Morgunblaðið - 27.03.1984, Blaðsíða 38

Morgunblaðið - 27.03.1984, Blaðsíða 38
38 MORGUNBLAÐIÐ, ÞRIÐJUDAGUR 27. MARZ 1984 Gísli Ólafsson lœknir - Fæddur 20. júlí 1918. Dáinn 17. marz 1984. Úti í Örfirisey, á sjávarkletti við suðvesturhorn eyjarinnar, er höggvin eftirfarandi áletrun: MEMENTO MORI - MINNSTU DAUÐANS. Enginn veit hver þessa áletrun gerði, en öruggt er að hún er meira en aldar gömul. Fyrir nálega hálfri öld fórum við Gísli Ólafsson ásamt fleiri skólapiltum úr Menntaskólanum gagngert til að leita að þessari áletrun og fundum. Tilefnið var það að rektor Menntaskólans, Pálmi Hannesson, hafði lagt út af þessari setningu við skólaslit nokkru áður og eftir hans frásögn fórum við að leita staðarins. í ræðu sinni dró Pálmi það fram hversu allt er eyðingunni háð, að þarna hafði verið stærsti kaup- staður landsins, en þess sáust eng- in merki lengur. Sjórinn hafði brotið niður verulegan hluta eyj- arinnar og verzlunarhús voru löngu horfin. Ekkert var eftir, sem minnti á forna frægð staðarins, nema vallgrónar hestagötur á Arnarhóli frá horni Hverfisgötu og Ingólfsstrætis, skáhallt niður á Kalkofnsveginn að lækjarósum, en sú leið var farin ofan úr Skóla- vörðuholtinu þegar hestamenn lögðu leið sína í kaupstaðinn. Enn- þá markar fyrir þessum gömlu hestagötum í Arnarhólstúninu, sem gróinni hvilft eða laut ská- hallt niður túnið. Þetta löngu liðna atvik rifjaðist upp fyrir mér, þegar ég laugar- daginn 17. þessa mánaðar frétti andlát míns gamla bekkjarbróður og vinar, Gísla ólafssonar. Við, sem í gleði æskunnar leituðum uppi þessa fornu áletrun, hugsuð- um áreiðanlega ekki þá um hina alvarlegu áminningu þessara orða: „Minnstu dauðans." Gísli Ólafsson var fæddur í Reykjavík 20. júlí 1918, sonur Ólafs Gíslasonar, stórkaupmanns, og eiginkonu hans, Ágústu Þor- steinsdóttur. Eftirlifandi eigin- kona hans er Erla Haraldsdóttir, Árnasonar kaupmanns í Reykja- vík og eiga þau þrjú börn, Arndísi, Hildi og Ólaf Ágúst, sem öll eru uppkomin. Gísli settist í 4. bekk Mennta- skólans í Reykjavík haustið 1935, og urðum við þá bekkjarbræður og lukum saman stúdentsprófi úr máladeild vorið 1938. Það þótti nýnæmi á þeirri tíð, að í þessum bekk sátu 19 stúlkur en aðeins 6 piltar. Ég hygg að aldrei hafi verið fleiri en 3—4 stúlkur í sömu bekkjardeild, fyrr en þetta ár. Vorum við bekkjarfélagarnir öf- undaðir af skólapiltunum af að sitja daglega á skólabekk með svo stórum og fríðum kvennahópi. Ég hafði þekkt Gísla allvel áður en við settumst saman í 4. bekk Menntaskólans, því við áttum báð- ir heima við Hólatorgið. Eftir að við urðum bekkjarbræður áttum við síðan samleið í og úr skóla, og tókst fljótt góð vinátta með okkur. Við lásum saman a.m.k. annað slagið og hittumst oft, bæði við íþróttaiðkanir og á g’eðistundum svo sem við dansæfingar og skóla- böll, en þá héldum við þrír bekkj- arbræður yfirleitt hópinn. Vinátta okkar hélst meðan báðir lifðu, þó samgangur okkar væri ekki ýkja mikill eftir að út í lífið kom, enda skildu leiðir, er hann fór til fram- haldsnáms erlendis og síðan til starfa víða um land. Gísli var mörgum kostum bú- inn. Hann var námsmaður í betra lagi, lauk stúdentsprófi með 1. ein- kunn. Hann var laglegur maður, vel meðalmaður á hæð og sér- staklega karlmannlegur og vel vaxinn, enda landskunnur íþrótta- maður. Um langt skeið var hann einn bezti skíðamaður Reykvík- inga og golfmeistari íslands varð hann nokkrum sinnum, ef ég man rétt strax á Menntaskólaárunum. hann var í úrvalsliði Menntaskól- Minning ans í handbolta, sem fór ósigrað úr öllum kappleikjum milli skóla- og íþróttafélaga á þeim árum. Mun Valdimar heitinn Svein- björnsson, íþróttakennari, hafa innleitt þessa íþróttagrein um eða fyrir 1930, sem nú er orðin keppn- isgrein á Ólympíuleikunum. Gísli var í þeirri grein framúrskarandi sakir lipurðar og styrkleika, sem og í öðrum íþróttagreinum. Margs er að minnast frá þessum æskuárum, sem við skólafélagarn- ir rifjum upp á bekkjarmótum, en ekki verður rakið á þessum vett- vangi. Einn var þó sá atburður, sem aldrei mun líða úr minni þeim sem þátt tóku í, en það var svonefnd 5. bekkjar ferð vorið 1937. í þeirri ferð var Gísli og hlaut að sjálfsögðu virðingar- stöðu, sem margir öfunduðu hann af, en hann var skipaður þjónn fararstjórans, Pálma Hannesson- ar, rektors. Var öllum uppálagt að slíkum manni yrði að sýna til- hlýðilega virðingu. t þessari ferð komst allur hópurinn út í Drang- ey. Þangað munu ekki margir utanhéraðsmenn hafa komið á þeim árum. Eftir stúdentspróf innritaðist Gísli í Læknadeild Háskóla ís- lands og útskrifaðist þaðan sem cand. med. í janúarmánuði 1946. Hann hélt síðan til framhalds- náms til Bandaríkjanna og dvald- ist þar um alllangt skeið við fram- haldsnám, og starfaði sem aðstoð- arlæknir á fæðingardeild Land- spítalans á árunum 1949 til 1951. Hann hélt aftur utan til frekara framhaldsnáms, nú til Englands og Noregs, og fékk viðurkenningu sem sérfræðingur í kvensjúkdóm- um og fæðingarhjálp í október- mánuði 1952. Hann starfaði síðar sem læknir í fleiri en einu héraði úti á landi og nú síðustu árin við Landspítalann. Það nálgast nú óðum, að hálf öld sé liðin frá því að rösklega 40 nemendur útskrifuðust sem stúd- entar frá Menntaskólanum í Reykjavik. Af þeim hópi er fjórð- ungurinn látinn. Gísli er þeirra síðastur. Góður drengur er horf- inn úr hópnum fyrir aldur fram. Ég veit ég mæli fyrir munn allra bekkjarsystkinanna þegar ég leyfi mér hér að senda eiginkonu, börnum og öðrum ástvinum Gísla innilegar samúðarkveðjur. Guðmundur Pétursson Föðurbróðir minn og vinur, Gísli ólafsson læknir, er allur og er mér sem og öðrum sem honum kynntust harmdauði. Ég minnist þess hversu gott og lærdómsríkt var að ræða við hann um allt milli himins og jarðar, einkanlega er við undum okkur við golfleik sam- an, einir og ótruflaðir. Gísli hafði einarðlegar skoðanir og viðhorf, þó svo að ekki væri þeim flíkað eða þær á torg bornar. Hann var nokkuð dulur í skapi og seintekinn eins og hann átti kyn til, en þeir sem nutu þeirra forréttinda að kynnast honum, komust fljótlega að raun um það að í hjarta sínu átti hann fjársjóð sem hann miðl- aði af höfðingsskap enda er mér kunnugt um að andleg og mannleg verðmæti skipuðu öndvegi í lífs- skoðun hans og lífshlaupi öllu. Stundum verður þú þeirrar gæfu aðnjótandi að eiga samskipti við fólk sem hefur ráð á því og er þess reiðubúið að gefa af sjálfu sér og gerir með því sjálfan þig að betri manni. Slíkum mönnum er gott að kynnast, slíkir menn lifa með okkur áfram. Hann Gísli var karlmenni í lund, prúðmenni svo af bar, vel gefinn og slíkt glæsi- menni í sjón og allri framgöngu, að til þess var sérstaklega tekið. En fyrst og síðast reyndi ég Gísla frænda minn af drengskap og hann flýgur strax í huga minn er ég heyri hina fornu og fallegu mannlýsingu: „hann var drengur góður". Þannig kom hann mér fyrir sjónir og síst er það oflof enda ekki hvarflað að mér að setja á blað nema vegna þess að ég hefi reynt mannkosti frænda míns. Auðvitað var hann mannlegur og hafði sína kosti og ókosti, rétt eins og við hin. Það sem einn hefur annan skortir. Gísli var íþróttamaður góður og hann var einn þeirra manna er heilluðust af golfíþróttinni og slíkum tökum náði hann i íþrótt sinni að fáum eða engum tjóaði að etja kappi við hann er hann var upp á sitt besta. Of langt mál væri að telja upp frækilega golfsigra hans en þó skal þess getið að hann varð fyrsti golfmeistari Íslands 1942 og íslandsmeistari varð hann einnig 1943 og 1944. Golfið hefur stundum verið kennt við heið- ursmenn og sé sú kenning rétt, þarf engan að undra hversu hug- fanginn Gísli var af þessari íþróttagrein sem hann hélt tryggð við allt til dauðadags. Við fráfall hans hefur hin íslenska golfhreyf- ing misst einn af sínum mætustu sonum. Ekki mun ég tíunda ætterni eða starfsferil Gísla ólafssonar, aðrir munu sjálfsagt verða til þess, en mér er sérstaklega ljúft að geta þess að í einkalífi sínu var hann gæfumaður. Hann fann sína perlu er hann giftist Erlu Haralds- dóttur og eignuðust þau Gísli og Erla þrjú börn sem öll eru upp- komin, Arndísi, Hildi og Ólaf Ág- úst. Þar hefur sannast að eplið fellur sjaldnast langt frá eikinni því öll hafa þau í ríkum mæli erft mannkosti foreldra sinna. Allir þenkjandi menn komast vart hjá því að hugsa um dauðann, þennan mikilfenglega leyndardóm sem okkur er svo nákominn. Hvað tekur við er hjartað hættir að bærast? Svar við þessari spurn- ingu hefur hver fyrir sig. En spyrja má einnig, hver er tilgang- urinn og hvers virði er gengi þessa skammvinna lífs, ef öllu er lokið við dauðann? Og það er til um- hugsunar að dauðabeigurinn sem mönnum virðist vera eðlilegur, jafnvel eðlislægur á fyrri hluta æviskeiðsins, virðist hverfa með vaxandi þroska. Með þessum fábrotnu línum vil ég leitast við að þakka frænda mínum tryggð og vináttu sem staðið hefur í hartnær 40 ár. Fyrir hönd fjölskyldu minnar votta ég Erlu, börnunum, barnabörnunum og öðrum ástvinum Gísla mína innilegustu hluttekningu og bless- unar Guðs, og ég veit að þau munu geyma og rækta með sér minning- una — minninguna um góðan dreng. ÓI.Ág.Þ. Gísli Ólafsson læknir varð bráð- kvaddur á heimili sínu hér í borg aðfaranótt laugardagsins 17. þ.m. Með honum er genginn drengur góður, vinur, sem mörgum er harmdauði.' í félagsskap Gísla átti ég marg- ar ánægjustundir á golfvellinum undanfarin ár og hlakkaði því mjög til sumarsins. Nú eru golf- spilarar að huga að kylfum sínum og öðrum búnaði og að sjálfsögðu höfðum við tekið til höndum við undirbúning enda dagana óðum að lengja. En margt fer á annan veg en við ætlum, snögglega er lífs- þráður slitinn og félaginn góði horfinn. Gísli var um tugi ára einn snjallasti golfspilari landsins, mörgum sinnum fslandsmeistari og enda þótt árin færðust yfir sýndist hann litlu hafa glatað af kunnáttu sinni og snilli. Enn var hann aðsópsmikill á vellinum og var betra að taka tillit til hans á hverju móti sem hann tók þátt í, enda vann hann oftast til verð- launa. Margan góðan grip hafði hann fengið í verðlaun um dagana og var vel að þeim kominn. Hógværð og kurteisi á leikvelli jafnt sem utan var áberandi í fari Gísla. Sú prúðmennska og háttvísi sem hann auðsýndi öllum var hon- um eðlislæg. Sást það best þegar högg meðspilara geigaði en þá er ekki venja að orð sé haft á slíku nema sá hinn sami óski eftir áliti meðleikara á óhappinu. Þegar Gísli var nærstaddur nægði að líta til hans með spurningarsvip á andliti og stóð þá ekki á svari. Ljúflega og með bros á vör, kannske vonbrigðaglampa í aug- um skýrði í hverju villan var fólg- in. Það er happ að hafa átt hann sem vin og leiðbeinanda. Mikið ber því að þakka nú að leiðarlokum. Eins og Gísli gaf okkur góð ráð á leikvelli mun hann í læknisstörf- um sinum hafa verið sama hjálp- arhellan. Um það ber vott fjöl- mörg ummæli sjúklinga sem hann stundaði. Þessum fátæklegu kveðjuorðum fylgir að lokum kveðja frá félög- um í Golfklúbbi Reykjavíkur með þakklæti fyrir stórt og mikið framlag hans til eflingar golf- íþróttinni hérlendis. Eftirlifandi konu hans, Erlu Haraldsdóttur, börnum og barna- börnum sendum við, kona mín og ég, innilegar samúðarkveðjur. Runólfur Sæmundsson Árið 1932 settist hópur ung- menna í 1. bekk Gagnfræðaskóla Reykvíkinga. í þeim hópi var Gísli Ólafsson, sem kvaddur er í dag. Næstu 7 árin vorum við bekkjar- systkin. Hann var fæddur í Reykjavík 20. júlí 1918. Sonur hjónanna Ágústu Þorsteinsdóttur og Ólafs Gíslasonar, stórkaup- manns, sem bæði voru þekktir borgarar í Reykjavík. Voru börn þeirra fimm, Ragnheiður, Þor- steinn, Gísli, Ásta og ólafur. Þor- steinn bróðir Gísla lést á besta aldri fyrir allmörgum árum. Heimilið var rausnarheimili og var okkur skólasystkinunum tekið þar opnum örmum, bæði að Sól- vallagötu 6 og eins á nr. 8, þar sem Ólafur reisti síðar hús með myndarbrag. Að loknu gagnfræðaprófi var hafið nám við Menntaskólann f Reykjavik. Við settumst bæði í máladeild og þóttu það tíðindi, að þar stunduðu þá nám 19 stúlkur, en aðeins 6 piltar, en engin stúlka var þá i stærðfræðideild. Stúd- entsprófi lauk Gísli 1938. Oft er sagt, að skólaárin séu skemmtileg- asti tíminn á ævi manns, og víst er að margar góðar minningar eru við þau bundnar. Hver var frækn- astur íþróttamanna? Hver var skíðakappinn, sem kenndi skóla- systkinunum plóg og Kristjaníu- sveiflu, svo að þau færu sér ekki að voða, þegar brunað var ofan brekkurnar beint af augum? Hver lék unga elskhuga í skólaleikjun- um, þannig að hjörtu ungmeyj- anna tóku að slá hraðar? Hver þakkaði með ræðu fyrir móttökur á Sauðárkróki í fimmtubekkjar- ferðinni? Það var hann Gísli. Gísli fór í Háskólann og lauk þar kandidatsprófi í læknisfræði árið 1946. Seinna stundaði hann framhaldsnám erlendis og varð sérfræðingur í fæðingarhjálp og kvensjúkdómum. Þann 5. maí 1945 kvæntist hann eftirlifandi konu sinni, Erlu Haraldsdóttur, kaup- manns í Reykjavík. Það taldi Gísli mestu gæfu sina, enda var 5. maí ávallt hátíðisdagur í lífi hans ásamt 8. janúar, sem er afmælis- dagur Erlu. Þau höfðu gefið hvort öðru hýrt auga í gagnfræðaskóla, en hún var þar skólasystir hans. Hún fór með Gísla, þegar hann fór til náms í Bandaríkjunum og þar fæddist fyrsta barn þeirra, Arn- dís. Eftir heimkomuna eignuðust þau Hildi og Ólaf. Elskuleg börn, sem hafa eignast maka og heimili. Barnabörnin eru fimm. Var ein- staklega ástúðlegt samband milli barna, tengdabarna, barnabarn- anna og Erlu og Gísla. Gísli var myndarlegur á velli og hélt reisn sinni fram á síðasta dag. Hann hafði í fyrrasumar kennt þess sjúkdóms, sem varð honum að aldurtila, en ekki datt manni í hug, að svo skammt yrði til æviloka. Að eðlisfari var Gísli dulur og viðkvæmur í senn, en gat verið kátastur allra á gleðistund. Barngóður var hann með afbrigð- um. Oft settist hann við píanóið og lék af fingrum fram. Hann var einlægur trúmaður, samdi bænir, sem hann fór með fyrir börn sín og barnabörn, afabænirnar. Einn- ig var hann vel hagmæltur, en flíkaöi því lítt. Síðustu árin starfaði hann á Röntgendeild Landspítalans og átti þar góða starfsfélaga. Þann 8. janúar ár hvert hefur verið hátíð í bæ hjá Erlu og Gísla, er ættingjum og vinum var boðið til fagnaðar. Nú hefur Gísli kvatt okkur. Við vinir hans eigum ekki lengur von á, að hann taki á móti okkur með glettni í augum, út- breiddan faðm og þrýsti vinar- kossi á vanga. Blessuð sé minning hans. Sigfríöur Nieljohníusdóttir. Vinur minn, Gísli ólafsson, varð bráðkvaddur aðfaranótt laugardagsins 17. mars sl. Sem góður læknir var hann ávallt fljót- ur til að sinna kalli sjúklings, hvort heldur sem ungur læknir í héraði eða síðar, sem sérfræðing- ur i kvensjúkdómum og fæð- ingarhjálp. Kemur það þá okkur á óvart, hve fljótt hann brá við hinu æðsta kalli, kallinu, sem hvert okkar á von á að fá? — Vissulega kemur það okkur oftast á óvart er góður vinur fellur frá og einnig finnst okkur það alltaf alltof fljótt. Þannig var það með vin minn Gísla. — Auðvitað vissi ég að hann fékk hjartaáfall á sl. ári, en það var liðið hjá að ég hélt, en maðurinn með ljáinn, hann vissi betur og lá í leyni. — J)kkur kristnu fólki er sagt að við munum lifa þó við deyjum, því vil ég trúa að Gísli lifi. Hann var fæddur 20. júlí 1918, sonur hjónanna Ágústu Þor- steinsdóttur, bakara í Reykjavík Jónssonar og Ólafs Ágústs Gísla- sonar stórkaupmanns hér í borg. Þau eru bæði látin. Stúdent varð Gísli 16. júní 1938 og cand. med. árið 1946. Framhaldsnám stund- aði Gísli í Bandríkjunum, Bret- landi og Noregi. Almennt lækn- ingaleyfi fékk hann árið 1949, og árið 1952 varð hann sérfræðingur í kvensjúkdómum og fæðingar- hjálp. Gísli var góður læknir og vinsæll og í starfi komu vel fram eðliskostir hans, greind, skarp- skyggni, lagni og ekki hvað síst ljúfmannlegt viðmót. Þar sem allt þetta fór saman stuðlaði það að trausti sjúklings á lækni sínum, sem er svo mikilvægt. Á yngri árum og fram eftir aldri stundaði hann mikið íþróttir, sérstaklega voru það skíðaíþrótt- in, golf og sund, sem hrifu hann. Hann var fyrsti íslandsmeistari í bruni, en það var árið 1943 og fyrsti íslandsmeistari í golfi og fs- landsmeistari var hann í 3 ár, árin 1942—’44. Reykjavíkurmeistari í golfi var hann 5 ár í röð. Hæfileikar Gísla voru marg- þættir og gæti ég margt um þá sagt en minnugur þess, að hann var maður hlédrægur og ekki fyrir að hreykja sér, læt ég hér staðar numið. Lán Gísla var mikið er hann kvæntist 5. maí árið 1945 sinni ágætu konu, Erlu Haraldsdóttur, kaupmanns í Reykjavík Árnason- ar. Þeirra yndislega heimili hefur lengst af verið að Miðtúni 90 hér í borg og minnast ábyggilega marg- ir ánægjustunda hjá þeim hjónum og börnum þeirra. Erla og Gísli eignuðust þrjú elskuleg börn, þau Árndísi, Hildi og Ólaf Ágúst, sem nú eru öll gift og búsett í Reykjavík. Samhentari og elskulegri fjölskyldu en þessari höfum við Erla kona mín ekki þekkt og fyrir að eiga vináttu hennar erum við þakklát. Dýpstu samúð sendum við hjón- in vinum okkar og biðjum Guð að styrkja þá á sorgarstundu. Skúli Þórðarson

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.