Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1940, Side 56
Leið Flosa að fjallabaki.
Um Njálssögu hafa innlendir og erlendir fræðimenn ritað fyr
og síðar, og eru menn ekki á eitt sáttir um ýms atriði sögunnar, en
það kemur öllum saman um, að söguritarinn hafi verið að ýmsu
leyti vel kunnugur staðháttum í Austfirðingafjórðungi, Skaftafells-
og Rangárvallasýslum, þótt talið sé, að dálítið beri á örnefnavillum á
þeim slóðum. En með því að þræðir sögunnar gerast víðar, verður
það Ijóst, að umfangsmiklu efni hefir höfundurinn orðið að viða að
sér frá ýmsum mönnum, er kunnugir voru í öðrum fjórðungum
landsins, þar sem viðburðir sögunnar gerðust, og vinna svo úr því, til
að fylla í viðburðakeðjuna. Og með því að sagan hefir geymst óskráð
um langan tíma, er tæplega hægt að vænta þess, að fullkomlega sé
farið rétt með alla atburði og staðhætti, þótt aðalatriðin séu í flestum
greinum rétt.
Fjallabaksleið þá, er Flosi fór um, Goðland og Eyjafjallajökul,
sem Njálssaga getur um, ætla ég aðeins að gera hér að umtalsefni,
og skal þegar geta þess, að ég er allvel kunnugur afréttarlandi því,
sem nefnt er Emstrur, er liggur norðan Mýrdalsjökuls og Merkur-
jökuls, en takmarkast að sunnan af Syðri-Emstraá, að vestan af
Markarfljóti, að norðan af Bratthálskvísl, en austurtakmörkin eru
Bláfjöll, sem eru á vestanverðum Mælifellssandi. En til þess að fylgja
þeirri slóð, er telja má víst, að Flosi og menn hans, og þeir aðrir
hafi farið, er styttu sér leið úr Skaftafellssýslu vestur í sveitirnar
vestan Markarfljóts, verður að lýsa nyrðri og syðri Fjallabaks-
ieiðum.
Þorvaldur Jónsson, bóndi á Skúmsstöðum, sem fæddur er og
uppalinn í Hemru í Skaftártungu, og farið hefir oft um afréttarlönd
hreppsins og Fjallabaksleiðirnar, hefir, eftir tilmælum mínum, skrif-
að lýsingar þær af leiðum þessum, er hér fara á eftir.
Nyrðri Fjallabaksleiðin liggur um Svartanúp, sem er efsti bær í
Skaftártungu (nú eyðijörð), og er tekin stefna í norðurátt upp heiðina,
og nokkru síðar beygt til norðvesturs, um Kálfasléttur. Þá er tekin
hánorðurstefna, og farið vestan við Þorvaldstungur, og sömu stefnu