Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1940, Síða 73
65
ættartölurits Njálu sé ef til vill runnin frá Kolskeggi fróða. En hvorl
sem það er eða ekki, virðist mér alveg augljóst mál, að á síðari hluta
12. aldar, þegar ætla má að ættartöluritið sé helzt skráð, er það á
einhverjum þeim stað, þar sem áhrifa Oddaverja gætir ekki.
III. Staðfræði.
Verkefnið. Allur sá urmull af ritgerðum, sem skrifaðar hafa
verið um staðfræði Njálu, sýnir vel, hve mikils mönnum hefur þótt
vert um það efni. I öllum þorra þessara ritgerða hefur mátt sjá, að
menn hafa hugsað sér staðháttalýsingar gefa bendingu um sann-
indi sögunnar, a. m. k. ef þær væru réttar. Það þarf ekki að taka fram,
að þetta er fullkominn misskilningur. Maður, sem skáldar upp sögu,
er hann vill láta líta sennilega út, og nefni hann tiltekna staði hér
á landi, mun eftir beztu getu lýsa staðháttum rétt. Og maður, sem
skrifar sögu um viðburði í héröðum, sem hann hefur aldrei augum
litið, getur mæta vel gert sig sekan í ókunnugleika og staðvillum,
þó að saga hans sé sönn.
En úr því að ég minnist hér í einu á staðþekkingu og söguleg
sannindi, vil ég nota tækifærið til að taka fram í eitt skipti fyrir öll,
að allt það sem hér á eftir er sagt um staðþekkinguna í Njálu er
miðað við frásögn hennar sjálfrar, en ekki við neinar ímyndanir um
það, hvernig atburðimir hafi í raun og veru gerzt. Ég er vegna frá-
sagnar Landnámu trúaður á, að Njáll Þorgeirsson hafi verið brennd-
ur inni, en ég veit ekkert um, hvernig það hefur gerzt. Það sem Njála
segir um þá atburði er sjálfsagt mestmegnis skáldskapur, og þó er
ég trúaður á, að höfundur sögunnar hafi vitað meira um þann atburð
sögunnar en flesta aðra. Gegn um þennan skáldskap sjáum vér ekki
og munum án efa aldrei sjá. Það er alveg vonlaust að ætla sér að
komast nær atburðunum með því að draga frá því, sem í sögunni
segir, eða bæta þar við, nema því að eins að óháðar heimildir séu
til hjálpar, og er fljótséð, hve langt verður komizt hér með slíkri
hjálp. Fjöldi manna lítur án efa allt öðrum augum á þetta en ég, þar
á meðal Sk. G. og A. J. J., en ekki tel ég ómaksins vert að deila um
það, en lesandanum er nauðsynlegt hér á eftir að hafa í huga, að þessi
meginmunur 1 skilningi á sögunni kemur líka við staðfræði hennar.
Staðþekking Njálu gefur ekki meira til kynna um sannindi henn-
ar en áður var sagt. Litlu meira máli skiptir hún fyrir listgildi henn-
ar. Frá listarinnar sjónarmiði væri það ofboð fánýtt, þó að nefndur
væri staðurinn, þar sem Gunnar stóð, þegar hann horfði upp til hlíð-
5