Morgunblaðið - 24.01.2001, Side 20
LANDIÐ
20 MIÐVIKUDAGUR 24. JANÚAR 2001 MORGUNBLAÐIÐ
Eyja- og Miklaholtshreppi - Kven-
félagið Sif á Patreksfirði hélt
þorrablót sl. laugardagskvöld í
félagsheimilinu á Patreksfirði.
Húsfyllir var og sóttu skemmtunina
um 260 manns. Hefð hefur skapast í
kringum blótið og er það liður í
fjáröflun kvenfélagskvenna.
Þorrablótsnefnd hefur veg og
vanda af skemmtuninni og kon-
urnar sjálfar útbúa allan mat sem
þar er framreiddur. Trogin voru
borin á hvert borð og svignuðu und-
an súrmat, harðfiski, hákarli,
hangikjöti og sviðasultu og ekki
voru hveitikökurnar og rúgkök-
urnar af lakari endanum. Þessar
kökur eru eitt af sérkennum Vest-
fjarða og sjást ekki víða utan
þeirra, nema helst hjá brottfluttum
Vestfirðingum. Verða þær að telj-
ast eitt af menningarverðmætum
okkar í matargerð.
Glæsilegar Sifjarkonur
Kvenfélagskonur voru allar eins
klæddar meðan þær framreiddu
matinn, í svörtu og hvítu, með fal-
legar merktar svuntur með nafni
kvenfélagsins og hófu skemmtun-
ina á því að fara allar upp á svið og
syngja opnunarsöng sem hefst á
þessu erindi:
Halló!
Eru allir hingað mættir?
Núna byrjar blótið einu sinni enn.
Hérna verða allir kættir
með alls kyns fóðri, konur bæði og menn.
Við byrjuðum í haust af gömlum vana
að svíða punga, sjóða sultu og súrsa
bringurnar.
Síðan tók við andlegt efni og að baka
kökurnar.
Þær leika sér að þessu kellurnar.
Mikill hlátur og gleði
Þorrablótsnefndin sá einnig um
að semja og flytja skemmtiatriði á
þorrablótinu. Þau voru nokkurs
konar spéspegill samfélagsins og
glumdu hlátrasköll og dúndrandi
lófatak um salinn meðan þau voru
flutt og hlógu þeir gjarnan mest
sem gert var grín að.
Torfi Jónsson, fyrrverandi skip-
stjóri og aflamaður, var mættur
með myndbandsupptökuvélina sína
til að taka upp skemmtiatriði
þorrablótsins eins og hann hefur
gert frá árinu 1991.
Að loknum skemmtiatriðum tók
við dunandi dans en BG og Margrét
frá Ísafirði héldu uppi fjöri langt
fram á nótt. Gestir þorrablótsins
létu ekki sitt eftir liggja og var
dansgólfið fullt allan tímann.
Kvenfélags-
konur með
þorrablót
á Patró
Morgunblaðið/Guðrún G. Bergman
Sifjarkonurnar Þórey, Styrgerður, Guðný, Dröfn, Anna, Nína og Gróa
með glæsilegt matartrog.
Morgunblaðið/Guðrún G. Bergmann
Mikið var um söng og skemmtiatriði á þorrablótinu.
Sauðárkróki - Við athöfn í Vestur-
farasetrinu á Hofsósi síðastliðinn
föstudag voru afhent Hvatningar-
verðlaun Iðnþróunarfélags Norður-
lands vestra en slík afhending fór nú
fram í annað sinn.
Það var Guðmundur Skarphéðins-
son frá Siglufirði, stjórnarformaður í
INVEST, sem afhenti Valgeiri Þor-
valdssyni, framkvæmdastjóra Vest-
urfarasetursins, viðurkenninguna
sem er leirlistaverk eftir Grétu Jós-
efsdóttur, listakonu á Hvamms-
tanga.
Í ræðu sinni sagði Guðmundur:
„Valgeir Þorvaldsson hefur með
uppbyggingu Vesturfarasetursins á
Hofsósi sýnt kjark og áræði sem
vakið hefur athygli landsmanna og
einnig afkomenda Íslendinga í Norð-
ur-Ameríku. Lagði hann upp með
viðskiptahugmynd sem á sér enga
hliðstæðu í íslensku samfélagi og
hefur mikla menningarlega sér-
stöðu. Uppbygging Vesturfaraset-
ursins hefur tekist vel, aðsókn að
setrinu hefur aukist ár frá ári og Ís-
lendingadagurinn sem haldinn er um
verslunarmannahelgi hefur áunnið
sér sess, bæði sem hátíð Íslendinga
og einnig fólks af íslensku bergi
brotins í Norður-Ameríku.
Á síðastliðnu sumari var opnuð
sýning um för Íslendinga í Utah, í
nýju húsi sem þá var opnað og hlaut
við það tækifæri nafnið Frænda-
garður.“
Valgeir Þorvaldsson þakkaði þá
viðurkenningu sem felst í hvatning-
arverðlaununum og sagði þá athygli
sem Vesturfarasetrið hefur vakið
hvatningu til enn frekari átaka.
Að lokum þáðu gestir veitingar í
boði Iðnþróunarfélagsins.
Morgunblaðið/Björn Björnsson
Guðmundur Skarphéðinsson, stjórnarformaður Invest, og Valgeir Þor-
valdsson með hvatningarverðlaun Invest.
Vesturfarasetrið
hlaut Hvatningar-
verðlaun INVEST
Sauðárkróki - Fjölmenni var við
opnun sýningar í Safnahúsinu á
Sauðárkróki á ljósmyndum og
ýmsum munum sem tengjast ut-
anríkisþjónustu Íslendinga. Um er
að ræða farandsýningu sem ber
yfirskriftina: Yfirlit yfir þróun ís-
lenskrar utanríkisþjónustu í sex-
tíu ár.
Það var Pétur Thorsteinsson,
starfsmaður í utanríkisráðuneyt-
inu, sem bauð gesti velkomna, en
síðan tók Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðarráðherra, til máls í for-
föllum Halldórs Ásgrímssonar, ut-
anríkisráðherra, sem ekki átti
þess kost að opna sýninguna svo
sem gert hafði verið ráð fyrir.
Í ræðu sinni gerði hún grein
fyrir starfsemi utanríkisráðuneyt-
isins og nefndi til dæmis nokkra
þætti sem snertu Sauðárkrók og
Skagafjörð. Sýningin var sett upp
í Reykjavík á síðasta ári en síðan
hefur sýningin verið sett upp á
nokkrum stöðum utan höfuðborg-
arinnar.
Morgunblaðið/Björn Björnsson
Valgerður Sverrisdóttir ávarpaði gesti við opnun sýningarinnar í for-
föllum Halldórs Ásgrímssonar.
Myndir
úr utan-
ríkisþjón-
ustunni
Búðardalur - Laugardaginn 20.
janúar var haldið þorrablót Lax-
dæla hér í Dalabúð. Blótið var það
fjölmennasta sem verið hefur síð-
astliðin ár, um 240 manns mættu
og skemmtu sér vel. Heimamenn
sáu um skemmtiatriðin af alkunnri
snilld, en að venju samdi Gísli
Gunnlaugsson góðan hluta efnis-
ins, en hann er nú á förum úr
byggðarlaginu.
Uppistaða skemmtiatriðanna var
sagan „Dalirnir heilla“, sem
fjallaði um fjölskyldu sem sótti
Dalina heim og fékk að kynnast
heimamönnum og öllu því helsta
sem gerðist á síðasta ári. Kvartett
heimamanna söng við undirleik
Halldórs Þórðarsonar.
Eftir glensið var dansað fram
eftir nóttu undir tónlist Leyniþjón-
ustunnar. Gunnar Björnsson sá
um matinn sem var að venju frá-
bær. Stefán Jónsson, fyrrverandi
sveitarstjóri Dalabyggðar, var
veislustjóri og stóð hann sig með
stakri prýði eins og við var að bú-
ast.
Fyrrum fréttaritari
heiðruð
Kristjana Ágústdóttir, sem lét af
störfum um áramótin sem frétta-
ritari Morgunblaðsins, var heiðruð
af Ungmennafélaginu Ólafi Páa og
þorrablótsnefnd, en þorrablótið
var haldið í nafni ungmennafélags-
ins. Kristjana var í fyrstu bygg-
ingarnefnd Dalabúðar og var um
árabil formaður Ólafs Páa. Hún
hefur ætíð barist af krafti til að
vegur Dalabúðar yrði sem mestur
og að ekki gleymdist saga hússins.
Hún varð áttræð í síðasta mánuði.
Morgunblaðið/Guðrún Kristinsdóttir
Halldór Þórðarson lék undir fjöldasöng á harmóniku, hér er hann með
hluta af meðlimum Leyniþjónustunnar.
Þorrablót Laxdæla
Fagradal - Þorrinn byrjaði með roki
og rigningu í Mýrdalnum, en þessi
Mýrdælingur á myndinni lét það
ekki aftra sér að fara í gönguferð í
Víkurfjöru þrátt fyrir mikið brim,
rigningu og rok. Það sem af er vetrar
hefur veðráttan í Mýrdalnum verið
með allra besta móti, varla hægt að
segja að snjógráði hafi fest á jörðu
og muna elstu menn varla eftir öðru
eins.
Þorri byrj-
ar með
roki og
rigningu