Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1940, Blaðsíða 95
87
og Merði, lýst heldur illa í Njálu. Jú, hugsanlegt væri það. Njála
sýnist ekki beinlínis innblásin af ættartilfinningu Oddaverja. En hér
kann A. J. J. ráð við: hann vísar til Drauma Hermanns Jónassonar,
þar er að finna ráðninguna á þeirri gátu.
A. J. J. heldur áfram: „Draummaður hans (Hermanns), Ketill
í Mörk, segir, að síðari hlutinn á sögu Höskuldar Hvítanesgoða hafi
glatazt, einmitt sá hlutinn, er segir frá aðdragandanum að vígi
Höskuldar. Svo hafi sá, er ritaði söguna, búið það til (skáldað inn í
hana), að „Mörður hafi komið drápi Höskulds til leiðar með rógi,
en til þess að gera það sennilegt og skáldlegt, býr hann til viðtal og
ráðagerð þeirra feðga, Valgarðar grá og Marðar, og lætur Mörð koma
víða við í Gunnars sögu, svo sem þann manndjöfull,1) er sagan lýsir“.
„En þetta eru ósannindi“ o. s. frv., og eru síðan tilfærð orð Her-
manns um hina alkunnu tímatalsvillu um aldur Marðar. Þessu næst
segir A. J. J.:
„Allt er þetta mjög sennilegt, eins og annað í þessum merkilega
draumi, og miklu sennilegra en frásögnin í Njálu um þessa atburði“.
Þar kom að því, að A. J. J. fann annað áreiðanlegra en söguna!
Þessi síðasta blaðsíða í ritgerð A. J. J. er kórónan á fræðimennsku
hans. Leiðarljósi skynseminnar til að ráða fram úr vísindalegum við-
fangsefnum er hér óðara hafnað vegna vitnisburðar, sem er svo vafa-
samur, að ekki er einu sinni víst, hvort hann er draumur manns!
Þetta er enn verra en jöklaævintýrið. Þegar hér við bætast rangfærsl-
ur á orðum andstæðingsins, sem nefndar voru hér að framan, geta
kannske vaknað spurningar um það, hvar séu takmörkin fyrir því,
sem þykir fara vel á í Árbók Fornleifafélagsins.
Einar Ól. Sveinsson.
1) Les: manndjöful .