Morgunblaðið - 23.01.1982, Side 31

Morgunblaðið - 23.01.1982, Side 31
MORGUNBLAÐIÐ, LAUGARDAGUR 23. JANÚAR 1982 3 1 og lögðu sig jafnvel í lífshættu til hjálpar, þegar sonarsonur minn lenti í alvarlegu slysi nú á dögun- um, nota ég tækifærið að þakka þeim af öllum huga og biðja þeim allrar blessunar. Gr. Ögm. í dag fer fram útför tengdamóð- ur minnar, Guðríðar Finnboga- dóttur, fyrrum húsfreyju á Bílds- felli í Grafningi. Hún var fædd á Víðilæk í Skriðdal 10. júní 1883, og var því á 99. aldursári er hún lést á Borgarspítalanum eftir þriggja mánaða legu 13. janúar. Foreldrar Guðríðar voru hjónin Ingibjörg Sigurðardóttir og Finnbogi Ólafsson, sem bæði voru Skaftfell- ingar að ætt. Guðríður giftist 5. nóvember 1906, Guðmundi Þorvaldssyni í Geitdal í Skriðdal. Þau hjónin bjuggu fyrst í Geitdal, en brátt kom að því, að landrými í Geitdal var ekki nægilegt fyrir hin ungu og dugmiklu hjón, en stærra jarð- næði ekki fáanlegt þar um slóðir. Þau urðu því að leita út fyrir hið fagra Fljótsdalshérað, þótt ekki væri þeim sársaukalaust að kveðja æskustöðvarnar. Árið 1910 keyptu þau jarðirnar Bíldsfell og Tungu í Grafningi og bjuggu síðan á Bílds- felli með miklum glæsibrag, þar sem snyrtimennsku gætti í hví- vetna bæði utanhúss og innan. Þau hjón eignuðust sjö börn, tvo syni og fimm dætur, og ólust þau upp við mikið ástríki foreldranna og gagnkvæmt, sem marka má af því, að eftir að Guðríður varð ekkja, en mann sinn missti hún 1948, dvaldi hún jafnan skemmri eða lengri tíma hjá flestum barna sinna, og þau höfðu alltaf mikil og náin tengsl við móður sína hvar sem dvalarstaður hennar var. Guðríður átti því láni að fagna, sem ég tel sérstakt um svo háaldr- aða manneskju, að hafa ekki misst neitt af börnum sínum né barna- börnum. Hún hafði því náin kynni af mörgum barnabörnum sínum og síðar langömmubörnum, og hafði hún á þeim mikið dálæti. Þeim voru kynnin bæði til gleði og þroska, enda munu þau ávallt minnast hennar með hlýju og þakklæti. Guðríður var vel greind og hafði alveg einstaklega gott minni, sem entist til síðustu stundar. Hún kunni því ósköpin öll af sögum, ljóðum, þulum og þjóðlegum fróðleik, sem ánægju- legt var á að hlýða. Það eru orðin löng og mikil kynni, sem ég hef haft af tengda- móður minni, fyrst á hennar skemmtilega og gestrisna heimili, og síðast en ekki síst, þau árin, sem hún var á heimili okkar hjóna. Þó aldurinn væri hár í ár- um talið, var hún ung í anda, glað- lynd, sístarfandi og elskuleg í öllu viðmóti. Ég kveð því tengdamóður mína með söknuði og þakka fyrir alla þá ástúð og umhyggju, sem hún sýndi mér og minni fjölskyldu. Blessuð sé minning hennar. Olafur Tómasson í dag verður til moldar borin merkiskonan, tengdamóðir mín, Guðríður Finnbogadóttir fyrrum húsfreyja á Bíldsfelli í Grafningi, sem lézt aðfaranótt hins 13. janú- ar í hárri elli. Hefði hún orðið 99 ára á næsta afmælisdegi sínum. Minningarathöfn verður haidin um hana í dag í kapellunni í Fossvogi, en jarðsett verður hún í heimagrafreit að Bíldsfelli. Guðríður fæddist að Víðilæk í Skriðdal, Norður-Múlasýslu, 10. júní 1883, dóttir hjónanna Ingi- bjargar Sigurðardóttur og Finn- boga Ólafssonar, en þau bjuggu síðar að Borg og Arnhólsstöðum í Skriðdal, og var Guðríður elzt barna þeirra. Hún tifaði léttstíg um holt og móa á uppvaxtarárum sínum í Skriðdal og margar ljúfar endurminningar 4tti hún um hjá- setu yfir kindum uppi á Húshjall- anum, og þar átti hún líka steina- safnið sitt frá bernsku- og æsku- árum — geymt undir mosaþembu. Átján ára gömul sigldi hún suð- ur til Reykjavíkur, sem þá var mikið fyrirtæki fyrir unga stúlku austan af landi. Hóf hún þá nám í Hússtjórnarskólanum í Reykjavík og nam þar öll þau fræði, sem að hússtjorn lutu, og einnig klæð- skeraiðn. Þótti hún tvímælalaust hinn bezti kvenkostur sinnar sveitar, og þess má geta, að hún hafði yndisfagra söngrödd og var oft fengin til að syngja einsöng við sérstök og hátíðleg tækifæri. Hinn 5. nóvember 1906 gekk Guðríður að eiga hinn mikla at- orku- og framsýnismann, Guð- mund Þorvaldsson frá Geitdal í Skriðdal. Þess er vert að minnast, sem fágætt getur talist, að þeir voru þrír, bræðurnir frá Geitdal, sem gengu að eiga þrjár dætur Finn- boga á Arnhólsstöðum. Þeir Guð- mundur, Sigurður og Pétur Þor- valdssynir, áttu Guðríði, Guðnýju og Guðfinnu, Finnbogadætur, fyrir eiginkonur. Man ég ekki eftir að hafa heyrt getið annars staðar slíkrar hjónabands-þrennu, en auðvitað fortek ég það ekki, að slíkt hafi átt sér stað einhvern tíma í sögunni. Þau Guðmundur og Guðríður bjuggu í Geitdal fyrstu tvö árin, en síðan eitt ár á Arnhólsstöðum, áður en þau fluttu hingað suður, árið 1910. Hafði Guðmundur þá fundið sína miklu kostajörð, þegar hann keypti og sameinaði jarðirn- ar Bíldsfell og Tungu í Grafn- ingshreppi, sem telja samanlagt nærri 1400 hektara lands. Strax á öðru búskaparári þeirra á Bíldsfelli, réðist Guðmundur í það stórvirki að stífla bæjarlæk- inn, sem sprettur upp uíPdan tún- inu rétt við íbúðarhúsin. Gerði hann þar uppistöðulón og reisti fyrstu rafstöð á sveitabæ á íslandi — þá næstu á eftir rafstöð Reyk- dals í Hafnarfirði. Smíðaði Guð- mundur sjálfur vatnshjólið, sem sneri rafalnum, af svo miklum hagleik, að það entist um 40 ára skeið. Var rafstöðin á Bíldsfelli í notkun fram yfir 1950, eða þar til rafmagn frá Sogsvirkjun var leitt þangað heim til bæjar. Guðmundur lézt vorið 1948, en Guðríður hélt áfram búskapnum á Bíldsfelli með aðstoð Sigurðar sonar síns. Árið 1950 seldi hún svo sinn hluta jarðanna í hendur Þorvaldi syni sínum, sem hefur búið þar síðan og rekið félagsbú síðustu árin með tveimur sona sinna. Á tíð Guðríður og Guðmundar var ætíð rekið stórbú að Bíldsfelli, og oft voru þar yfir 20 manns í heimili. Má því nærri geta, að starf húsmóðurinnar var mikið og margþætt. Guðríður er enn mörgu fólki minnisstæð sökum þeirrar skaphafnar, sem hún var gædd. Hún var rösk kona til verka og afkastamikil, fremur smávaxin, en sópaði af henni, þegar hún gekk um. Verk sín vann hún hratt, en hljóðlega, og aldrei reyndi hún að vinna sér eigin vegsauka; var það víðs fjarri henni að hugsa um slíkt. Sjaldan sást henni brugðið, þótt í móti blési, og var þó lund hennar viðkvæm og blíð. Vinátta hennar var svo fölskvalaus gagn- vart þeim, sem hún tók tryggð við, að engar yfirsjónir af þeirra hálfu gátu varpáð skugga inn í hlýjan hug hennar. Hún lét sér mjög annt um hag heimilisfólksins og vildi ætíð láta hvern mann njóta sannmælis. Húsakynni á Bíldsfelli voru bæði stór og góð, og heimilið naut mikillar virðingar út á við. Aðeins eitt dæmi um það vil ég nefna sér- staklega. Það mun hafa verið á fjórða áratugnum, að þrjú sumur í röð var beðið um vist fyrir hollenzka háskólastúdenta, pilta og stúlkur, svo að þeir gætu lært íslenzkt mál og kynnzt búskaparháttum á ís- landi. Þetta hollenzka menntafólk tók svo mikla tryggð við húsbænd- urna og heimilisfólkið á Bíldsfelli, að það skrifaðist á í mörg ár á eftir, jafnvel í áratugi. Guðríður stjórnaði sínu stóra heimili af mikilli festu, dugnaði og hagsýni. Á búskapartíð hennar á Bíldsfelli bar allur heimilisbragur vitni um reisn hennar og rausn og þeirra hjóna beggja. Guðríði og Guðmundi varð sjó barna auðið og skulu þau talin hér upp í aldursröð: Þorvaldur er elzt- ur, þá Svanhvít Ljósbjörg, Guð- finna Ingibjörg, Sigurður Pétur, Elísabet Björg, Þóra og yngst er Guðríður Hulda. Öll eru þau á lífi, en Elísabet og Sigurður eru búsett í Kaupmannahöfn. Niðjar þeirra hjóna munu nú alls vera orðnir 70 talsins. Ekki þurfti löng kynni af Guð- ríði til þess að komast að raun um, að þar fór gáfuð kona og stálminn- ug. Hún kunni ógrynnin öll af ljóðum og sálmum, þjóðsögum og ævintýrum alls konar. Á þessum sviðum var hún heill hafsjór af kunnáttu og fróðleik. Þess nutu líka barnabörnin hennar og börn þeirra, hvenær sem hún gat því við komið. Hún kenndi þeim ljóð og sögur, en líklegt þykir mér, að margt af því, sem hún kunni, hafi aldrei verið skráð eða prentað og er leitt til þess að vita. Nú, þegar stund saknaðarins nálgast, eru mér þakkir efst í huga, þakkir tii hennar, fyrir sam- veruna. Við öll, börnin hennar, bæði stór og smá, nær og fjær, þökkum fyrir allar hennar góðu gjafir og fyrirbænir — og allar gleðistundirnar með henni. Góð- um Guði þökkum við fyrir að hafa fengið að hafa hana hjá okkur svona lengi, svona góða og glaða og andlega heilbrigða — allt til hinztu stundar. Hún var gjöful og miðlaði öll- um, sem henni þótti vænt um, af gnægtabrunni óþrjótandi kær- leika. Mér gaf hún sínar dýrustu perlur, það dýrmætasta, sem ég hefi eignast í lífinu. Drottinn var og er hennar hirðir og því mun hana ekkert bresta. Við biðjum þess, að hann leiði hana með sinni náðarríku kærleikshönd um grænar grundir vors og friðar. Hafi hún þökk fyrir allt og allt. Blessun Guðs mun ætíð fylgja minningunni um hana. Sigurður Jónsson Nú hefur Guðríður amma kvatt þennan jarðneska heim. Þennan heim, sem við hrærumst í, í hinu daglega lífi hversdagsleikans. Lífi, sem einkennist af amstri líðandi stundar, oft án meðvitundar eða hugsunar um að hægt sé að gleðja aðra, þó að ekki væri nema með hlýlegum orðum eða brosi til sam- ferðamanna okkar í þessari lífsins dvöl hér á jörðinni. Ég kalla hana ávallt Guðríði ömmu, þó að ekki sé um skyldleika okkar á milli að ræða, enda skiptir það ekki máli. Hún hefur frá því að ég kom í þennan heim ekki get- að verið mér betri, þó að hún hefði verið mín raunverulega amma. Hún sá og vissi hvernig átti að gleðja ungt barnshjarta. Ég minnist þess þegar ég kom í Sigluvoginn til hennar, með for- eldrum mínum, sem barn. Þá fór ég inn til ömmu og var faðmaður og kysstur. Var á einnig gjarnan laumað mola í litla munninn eða þá að manni voru gefnir hlýir, nýprjónaðir sokkar eða vettlingar, sem að vermdu vel í vetrarkuldan- um. Það var alltaf gott að koma til ömmu, finna ástúð og kærleika til barns, sem þótti vænt um ömmu sína. Svo varð drengurinn stór, en ekki breytti það neinu, hann var alltaf sami ömmudrengurinn. Saknar hann þess nú, að geta ekki átt fleiri samverustundir með ömmu sinni, notið hlýjunnar, kærleikans og allra góðu bæn- anna, sem hann fékk í vegarnesti, þegar að kveðjustund kom. Því miður lágu leiðir okkar ekki leng- ur saman en raun varð á. En fyrir þann tíma, sem við systkinin feng- um að njóta hennar og hennar gæða, sem ömmu, þakka ég og bið þess í einlægni, að hún megi njóta þess, sem hún hefur lagt af mörk- um, af öllu hjarta, til að gleðja, hlúa og hjálpa þeim, sem með þess hafa þurft í þessum heimi harð- neskjunnar. Guð fylgi henni ávallt á þeim brautum, sem hún nú hefur lagt út á, blessi hana og varðveiti. Ég þakka henni enn og alltaf fyrir allt. Þorsteinn Erlingsson Minning — Jón Guðni Daníelsson Fyrir rúmum 20 árum fór heim- ilisfólkið á Miðhúsum norður yfir Tröllatunguheiði og var ferðinni heitið að Tröllatungu, en þá bjuggu þar í tvíbýli Ragnheiður Árnadóttir og Daníel Olafsson, svo sonur þeirra, Jón Guðni Daníelsson, og kona hans, Svan- hildur Kjartans. Þetta býli var í hópi mestu menningarheimila landsins og gestrisni að höfðingjasið. Daníel og Ragnheiður bjuggu þá af mikl- um myndarskap með hjálp sona sinna. Börn þeirra hjóna voru: Ólafur, f. 17.7. 1919, sjómaður, d. 27.9. 1974. Oddur Finnbogi, f. 22.8. 1920, búfræðingur, d. 13.10. 1964. Oddur var frábær starfsmaður og góður drengur, en lést fyrir aldur fram. Árni, f. 1.4. 1922. Bjó í Tröllatungu, en er nú verkstjóri á Hólmavík. Jón Guðni, fæddur að Reykhólum 25.4. 1923. Bóndi, fyrst í Tröllatungu en síðar á Ingunn- arstöðum í Geiradal og fluttist á síðastliðnu hausti til Patreks- fjarðar, d. 13.1. 1982. Þórir, f. 25.4. 1923 (tvíburi Jóns) stúdent, fram- kvæmdastjóri Reykjavík. Stefán, f. 24.12. 1926, búfræðingur, bóndi Tröllatungu. Kristrún, f. 8.1. 1929, húsmóðir í Kópavogi. Daníel Ólafsson var fæddur 8.10. 1894, dáinn 23.6. 1976. Hann var hóglátur maður, vel greindur og félagshyggjumaður mikill. Þau hjón komust úr sárri fátækt í það að vera vel bjargálna og reka fyrirmyndarbú að Tröllatungu. Síðustu æviár sín dvaldist hann ásamt konu sinni að Ingunnar- stöðum í góðri umsjá þeirra Jóns og Svanhildar. Ragnheiður Árnadóttir er fædd 25.6. 1890 og var lærð ljósmóðir og vann þau störf með árvekni og snyrtimennsku. Fyrir utan að vera fyrirmyndar húsmóðir á stóru heimili, var hún garðyrkjukona mikil og kom upp stórum trjágarði í Tröllatungu og frá henni hefur dreifst víða svo- lullaður Tunguvíðir, sem hefur reynst mjög vel í skjólbelti. Ef á hverjum bæ væri sá gróðuráhugi, sem var í Tröllatungu, þá væri landið fegurra og gróðureyðing vart til. Ragnheiður dvelst nú á Dvalarheimili Hrafnistu í Reykja- vík. Jón Guðni á Ingunnarstöðum gekk að eiga eftirlifandi konu sína, Svanhildi Kjartans, 27.12. 1951 og börn þeirraeru: Aðalbjörn Þórhallur, búsettur á Bolungavík, Jóhann Hallur, húsgagnasmiður, Reykjavík, Daníel Heiðar búfræð- ingur, bóndi, Ingunnarstöðum, Karólína Guðrún, húsmóðir, Pat- reksfirði, og Bergþór G. nemi í Reykjavík. Áð mörgu leyti var Jón sérstak- ur persónuleiki. Hann var ör í lund, hreinskiptinn, tilfinninga- næmur, gjafmildur og vildi vera gefandi en síður þiggjandi. Að honum hæwdust börn, en það er einkenni á góðu fólki, þegar börn hænast að því og hann var manna hjálpsamastur. Búskap sinn hóf hann í sambýli við foreldra sína að Tröllatungu og stundaði jafnan vinnu hluta af árinu utan heimilisins. í Trölla- tungu bjó hann í 15 ár. Fyrir 15 árum réðust þau hjón af litlum efnum að kaupa jörðina Ingunnarstaði í Geiradalshreppi og bjuggu þar til síðla hausts 1981, en þá fluttust þau til Patreks- fjarðar. Aldrei urðu efni hans mikil og hann vann meðan heilsan leyfði utan heimilis og var um árabil mjólkurbílstjóri á erfiðri leið, því að hann flutti mjólk úr Geiradals- og Reykhólahreppi fyrir Gilsfjörð til Búðardals. Þetta tvöfalda starf reyndi mjög á heilsu hans og fyrir nokkrum árum varð hann fyrir áfalli og gekk aldrei heill til skóg- ar eftir það, en vann öðru hvoru hjá Kaupfélagi Króksfjarðar við smíðar en hann var áhugasamur að hverju verki er hann gekk og ætlaði sér ekki af. Eins og gefur að skilja, lágu leiðir mjólkurframleiðenda og mjólkurbílstjóra mikið saman. Hann var manna stundvísastur og greiðvikinn. Ætíð var hann boðinn og búinn að útvega ýmsar rekstr- arvörur fyrir bændur frá Búðar- dal. Stundum var gustur á Jóni, en aldrei fylgdu orðum hans neinn kali og ég hygg, að bændur og hús- freyjur hafi borið til hans góðan hug. Jón var manna glaðastur í góðra vina hópi. Þegar þau Ingunnarstaðahjón komu til þess að kveðja áður en þau fluttu vestur um miðjan október í haust, en Jón hafði tryggð til byggða beggja vegna Tröllatunguheiðar, og við vorum að rifja upp búskaparsögu hans og ég sagði, að hann ætti eftir að búa á Patreksfirði næstu 15 árin og hann ætti eftir að koma oft hingað í heimsókn. Hann svaraði mér eitthvað á þessa leið: „Ég á ekki eftir að koma hingað aftur.“ Tregi var í rödd hans, svo að breytt var um umræðuefni. Nú er Jón fluttur yfir landa- mærin og yfir þau landamæri verðum við öll að fara. Við, sem þekktum Jón, vitum að í brjósti hans sló hlýtt og viðkvæmt hjarta og við sem trúum á ódauðleika sál- arinnar trúum því, að hann hafi átt góða heimkomu. Við hér á Miðhúsum sendum konu hans og börnum, systkinum hans og aldraðri móður samúð- arkveðjur okkar. Minningin um sérstæðan mann lifir meðal allra sem þekktu hann. Sveinn Guðmundsson

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.