Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1940, Síða 83
75
útgáfu hans, þar sem hann ræðir um ofangreinda frásögn: „diese
beschreibung ist umöglich; die erwáhnte vertiefung ist niemals so
gross gewesen, dass 200 pferde und 100 leute dort sich aufhalten
konnten ...“. En þetta er allt ofur skiljanlegt. Söguritarinn veit ekki,
hve stór hvollinn er, hann hefur aðeins séð hann af þjóðveginum;
hann hefur heyrt um kvosina og heldur, að hún sé svo stór og svo
fjarri bænum, að Flosi geti komizt þar fyrir með lið sitt og leynzt
þar. Kannske hann hafi haft í huga ,,dalinn“ bak við Gammabrekku
í Odda, eða einhverja aðra hvamma, nóg er til af þeim hér á landi.1)
A. J. J. talar nokkuð um för þeirra nafna Þorgeirs Otkelssonar
og Þorgeirs Starkaðarsonar í 69. kap. sögunnar. Bendir hann á stað
tiltölulega nálægt Þórólfsfelli (um 5 km. þaðan), þar sem nú eru
skógar, og hefur það eftir kunnugum mönnum, að þeim þyki sá stað-
ur (Lambatungur, við upptök Bleiksár) líklegur. Ég efast ekki um,
að kunnugir menn geti fundið stað í grennd við Þórólfsfell, þar sem
skógar séu og að öðru leyti álitlegt að vera. En kannske er það þó
ekki nóg. Til þess að þetta þyki sennilegt, þarf að sýna lit á að
gera grein fyrir því, að þeir nafnar, sem vita, að Gunnar er einn
heima (sbr. söguna) og ætla að fara að honum, skuli fara svo langt
af leið. A. J. J. hefur, að því er virðist, ekki verið alveg ánægður með
þetta, því að hann segir: „1 þessu máli er að vísu ekkert hægt að
sanna", og er það óvanalegt, þegar ég er annars vegar, hann fer að
tala um, að þeir nafnar hafi verið að bíða eftir „einhverju sérstöku“
tækifæri o. s. frv. Ég tel ekki þörf að fjölyrða meira um þetta, en
skal þó rétt minna á, að hinn kunnugi maður nefnir Lambatungur,
sagan „skóga nökkura" (64. kap. sýnir, að höfundur sögunnar taldi,
að skógar væru á ,,Þríhyrningshálsum“). Alveg ókunnugur maður
hefði líka getað nefnt „skóga nökkura", en ekki Lambatungur!
Um Þórsmörk get ég verið stuttorður, þar hef ég svo sem ekkert
lagt til málanna. í ritgerð Sk. G., bls. 66 nm., hefur Matthías Þórðar-
son vísað til greinar sinnar í Árbók Fornl. 1925—26, og er vitanlega
þeirra Sk. G. og A. J. J. að taka tillit til þess, sem þar stendur, og
athugasemda Kálunds um þetta efni, úr því að ég vísaði þangað. Ég
kvað svo að orði í Skímisgrein minni 1937 (bls. 37) : „Ekki virðist
rétt að gera mikið veður út af því, sem sagt er um bæina þrjá í Þórs-
mörk (158.2 kap.) ; munnmæli hafa ýkt annað eins um býli í óbyggð-
1) það er vitanlega ekki ástæða að falla í stafi af undrun, svo að ég
komist nú eins að orði og A. J. J., þó að talað sé um „dæl“ í túni á Bergþórs-
hvoli, því að þær eru í nokkuð mörgum túnum á íslandi.
2) Les 148., eins og A. ,T. J. getur réttilega um.