Morgunblaðið - 19.06.1993, Page 31

Morgunblaðið - 19.06.1993, Page 31
arhorni. Þannig tókst henni að víkka sjóndeildarhring annarra og varpa fersku ljósi á mál í kyrrstöðu eða klemmu og stuðla að frekari umræðum eða farsælum lausnum. Hún hafði mjög sterka réttlætis- kennd sem stýrði orðum hennar og gerðum þrátt fyrir mótbyr og and- stæðar skoðanir annarra. Hún ýfði oft og ögraði, einkum þeim sem voru farnir að rykfalla, en hún var sanngjörn og mjög málefnaleg í umræðum og gat verið á öðru máli en viðmælandi án þess að Iáta það lita samskipti sín. Malla var lífsglöð og hafði ríka kímnigáfu. Hún átti létt með að setja saman bitastæða og skemmtilega frásögn og þessir hæfileikar hennar ásamt fjórri hugsun leiddu til þess að hún var oft beðin um að halda erindi á ýmsum tímamótum, nú síðast í mars á 10 ára afmælisfagnaði Kvennalistans sem hún gerði á minnisstæðan hátt. Réttindabarátta kvenna átti hug hennar allan og varði hún starfskröftum sínum óspart til þeirra mála en hún var vakandi fyrir málefnum samtíðar sinnar, fylgdist með, myndaði sér skoðanir og tók afstöðu í samræmi við réttlætiskennd sína og innri rödd. Síðustu tvo_ pistlana sína í útvarpsþættinum í vikulokin samdi hún og las rúmföst og sárþjáð. Báðir lýstu huga og hjarta mann- eskju sem fann til með samferða- fólki sínu, vildi umbætur á samfé- lagi sínu og leitaði eftir réttlæti og sannleika. Mér komu í hug orð löngu horfins heimspekings: „Ég hugsa, þess vegna er ég.“ En bæta má við: Ég finn til, þess vegna er ég, ég álykta, þess vegna er ég, ég aðhefst, þess vegna er ég. Einmitt þannig fannst mér hún vera. Viljastyrkur og kjarkur Möllu var mikill og lífsþorsti hennar slíkur að hún vann hvern áfangasigur af öðrum í baráttu við sjúkdóm sem endanlega lagði hana að velli. Hún stóð lengur en stætt var og með stolti og reisn vildi hún lifa sem virk, skapandi manneskja til hinstu stundar. Nú er þessi fallega, skemmtilega unga kona dáin langt fyrir aldur fram. Hennar mun lengi minnst sem brautryðjanda, konu sem svaraði áskorun samtíðar sinn- ar af einlægni og heiðarleika og hóf í samvinnu við aðrar konur ís- lenska kvenfrelsisbaráttu úr lægð til þess ævintýris sem enn vindur fram. Islenskt samfélag hefur misst verðmætan einstakling og kvenna- baráttan hefur misst óvanalega frjóa og ötula liðskonu sem óbuguð lagði fram sinn skerf allt til hinstu stundar. Vinkonur hennar og vinir sakna hennar sárlega en mestur er þó missir fjölskyldu hennar, Harðar og dætranna ungu, Höllu, Katrínar og Guðrúnar, föður hennar og systkina. Þeim öllum og öðrum ást- vinum sendi ég innilegar samúðar- kveðjur frá mér og fjölskyldu minni. Blessuð sé minning Magdalenu Schram. Guðrún Agnarsdóttir. Á hátíðis- og baráttudegi ís- lenskra kvenna, 19. júní, er Magda- lena Schram kvödd hinstu kveðju. Hún er látin langt fyrir aldur fram, aðeins 44 ára, eftir hetjulega bar- áttu við einn skæðasta sjúkdóm okkar tíma, krabbameinið. Magdalena var einlæg kvenfrels- iskona, kona sem þorði að vera fijáls. Hún tók virkan þátt í kvenna- baráttu og var einn af stofnendum Kvennaframboðsins í Reykjavík og Samtaka um kvennalista. Hún starfaði jafnframt lengi fyrir Kven- réttindafélag íslands, var í ritnefnd blaðsins 19. júní um nokkurra ára skeið og síðar ritstjóri þess. Auk þess átti hún sæti í stjóm Menning- ar- og minningarsjóðs kvenna. Leiðir okkar Möllu, eins og hún var jafnan kölluð, lágu saman í rúm fjögur ár í útvarpsráði. Þar starfaði hún af einlægum áhuga og þeirri atorku, sem einkenndi öll hennar störf. Hún hafði mikinn metnað fyrir hönd Ríkisútvarpsins og vildi veg þess sem mestan. Hún var ófeimin við að gagnrýna það sem miður fór, en jafnframt hugmynda- rík og tillögugóð. Sérstaklega var henni hugleikið það efni sem börn- um og unglingum var boðið udp á MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 19. JÚNÍ 1993 31 og gerði miklar kröfur í þeim efn- um. Ekki fóru skoðanir okkar alltaf saman, en hún var góður andstæð- ingur þegar því var að skipta og jafnan tilbúin að ræða allar hliðar mála. Með Möllu var bæði gott og gam- an að starfa. Hún var gefandi í samskiptum við aðra og hafði stórt og hlýtt hjarta. Hún hafði hrífandi persónuleika, afgerandi skoðanir og málflutning og var því víða valin til forystu- og trúnaðarstarfa. Við fráfall hennar er stórt skarð höggvið í kvennahreyfinguna. Fáum er gefið að skapa stemmn- ingu og gleði í kringum sig með þeim hætti sem hún gerði. Hennar er sárt saknað. Við Geir sendum ástvinum hennar innilegar samúð- arkveðjur. Guð blessi minningu Magdalenu Schram. Inga Jóna Þórðardóttir. Þegar Kvennaframboðið var stofnað fyrir tæpum 12 árum urðu alger þáttaskil í lífi þeirra kvenna sem að því stóðu. Þáttaskilin voru ekki bara pólitísk heldur ekki síður persónuleg því upp úr þessum jarð- vegi spruttu nýjar vinkonur sem voru hver annarri betri, greindari og skemmtilegri. Fremst meðal jafningja var Magdalena Schram — eða Malla — sem ég var svo lánsöm að eignast þá þegar að vinkonu og sálufélaga og hefur það félag stað- ið allt til þessa dags. Kvennaframboðið var um margt merkilegur félagsskapur því þar mættust konur úr öllum áttum sem ákváðu að leggja saman krafta sína til að styrkja stöðu kvenna í Reykja- vík. Þarna mættust konur sem höfðu starfað árum saman með Rauðsokkahreyfingunni, konur sem þekktu bara kvennahreyfinguna af afspum, konur nýkomnar frá námi erlendis, virðulegar húsmæður, galgopalegar stelpur og allt þar á milli. Allt frá fyrsta formlega fund- inum á Hótel Borg í nóvember 1981 var Malla með af lífi og sál. Ég hef grun um að sumar þeirra kvenna sem hertar voru í félagslegri bar- áttu af ýmsu tagi hafí ekki haft mikla trú á „heildsaladótturinni", alinni upp af „Vesturbæjaríhaldi“. Þetta átti þó eftir að breytast enda fannst þeim hún koma til. Svona getur fólki skjöplast því hitt er mun nær sanni að þær komu sjálfar til og sigruðust á eigin hleypidómum. Þær lærðu einfaldlega að meta skoðanir hennar, hispursleysi og heilbrigt sjálfstraust. Sjálfstraust Möllu var ekki ut- análiggjandi og birtist hvorki í sjálf- umgleði eða sjálfshóli. Það var sam- ofið öðrum eðlisþáttum hennar og kom fram í því að hún var örugg í samskiptum sínum við annað fólk og bar traust til þess, hún þekkti styrk sinn og veikleika og efaðist aldrei um að hún og aðrar konur ættu fullt erindi inn á hvern þann vettvang sem þær helst kysu sér. Hún hafði metnað fyrir hönd sjálfr- ar sín og kynsystra sinna og var mjög umhugað um að ryðja braut fyrir þær konur sem á eftir kæmu. Hún vildi allt til vinna að stelpurnar hennar þijár, Halla, Katrín og Guð- rún, sem hún var svo stolt af, ættu sem flestra kosta völ en mættu ekki hindrunum smíðuðum úr for- dómum og fyrirframgefnum kyn- hlutverkum. Henni fannst við líka hafa haft árangur sem erfiði og á 10 ára afmælishátíð Kvennalistans í mars sl. hafði hún það til marks, að þar sem einu sinni voru troðning- ar illfærir konum væru nú að mynd- ast sæmilega greiðfærar götur. Kvennaframboðið í Reykjavík fékk tvær konur kosnar í borgar- stjórn vorið 1982 en Malla var í þriðja sæti á listanum og því vara- borgarfulltrúi í 4 ár. Sat hún fjöl- marga fundi borgarstjórnar og tók m.a. sæti þar í tvígang í 3 mánuði í hvort sinn meðan ég var í barn- eignarfríi. Átti hún á þessum árum jafnframt sæti í umferðarnefnd Reykjavíkur, ýmist sem aðal- eða varafulltrúi. Mörg minnisstæð atvik rifjast að sjálfsögðu upp frá þessum árum og ber þar án efa hæst þegar Malla og Guðrún Jónsdóttir mættu á borg- arstiórnarfund haustið 1985 uppá- klæddar eins og fegurðardrottning- ar með áletraða borða um sig miðj- ar. Malla gerðist þá í sitt fyrsta og síðasta sinn ungfrú Spök. Tilefni uppákomunnar voru ummæli sem Davíð Oddsson lét falla þegar hann krýndi ungfrú Reykjavík það árið. Þegar Malla gekk til liðs við Kvennaframboðið var hún blaða- kona á Dagblaðinu Vísi en áður hafði hún jafnframt haft umsjón með þætti um menningu og listir í sjónvarpinu. Hún var kona orðsins og var sískrifandi og lesandi. Enga konu þekki ég sem var jafn hraðlæs og skrifandi og hún. Hún var nán- ast alæta á bækur og las kynstrin öll, hvort heldur sem það voru fag- urbókmenntir, ljóð, sagnfræði, kvennapólitík eða spennubækur. Engin var líka fljótari en hún að hrista fram úr erminni grein eða viðtal fyrir Veru þegar mikið lá við. „Ég skal bara gera þetta — ég verð enga stund að þessu“ var yfirleitt viðkvæðið hjá henni þegar við vor- um að vandræðast með efni. Yfir- leitt gerði hún flesta hluti hratt hún Malla og oftar en ekki margt í einu. Ég furðaði mig alltaf á öllu því sem hún fékk áorkað, heima og heiman. Að öllum öðrum konum ólöstuð- um átti Malla líklegast drýgstan þátt í því að ráðist var í útgáfu Veru árið 1982 og var hún mörg ár í ritnefnd blaðsins. Hún var hins vegar aldrei launaður starfsmaður þess og vann öll sín störf í þágu Veru í sjálfboðavinnu. Talaði hún alltaf um það sem sitt lán að hafa aðstæður til að vera óbundin og leggja sitt af mörkum með þessum hætti. Þegar við ritnefndarkonur töluðum um það við hana að koma í fasta vinnu hjá Veru fannst henni alltaf nær að ráða einhveija aðra svo að fleiri kæmu að blaðinu, því að henni sjálfri mætti alltaf ganga sem vísri. Árið 1983 vorum við Malla í hópi þeirra Kvennaframboðskvenna sem ekki töldu tímabært að fara út í framboð til Alþingis þar sem við óttuðumst að þar með færi Kvenna- framboðið um of að taka á sig form hefðbundins stjórnmálaflokks. Þær sem voru annarrar skoðunar tóku sig hins vegar til og stofnuðu Kvennalistann. í hönd fóru erfiðir tímar og við Malla urðum um tíma svolítið viðskila við margar konur sem við mátum mjög mikils. Hálf vængbrotnar hölluðum við okkur hvor að annarri enda áttum við það líka sameiginlegt á þessum tíma að standa í barneignum og öðru barnastússi. Eftir á að hyggja held ég að á þessum árum höfum við stofnað til þeirrar vináttu sem hefur verið mér ómetanleg síðan. Hvernig svo sem allt veltist og snerist í landsmálapólitíkinni og kvennapóli- tíkinni mátti ég alltaf vita að Malla var hvenær sem var tilbúin til að veija rétt minn til að halda fram hverri þeirri skoðun sem af ein- lægni var mín. Ekki sakaði ef skoðunin var til þess fallin að vekja umræður því fátt fannst henni eftirsóknarverð- ara en áköf og heit skoðanaskipti. Þá hressist hún öll og endurnærð- ist. Taldi hún það ekki eftir sér að framkalla slík skoðanaskipti með ögrandi málflutningi ef henni fannst sofandaháttur vera að taka yfirhöndina. Stöðnun og klisjur og frasar sem hugsa fyrir fólk voru eitur í hennar beinum og hún var snillingur í að snúa upp á sjónar- horn eða hefðbundið málfar og orð- tök til að freista þess að sjá nýjan flöt á hveiju máli. Hún hafði sér- staka ánægju af því að leika sér með orð, hugmyndir og hugsanir en að baki þessum leik bjó síkvikur og fijór hugur sem alltaf gaf sér tíma til að skapa. Eins og verða vill við slíkar aðstæður fór hugurinn stundum fram úr eigandanum og Malla gat vissulega verið bæði fljót- fær og óvægin. Hún gat líka verið óþægilega hreinskilin, snögg upp á lagið og jafnvel snúðug og lét sig þá litlu varða hvað fólki fannst um hana. Sumir héldu að þetta væri hroki en þetta var í raun bara með- fædd óþolinmæði og hispursleysi. Það hefur líklega verið 1985 sem við Malla gengum formlega til liðs við Kvennalistann og mættum á hans fyrsta landsfund það haust. Við sáum ósköp einfaldlega að framboðshreyfing kvenna var eins og fljót sem ekki var á valdi tiltek- inna kvenna að stöðva. Það braut sér bara nýjan farveg. Það var að- eins tvennt til og það var að vera með eða vera ekki með. Og við vild- um umfram allt vera með. Allar götur síðan hefur Malla starfað fyrir Kvennalistann — skrif- að greinar, undirbúið kosningar, haldið ræður og erindi, tekið þátt í pólitískri stefnumörkun, hitað kaffi og yfirleitt unnið flest þau störf sem vinna þarf í einum stjóm- málasamtökum. Frá árinu 1987 hefur hún svo setið sem fulltrúi Kvennalistans í útvarpsráði. Síðasta verkið sem hún vann í þágu Kvennalistans var að flytja hátíðar- ræðu á 10 ára afmæli Kvennalist- ans þann 13. mars sl. — þá hel- sjúk. Öllum sem hlustuðu og horfðu á hana flytja ræðu sína á sviðinu á Hótel Borg í daufu endurskini af gylltum lampa er sú stund ógleym- anleg. Við vissum öll af nærveru dauðans en um leið varð ódauðleiki mannsins svo augljós. Malla talaði um formæður okkar, okkur sjálfar og konur framtíðarinnar og sagði að það yrði gaman að litast um meðal kvenna eftir 10 ár. Með lagni benti hún okkur á að lífið er órofa keðja einstaklinga sem eiga að þekkja fortíðina, njóta nútíðarinnar og leggja sitt af mörkum til að skapa betri heim fyrir framtíðina. Og framtíðin verður á sínum stað þó að aðstæður og tilviljanir ráði því hvar við verðum stödd hvert og eitt á þeim tíma og með hvaða hætti við verðum þátttakendur í henni. Mælikvarðinn á líf er ekki lengd þess heldur hveiju við fáum áorkað. Séð í því ljósi ávann Malla sér mikið og eilíft lif. í tæpa tvo áratugi hefur Hörður Erlingsson verið samferðamaður Möllu og stutt hana í öllu því sem hún hefur tekið sér fyrir hendur. Það hefur auðvitað ekkert farið hjá því að veikindi hennar, ekki síst síðastliðið ár, hafa haft veruleg áhrif á allt hans líf. Rétt eins og Malla æðraðist hann ekki heldur tók bara hverri þeirri uppákomu sem veikindunum fylgdu og aðlagaði líf sitt henni. Svona var þetta og gat ekki öðruvísi verið. Sorgin er eins og ástin — öflug tilfinning og í hæsta máta persónu- leg sem brýst fram þegar síst var- ir. Sorgina er jafn erfitt að tjá með orðum og ástina. Henni má því vel líkja við fljótið Myrkelfur í jap- anskri tönku í þýðingu Helga Hálf- danarsonar: Fljótið Myrkelfur, sera steypist fram í fossum og þýtur á flúð, hverfist loks, eins og ást min, í lygnan og djúpan straum. Við Hjölli sendum Herði, Höllu, Katrínu og Guðrúnu þessar ljóðlínur um leið og við kveðjum Möllu og ég þakka henni fyrir vináttu og sálufélag í 12 viðburðarík ár. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Þótt dauðinn geri stundum boð á undan sér er maður alltaf jafn óviðbúin þegar hann kveður dyra, sérstaklega þegar fólk fellur frá í blóma lífsins, langt um aldur fram. Þannig var mér farið þegar ég frétti af láti Möllu, ég hélt að það yrði meiri tími. Tími til að vera saman, tími til að gleðjast, tími til að syrgja, tími til að þakka. Því ég átti henni margt að þakka. Ég kynntist Möllu þegar ég réðst til Veru fyrir rúmum tíu árum en áður hafði ég fylgst með henni úr fjarlægð vegna stofnunar Kvenna- framboðsins. Malla var í forystu- sveit Kvennaframboðsins og síðan Kvennalistans og í ritnefnd Veru um margra ára skeið. Hún lagði blaðinu mikið lið með skrifum sínum og lét sig það miklu skipta allt frá stofnun þess: tók viðtöl, skrifaði greinar, „lay-outeraði“ og gerði yf- irleitt allt sem gera þurfti fyrir Veru. Hún las óhemju mikið af kvennabókmenntum og hvers kyns kvennafræðum og var óþreytandi að miðla því sem hún las til okkar hinna með greinum í Veru. Ég undr- aðist oft hvað hún kom miklu í verk, hvað hún fylgdist vel með alþjóðlegu umræðunni og hvemig hún fann sér tíma til að skrifa um allt sem hún las, til þess að við mættum öll njóta þess með henni. Seinna komst ég að því að hún var ekki einungis vel að sér í kvennafræðunum heldur einnig í fjölmörgum öðrum greinum. Það var þegar hún fékk mig með sér til að búa til spumingar í spurninga- keppni framhaldsskólanna. Þá kynntist ég því hvað hún var vel lesin og fróð hvort sem um var að ræða bókmenntir, heimspeki, lista- sögu, stjórnmálasögu og raunar hvers konar sagnfræði, landafræði, náttúmfræði, tónlist og fleira og fleira. Og hugmyndirna'- voru óþijótandi. Þetta var á erfiðum tíma í lífi mínu, ég var nýbúin að missa dóttur mína og hafði ekki mikið að gera í þessa vinnu fyrstu vikurnar. Malla lét það ekki á sig fá, hún sótti mig flesta morgna, gaf mér af krafti sínum og hugmyndum all- an daginn og keyrði mig heim á kvöldin. Lét mig aldrei fínna að í rauninni var það bara hún sem var að búa til spurningar heldur beið róleg eftir því að rofaði til í hugan- um á mér. Síðan hefur mér oft fund- ist að hún hafi tekið mig í fang sér og borið mig áleiðis út í lífið á ný, eins langt og hún gat. Við gátum líka rætt um sorgina, hún kunni það sem fáum er gefið; að veita stuðning bæði í orði og verki. Ég kom mér hins vegar aldrei að því að þakka, ég hélt að það yrði meiri tími. Veikindi hennar tóku sig upp á þessu tímabili. Við gátum rætt um kvíðann sem grípur þá sem standa andspænis erfiðum sjúk- dómum, en henni tókst að h'rinda frá sér kvíðanum svo hann næði ekki tökum á henni. Og við vorum duglegar að vinna! Möllu var ekkert ómögulegt og úrtölur hrinu ekki á henni. Ég dáð- ist alltaf að því hvað hún var ákveð- in, úrræðagóð og baráttuglöð. Allt var hægt, bara að drífa sig að verki. Guðmundur, maðurinn minn, minn- ist þess sérstaklega þegar hún fékk tölvuna sína. Hún gekk til þess verks að læra á tölvuna af sama eldmóðinum og til annarra verka og stóð ekki upp fyrr. en hún var komin með öll grundvallaratriðin á hreint og nokkrar sér „fúnksjónir" að auki. Svona minningabrot senda ljós- geisla inn í myrkur sorgarinnar. Það gera líka minningarnar um það þegar við töluðum um fjölskyldurn- ar okkar, mennina okkar og dæt- urnar okkar, og litla strákinn minn eftir að hann fæddist. Malla talaði alltaf um manninn sinn, hann Hörð, af óendanlegri ást og virðingu og dæturnar þijár, Halla, Katrín og Guðrún áttu hug hennar allan og hjarta. Ég fékk að umgangast þær svolítið með henni meðan við unnum að spurningakeppninni og ég minn- ist þess hvað mér þótti gaman og hvað ég fylltist miklu stolti þegar ég sá hana umkringda dætrum sín- um. Það ef þyngra en orð fá lýst að hún skuli vera tekin frá þeim svona ungum en þær eiga minningu um góða móður sem gaf þeim allt sem í hennar valdi stóð. Elsku Hörð- ur, Halla, Katrín og Guðrún, á þess- ari stundu mega huggunarorð sín lítils en hugur minn er hjá ykkur. Tíminn læknar ekki sárin, hann máir ekki burt reynsluna, en með tímanum lærum við að lifa með sorginni. Föður Möllu, Björgvin Schram, og systkinum hennar sendi ég einnig mínar innilegustu samúð- arkveðjur. Mig langar til að ljúka þessari fátæklegu kveðju með ljóði úr bókinni sem Malla gaf mér, dag- inn sem dóttir mín hefði órðið tví- tug: Helgistef Af fegurð blóms verður aldrei sagt aldrei sagt með orðum né þinni með neinum orðum (Stefán Hörður Grímsson) Sonja B. Jónsdóttir. SJÁ NÆSTU SÍÐU

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.