Morgunblaðið - 21.06.1981, Blaðsíða 18

Morgunblaðið - 21.06.1981, Blaðsíða 18
18 MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 21. JÚNÍ 1981 Minnisgreinar frá Hörðalandi Af hverju hættu Norðmenn að tala íslenzku? eftir Hermann Pálsson Eftir lok síðustu heimsstyrjaldar, þegar Þjóðverjar höfðu lagt árar í bát og friður ríkti að nýju um hrjáða veröld, þótti Stórþinginu vel til fallið að fagna frelsi með fagurri veizlu. Buðu þeir þangað einum útlendum gesti, Jóni Pálmasyni frá Akri, sem þá var forseti Alþingis og einna fremstur allra virðingarmanna í hinu forna skattlandi Magnúss lagabætis. Engar sögur fara af því, að veizlugestir hafi stigið á stokk og strengt sín heit, en hitt er í frásögur fært, að þar voru haldnar margar og merkilegar ræður, og þó vakti engin öllu meira athygli en tala Jóns á Akri, sem var mælskumaður mikill og svo orðumglaður við skál, að enn er í minnum haft. Jón þeysti úr sér ræðunni á mergjaðri húnvetnsku, svo að hvergi örlaði fyrir atkvæði á annarlegri tungu, en hann hafði naumast lokið fyrstu setningunni, þegar miklum óhug og ótta slær yfir samkunduna, og eftir því aukast hrellingar manna sem lengra líður á ræðuna. Nú stafaði skelfing þingmanna hvorki af efni hennar né málsnilld, sem hvorutveggja var með mikilli prýði: forseti Alþingis var að færa Stórþinginu og norskri þjóð árnaðaróskir íslendinga og flutti þær af öllum þeim þrótti, sem Guð hafði honum í kverkar lagið. Hitt þótti heldur en ekki ískyggilegt, að enginn botnaði neitt í ræðu Húnvetn- ingsins nema fræðimaður einn, sem stundað hafði tungu þeirra Njáls og Snorra af slíkri alúð, að fáir stóðu honum á sporði, og varð hann síðan að skýra orð lögsögumanns fyrir þingheimi. Undrun manna yfir þeim ósköpum, sem á þá höfðu dunið, þegar þeim hafði helzt dottið í hug, að þeir væru að hlusta á hebreska prédikun, snerist nú brátt í örvílnan um menningu Islendinga. Hvernig stendur á þeirri firn, varð mönnum spurn, að skattlendingar höfðu svo gersamlega týnt tungu forfeðra sinna, fornum arfi frá Hörðalandi og öðrum fylkjum vestan fjalls? Þegar menn fóru að velta fyrir sér harmsögulegum örlögum norskrar tungu á þessu eyðiskeri við yzta haf, minntust þeir fornra atburða í ritum ýmissa Norð- manna, svo sem Snorra Sturlusonar fylgsnarjarls og Sturlu Þórðarsonar, frænda hans, sem báðir voru hirðmenn konungs og hvorugur þurfti á túlk að halda. Var það ekki einmitt þessi sami Sturla, sem skemmti Magnúsi lagabæti og drottningu hans með vinsælli tröllasögu, þegar þau fengu sér ekkert skárra til dægradvalar? Og var það ekki fyrrnefndur Snorri, sem skrifaði norsku bókina Heimskringlu í þrem eða fjórum bindum? Þótt báðir væru bornir og barnfæddir á Islandi, var þeim norsk tunga svo töm, að þeir virtust hafa drukkið hana með móðurmjólkinni. Þá benti einhver á, að hvergi sé þess getið í gömlum heimildum, að Eysteinn munkur hafi verið í vandræðum með að gera sig skiljanlegan í Helgisetri, þegar hann ræddi við norska stailbræður sína um skáldskap og guðfræði. Hvað sem öllum bollaleggingum líður, varð norskum þingmönnum nú ljóst, að svo djúpir sem íslands álar eru, þá er annað sem skilur þessar þjóðir, og er það úthafinu sjálfu öllu óyfirfærilegra: hvorug þeirra skilur tungu hinnar. Nú eru óyggjandi heimildir fyrir því, eins og ráða má af verkum þeirra Egils og Sighvats og raunar ýmsum annarlegum frásögnum af íslendingum í Noregi fyrr á öldum, að þeim lá norskan einkar mjúkt á tungu, þótt skáldskapur þeirra sé lítt við alþýðu hæfi. Og þótt einstaka íslendingur, svo sem Hreiðar heimski og Þorleifur jarlaskáld, hafi lent í ónáð hjá norskum yfirvöldum, þá stafaði slíkt aldrei af lélegri kunnáttu í málinu. Þótt norskir þingmenn hafi harmað tómlæti íslend- inga um tungu feðra sinna, þá virðist þeim ekki hafa verið alls kostar ljóst um hverja tungu er að ræða. Eins og merkir fræðimenn hafa bent á og raunar má ráða af fornum skrám, sem Danir hafa geymt fyrir Islendinga um langan aldur, þá munu Norðmenn hafa talað íslenzku allt frá því að fyrsti landnámsmaðurinn hrökklaðist úr Noregi á dögum Haraldar hárfagra og fram á síðara hluta fjórtándu aldar, þegar Kalmars- sambandið og aðrar ógæfur dundu yfir Norðurlönd. Að vísu fór íslenzkri tungu í Noregi að hnigna þegar á Ilermann Pálsson. tólftu öld, og fór síðan sí-hrakandi, unz hún hvarf svo gersamlega, að nú er ekki urmull eftir. Norðmenn áttu örðugt með að stafsetja íslenzkuna rétt, svo að snemma á öldum slepptu þeir h-inu á undan r-, 1- og n-; af þessu leiddi þann leiðinda rugling, að þeir hættu að gera greinarmun á orðunum hlátr og látr; hroði og roði; hnit og nit, en slíka ósvinnu hafa íslenzkumælandi menn í fornu skattlandi Magnúss lagabætis aldrei getað þolað. Þenna ósið kenndu Norðmenn svo Orkneyingum og með þeim hörmulegu afleiðingum, að þeir rugluðust í ríminu og hættu að geta stuðlasett að venju siðaðra manna: Lífs er liðnar stundir, hlæjandi skal deyja. AUt um það munu Norðmenn hafa talað kristilega tungu, sem íslendingum skildist mætavel, og þegar norsk handrit bárust til íslands, reyndist mönnum einkar auðvelt að leiðrétta þær stafsetningarvillur, sem sérkennir norska ritvenju á dögum þeirra Sverris konungs og eftirvera hans um langan aldur. Þeir Norðmenn, sem trúa því, að Snorri Sturluson hafi talað norsku og ritað, þekkja Htt ævi og menntun sagnamannsins. Þegar hann sat á skólabekk í Odda, var þar engin tunga kennd nema latína ein, og þess er hvergi getið í heimildum, að norska væri kennd á Islandi áður en Snorri skrifaði bækur sínar. Það er því ótrúlegur misskilningur af lærdómsmönnum að telja Snorra hafa ritað á norsku, en hins vegar verður allt auðskýrt og skilið, ef Norðmenn hafa talað og lesið íslenzka tungu. Þegar Hreiðar heimski og aðrir Islendingar í Noregi, ólæsir og ómæltir á aðra tungu en sína eigin, gátu spjallað þindarlaust við kóng og karl, þá þarf enginn að efast um málið, enda ber hér allt að sama brunni: Norðmenn voru ekki síður sleipir í íslenzku en íslendingarnir sjálfir. Það er því ekki að ófyrirsynju, þótt tekizt sé á hendur að reyna að leysa úr þeirri spurningu, sem fáfróðum Islendingum hefur bögglað fyrir brjósti um langan aldur: Hvernig stendur á þeim ósköpum, að Norðmenn hættu að tala íslenzku? Hví þótti þeim til hlýða að vanrækja svo móðurmál Hákonar gamla, sem síðustu ævistundir sínar hlýddi á presta sína lesa konungasögur á íslenzku, þegar lífsþróttur hans var þrotinn og hann var orðinn of máttfarinn að njóta ævisagna heilagra manna á latneskri tungu? Svör við slíkum spurningum krefjast mikillar þekkingar og djúpra hugsana, og hér verður einungis reynt að minnast lauslega á þau rök, sem fram eru sett í spekiritum lærdómsmanna. Má þar fyrst nefna, hve mikinn slóða það getur dregið að kunna ekki að stafsetja móðurmálið eins og vera ber, enda telja sumir skýrendur, að hnignun íslenzkrar tungu í Noregi eigi rætur sínar að rekja til rangritunar, sem Norðmenn tóku upp og áður var vikið að. í öðru lagi hefur mönnum komið til hugar, að Norðmenn hafi guggnað á íslenzkunni af þeirri ástæðu, að þeim þótti Ilákonar saga hins gamla svo leiðinleg aflestrar. Og ekki bætti Barlaams saga og Jósaphats úr skák, en þar er um að ræða sögu, sem einhver óþekktur Norðmaður og illa að sér í stafsetningu skrifaði á heldur ömurlegri íslenzku. Þriðju skýringuna, sem drepa má á, telja brezkir guðfræðingar einna líklegasta, en hún er á þá lund, að Norðmönnum í heild hafi hefnzt fyrir syndir víkinga vestan hafs fyrr á öldum og sé örðugt að hugsa sér öllu greypilegri refsingu fyrir óverkan forfeðra en að láta heila þjóð glata tungu sinni, einkum þó þegar í hlut á svo göfugt móðurmál og íslenzkan er. Sumir telja þó fram fjórðu skýringuna: að Norðmenn hafi hrifizt svo af danskri tungu, að þeir gleymdu íslenzku móðurmáli sínu, eftir því sem fram liðu stundir. Einfaldasta skýringin er að skella allri skuldinni á Dani, en þeir lögðu um langan aldur mikla stund á að troða fram tungu sinni, hvar sem þeir gátu komið því við og hirtu lítt um að nema tungur þeirra þjóða, sem þeir lögðu undir sig. Er sú tilraun einna frægust þegar, þeir settu á stofn nýlendu vestur á Eyjum Óspilltra Meyja í því skyni að láta fólk í sjálfu hitabeltinu spreyta sig á kverkahniti því, sem þeir kalla stoðet. En nú er ekki sanngjarnt að kenna Dönum um allt sem miður hefur farið í þeim löndum, sem lutu þeim fyrir Lútersöld og síðan. Hér er því rétt að leggjast dýpra til skýringa en gert hefur verið í flestum bókum á norðurhveli jarðar. Góðar heimildir eru fyrir því, að í fornöld hafi íslenzka verið töluð ekki einungis í Noregi og á íslandi, heidur einnig á Hjaltlandi, Orkneyjum, Katanesi, Suðureyjum, Mön, Dyflinnarskíri, Færeyjum og Græn- landi. Þar sem íslenzka hefur ekki heyrzt í þessum löndum um aldabil, þá er rétt að athuga, hvort hér geti verið um að ræða eina og sameiginlega skýringu á dauða íslenzkunnar á öllu þessu svæði utan heimalandsins. Færeyingar eru að vísu betur að sér í stafsetningu en Norðmenn á dögum Hákonar háleggs, en af einhverri kynlegri ástæðu tala þeir svo bjagað mál, að dumbur maður myndi aldrei láta sér til hugar koma að kalla það íslenzku. Örlög íslenzkrar tungu á Grænlandi eru bezt skýrð með því móti, að hún hafi að vísu verið töluð þar svo lengi sem nokkur hræða var ofan moldar, en hvarf til hlítar, þegar síðasti Grænlendingurinn í Eystri- byggð lagðist til hinztu hvíldar undir þarlenzkum jökli. Aðrar þjóðir, sem fyrrum töluðu íslenzku, hafa ekki slíka afsökum fyrir að hætta þeim göfuga sið. Þegar haft er í huga, hve mikið íslendingar urðu að þola af öðrum þjóðum síðan mál þeirra gekk um þau lönd, sem áður voru talin, þá getur það naumast talizt nein ósvinna, þótt einhver vilji skýra tungutap þeirra sem þátt í samsæri gegn íslendingum: menn hættu að tala íslenzku í því skyni að einangra heimalandið frá umheiminum, ekki þó einungis af þeim sökum, að Islendingar séu allir svo leiðinlegir, heldur einnig af hinu, að þá voru á boðstólum fágaðri tungur, sem Snorri Sturluson kunni lítil skil á. Þótt Norðmönnum yfirleitt sé íslenzka, hið forna móðurmál þeirra, öllu óskiljanlegra en ýmsar af tungum þeim, sem nú heyrast víða um heimskringluna, þá fer hitt ekki á milli mála, að þeir Norðmenn, sem numið hafa hið forna móðurmál forfeðranna, tala íslenzku af stakri snilld. Mér þykir til hlýða að geta nokkurra, sem bætt hafa fyrir vangæzlu fyrri kynslóða: enginn, sem hlustað hefur á þau Gunnhild Stefánsson, Ludvig Holm-Olsen, Bjarne Fidjestol, Magnus Rindal, Helge Sandoy og Hallvard Mageray, getur efast um, að íslenzka muni eiga glæsilega framtíð fyrir sér í Noregi. Þegar Norðmönnum þótti fýsilegt að hverfa frá skurðgoðavillu og taka upp bjartari sið, fengu þeir útlenda presta til að kenna mönnum kristin fræði. Nú virðist margt benta til þess, að Noiðmenn ætli loksins að snúa frá málvillu sinni og kynnast íslenzku að nýju. Á þessu sviði, eins og raunar ýmsum öðrum, standa Hörðar öðrum Norðmönnum framar, því að nú hafa þeir ráðið til Björgvinjar Brynjúlf Sæmundsson, sem er manna vísastur til að leiða ungt fólk inn á nýjar brautir og teygja stúdenta til að nema þá tungu, sem Sverrir konungur og Jón á Akri beittu af alkunnri snilld í ræðum sínum og bróðir Róbert gerði fræga um víða veröld með þýðingu sinni á Tristrams sögu og fsoddar hinnar björtu. Þorsteinn Þorsteinsson frá Skálpa- stöðum form. Landssambands veiðifélaga XÐALFUNDUR Landssamhands voiðifélaga var haldinn á llvanneyri lagana 12. og 13. júni sl. Alls voru mættir á fundinum 46 ‘'ulltrúar víðs vegar að af landinu, iuk fjölda gesta, þeirra á meðal: l’álmi Jónsson. landbúnaðarráð- herra, Ásgeir Bjarnason, formaður Búnaðarfélags íslands, Jónas Jóns- son, búnaðarmálastjóri, Þór Guð- jónsson, veiðimálastjóri og Árni Jón- asson, erindreki. Mörg mál voru til ’.’mraeðu á fundinum varðandi samtökin, og voru afgreidd, svo sem rannsóknir á veiðivötnum, ræktun og eldisstöðvar, sjávarveiði Færeyinga, fyrirbyggj- andi aðgerðir varðandi bátaslys á ám og vötnum, veiðieftirlit, fækkun vargfugls, útibú frá veiðimálastofn- un um landið í landsfjórðunga, segir i frétt frá sambandinu. Landssamband veiðifélaga er búið að starfa í yfir 20 ár, og hefur á þeim tíma breyst í starfi og málefnum. Úr stjórn I.andssambands veiðifélaga áttu að ganga fulltrúar Austur- og Vesturlands. Sveinn Jónsson frá Eg- ilsstöðum baðst undan endurkjöri, og var Halldór Sigurðsson frá Miðhús- um kjörinn í hans stað. Jóhann Sæmundsson var endurkjörinn. í stjórn Landssambands veiðifé- laga eru fimm menn, og er kjöri þeirra háttað þannig að formaður er kjörinn óstaðbundinn, en hinir eru kjörnir einn úr hverjum landsfjórð- ungi. Stjórnina skipa nú Þorsteinn Þorsteinsson frá Skálpastöðum, Borgafj.sýslu, formaður, Hinrik A. Þórðarson frá Útverkum, Skeiðum Árn., Suðurland, Jóhann Sæmunds- son frá Ási, Daias., Vesturland, Halldór Sigurðsson frá Miðhúsum, S-Múl., Austurland og Vigfús Jóns- son frá Laxamýri, S-Þing., Norður- land.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.