Morgunblaðið - 30.05.1982, Blaðsíða 15

Morgunblaðið - 30.05.1982, Blaðsíða 15
MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 30. MAÍ 1982 15 Biskup vígir fjóra presta á morgun Prestsefnin eru hér samankomin i biskupsstofu ásamt hr. Pétri Sigurgeirssyni. Frá vinstri: Rúnar Þór Egilsson, Þorbjörn Hlynur Árnason, hr. Pétur Sigurgeirsson, Ólafur Jóhannsson og Jón Ragnarsson. Ljósm. Cuðjón. Jón Ragnarsson: Þyrftum að geta starfað fyrst sem aðstoðar- prestar — Þetta ár frá því ég útskrifað- ist hef ég unnið ýmsa vinnu, en í vor ákvað ég að sækja um embætti farprests þjóðkirkjunnar, þar sem mér fannst það betur henta mér en að binda mig í föstu starfi fyrir einhvern ákveðinn söfnuð, sagði Jón Ragnarsson er Mbl. ræddi við hann. Jón varð stúdent frá Menntaskólanum við Tjörnina 1973 og útskrifaðist úr guðfræði- deild fyrir ári síðan. — Mér fannst rétt að reyna mig í prestsstarfinu. Prestur sem kjör- inn er til starfa í ákveðinni sókn tekur á sig skyldur sem ég vildi síður ráðast í án þess að hafa afl- að mér reynslu með öðrum hætti og tel ég það ákjósanlegt með þessu, að gerast farprestur. Og hvers konar störf koma í hlut farprestsins? — Hann á að vera tiltækur til afleysinga ef prestar þurfa að fara í orlof vegna veikinda eða sækja um sérstakt frí. Biskup ráðstafar því hvar farprestur á að starfa, en mikið er um að prestar leiti til hans með þá ósk að farprestur leysi þá af um tíma. Fyrsta verkefni mitt verður að leysa sr. Ólaf Skúiason dómpróf- ast af í Bústaðasókn í Reykjavík, en hann verður í fríi í sumar. Tek ég við því starfi 1. júlí og gegni því í tvo mánuði. Ekki er ráðið hvað þá tekur við. Enginn vafi er á að þörf er á fleiri prestum til afleys- inga, bæði úti á landi og í Reykja- vík þar sem prestaköllin eru fjöl- mennust. En eru alltaf næg verkefni fyrir nýja presta? — Um þessar mundir útskrif- ast nokkru fleiri en störfin eru sem losna. En kirkjan er í dag undirmönnuð miðað við stærð safnaða. í Reykjavík er t.d. knýj- andi þörf á fleiri prestum, en guð- fræðinámið veitir svo til eingöngu rétt til prestsstarfa. Annað sem ég tel að gera þurfi er að auka þjálf- un í náminu. Menn þyrftu að geta reynt sig í starfi og í nágranna- löndum tíðkast það að guðfræði- nemar starfi um hríð í söfnuði. Hér þyrfti því að gera fleirum kleift að starfa sem aðstoðarprest- ar um tíma, rétt eins og iæknar og lögfræðingar verða að sýna hæfni sína í starfi áður en þeir fá leyfi til framtíðarstarfa sinna. En hér þarf fjárveitingu til. Ólafur Jóhannsson: Spennandi að taka við starfi sem skólaprestur — Ég fór í guðfræðideildina með mjög opnum huga fyrir því hvað tæki við að náminu loknu, en lengi hafði ég hugsað mér að fara í guðfræðina. Það gat verið prestsstarf, kennsla eða kristni- boð, en nú hef ég tekið að mér starf skólaprests, sem ráðinn er af Kristilegu skólahreyfingunni. Inn- an hennar eru Kristileg skóla- samtök og Kristilegt stúdentafé- lag, sagði Ólafur Jóhannsson. Hver er ástæða þess að þú ræðst til starfa sem skólaprestur? — Stjórn Kristilegu skóla- hreyfingarinnar kallar mig til þessa starfs og get ég kannski lítið fjallað um ástæður, stjórnin hafði allt frumkvæði að því. Hins vegar má segja að ég hafi verið viðloð- andi kristilegt starf frá barnæsku. Ég tók þátt í starfi KFUM, síðar KSS og KSF, sat m.a. í stjórn þeirra og þekki orðið starfið af eigin raun nokkuð vel. Mér finnst mjög spennandi að fá að taka við þessu starfi og þarna verður glímt við mörg áhugaverð verkefni Hvenær hófst starf skólaprests? — Skólaprestur var fyrst ráð- inn árið 1974 og kostnað við starf hans báru KSS og KSF. Síðar var stofnuð landshreyfing, Kristilega skólahreyfingin, KSH, og verði stofnuð fleiri félög víðar á landinu á sama grundvelli og KSS og KSF geta þau sótt um aðild að KSH. Öll ábyrgð og fjármögnun starfs- ins er af hálfu KSH. Starf skóla- prests er algjörlega sjálfstætt, en er innan þjóðkirkjunnar eins og þau félög, er að því standa. Sr. Jón Dalbú Hróbjartsson gegndi starf- inu fyrstur, síðan sr. Gísli Jónas- son og er ég sá þriðji. Hvert er verksvið skólaprests? — Ég er ráðinn af þessum fyrrgreindu félögum og kemur í minn hlut að annast fram- kvæmdastjórn þeirra. Felur það í sér yfirumsjón með starfi þeirra og ábyrgð í samvinnu við stjórnir þeirra. Meðal verkefna má nefna stjórn biblíuleshópa eða samfé- lagshópa, sem starfa á vegum fé- laganna í flestum framhaldsskól- um borgarinnar og meðal stúd- enta, þátttaka í fundum félaganna og öðru því sem nauðsyn krefur. Ytra starf verður m.a. fólgið í því að heimsækja hópa og æskulýðsfé- lög úti á landi, sem verið hafa í sambandi við KSH, einnig skóla í Reykjavík og nágrenni. Skóla- prestur hefur jafnan messað ým- ist í tengslum við skólaheimsóknir sínar eða haft fastan aðgang t.d. að einhverri kirkju í Reykjavík. Ekki hefur þó verið ákveðið hvaða háttur verður á því hjá mér. Þá má nefna samband við er- lendar systurhreyfingar. Félögin hér hafa í allmörg ár haft mikið samstarf við hliðstæð félög á Norðurlöndum og frá 1972 hefur fólk héðan t.d. sótt norræn kristi- leg stúdentamót og skólamót, sem haldin eru árlega til skiptis á Norðurlöndunum og verður svo einnig í ár. Stúdentamótið var síð- ast haldið hérlendis árið 1975 og skólamótið 1980. Er ótvíræð þörf fyrir skóla- prest? — Já, unglingsárin eru um- brotatímar og þá vakna margvís- legar trúarlegar spurningar. Margir telja kristnina afgreitt mál með fermingunni og það veitir ekki af að hrista upp í fólki og efla kristileg áhrif. Einhver sérstök verkefni á óskalistanum til að byrja með? — Ekki annað en að halda áfram starfinu sem þessi félög hafa sinnt í áratugi, en kjörorð KSS eru Skólaæskan fyrir Krist. Ég vona því að nemendur verði varir við eitthvert átak af hálfu þessara félaga í haust. En hvað er á dagskrá í sumar? — í sumar mun KSS halda vikulega fundi á þriðjudögum og KSF á miðvikudögum, einnig ferðalög o.fl., en segja má að á sumrin sé starf félaganna í lág- marki. Strax í haust bætast við leshóparnir, sem ég gat um áðan, og reynt er að finna ýmsar leiðir til að vekja athygli á boðskap kristninnar og koma honum á framfæri meðal nemenda með ýmsu móti, en félög þessi hafa t.d. nokkra blaðaútgáfu á sinni könnu. Enn má nefna að skólaprestur hefur jafnan haft viðtalstíma í viku hverri og geri ég ráð fyrir að vera til viðtals á skrifstofu félag- anna þriðjudaga og miðvikudaga kl. 18—20. Þangað geta menn leit- að með spurningar um atriði kristinnar trúar og vandamál trú- arlegs eðlis eða til að ræða hvað- eina er viðkemur starfinu. Þorbjörn Hlynur Arnason: Akjósanlegt prestakall til að hefja starfið í — Ég tók mér nokkurn tíma eftir stúdentsprófið til að hugsa málið, vann t.d. við kennslu og gæslustörf á Kleppi, en eftir tveggja ára hlé frá námi fór ég í guðfræðideild og vissi þá að þetta var það sem átti best við mig, guð- fræðin var mér áhugaefni og nú er hún í senn áhugaefni og starf, sagði Þorbjörn Hlynur Arnason, sem frá 1. júní tekur við starfi sóknarprests í Borgarprestakalli á Mýrum, en til þess var hann kjör- inn 28. mars sl. — Guðfræðin er afskaplega skemmtileg fræðigrein og í nám- inu hér fá menn innsýn í alla þætti hennar, en því eru þá kannski takmörk sett hversu djúpt menn geta kafað í hina ein- stöku þætti greinarinnar. Ein ástæða þess að ég fór í framhalds- nám var sú að ég vildi vinna meira á sérsviði mínu, 19. og 20. aldar guðfræði, sagði Þorbjörn Hlynur ennfremur, en í tvo vetur eftir námið hefur hann stundað fram- haldsnám við Vanderbilt-háskól- ann í Bandaríkjunum, en hann út- skrifaðist frá guðfræðideild vorið 1980. Hvernig telur þú þig undirbúinn til prestsstarfa eftir námið? — Það er kannski ekki gott að segja, en námið er margþætt, en vissulega er ekki hægt að læra allt sem viðkemur starfi prestsins fyrirfram. Það er nám í sjálfu sér að hefja starfið, læra að ná tökum á því og segja má að í mér sé bæði tilhlökkun og kvíði, eins og fylgir flestum hlutum sem krefjast nokkurs af mönnum. Borgarprestakalli tilheyra 5 sóknir: Borgarsókn, Borgarnes- sókn, Álftártungusókn, Álftanes- sókn og Akrasókn og eru nálægt 2.000 manns í prestakallinu. — Þetta prestakall er að mínu mati ákjósaleg stórt fyrir prest sem er að hefja starf sitt, hæfilega fjölmennt til að nóg sé af verkefn- um, en ekki of stórt til að ekki sé hægt að kynnast fólkinu. En ég ólst upp þarna í nagrenninu, faðir minn var prestur í Söðulsholti og ég þekki því nokkuð til sveitarinn- ar og í aðdraganda kosninganna kynntist ég þarna mörgu safnað- arfólki, en prestskosningar eru sérkennilegasta lífsreynsla sem ég hef komist í. Þorbjörn Hlynur Árnason er kvæntur Önnu Guðmundsdóttur. Rúnar Þór Egilsson: Hlakka til að takast á við þetta verkefni — Það er kannski erfitt að segja hvers vegna, en áhuginn hef- ur sennilega vaknað við kynni mín sem barn og unglingur af kristi- legu starfi. Síðan hefur hvað leitt af öðru, ég velti ýmsum möguleik- um fyrir mér og fann að guðfræð- in átti best við mig, sagði Rúnar Þór Egilsson sem vígðist til prestsþjónustu í Mosfellspresta- kalli þegar hann var spurður um ástæðu þess að hann hóf guð- fræðinám. Rúnar Egilsson varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1972 og guðfræðiprófi lauk hann vorið 1981. Siðasta vetur kenndi hann við lýðháskólann í Skálholti. En hvernig fannst honum að nema guðfræði? — Námið var að sumu leyti svipað því sem ég átti von á, en þetta er fjölþætt og yfirgripsmikið nám og tók einnig til sviða sem ég átti ekki von á að tilheyrðu því. Stefndirðu alltaf að prestsskap? — Já, ég stefndi að því með þessu námi, ekki síst eftir að ég fór að finna að þarna átti ég heima. Guðfræðinemar fá nú orðið nokkuð góða hagnýta þjálfun í námi sínu og hefur það komið í hlut sr. Bjarna Sigurðssonar að skipuleggja þann þátt. Auðvitað mætti kannski taka enn fleiri þætti til þjálfunar, kannski helst að fá að starfa meira með prestun- um sjálfum, t.d. sem sumarstarf. Nokkru fé er veitt til þess núna en færri guðfræðinemar en vilja komast í það starf. Sem sérsvið valdi ég kenni- mannlega guðfræði og þá sérstak- lega sálgæslu og hlaut ég því sér- staka þjálfun í henni. í stuttu máli fer hún þannig fram að ég sótti undirbúningstíma og síðan störf- uðum við skipulega meðal fólks á Hrafnistu. Höfðum við þar reglu- legt samband við 10 manns sem við heimsóttum vikulega í eitt misseri og ræddum við og síðar var ég um tíma á geðdeild Land- spítalans þar sem geðlæknir leið- beindi. Hvernig leggst í þig að hefja nú starf? — Mér líst mjög vel á það og ég hlakka til að takast á við þetta verkefni. Ég er búinn að heim- sækja flest heimili í prestakallinu, en helsti gallinn er kannski sá að fyrst þarf að koma upp nýju hús- næði á Mosfelli þar sem prestsbú- staðurinn að Mosfelli er ekki íbúð- arhæfur lengur. Við höfum íbúð í Skálholti fyrstu vikurnar, en hvað tekur þá við er ekki gott að segja. Í Mosfellsprestakalli eru fimm sóknir: Mosfell, Miðdalur, Stóra- Borg, Búrfell og Úlfljótsvatn og Rúnar er spurður hvort einhver sérstök ástæða sé fyrir því að Mosfell varð fyrir valinu: — Nýútskrifaðir guðfræðingar hafa e.t.v. ekki um mörg presta- köll að velja að námi loknu, en hins vegar er nokkur hreyfing á prestum um þessar mundir. Ég þekki nokkuð til í Grafningi og Tungunum og kann vel við mig þar. Ef til vill heillaði Mosfell mig þess vegna. Þarna verður trúlega nóg að gera, fyrst við að setja sig inn í aðstæður í prestakallinu og síðan að starfa og er það tilhlökk- unarefni, en um leið fylgir því mikil ábyrgða. Rúnar Þ. Egilsson er kvæntur Svanhildi Margréti Bergsdóttur.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.