Morgunblaðið - 06.01.2001, Qupperneq 48
MINNINGAR
48 LAUGARDAGUR 6. JANÚAR 2001 MORGUNBLAÐIÐ
✝ Alvilda MaríaFriðrikka Möller
fæddist á Siglufirði
10. desember 1919.
Hún bjó í Hrísey öll
sín fullorðinsár en
lést á Dalbæ, dvalar-
heimili aldraðra á
Dalvík, á nýársnótt.
Foreldrar hennar
voru hjónin Christi-
an Ludvig Möller,
lögregluþjónn á
Siglufirði, f. 5. apríl
1887 á Blönduósi, d.
11. ágúst 1946 á
Siglufirði og Jóna
Sigurbjörg Rögnvaldsdóttir, hús-
móðir, f. 18. mars 1885 á Þrast-
arstöðum á Höfðaströnd, d. 6.
febrúar 1972 á Siglufirði. Systk-
ini Alvildu voru þessi: Alfreð, f.
1909, látinn; William Thomas, f.
1914, látinn; Rögnvaldur Sverrir,
f. 1915, látinn; Jóhann Georg, f.
1918, látinn; Unnur Helga, tví-
burasystir Alvildu, Kristinn Tóm-
asson, f. 1921 og Jón Gunnar, f.
1922, látinn.
Alvilda ólst upp á Siglufirði og
tók sem ung kona virkan þátt í
blómlegu atvinnulífi bæjarins.
Hún stundaði nám í Húsmæðra-
skólanum Ósk á Ísafirði árið 1941
en árið 1944 giftist hún Birni
Kristinssyni, f. 23. ágúst 1911,
sjómanni frá Árskógsströnd. For-
eldrar hans voru Kristinn Páls-
son (1875–1962) og Sigríður Að-
albjörg Jóhannsdóttir (1883–
1953) en frá 11 ára aldri ólst
Björn upp hjá hjónunum Frið-
birni Björnssyni og Björgu Valdi-
marsdóttur í Hrísey.
Börn Alvildu og Björns eru: 1)
Friðbjörn Berg, sjómaður og út-
gerðarmaður í Hrísey, f. 1945.
Kona hans er Sigurhanna Ester
Björgvinsdóttir bankastarfsmað-
ur og börn þeirra eru Sigmar Jó-
hannes, Hrannar Björn og Dagný
Möller. 2) Jóna Kristjana, starfs-
kona á Dalbæ á Dal-
vík, f. 1948. Maður
hennar er Baldur
Árni Friðleifsson
vélvirki og börn
þeirra eru Frið-
björn, Steinar Rafn
og Thelma Lind. 3)
Nanna, starfskona á
Víðihlíð, dvalar-
heimili aldraðra í
Grindavík, f. 1949.
Dóttir hennar með
Birgi Sigurjónssyni
er Birna María en
hún ólst að mestu
upp hjá Alvildu og
Birni. Nanna giftist Viðari Sig-
urðssyni vélamanni, en þau
skildu. Synir þeirra eru Sigurður
Grétar og Viðar Þór. 4) Kristján
Vilhelm, framreiðslumaður í Nor-
egi, f. 1952. Sonur hans með
Höllu Grímsdóttur er Gauti Möll-
er. 5) Sigurður Kristinn, banka-
starfsmaður í Auckland, Nýja-
Sjálandi, f. 1954. Sonur hans með
Sigríði Bragadóttur er Kristinn.
Eiginkona Sigurðar er Shone M.
Björnsson, fædd Nicholson, ljós-
móðir og börn þeirra eru Sara
María og Björn James. 6) Almar,
sjómaður í Hrísey, f. 1959. Dóttir
hans með Elínu Steingrímsdóttur
er Arnheiður Rán. Kona hans er
Þórunn Björg Arnórsdóttir fisk-
tæknir og börn þeirra eru Júlía
Mist, Unnar Númi og Alma Björg.
Barnabarnabörn Alvildu og
Björns eru orðin 10 að tölu.
Björn Kristinsson lést hinn 24.
febrúar 1997.
Auk umfangsmikilla húsmóð-
urstarfa í Hrísey sinnti Alvilda
ýmsum störfum utan heimilis á
sínum yngri árum og lét sér alla
tíð afar annt um velferð sam-
ferðamanna í Hrísey og á Siglu-
firði.
Útför Alvildu Möller fer fram
frá Hríseyjarkirkju í dag og hefst
athöfnin klukkan 14.
Í dag verður kvödd hinstu kveðju
í Hrísey föðursystir okkar Alvilda
Möller og er okkur systkinunum
ljúft að minnast hennar nokkrum
orðum. Alvilda kvaddi þetta líf á ný-
ársnótt, tilbúin fararinnar og sátt
eftir langa og gifturíka ævi.
Alvilda hét fullu nafni Alvilda
María Friðrikka og var nefnd eftir
föðurömmu sinni, Alvildu Maríu
Thomsen, konu Jóhanns Möller
kaupmanns á Blönduósi. Nöfn
hennar þóttu okkur ætíð tignarleg
og mikil saman en einhvern veginn
hæfa vel svo svipmikilli og atorku-
samri konu. Flestir nefndu hana þó
Öllu og það var til marks um hve
blátt áfram hún var í allri fram-
komu og við alla samferðamenn.
Alvilda ólst upp í stórum systk-
inahópi á Siglufirði þegar síldin var
að breyta lífi bæjarbúa svo að um
munaði og ferskir vindar blésu um
mannlífið. Systkinin voru átta, fædd
á 13 árum, þar af fimm á rúmum
fjórum árum og má nærri geta að
fyrir húsmóðurina, hana ömmu
Jónu, gafst ekki tími til að dunda
neitt eða fjargviðrast og þaðan af
síður æðrast eða leggja árar á bát.
Þessa eiginleika erfði Alla í ríkum
mæli, auk léttleikans og hlátursins.
Í litla Möllershúsinu ríkti glaðværð
og sennilega var stundum róstu- og
hávaðasamt en aldrei leiði eða logn-
molla. Möllershúsið var á þessum
árum og fram á fullorðinsár krakk-
anna nokkurs konar félagsmiðstöð
okkar tíma. Herskari af börnum og
unglingum kom þangað til að tefla
og spila og þeir sem ekki komust
inn í húsið fylgdust með spila-
mennskunni inn um gluggana.
Í þessum hópi gáfu systurnar
tvær, Alla og Nunna, bræðrum sín-
um sex ekkert eftir í gáska og
dugnaði. Alla keppti í handbolta
með KS og var meðal afkastamestu
síldarstúlknanna í síldarbænum.
Dugnaðurinn átti eftir að fylgja
Öllu allt hennar líf, ásamt gustinum,
kraftinum og hressileikanum. Það
kom sér líka vel því að hennar beið
að eignast og annast stóra fjöl-
skyldu og að vera víða og oft til
taks þegar þurfti að taka til hönd-
unum, hlúa að samferðamönnum
eða einfaldlega bera með sér létt-
leika í dagsins önn. Þar var jafn-
ræði með þeim hjónum, Öllu og
Bjössa.
Við systurnar kynntumst Öllu
mest á ferðum okkar til Hríseyjar
og á menntaskólaárunum í ferðum
okkar í afar misjöfnum vetrarveðr-
um með póstbátnum Drangi milli
Akureyrar og Siglufjarðar. Alltaf
var komið við í Hrísey og varla
brást að Alla var mætt á bryggj-
unni til að fylgjast með ferðalöng-
unum. Ef stoppið var langt lét hún
sig ekki muna um að bjóða okkur
með félögum okkar í heimsókn og
trakteraði á höfðinglegum veiting-
um um leið og hún spurði frétta og
athugaði hverra manna félagarnir
voru. Hún hafði það líka frá ömmu
Jónu að fylgjast vel með fólki og lét
sér fátt óviðkomandi. Bónbetri
manneskja var vandfundin. Öll eig-
um við minningar um það er hún
kom í heimsóknir til Siglufjarðar,
færandi hendi til ömmu Jónu með
heimatilbúið góðgæti. Hún kom líka
með gleði og skemmtun og tilsvör
hennar og ýmiss konar orðatiltæki
urðu fleyg og eru oft notuð enn í
dag okkar á meðal.
Hún Alvilda fór ekki oft af bæ,
undi sér vel í Hrísey og þurfti ekki
miklu meira. Hún setti svip á sam-
félagið í eyjunni; það var hennar
fólk.
Við minnumst Öllu frænku með
hlýhug og sendum fjölskyldu henn-
ar hugheilar samúðarkveðjur.
Inga, Alda, Jóna, Alma og
Kristján Möller.
ALVILDA
MARÍA FRIÐRIKKA
MÖLLER✝ Bjarni Sigur-geirsson fæddist
á Selfossi II, hinn 24.
febrúar 1918. Hann
lést á Sjúkrahúsi Suð-
urlands, Selfossi, 26.
desember síðastlið-
inn. Foreldrar hans
voru Jóhanna Andrea
Bjarnadóttir, f. 24.
febrúar 1878, frá
Geirakoti, d. 25. mars
1964 og Sigurgeir
Arnbjarnarson, f. 27.
nóvember 1877, bóndi
Selfossi II, d. 31. mars
1967. Systkini Bjarna voru: Bjarni
Kristinn, f. 8. október
1901, d. 23. apríl 1905,
Arnbjörn, f. 21. sept-
ember 1904, d. 15. maí
1979, Höskuldur, f. 27.
september 1907, d. 7.
júní 1976, Guðrún, f.
28. desember 1909, d.
6. mars 1986.
Bjarni tók við bú-
skap föður síns ungur
að árum og var bóndi á
Selfossi II. Bjarni var
ókvæntur og barnlaus.
Útför Bjarna fer fram
frá Selfosskirkju í dag
og hefst athöfnin klukkan 13.30.
Fjarlægjast heimatún.
Ferð þín er hafin,
nú fylgir þú vötnum,
sem falla til nýrra staða
og sjónhringir nýir
sindra þér fyrir augum.
(Hannes Pétursson.)
Bjarni, elskulegur föðurbróðir okk-
ar, er nú horfinn af sjónarsviðinu.
Farinn á vit feðra sinna eftir langa og
farsæla æfi.
Eftir slá hjörtu okkar full söknuðar
og hugir barmafullir minninga um
yndislegan mann, er var okkur öllum
svo einstaklega góður og hlýr.
Bjarni var hvers manns hugljúfi,
tryggur og traustur vinur allra er
þekktu hann. Með fráfalli Bjarna eru
nú horfin öll hin svokölluðu Selfoss-
systkini, sem öll lifðu lífinu hlið við
hlið á sinni jörð, Selfossi II. – Þó ólík
væru voru þau afar samrýnd og vildu
hvergi annars staðar dvelja. Þau
unnu sveitinni sinni heitt.
Heimili þeirra systkina var þekkt
fyrir gestrisni og góðvild til handa öll-
um er að garði bar. Voru það forrétt-
indi fyrir okkur bræðrabörnin að
alast upp við þessar aðstæður með
annan fótinn í litlu Selfosskauptúni og
hinn í Selfossbænum með sínu ljúfa
baðstofulofti. Kynnast öllum gömlum
búskaparháttum. Sitja í hestvagni
með mjólkina beint úr fjósinu. Bjarni
hélt um taumana og hesturinn, Rauð-
ur, dró vagninn og við börnin hlupum
að húsum þorpsins með brúsana. All-
ar þessar minningar eru fjársjóður er
aldrei fyrnist og ómetanlegt vega-
nesti út í líf hraða og breytinga. Er lit-
ið er um öxl er undarlegt að hugsa um
hve margir rúmuðust í svo litlum bæ,
en þar sem samheldni og hjartarými
er ríkjandi er allt hægt. Tímarnir
breyttust, kauptúnið stækkaði og svo
kom að kúabúskapur lagðist af á Sel-
fossi II, en sauðfjárbúskap hélt
Bjarni áfram meðan heilsa og kraftar
leyfðu og síðustu kindurnar kvöddu
eins og hann á þessu ári. Bjarni
stundaði nánast alla æfi netalaxveiði í
Ölfusá ásamt Gunnari bónda á Sel-
fossi I. Til þeirra starfa þarf góða
þekkingu og færni, því Ölfusá er erfið
og óvægin og ekki á allra færi að
sækja björg í bú úr henni.
Er búskaparumsvif minnkuðu
stundaði Bjarni margvísleg önnur
störf á Selfossi og var alls staðar eft-
irsóttur starfskraftur, enda ekki hon-
um að skapi að sitja auðum höndum.
Bjarni var ókvæntur og barnlaus,
en afar barngóður og átti alltaf eitt-
hvað sælgæti í vasa sínum handa
þeim ótal börnum er voru í hans ná-
lægð. Hann var afar gestrisinn og bar
fram kökur fyrir gesti og gangandi,
eftir fráfall Gunnu systur sinnar.
Bjarni var ekki maður margra
orða, flíkaði ekki tilfinningum sínum,
hans vegferð einkenndist af hljóðlátri
reisn og virðingu fyrir öllum. Hann
var afar greiðvikinn og enginn fór
bónleiður af hans fundi, hann lét sínar
gjörðir og velvild segja allt er segja
þurfti – allt var sjálfsagt er hann
megnaði að láta öðrum í té og þar vor-
um við bróðurbörn í hávegum höfð.
Bjarni gerði ekki víðreist á langri
æfi, fór eina ferð með Gullfossi á yngri
árum og færði okkur fyrstu Machint-
osh-dósirnar er við tímdum vart að
opna, þetta var svo sérstakt í þá daga.
Bjarni var mikill áhugamaður í
bridge, hafði mikla ánægju af og vann
til margra verðlauna líkt og bræður
hans.
Fyrst og síðast unni hann sinni jörð
og landi, stritaði í sveita síns andlits
alla tíð. Er heilsan fór að daprast var
hans heitasta þrá að dvelja heima eins
lengi og unnt væri. Sú ósk hans gekk
eftir, þökk sé frábærri umönnun og
velvild er Valdís Valgeirsdóttir veitti
honum og heimilinu uns yfir lauk.
Verður það seint fullþakkað. Ekki má
gleyma að góðir grannar og vinir litu
daglega inn til hans, slík var tryggð
þeirra og vinátta.
Nú er okkar elsku föðurbróðir allur
og skarðið er stórt. Við trúum því að
vel hafi verið tekið á móti honum af
áður látnum ástvinum. Megi Drottinn
leyfa hógværum dyggum þjóni sínum
að hvíla í friði eftir erfiði og eril langr-
ar æfi. Við sjálf geymum minningarn-
ar um ljúfan mann og þökkum af al-
hug allar samverustundir.
Deyr fé
deyja frændur
deyr sjálfur hið sama.
En orðstír
deyr aldregi
Þeim er sér góðan getur.
(Hávamál.)
Sigrún Arnbjarnardóttir,
Sigurgeir Höskuldsson.
Í dag kveðjum við góðan mann,
Bjarna Sigurgeirsson bónda á Sel-
fossi. Bjarni var einn af þessum
mönnum sem skipuðu stóran sess í
bæjarlífinu á Selfossi þegar bærinn
var að byggjast upp og því var spenn-
andi fyrir okkur smástrákana sem
vorum að alast upp á Selfossi á ár-
unum 1950 til 1960 að fá að kynnast
slíkum manni. Bjarni var með mynd-
arlegan búskap á Fossi og þær voru
ófáar heimsóknir sem farnar voru til
hans til að skoða dýrin eða til að fá að
sitja í heyvagninum í heyskapnum.
Og alltaf tók Bjarni okkur jafnvel og
leyfði okkur að flækjast um á Fossi.
En það sem var líklega skemmtileg-
ast við að heimsækja Foss var að
koma í veiðiskúrinn hjá Bjarna og
Gunnari félaga hans sem stunduðu
netaveiði í Ölfusá og Bjarni var fær
veiðimaður. Þar var oft líf og fjör þeg-
ar þeir voru að vitja netanna og
stundum vorum við svo heppnir að fá
að grípa í stöng á veiðisvæðunum
hans Bjarna.
Þegar síðan ég og konan mín byrj-
uðum að búa vorum við svo lánsöm að
fá leigt í kjallaranum hjá Arnbirni
bróður Bjarna sem einnig bjó á Fossi.
Bjarni bjó með systkinum sínum Guð-
rúnu og Höskuldi og syni Höskuldar í
næsta húsi og á þeim árum kynnt-
umst við góðmennsku þeirra systkina
enn betur og sú tengsl hafa síðan
haldist í gegnum tíðina. Bjarni bjó
alla sína ævi á Fossi og síðustu árin
bjuggu hann og Sigurgeir bróðurson-
ur hans þar saman og milli þeirra
frænda voru góð og traust tengsl.
Ég vil með þessum orðum þakka
Bjarna fyrir góð kynni og vináttu í
gegnum árin og votta Sigurgeir og
öðrum ættingjum samúð mína.
Ólafur Snorrason.
Bjarni Sigurgeirsson á Fossi er
fallinn frá eftir erfið veikindi. Bjarni
var yngstur systkinanna í Austur-
bænum á Selfossi, en dáin eru Guð-
rún, Höskuldur og Arinbjörn. Arin-
björn var giftur Viktoríu Jónsdóttur
og áttu þau eina dóttur, Sigrúnu. Hin
voru ógift og héldu saman heimili með
Sigurgeiri, syni Höskuldar. Með
Bjarna er gengin gamla kynslóðin á
Selfossbæjunum, kynslóð sem setti
mark sitt á okkur sem ólumst þar upp
uppúr seinna stríði. Móðir mín var al-
in upp af sómahjónunum Símoni
Jónssyni og Sigríði Jónsdóttur í Vest-
urbænum á Selfossi og óx úr grasi
með yngri systkinunum, Bjarna og
Guðrúnu, sem voru þó heldur eldri.
Bjarni var nokkuð uppátektarsamur
og stríðinn og sagði hún að stríðnina
hefði hún ekki þolað almennilega fyrr
en hún var orðin stálpuð. Henni
fannst Bjarni skemmtilegur og
traustur leikfélagi og voru þau bestu
vinir meðan bæði lifðu. Fyrstu minn-
ingar mínar af Bjarna tengjast upp-
átektarsemi hans og góðlátlegri
stríðni, en sólríkan sumardag í
bernsku minni man ég óljóst að við
Bjarni stóðum úti á hlaði ásamt öðru
fólki og gaf hann mér pening fyrir
sælgæti. Eina sem ég þurfti að gera
var að ganga austur í Addabúð, sem
var vefnaðar- og smávöruverslun sem
Arinbjörn bróðir hans rak við brúar-
sporðinn. Hann gat þess ekki að pen-
ingurinn var úr matador-spili, en ekki
brást Addi þá frekar en síðar og lét
mig hafa tíu-aura kúlur fyrir pening-
inn þannig að allir höfðu gaman af.
Þetta var upphafið að vináttu okkar.
Þó að aðalverk Bjarna væri bú-
skapurinn var það greinilega laxveið-
in sem átti hug hans allan. Netaveiði
hefur verið stunduð í Ölfusá við Sel-
foss líklega frá landnámsöld og var
veiðin oft mikil búbót fyrir landlitlar
jarðir Selfossbæjanna. Netaveiðin
var stunduð af miklu kappi á uppvaxt-
arárum mínum. Jafnframt var stund-
að ræktunarstarf sem tryggði jafna
og örugga veiði þótt mikil áraskipti
gætu verið í veiðinni. Margar bestu
minningar æskuáranna eru tengdar
veiðiskapnum. Á vorin var byrjað að
dytta að netum og leggja út kláfa, en
það var lang áhættusamasti þáttur
veiðanna. Er mér minnisstætt þegar
karlanir bisuðu með kláfana úti í
straumkastinu klæddir ullarbrókum
og seglbuxum til þess að verjast kuld-
anum. Fannst manni ekki meiri
hetjur fara um héruð en þessa ein-
beittu og hugdjörfu menn sem með
reynslu og lagni komu kláfunum fyrir
í beljandi straumnum þó að fyrir óinn-
vígða virtist það óvinnandi verk. Síð-
an tók veiðiskapurinn við og var vitjað
um lagnir þrisvar á dag og oftar þeg-
ar göngur voru í ánni. Fátt fannst
manni tignarlegra en að sjá þá Bjarna
og félaga hans, Gunnar úr Vestur-
bænum, fara út í þungan straum ár-
innar á hvítum báti með rauðar rend-
ur og vitja netana með árvekni og
yfirvegun þeirra sem búa að langri
reynslu og þekkingu. Bjarni undir ár-
um og hélt hann bátnum kyrrum í
straumaskilunum, Gunnar í skutnum
að draga netið, silfurgljáandi nýgeng-
inn stórlax þekjandi botninn á bátn-
um og sól skein í heiði eins og æv-
inlega í æsku. Þessa veiði stunduðu
Selfossbændur eins og forfeður
þeirra höfðu gert öldum saman af
mikilli natni og virðingu þess sem á
veiðina þarf að treysta. Endalausar
voru „spögulasjónirnar“ um veiði-
skapinn, orsök og afleiðingu, nátt-
úrufar, aðferðir og allt það sem raun-
verulegir veiðimenn verða uppteknir
af. Á veturna spilaði Bjarni brids með
bróður sínum Höskuldi í bridsfélagi
Selfoss. Þeir voru ágætir spilarar og
unnu marga sigra. Þeir bættu hvor
annan upp, Hössi var snöggur til
ákvarðana og tók hiklaust áhættu,
Bjarni grandvar og skoðaði hvert spil
í kjölinn. Því var lærdómsríkt að spila
á móti Bjarna því hann leit á það sem
eðlilegan og gefandi part leiksins að
skoða alla þá möguleika sem hvert
spil hafði uppá að bjóða. Var hann
góður að greina spilin og spilaði einn-
ig úr af yfirvegun og ímyndunarafli
sem einkennir alla góða spilara.
Ævinlega var gott að koma í Aust-
urbæinn, drekka kaffi og síðar að
reykja með þeim öllum í rólegheitum
yfir sjónvarpinu eða spjalli. Ekki var
síðra að ganga í verk með þeim
frændum, Bjarna og Geira, hvort sem
var um vetur eða sumar. Réttir voru
mikil skemmtun og kartöflurnar á
haustin búbót, því ekki taldi Bjarni
eftir sér að launa fyrir hjálpina. Með
þessum minningarbrotum vil ég
þakka samfylgdina og vináttuna sem
var mér ungum næring og styrkur.
Árni Snorrason.
BJARNI
SIGURGEIRSSON