað að tveimur árum liðnum.
Lýðnæði er nefnilega lítils virði, ef
kjósendur okkar fylgjast ekki með
verkum okkar, enda bendir Þórir
réttilega á, að hvergi geti menn
verið í nánari tengslum við stjórn-
málamenn en einmitt þá, sem
sveitarstjórnarmál annast, þó að
vissulega ættu þessi tengsl einnig
að vera við stjórnendur lands-
mála. Ég skal svara því strax,
hverjir réðu þessari fáránlegu
ákvörðun um Höfðabakkabrúna.
Það gerðu Sjálfstæðismenn í borg-
arstjórn, borgarverkfræðingurnn
sem þeir réðu og sem er mikill
áhugamaður um brúna, með
stuðningi fulltrúa Framsóknar-
flokksins og Alþýðuflokksins. Við
Alþýðubandalagsmenn gætum
haft góða samvisku og sagt sem
svo, að við gerðum það sem við
gátum, en eftir er sú staðreynd, að
við erum samábyrg fyrir öllum
ákvörðunum núverandi borgar-
stjórnar, og við vinnum einskis
manns virðingu með því að hlaup-
ast undan þeim merkjum. Þessi
ákvörðun er og verður blettur á
störfum borgarstjórnar og verður
ekki af henni þveginn nema borg-
arbúar taki höndum saman og
komi í veg fyrir framkvæmdina.
Þeirra er að vernda börnin sín,
umhverfi sitt og mannlegt sam-
neyti, ef borgarstjórnin bregst, og
þeir geta það, ef þeir vilja. Og
prófessorinn segir að Árbæingar
séu risnir úr rekkju.
Ég ætla ekki að rekja hér gang
þessa máls. Ef Morgunblaðið hef-
ur áhuga á að kynna sjónarmið
okkar Alþýðubandalagsmanna,
sem mikil vinna hafði verið lögð í
að samræma, er því í lófa lagið að
birta stórmerkilega ræðu Álfheið-
ar Ingadóttur, varafulltrúa okkar
í borgarstjórn og formanns um-
hverfismálaráðs. Hitt skal ég
frekar reyna að skýra, af hverju
slík mistök eiga sér stað, og
engum hlífa. Það eru almenn
sannindi, að flestar ófarir mann-
kynsins hafa orsakast af óbifan-
legri þrjósku stjórnmálamanna
við að halda til streitu röngum
ákvörðunum, hafi þær einu sinni
verið teknar. Því til viðbótar
eigum við borgarfulltrúar meiri-
hlutans við óvenjuleg skilyrði að
búa, sem sjáfsagt og eðlilegt er að
skýra frá án málalenginga.
Valdaskipting
Þegar Sjálfstæðisflokkurinn
missti meirihluta sinn í borgar-
stjórn, var ljóst að enginn hinna
flokkanna gat stjórnað borginni
einn. Flokkarnir þrír gerðu því
með sér lauslegan samstarfssamn-
ing, og nefndum og ráðum borgar-
innar var skipt jafnt milli þeirra.
Þótti okkur Alþýðubandalags-
mönnum það nokkuð vel boðið af
okkar hálfu, þar sem styrkleika-
munur var og er mikill milli okkar
fulltrúanna 5 og hinna, sem hafa 2
og 1 fulltrúa. Ekkert okkar hafði
af þessu fyrirkomulagi áhyggjur,
ef til vill vegna þess að hópvinna
er okkur tamari en hinum flokk-
unum. Það hefur hins vegar komið
æ skýrar í ljós, að nokkurrar
tortryggni gæti hjá samstarfs-
flokkunum gagnvart þeim nefnd-
um, sem Alþýðubandalagsmenn
hafa formennsku í, ef við köllum
það ekki bara réttu nafni afbrýði-
semi. Hún orsakaðist í fyrsta lagi
af því, að einmitt í þeim nefndum
hefur helst bryddað á nýjum
vinnubrögðum, svo sem í skipu-
lagsnefnd, bygginganefnd og um-
hverfismálaráði, og í öðru lagi af
ótta við að Alþýðubandalagið
verði hugsanlega sterkara í borg-
arstjórninni þrátt fyrir jafna
skiptingu valda. Það eitt, að mik-
illar andstöðu gætti innan Al-
þýðubandalagsins gegn byggingu
Höfðabakkabrúarinnar, nægði
jafnvel til að samstarfsflokkarnir
mergefldust í sannfæringunni um
ágæti brúarinnar. Því miður verða
borgarbúar og raunar landsmenn
allir oftlega að víkja fyrir slíkum
tilfinningum stjórnmálamanna,
og þau vinnubrögð eiga stjórn-
málamenn aldrei að komast upp
með. Til þess að fyrirbyggja allan
misskilning í komandi staksteina-
klippi, skulu lesendur Morgun-
blaðsins ekki halda að þetta gildi
ekki einnig um fulltrúa Sjálfstæð-
isflokksins, jafnt í borgarstjórn
sem á þingi.
Embættismenn
Það ætti að vera nógu flókið að
stjórna borginni með tveim öðrum
flokkum, en sá er vandinn þó
minnstur. Embættismenn hins
nýja meirihluta eru síðan allir
fengnir að erfðum frá áratuga-
löngu einveldi Sjálfstæðisflokks-
ins og allir staðráðnir í að vinna
að endurheimt hans á borginni.
Við þessu er auðvitað ekkert að
gera af hálfu okkar. Lög um
réttindi og skyldur opinberra
starfsmanna tryggja þeim að
sjálfsögðu rétt til áframhaldandi
starfa. Hitt er ef til vill vafasam-
ara, hvernig margir þeirra rækja
þau störf. Við sem um árabil
höfum starfað hjá ríkinu og þá
auðvitað haft ýmsa ráðherra sem
yfirmenn, höfum gert okkur ljóst
að okkur bar að framkvæma þau
lög sem sett voru og sýna ráðherra
og stefnu hans þá virðingu, sem
lýðræðisskipulag gerir ráð fyrir,
jafnvel þó að við værum henni
ósammála. Þetta gildir ekki alls
staðar í Reykjavíkurborg. Emb-
ættismenn Sjálfstæðisflokksins,
sem allir eru flokksmenn, ef emb-
ættið skiptir einhverju máli við
töku ákvarðana, rétt eins og þeir
komast ekki langt í Sovjét nema
þeir hafi hina réttu skoðun, vinna
beinlínis beint og óbeint gegn
okkur meirihlutamönnum í borg-
arstjórn. Einkum hefur borgar-
verkfræðingsembættið reynst
okkur óþægur ljár í þúfu. Þar með
er ég ekki að segja, að borgarverk-
fræðingur ræki ekki starf sitt,
heldur miklu fremur það, að hann
rækir þau í anda fyrrverandi
borgaryfirvalda, enda sammála
þeim um flesta hluti. Menn kynnu
að spyrja, hvort borgarverkfræð-
ingur hafi öðlast atkvæðisrétt í
borgarstjórn, en þó að svo sé ekki,
skiptir vitanlega miklu máli,
hvernig hann leggur mál fyrir og
hvernig hann lætur framkvæma
þau. Þórir Einarsson bendir t.d. á,
að framkvæmdir við Höfðabakka-
brúna voru raunar hafnar áður en
borgarstjórn hafði samþykkt þær,
þó að borgarverkfræðingur vissi
mætavel um ágreininginn um
brúna. Á sama hátt hef ég tvisvar
áður bent á, að ákvarðanir borgar-
yfirvalda voru hreinlega ekki
framkvæmdar eins og ætlast var
til, og slíkt getur auðvitað haft
mikil áhrif á álit manna á borg-
arfulltrúum.
Meðan Höfðabakkabrúin var á
umræðustigi í Framkvæmdaráði,
lá fyrir ýtarleg skýrsla um málið
frá starfsmönnum borgarverk-
fræðings sjálfs. Svo óheppilega
vildi þó til, að þeir voru ósammála
yfirmanni sínum um ágæti brúar-
innar, og þess vegna fékk ráðið
ekki skýrslu þeirra strax, heldur
úrdrátt borgarverkfræðings
sjálfs. Að lokum neyddust þessir
starfsmenn til að vekja athygli
manna á sjónarmiðum sínum í
dagblöðum og öðrum fjölmiðlum.
Það er öllum ljóst, sem nálægt
stjórn borgarinnar koma, að borg-
arverkfræðingur er ákaflega and-
vígur hugmyndum þeirra nefnda,
sem um skipulagsmál fjalla, og
ekki síður hugmyndum þróunar-
stjóra um framtíðarskipulag borg-
arinnar, og hann hefur veruleg
áhrif með setu sinni á fundum
borgarráðs, sem þróunarstjóri
hefur yfirleitt ekki aðgang að. Það
er því miður allt of algengt að
kjörnir fulltrúar treysta sér ekki
til að hafa við sérmenntuðum
tæknimönnum, sem kunna þess
utan að flytja mál sitt vel og
skipulega. Og tæknimennirnir eru
ekki síður haldnir þeirri áráttu en
stjórnmálamenn að eiga erfitt
með að víkja frá röngum ákvörð-
unum, hafi þeir einu sinni tekið
hana. Þar er borgarverkfræðingur
engin undantekning.
Til viðbótar því sem hér hefur
verið sagt, má bæta við að meðal
ákveðinna embættismanna borg-
arinnar er haldið uppi látlausu
níði um formenn byggingarnefnd-
ar, skipulagsnefndar og jafnyel
þróunarstjóra, svo að vart er
sæmandi. Þessir fulltrúar vilja
gefa sér tíma til að snúa við
fáránlegri þróun skipulagsmála í
borginni til þessa, sem sýnir sig í
yfirfullum skólum á einum stað en
hálftómum á öðrum, ómanneskju-
legum húsalengjum sem engin
lifandi sál þrífst í og orsakar
tilheyrandi félagsleg vandamál,
ofhlöðnum hverfum, þar sem að-
staða er engin fyrir útigangshross
borgarinnar — unglingana okkar
— og þannig mætti lengi telja.
Þessu ástandi ætlum við að
breyta, en gegn því er unnið á
öllum vígstöðvum andstæðinga
okkar, sem því miður eiga vígi sín
hjá okkar eigin embættismönnum.
Stundum er erfitt að henda reiður
á hvernig mál eru tafin, og vísar
þar hver á annan. I nóvember sl.
var t.d. samþykkt og veitt til þess
fé, að bæta við tveimur íbúðum
fyrir aldraða í húsinú nr. 3 við
Lönguhlíð. Þetta átti að fram-
kvæma strax, enda langur biðlisti
af umsækjendum. Eftir endalaus-
an eftirrekstur munu þessar tvær
íbúðir verða teknar í notkun eftir
u.þ.b. 3 vikur, sem er miklu seinna
en við vildum. Einhvern veginn
tókst að gera þessa einföldu fram
kvæmd svo flókna, að marga fundi
þurfti að halda um málið. Þannig
þvælast hlutir fyrir okkur alls
staðar. Fyrir rúmu ári var sam-
þykkt í félagsmálaráði, að flytja
deild II í Félagsmálastofnun
Reykjavíkur úr Vonarstræti 4 og
til þess var veitt fé. Ennþá er ekki
búið að finna húsnæði í borginni
undir deildina! Varla er ætlast til
að við borgarfulltrúarnir leitum
sjálfir að húsnæðinu — eða hvað?
En svona mætti lengi telja. Allt
væri þetta í lagi, ef þetta bitnaði
eingöngu á atkvæðafjölda hinna
kjörnu borgarfulltrúa. En það
bitnar fyrst og fremst á borgurun-
um, og það er alvarlegra mál. Þess
vegna er gott að Árbæingar mót-
mæla.
Hvað er hægt
að gera?
Það er alveg ljóst, að stjórn
borgarinnar verður að endur-
skipuleggja. Augljóst er, að borg-
arráði þarf að breyta á þann veg,
að formenn ráða borgarinnar eigi
þar sæti. Það nær engri átt að 5
menn úr borgarstjórn sitji þar og
ráðskist með mál, sem þeir hafa
takmörkuð tækifæri til að þekkja
til hlítar. Jafnframt verðum við að
gera embættismönnum okkar og
einkum borgarbúum skiljanlegt,
að lýðræðislega kjörinn meirihluti
hlýtur að verða að fá frið til að
framkvæma sína stefnu í borg-
armálum, þó að um hana séu
vitanlega ekki allir sammála. Þá
stefnu mörkum við, fulltrúar
flokkanna þriggja, allajafnan á
sameiginlegum fundum okkar, þó
að það takist ekki alltaf, eins og
Höfðabakkamálið er dæmi um. En
þrátt fyrir ýmsa sambúðarörðug-
leika okkar meirhlutamanna, er-
um við óhrædd við að leggja störf
okkar undir dóm borgarbúa að
tveimur árum liðnum. Okkur hef-
ur gengið margt vel, og það sem
verr hefur gengið, á ekki að vera
neitt leyndarmál. Borgarbúar
skilja tvímælalaust betur aðstöðu
okkar, ef sannleikurinn er sagður
umbúðalaust. Þeir mega líka vita,
Höfðabakkabrú
eða önnur brú
að erfðagóssið í embættismanna-
stétt tekur illa endurhæfingu.
Það er þess vegna fengur að
stuðningi á borð við skrif Þóris
Einarssonar. Mér er ljóst, að hann
er ekki endilega stuðningsmaður
núverandi borgarstjórnarmeiri-
hluta, en hann ber velferð sína og
sambúa sinna í Árbæjarhverfi
meira fyrir brjósti en svo, að hann
falli í þá gryfju, sem t.d. fyrrver-
andi borgarstjóri heldur til í, að
stunda tilgangslaust skítkast,
heldur skrifar málefnalega og
rétta grein um mál, sem hann vill
vinna. Og ég er sannfærð um að
það vinnst, ef Árbæingar taka
höndum saman. Og það væri
gaman ef Framfarafélag Breið-
holts gerði slíkt hið sama og mæti
réttan málstað meira en það,
hvort núverandi meirihluti er
æskilegur eða óæskilegur að mati
félagsmanna.
Það er vel hægt að lifa góðu lífi
í Reykjavík, jafnvel undir stjórn
vinstrimanna — ef menn hafa
uppburði til að segja satt öðru
hverju. Stjórnmálamenn gera það
að vísu sjaldan enda telur Þórir
Einarsson lítið trúnaðartraust
ríkja milli þeirra og umbjóðenda
þeirra. Þar á milli þyrfti tvímæla-
laust að leggja brú, og sú brúar-
lagning er brýnni en Höfðabakka-
brúin og mun kostnaðarminni.
25. marz 1980
Aths. ritstj:
Guðrún Helgadóttir, borgarfull-
trúi Alþýðubandalagsins, sér ástæðu
til að hreyta ónotum í Morgunblaðið
fyrir fréttaflutning þess úr borgar-
stjórn. Væntanlega er það gert í
þakklætisskyni fyrir birtingu þessar-
ar greinar. Borgarfulltrúinn telur, að
Morgunblaðið hafi tæplega sinnt
þeirri skyldu sinni við lesendur að
skýra frá störfum hinnar nýju borg-
arstjórnar, heldur hafi það ráðið
fyrrverandi borgarstjóra til þess að
annast þær upplýsingar. Þá telur
Guðrún Helgadóttir, að Morgunblað-
inu væri í lófa lagið að birta
„stórmerka" ræðu eftir Álfheiði
Ingadóttur til þess að kynna sjón-
armið Alþýðubandalagsmanna í
sambandi við svonefnda Höfða-
bakkabrú. Morgunblaðið þarf ekki á
ráðleggingum frá Guðrúnu Helga-
dóttur að halda um frásagnir úr
borgarstjórn Reykjavíkur. Enginn
fjölmiðill á Islandi gerir þeim málum
jafn rækileg skil og Morgunblaðið og
hefur svo verið um áratugaskeið og
engin breyting orðið á því eftir að
sjálfstæðisflokkurinn missti meiri-
hlutann í borgarstjórn. Ekkert sam-
band er á milli frétta Morgunblaðs-
ins af borgarmálum og greina Birgis
Isl. Gunnarssonar hér í blaðinu.
Fyrrverandi borgarstjóri fjallar þar
um borgarmál út frá sínu sjónarmiði
en borgarfulltrúa Alþýðubandalags-
ins er auðvitað fyrirmunað að skilja
slík vinnubrögð á dagblaði, að fréttir
séu eitt og skoðanir annað.
Grein Guðrúnar Helgadóttur fjall-
ar um Höfðabakkabrú fyrst og
fremst. Svo vill til, að þessi fyrirhug-
aða brú er einmitt glöggt dæmi um
meðferð Morgunblaðsins á máli af
þessu tagi. Morgunblaðið hefur birt
fréttir um þessar fyrirhuguðu fram-
kvæmdir, sem byggðar eru á upplýs-
ingum frá þeim embættismönnum
borgarinnar, sem með málið hafa að
gera. Morgunblaðið hefur einnig rætt
við starfsmenn borgarverkfræðings,
sem eru annarar skoðunar en borgar-
verkfræðingur. Morgunblaðið hefur
birt viðtöl við íbúa í Árbæjarhverfi
um málið. Morgunblaðið hefur birt
greinar, þar sem lýst er sjónarmiðum
með og móti. Morgunblaðið hefur
birt frásögn af umræðum í borgar-
stjórn um þetta mál á tveimur síðum.
Þar er m.a. sagt efnislega frá ræðu
Álfheiðar Ingadóttur, svo og tveggja
annarra talsmanna Alþýðubanda-
lagsins í þeim umræðum svo og er
skýrt frá ræðum annarra borgar-
fulltrúa í þessum umræðum. I fyrra-
kvöld sat blaðamaður Morgunblaðs-
ins borgarafund um þetta mál, og
mun ítarleg frásögn af fundinum
birtast í Morgunblaðinu á þriðjudag.
Lesendur Morgunblaðsins hafa því
haft gott tækifæri til þess að fá
yfirsýn yfir þetta sérstaka deilumál í
borgarstjórn Reykjavíkur. Hægt er
að nefna önnur dæmi af stórmálum í
borgarstjórn, sem fjallað hefur verið
um með svipuðum hætti. Það er hins
vegar bersýnilegt, að Guðrún Helga-
dóttir hefur ekki yfirsýn yfir skrif
Morgunblaðsins, hvorki um Höfða-
bakkabrú eða önnur borgarmál og
ætti því að spara sér stóryrðin um
þau.