Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1972, Qupperneq 60
64
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
um hugsanlega ferð Rómverja hinna fornu til Islands í upphafi
4. aldar e. Kr., einkum vegna þess, að peningar sem þessir eru
sjaldséðir utan hins forna, rómverska ríkis og höfðu enda ekkert
verðgildi annars staðar, þar sem um koparpeninga er að ræða
en ekki peninga úr góðmálmum21. Að mínu áliti þarf ekki svo að
vera. Tel ég líklegast, að peningar þessir séu allir komnir hingað
á víkingaöld, líklega með landnámsmönnum, sem hafa haft viðkomu
fyrir vestan haf, þar sem slíkir peningar voru gjaldgengir á sínum
tíma og finnast oft í heilum sjóðum. Hafa þeir þá fundizt þar og
menn haft þá með sér hingað út, ekki vegna verðgildis heldur sem
eins konar minjagripi.
Þrír þessara peninga, peningurinn frá Hvítárholti og pening-
arnir frá Bragðavöllum, eru fundnir meðal öruggra víkingaaldar-
minja sem sýnir, að þeir eru að minnsta kosti komnir á þessa staði
á víkingaöld. Varasamt er að draga mjög ákveðnar ályktanir af
fundi peninga einna saman, enda bendir Inga Serning á þetta
í riti sínu um járnaldarfundi í Dölum í Svíþjóð, þar sem fundizt hafa
fimm peningar af þessu tagi22. Öðru máli gegndi ef um væri
að ræða aðra hluti af rómverskum uppruna, bronsker, ausur eða
síur, sem algengt er að finna á Norðurlöndum og komið er sunnan
úr rómverska ríkinu á þessum tíma. Slíkir hlutir vitna um bein
verzlunartengsl við rómverska ríkið, en hér er slíku ekki til að
dreifa.
Að öðru leyti er fátt sérstakt að segja um hlutina frá Hvítár-
holti og vísast nánar um þá til fundaskrárinnar.
Staðurinn, þar sem fornaldarbyggð þessi hefur verið, er nokkuð
óvenjulegur, einkum þar sem hann ber hátt og er áveðra og vatns-
ból er ekki mjög nærri, sem menn hafa þó yfirleitt sótzt eftir að hafa.
Yfirleitt eru hin fornu bæjarstæði áberandi, bæirnir hafa verið
reistir utan í hlíð, á hæð eða þar sem vel sá yfir umhverfið, en hér
er bærinn settur hærra upp en búast hefði mátt við. Að vísu er nokkur
slakki í holtið þar sem rústirnar eru, en þó ekki nógur til að teljandi
skjól myndist fyrir norðanáttinni, sem gætir mikið þarna. Er reyndar
ekki víst, að menn hafi svo mjög sótzt eftir skjóli, heldur hafi menn
metið meira útsýnið, enda hefur hér sézt vel til mannaferða þvínær
úr öllum áttum og einnig norðan yfir Hvítá. Gamalt vað er nokkru
ofar á ánni, á Kópsvatnseyrum, en einnig er vað á ánni niður
undan þessum stað, sem vel má hafa verið nothæft í fornöld einnig.
Þótt vatnsból sé ekki heima við bæinn hefur yfirleitt mátt sækja