Morgunblaðið - 08.09.1994, Qupperneq 39
MORGUNBLAÐIÐ
FIMMTUDAGUR 8. SEPTEMBER 1994 39
árið 1960-61, í sama mund og ég
hafði stofnað fjölskyldu, og lét mig
setjast með hana í íbúð sína og
innbú. Upp frá því nutum við öll
trygglyndis hans sem heimilisvinar.
Eftir að við fluttum hingað aftur
1970 urðu samskipti enn nánari —
í starfi við sömu stofnun. Vinveitt-
ari, traustari og ráðhollari sam-
starfsmann er vart hægt að hugsa
sér.
Ólafur naut lengst af starfsævi
sinni góðrar heilsu. Hann lagði
mikla stund á gönguferðir og úti-
vist og kleif há fjöll langt fram eft-
ir aldri. Hann kvæntist ekki og bjó
einn mestan hluta ævinnar, virtist
una einlífinu vel. Eigi að síður var
hann mjög félagslyndur, glaðvær
og hrókur alls fagnaðar í góðra vina
hópi, gestrisinn og höfðingi heim
að sækja. Hann bauð oft vinum og
kunningjum heim í kvöldfagnað
yfir sterku kaffi og jólaköku,
skemmti þá með léttu gamni. Þessi
boð höfðu sérstakan viðhafnarblæ
og eru ljúf í minningu. — I ársbyrj-
un 1983 veiktist Olafur af blóð-
tappa í höfði og varð að leggjast á
sjúkrahús. Hann fór í endurhæfingu
og komst til nokkurrar heilsu á ný
en fluttist sama ár til Reykjavíkur.
Þar bjó hann síðan í eigin íbúð en
í nágrenni við fjölskyldu Jóhanns
bróður síns sem hann lét sér afar
annt um og naut að sínu leyti um-
hyggju þeirrar tjölskyldu til hins
síðasta. Síðustu árin hrakaði heilsu
hans og þurfti hann þá nokkrum
sinnum að leggjast inn á sjúkrahús.
Allt bar hann það með jafnaðargeði
og hugarró og hélt skýrri hugsun
og andlegri reisn til síðasta dags.
Við Rannveig og börn okkar
þökkum Ólafi samfylgdina og send-
um mágkonu hans, bróðurdætrum
og fjölskyldum þeirra innilegar
samúðarkveðjur.
Kristinn Kristmundsson.
Það var sagt um okkur þegar við
réðumst sem íslenskukennarar að
Menntaskólanum að Laugarvatni
haustið 1977 að við værum í sporum
Ólafs Briem - hvort í sínu. Og
vissulega fylgdi ærinn vandi þeirri
vegsemd og veitti sist af tveimur
til að takast á við hann.
Á yfir íjörutíu ára kennaraferli
mun Ólafur vart hafa aflað sér
óvildar nokkurs nemanda síns. Hins
vegar tókst honum að vekja, glæða
og viðhalda í bijóstum margra
þeirra áhuga á íslensku máli og
bókmenntum. Málfræði var Ólafi
ekki sérlega hugleikin. En meðan
hann sinnti kennslu í þeirri grein
gerði hann heiðarlegar lágmarks-
kröfur um þekkingu í henni til stúd-
entsprófs og setti hana sjálfur fram
í stuttu og hnitmiðuðu máli. Hæfi-
leikar hans til að greina aðalatriði
hvers máls og setja þau fram skýrt
og skorinort áttu drjúgan þátt í
farsæld hans sem kennara ásamt
innsæi og óskeikulli smekkvísi á
mál og bókmenntir. Ólafi var það
ætíð gleðiefni að sjá á eftir einhveij-
um nemenda sinna í íslenskudeild
háskólans enda hafði hann varðað
þá leið fyrir þá sem hana gengu.
Pyrsta dag okkar á Laugarvatni
bauð Ólafur okkur til kaffidrykkju.
Þá varð okkur ljóst að í honum
áttum við traustan bakhjarl þó fjarri
væri honum að ota fram reynslu
sinni og ráðum.
Heimsóknir til Ólafs, í Lindina
og síðar í Barmahlíðina, voru allri
fjölskyldunni tilhlökkunarefni.
Yngri kynslóðin fékk ævinlega
Freska og kremkex og sú eldri
mikið og gott kaffi og bókmennta-
legar samræður. Skáldskapur var
snar þáttur í lífi hans og hann hafði
yndi af umræðum um hann. Ritverk
hans og útgáfustörf sýna hvaða
bókmenntir stóðu hjarta hans nær
og hvaða svið sögunnar. Þar er
fremst að telja af fornbókmenntum
skrif hans um heiðinn sið. Þau eru
Norræn goðafræði (1940) , Heiðinn
siður á Islandi (1945) og Vanir og
æsir (1963). Einnig skrifaði hann
bók um íslendingasögur, íslend-
ingasögur og nútíminn, sem út kom
1972. Ólafur gaf út Forna dansa
1946 og Eddukvæði 1968. Þá sá
MIIMIMINGAR
hann um útgáfu á ljóðum Davíðs
Stefánssonar 1977 og ljóðum Matt-
híasar Jochumssonar 1980. En
hann lét sig einnig varða myrkari
tíðir íslenskrar sögu í Útilegumönn-
um og auðum tóftum sem fyrst kom
út 1959 og í aukinni og endur-
bættri útgáfu 1985. Stíll Ólafs er
ljós og lipur og skrif hans einkenn-
ast af næmum smekk, fordómaleysi
og dns konar klassískri heiðríkju.
Ólafur naut umhyggju bróður-
dætra sinna, Katrínar, Ólafar og
Brynhildar, og mágkonu sinnar,
Elínar Briem, ekki síst hin síðari
ár. Við sendum þeim samúðarkveðj-
ur og minnumst Ólafs Briem með
kærri þökk.
Að leiðarlokum kemur í hugann
vísubrot Sigurðar Breiðfjörðs, sem
hann vitnaði stundum til:
Hamingjan býr í hjarta manns,
höpp eru ytri gæði.
Sigurborg Hilmarsdóttir,
Kristján Eiríksson.
Dæm svo mildan dauða,
Drottinn, þínu bami, -
eins og léttu laufi
lyfti blær tó hjami, -
eins og lftill lækur
ljúki sínu hjali
þar sem lygn í leyni
liggur marinn svali.
í ritgerð um Matthías Jochums-
son vitnar Ólafur Briem í þetta er-
indi, sem honum var mjög hug-
stætt, og segir: „mun torfundin feg-
urri andlátsbæn." Ég trúi hann
hafi gert hana að sinni og hún hafi
ræst.
Ólafur Briem gegndi eitt ár emb-
ætti skólameistara Menntaskólans
á Laugarvatni og útskrifaði undir-
ritaðan og bekkjarsystkin hans vor-
ið 1959. Hann hafði þá kennt okkur
íslensku í fjögur ár. Mér hefur allt-
af þótt heiður að nafn hans skuli
standa á stúdentsprófsskírteininu
mínu því að hann var mér á mennta-
skólaárum og alla tíð síðan bæði
vinur og lærimeistari. Gott var að
ráðgast við hann um fræðileg efni
og frágang á rituðu máli, og hef ég
hagnýtt mér það fram á síðustu ár.
Ólafur Briem var afbragðs bók-
menntakennari og naut þar mikillar
þekkingar og víðtækrar almennrar
menntunar. Hann hafði næman
smekk fyrir góðum bókmenntum
og átti vegna einlægni sinnar og
hófstilltrar kímni létt með að miðla
þeim sem þiggja vildu. Hann var
jafnan fús til rökræðu, en ekki var
auðvelt að fá hann ofan af sinni
skoðun, enda var hún jafnan reist
á rækilegri umhugsun og fastmót-
uðum smekk.
Á námsárum við Háskóla íslands
gerði Ólafur heiðinn sið að kjörsviði
sínu, vafalaust að áeggjan Sigurðar
Nordals, og skrifaði um þetta efni
meistararitgerð. Meðan hann vann
að þeirri rannsókn dvaldist hann
eitt ár við Óslóarháskóla þar sem
Magnus Olsen var þá prófessor í
norrænum fræðum, einn mesti og
fijóasti könnuður heiðins siðar á
Norðurlöndum, en þar kenndi þá
einnig Nils Lid, prófessor í trúar-
bragðasögu, og Knut Liestol, braut-
ryðjandi í rannsóknum þjóðfræða
og fornsagna.
Ávöxtur rannsókna Ólafs Briem
á trúarbrögðum íslendinga fyrir
kristni birtist árið 1945 í bókinni
Heiðinn siður á íslandi. Þessi bók
var gefín út endurskoðuð 1985 og
er enn í dag merkasta framlag ís-
lendings til rannsókna á þessu sviði
í heild sinni. Þar er ekki aðeins
gerð grein fyrir fornri goðafræði
heldur leitast við að gera sem ná-
kvæmasta grein fyrir átrúnaði og
trúarsiðum. Megináhersla er á ís-
lenskar heimildir þótt leitað sé
fanga í samanburðarfræðum þegar
tilefni er til. Árið 1963 kom út í
ritröðinni Studia Islandica sérrann-
sókn, Vanir og Æsir, þar sem Ólaf-
ur fjallar af gjörhygli um afmarkað
og umdeilt vandamál í þessum
fræðum: rætur hinna fornu goð-
sagna um tvískiptingu goðahópsins
í Æsi og Vani og líkur til forns
átrúnaðar á þessa flokka goða á
Norðurlöndum. Þetta rit er skrifað
undir víðara sjónarhorni en Heiðinn
siður og er merkilegt framlag til
rökræðu sem er fjarri því að vera
útkljáð. Árið 1940 kom út kennslu-
bókin Norræn goðafræði, sem oft
hefur verið endurprentuð.
Á fimmta áratugnum beindi
Ólafur einnig athygli sinni að allt
öðru sviði fræða, og kom afrakstur
þess út í bókinni Fornum dönsum
(1946). Þetta var heildarútgáfa
þeirra sagnadansa sem þá höfðu
birst á prenti, eitt afbrigði hvers
kvæðis, stundum dálítið lagfært
með hliðsjón af öðrum uppskriftum
sama kvæðis eins og tíðkaðist á
þeim tíma. Líkleg fyrirmynd er
Norske folkeviser, útgáfa Moltke
Moe og Knut Liestol, en Ólafur
sýnir þó meiri varkárni í breytingum
á textunum. Með kvæðunum fylgir
stutt og skýr ritgerð Ólafs. Bókin
er skreytt frábærum teikningum
Jóhanns Briem og má kallast ger-
semi. Með henni var þessi fagra og
sérstæða kvæðagrein hafin til vegs
og virðingar á tímum þegar frj áls-
legt form kvæðanna átti góðan
hljómgrunn hjá ljóðaunnendum.
í kennslu mátti gjörla finna að
eddukvæði stóðu nærri hjarta Ólafs
Briem, sama var að segja um ís-
lendingasögur og svo hina miklu
ljóðahefð frá Bjarna Thorarensen
til Davíðs Stefánssonar — og hafði
hann þó vissulega auga fyrir ágæti
margs sem nýrra var. Allt bar þetta
ávöxt í prentuðu máli. Fyrst komu
Eddukvæði 1968. Kvæðin eru
prentuð með nútímastafsetningu,
skýringum á spássíum og rækileg-
um inngangi, sem er 60 bls. með
smáu letri. Þessi útgáfa hefur oft
verið endurprentuð, einnig í styttri
gerð. Óhætt mun að fullyrða að
eddukvæðaútgáfa Ólafs hafi gjör-
breytt stöðu eddukvæða í bók-
menntakennslu í framhaldsskólum
og einnig verið notadrjúg stúdent-
um í Háskóla íslands. Með henni
var öllum óþarfa hindrunum rutt
úr vegi nemenda og annarra sem
vildu kynnast þessari stórbrotnu
kvæðahefð; skýringar eru valdar
af kostgæfni eftir traustustu heim-
ildum en þó jafnan mótaðar af íhygli
og skarpskyggni Ólafs sjálfs. í rit-
gerð hans er gerð grein fyrir
kvæðagreininni í heild og einstök-
um kvæðum og lesendum jafnframt
vísaður vegurinn til að skynja og
meta bókmenntalegt gildi þeirra og
sérstöðu.
Árið 1972 sendi Ólafur frá sér
bókina íslendingasögur og nútím-
inn. Grunnhugmynd bókarinnar er
að íslendingasögur eigi erindi við
nútímafólk en ungt fólk þurfi á leið-
sögn að halda til að sigrast á
ákveðnum erfiðleikum við fyrstu
kynni. Ólafi var þetta erindi hjart-
ans mál. Eins og fleiri bar hann
nokkurn ugg í bijósti um það hver
yrðu afdrif þess besta í menningar-
legri arfleifð þjóðarinnar á því
hraða- og breytingaskeiði, sem upp
var runnið, og mikið afþreyingar-
efni í boði. Til að greiða æskunni
leið til Islendingasagna skrifaði
Ólafur á sjötugsaldri þessa bók um
lielstu einkenni sagnanna og íhug-
unarefni. Þess má sjá merki að
hann hefur lesið margt af því sem
þá hafði nýlega verið skrifað um
Islendingasögur. í öllum meginat-
riðum fylgir hann þó helstu skör-
ungum íslenska skólans svo nefnda,
Sigurði Nordal og Einari Ól. Sveins-
syni, en hann leiðir hjá sér vanga-
veltur um sannleiksgildi og einbeit-
ir sér að því að kanna einkenni
sagnanna án tillits til þess hvort
sannar séu eða skáldaðir. Aðferð
hans og viðhorf eru að mörgu leyti
skyldust breskum fræðimönnum
eins og W.P. Ker og Berthu S.
Phillpotts, en verk þeirra þekkti
hann vel og mat mikils. Bókin er
mjög læsileg og þægileg aflestrar
eins og öll rit ðlafs.
í byijun áttunda áratugarins hóf
Bókmenntafræðistofnun Háskóla
íslands útgáfu íslenskra úrvalsrita
undir heitinu íslensk rit í samvinnu
við Bókaútgáfu Menningarsjóðs.
Segja má að þar hafi yngri kynslóð
bókmenntafræðinga, sem þá var,
haslað sér völl við útgáfu og kynn-
ingu á ritum frá síðari öldum. En
þegar kom að skáldum sem okkur
fannst að við hefðum e.t.v. aldrei
kunnað jafnvel að meta og kynslóð-
irnar á undan okkur, kom okkur
sem ritstýrðum þessum bókum í
hug að leita til Ólafs Briem til að
gefa út höfunda sem við vissum
hann manna líklegastan til að gera
verðug skil. Fyrst tók hann að sér
að gefa út úrval úr ljóðum Davíðs
Stefánssonar, og kom sú bók út
árið 1977 og var seinna endurprent-
uð, og þremur árum síðar úrval
ljóða Matthíasar Jochumssonar.
Enginn vafi er að þetta val á útgef-
anda var heillaráð. Ólafur lagði
mikla rækt við Ijóðavalið sjálft og
gekk frá texta og skýringum af
sinni venjulegu vandvirkni, en
samdi auk þess rækilegar inn-
gangsritgerðir með stuttum ævi-
ágripum og vandaðri úttekt á ljóð-
um skáldanna. Bæði Matthías og
Davíð voru afkastamikil skáld og
ljóð þeirra til í heildarútgáfum, en
nokkuð eru þeir báðir mistækir og
stundum fjarlægir nútímasmekk.
Þess vegna er enginn vafi að ljóðav-
al Ólafs og umfjöllun hans hafa
gefist ágætlega til að laða að þeim
nýja lesendur. Aðferð hans við að
gera grein fyrir ljóðunum er ekki
nýtískuleg; hann les þau með sam-
úðarskilningi, sem svo mætti kalla,
dregur fram mikilvægustu hug-
myndir og tilfinningar í kvæðunum
og bendir á einkenni skáldskapar-
stílsins jafnframt því sem hann
gerir grein fyrir afstöðu til annarra
skálda. En aðferðin á ágætlega við
í slíkum útgáfum. Ritgerðirnar eru
hvor um sig meðal þess besta og
rækilegasta sem um þessi skáld
hefur verið skrifað. Þær leiða líka
prýðilega í ljós hve vel lesinn Ólafur
var í skáldskap annarra þjóða, eink-
um sá samanburður sem hann ger-
ir á Matthíasi og ýmsum erlendum
skáldum.
Enn er hér ógetið einnar bókar
Ólafs sem segja má að liggi nokkuð
utan við alfaraleið fræðanna, bæði
hans eigin og annarra, en það er
Útilegumenn og auðar tóttir sem
kom fyrst út árið 1959 og aukin
og enduskoðuð 1983. Þar birtir
Ólafur afrakstur af þeirri iðju sem
hann lýsir svo í eftirmála: „...ég og
nokkrir kunningjar mínir höfum
gert það okkur til gamans í sumar-
leyfisferðum um óbyggðir að at-
huga sem allra flestar byggðaleif-
ar, sem taldar eru eftir útilegu-
menn.“ Bók þessi er skemmtileg
aflestrar. Hún einkennist af skyn-
samlegum efnistökum og traustri
heimildarýni eins og önnur rit Ólafs.
Þar var aldrei neina „dellu“ að
finna, en það orð notaði hann ein-
att í samræðum um fræðimennsku
sem honum þótti einkennast af firr-
um og fyrirfram gefnum niðurstöð-
um.
Ólafur Briem var hlédrægur
maður og lítillátur með afbrigðum.
Hann forðaðist vegtyllur, opinbera
viðurkenningu eða athygli, en undi
sér best við samræður um hugðar-
efni sín í fárra vina hópi. Nafn
hans var vel þekkt og virt meðal
fræðimanna, einnig í íjarlægum
löndum. Við bar á síðari árum að
slíkir menn heimsóttu hann þegar
þeir voru hér á ferð, og var ánægju-
legt að verða vitni að slíkum fund-
um. Þeir glöddu Ólaf en settu hann
ekki úr jafnvægi; hann var sjálfum
sér líkur í öllu viðmóti. Ólafur Briem
var bæði sem manneskja og fræði-
maður mótaður af klassískum bók-
menntum og menningu. í þeim anda
unni hann skynsemi og hófstillingu
og mat mest fegurð samræmis og
jafnvægis. Hann var, með orðum
Hóratíusar, integer vitae scel-
erisque purus.
Vésteinn Ólason.
Ólafur las íslensk fræði við Há-
skóla íslands 1929-1936 nema vet-
urinn 1933-1934 þegar hann nam
sömu fræði við háskólann í Osló.
Meistaraprófi lauk hann 1936, og
var við stundakennslu í Reykjavík,
1936-1937 kennari við Héraðsskól-
ann á Laugarvatni frá 1937-1953.
Frá 1953 til 1979 var hann kenn-
ari við Menntaskólann á Laugar-
vatni og skólameistari í forföllum
frá 1958-1959. Hann var einnig
stundakennari við Húsmæðraskól-
ann á Laugarvatni.
Ólafur var mikilvirkur og vand-
virkur fræðimaður þrátt fyrir annir
við kennslu og eril á stóru skóla-
setri. Hann gaf út 10 bækur á sviði
íslenskra bókmennta og fræða,
sumar voru frumsamin verk en aðr-
ar útgáfur ljóða og fornrita. Með
öllum þessum bókum eru alllangar
ritgerðir bókmenntalegs efnis.
Hann var ágætt skáld en fór dult
með það._
Með Ólafi er horfinn kær og
trygglyndur vinur, áreiðanlegur og
stórgáfaður fræðimaður og eftir-
minnilegur snilldarkennari. Það var
ekki síst með Ólaf í fyrirrúmi í
kennarahópnum að hægt var að
stofna menntaskóla á Laugarvatni.
Með ljúfmennsku og lítillæti kenndi
hann íslenskuna og bókmenntirnar,
en einnig af djúpri þekkingu og
áhuga svo að allir hrifust með,
lærðu að meta tungu sína og bók-
menntir og urðu betri menn af því
að hafa kynnst svo góðum manni.
í hópi samkennara einkenndi
hann hjálpsemi og lítillæti, enginn
fann á framkomu hans að hann bar
höfuð og herðar yfir flesta sam-
kennarana af þekkingu og gáfum.
Ólafur var mikill göngumaður og
kannaði landið sitt af mestu gaum-
gæfni. Hann gekk um hálendi og
óbyggðir hátt og lágt og ber bók
hans Útilegumenn og auðar tóttir
merki þess. Þar var ekkert í bók
fært sem ekki hafði verið skoðað
og kannað með eigin augum.
Þegar hann varð að láta af
kennslustörfum sökum aldurs flutt-
ist hann til Reykjavíkur. Var þá
gott að eiga þennan ljúfa vin sem
kom gangandi í heimsókn, jafnt í
blíðu veðri sem í hríð. Svo sótti
heilsuleysið hann heim eins og svo
marga sem lifa lengi. Hann stóð
af sér hvert élið eftir annað og
hægt var að hlakka til að heyra
rödd hans í símanum eða sjá hann
koma inn um dyrnar, glaðan og
vongóðan, þegar batinn hafði náð
yfirhöndinni. Mér fannst hann alltaf
vera ungur. Ég kveð kæran vin
með söknuði og þakka honum sam-
fylgdina af heilum hug.
Þórður Kristleifsson.
Fleirí minningagreinar um
Olaf Briem bíða birtingar og
munu birtast í blaðinu næstu
daga.
Midrykkjur
Glæsileg kaffi-
hIaðÍH>rð fallegir
salir og nijög
göð þjönusta.
Ipplvsingar
ísínia22322
. FLUGLEIDIR
lÍTEL LimiIIU
• HSM Pressen GmbH
• Öruggir vandaðir pappirstætarar
• Margar stærðir - þýsk tækni
• Vönduð vara - gott verð
OTTO B. ARNAR HF.
Sk.pholti 33 ■ 105 Reykjavik
Símar 624631 ■ 624699