Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1963, Blaðsíða 96
GUÐJÓN JÓNSSON, Ási
KAMBSRÉTT
Landbúnaður hefir verið annar aðalatvinnuvegur þjóðarinnar.
Fram á síðustu ár bjuggu sveitabændur meira við fjárbú en kúabú.
Áttu sumir þeirra margt áa og sauða. Mikil vinna er að hirða vel
margt fé og halda því saman, sérstaklega vor og haust. Það þarf
að smala því í byggð og óbyggð, reka það saman af smærri og stærri
svæðum, og koma því í fjárrétt, þar sem því er sinnt og ráðstafað,
eftir því sem við á og þurfa þykir.
Flest heimili eiga sína heimafjárrétt út af fyrir sig eða í félagi
með öðrum. Svo er almenningsrétt, skilarétt, fyrir eitt eða fleiri
sveitafélög, þar sem byggðasöfn og fjallsöfn eru rekin að til sund-
urdráttar.
Réttir og réttarhald er gamall og nýr þáttur í atvinnulífi sveita-
fólksins. Frá þeim eiga margir glaðar og góðar minningar, sérstak-
lega frá þeim tíma, er þær voru eina almenna skemmtisamkoma árs-
ins. Til þeirra hefur verið hugsað með eftirvæntingu. Þær hafa verið
og eru enn sóttar af ungum og gömlum, ríkum og fátækum.
Fjárréttir eru breytingum og eyðingu háðar eins og annað á jörðu
hér. Mörgum kann að virðast, að það hafi ekki mikið að segja, þótt
ein almenningsrétt sé færð úr stað eða lögð niður. Það sé varla í frá-
sögur færandi. En er hann ekki margur fróðleikurinn, sem nútíma-
menn vildu gjarnan að geymzt hefði, en glataðist af því að hann þótti
ekki, á sínum tíma, þess virði, að haldið væri til haga?
Kambsrétt, sem hér verður getið sérstaklega, var byggðarsafns-
rétt Holtamannahrepps hins forna, sem skipt hefir verið í 3 hreppa:
Ása- Holta- og Djúpárhreppa. Holtamannahreppur hinn forni var
stór og víðlendur, með um 170 búendur. Sumir þeirra áttu margt
sauðfjár, aðrir fátt, eins og gengur.
Þótt sameiginleg byggðarsafnsrétt hafi verið notuð á þessu víð-
lenda svæði um alllangt skeið, er talið vafasamt, að svo hafi verið fyrr