Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1972, Side 54
58
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
hér á landi í fyrsta skipti, svo öruggt sé. Þessi húsagerð er alþekkt
í Vestur-Evrópu og á Norðurlöndum, ekki sízt í Danmörku og Suður-
Svíþjóð, en einkennilegt er, að það er fyrst nú á síðustu áratugum,
sem þau eru að koma fram í dagsljósið. Ástæðan er ef til vill sú, að
framan af voru menn ekki vissir um, að hér væri um hús að ræða,
enda voru þau oft nefnd sorpgryfjur „affaldsgruber" í Danmörku,
en nú hefur samheitið orðið grubehuse á dönsku, pit houses á ensku,
Grubenhduser á þýzku og grophus á sænsku. Eðlilegast og einfaldast
er að kalla þau jarðhús á íslenzku, enda virðist líklegt, að það hafi
verið hið forna nafn á þeim hér á landi, svo sem síðar segir.
Jarðhús af þessari gerð þekkjast allt frá rómverskri járnöld, eða
tímanum frá 1.—2. öld eftir Krist, og til víkingaaldar. Flest virðast
þau þó vera frá víkingaöld.
Dósent Márta Strömberg í Lundi hefur nýlega rannsakað jarð-
hús af þessari gerð í Valleberga á Skáni en þar hafa fundizt 43 slík
hús frá yngri járnöld7. Megingerð húsanna þar var hin sama og í
Hvítárholti, 3—4 m breið, oft aðeins lítillega niðurgrafin, eldstæði
tíðum á miðju gólfi eða úti við vegg. Stundum voru stoðarholur
utan við húsið, hvor sínum megin lengdarássins. Eini munurinn á
þeim og húsunum í Hvítárholti er sá, að sænsku húsin eru öllu ein-
faldari. Aðeins einu sinni fannst inngangur, á langhlið hússins, en
annars virðist það vera nærri föst regla, að erfitt sé eða ógerningur
að finna inngang í húsin.
Húsin í Valleberga höfðu flest verið vinnuhús, smíðaverkstæði
ýmiss konar svo og vefjarstofur, sem ráða mátti af brotum af smíð-
isgripum og kljásteinum, og að minnsta kosti eitt eldhús. Hins vegar
virtist ekkert þeirra hafa verið notað til íbúðar. — Hús þessi voru
einkum frá því um 600—800 e. Kr.
I Árósum hefur nýlega verið lokið við rannsókn í gamla bæjar-
hlutanum og þar hafa komið fram margs konar minjar frá elztu
byggð á staðnum. Meðal þess eru 7 jarðhús frá víkingaöld af þessari
sömu tegund. Húsin voru bæði ferhyrnd og sporbaugótt, stoðar-
holur tiðast í hornum og við miðja langveggi svo og við enda spor-
baugóttu húsanna, eins og eftir súlur undir mænirás, og einnig virðist
hafa verið um fléttaða innveggi úr viðjum að ræða. Hús þessi eru
talin frá 10. öld og kunna að hafa verið notuð sem íbúðarhús í bæn-
um, einkum þá íbúðir handverksmanna, enda fundust víða leifar frá
ýmiss konar handverki, svo sem steypumót og verkfæri, leifar frá
beinsmíðum, vogir og lóð9.
Þessi tvö dæmi, jarðhúsin í Valleberga og í Árósum, verða að nægja