Morgunblaðið - 24.01.2001, Side 42
MINNINGAR
42 MIÐVIKUDAGUR 24. JANÚAR 2001 MORGUNBLAÐIÐ
✝ Sigrún SóleyKarlsdóttir
Wesselink fæddist 1.
mars 1963. Hún lést
í Hollandi hinn 15.
janúar síðastliðinn.
Foreldrar hennar
eru Karl Magnússon
loftskeytamaður og
rafeindavirkjameist-
ari, f. 24. 3. 1935, d.
9.3. 1993, og Ólöf
Svandís Eiríksdóttir,
f. 15.10. 1935. Hún
rak eigið fyrirtæki
en hætti störfum á
síðasta ári. Systkini
Sigrúnar eru Magnús, Sæunn
Elfa, Eiríkur Sverrir og Karl
Jökull.
Sigrún eignaðist
tvö börn, Svandísi
Rún Ríkarðsdóttur,
f. 26.3. 1981, og
Arnór Inga Ingvars-
son, f. 15.2. 1990.
Sigrún starfaði
við verslunar- og
skrifstofustörf og
útskrifaðist úr
einkaritaraskólan-
um 1994. Hún gift-
ist Ronald Wessel-
ink 1996 og bjuggu
þau ásamt Arnóri
Inga í Hollandi þar
til Sigrún lést.
Útför Sigrúnar Sóleyjar fór
fram frá Langholtskirkju 23.
janúar.
Með miklum söknuði kveð ég
ástkæra systur mína Sigrúnu Sól-
eyju, sem lést í Hollandi hinn 15.
janúar sl., þar sem hún bjó ásamt
eiginmanni og syni. Hún var ekki
bara systir mín því við vorum einn-
ig nánar trúnaðarvinkonur sem
treystum hvor annarri fyrir öllu.
Við áttum saman margar góðar
stundir. Minnist ég þess sérstak-
lega þegar við fórum vestur á
Snæfellsnes, bara við tvær og
börnin okkar, og gistum á Lóran-
stöðinni á Gufuskálum, sem eru
æskuslóðir okkar. Við fórum í
berjamó og í gönguferðir í fjörunni
fyrir neðan Lóranstöðina. Þar
grilluðum við og spiluðum og eins
og svo oft þegar við fórum í bíltúr
saman var sungið og trallað alla
leiðina.
Lífshlaup Sigrúnar var stutt og
erfitt. Hennar aðalsmerki var að
bera sig vel og alveg sama hvað
bjátaði á þá var hún alltaf glöð og
hláturmild í góðra vina hópi.
Hennar sárasta lífsreynsla var
að fá ekki að halda góðu sambandi
við dóttur sína Svandísi, sem hún
eins og mæður gera, elskaði svo
heitt og þráði að fá að hitta. En
Sigrún sagði þó alltaf að það væri
ekki við barnið að sakast því það
væri faðir Svandísar og fósturmóð-
ir hennar sem hefðu stuðlað að því
að hindra eðlilegt samband þeirra,
sem áður hafði verið svo gott og
gengið svo vel. Sigrún, faðir Svan-
dísar og amma höfðu hjálpast að
og haft góða samvinnu við umönn-
un Svandísar og þegar faðir henn-
ar var á sjónum var Svandís hjá
mömmu sinni og ömmu Lillu.
Stærsta gleði Sigrúnar var litli
drengurinn hennar hann Arnór
Ingi sem hún ól upp með mikilli
ástúð og umhyggju. Hann var
augasteinninn hennar. Hann er
einstaklega ljúfur drengur sem öll-
um þykir vænt um. Hann verður
bráðum 11 ára og er svo heppinn
að eiga svo marga að sem hlúa að
honum. Hann býr núna hjá Ingvari
pabba sínum, sem er tilbúinn að
veita okkur öllum sem þykir svo
innilega vænt um hann greiðan að-
gang að honum og hefur þar hags-
muni barnsins að leiðarljósi. Arnór
Ingi á líka fósturpabba sem hann
bjó hjá ásamt móður sinni í Hol-
landi. Þeirra samband var mjög
náið og munu þeir halda sambandi
í framtíðinni.
Sigrún systir mín dvaldi hjá
mömmu um jólin. Þær voru hjá
mér og fjölskyldu minni á aðfanga-
dagskvöld og á gamlárskvöld. Við
nutum öll þeirrar samveru. Við
mamma keyrðum svo Sigrúnu og
Arnór að Leifsstöð hinn 4. janúar.
Ekki hvarflaði það að okkur þá að
við sæjum hana aldrei aftur.
Elsku hjartans systir mín. Von-
andi líður þér vel núna. Það er erf-
itt að eiga enga systur lengur en
vonandi minnkar sársaukinn með
tímanum. Takk, elsku Sigrún mín,
fyrir að hafa verið mér svona góð
systir.
Sæunn Elfa Karlsdóttir
(Didda systir).
Ég get ekki skilið að það sé
komið að kveðjustund. Aldrei datt
mér í hug að þú myndir yfirgefa
þennan heim svona ung. Núna þeg-
ar þú ert farin er ég svo þakklát
fyrir að eiga svo mikið af minn-
ingum um þig sem geta kallað
fram bros jafnvel á sorgartímum.
Ég held ég hafi verið átta ára göm-
ul þegar þú varst með æði fyrir
grænum frostpinnum og þurftir
helst að fá nokkra slíka á dag. Þá
baðst þú mig stundum að hlaupa út
í sjoppu og kaupa frostpinna handa
þér. Þá varst þú nýbúin að lenda í
mótórhjólaslysinu og varst með
hækjur, svo þú áttir ekki auðvelt
með að komast út í sjoppu sjálf.
Þau voru ófá skiptin sem þú
komst í heimsókn til okkar þegar
við bjuggum í Mosfellsbæ með
hækjurnar og Tabið. Alltaf þegar
ég sé Tab-flösku hugsa ég til þín
því ég veit ekki um neina aðra en
þig sem drekkur þennan drykk.
Þegar þú varst hjá okkur í Mosó
var oftast mikið fjör og mikið hleg-
ið. Í eitt af þessum skiptum voruð
þið mamma að baka muffins-kökur
og ég held að það hafi verið þá sem
gælunöfnin ykkar urðu til sem þið
hlóguð svo mikið að. Þú kallaðir
mömmu mína Diddu piddu púddu-
rass og hún svaraði í sömu mynt
Sigrún digrún dúkkurass. Ég man
líka eftir ferðum til Hveragerðis
þar sem við fórum í Tívolíið og í
Eden að kaupa ís og happaþrenn-
ur. Þið mamma voruð mjög nánar
og voruð stundum að tala um hluti
sem trúnaðarvinkonur tala um.
Þá var ég alltaf svo forvitin og ef
ég komst upp með það sat ég og
hlustaði á ykkur og naut þess að fá
að skyggnast inn í heim þeirra full-
orðnu. Seinna þegar ég sjálf var
orðin fullorðin sagði ég þér svo
sumt í trúnaði og þú gafst mér
stundum ráð sem alltaf voru góð
ráð. Árið 1990 eignaðist þú svo
Arnór Inga. Hann var aðeins fjög-
urra mánaða gamall þegar ég fékk
að passa hann fyrst. Ég passaði
hann meðan þú og Ingvar, pabbi
hans, voruð að vinna. Hann eign-
aðist strax stórt pláss í hjartanu
mína og hefur hann alveg síðan
verið uppáhaldsfrændi minn. Þú
getur treyst því, elsku Sigrún, að
munum öll gera okkar besta til að
vera góð við hann og veita honum
allt sem hann þarfnast. Allir í fjöl-
skyldunni elska Arnór og ég veit
að pabbi hans elskar hann og mun
gera sitt besta til að láta honum
líða vel. Við vorum svo heppin að
fá að hafa þig hjá okkur um jólin
og áramótin síðustu. Þá vorum við
að borða danska purusteik sem
okkur þykir svo góð. Sérstaklega
þótti okkur puran góð og reyndum
hvað við gátum að finna sneiðar
með aðeins meiri puru en átti að
vera miðað við stærðina. Á gaml-
árskvöldi skáluðum við þegar
klukkan sló tólf og voru eflaust all-
ir að vona að þetta ár yrði ham-
ingjuríkt og gott. Engum datt í
hug fjórða janúar, þegar þú og
Arnór Ingi fóruð aftur út til Hol-
lands, að við myndum aldrei sjá
þig aftur né fá símhringingu eða
sjá stafina þína, sw, þegar við opn-
um tölvupóstinn okkar. Elsku Sig-
rún, ég trúi því að nú sé þján-
ingum þínum lokið og að þú sért
núna á góðum stað og fylgist með
okkur öllum þaðan. Þú getur verið
stolt af honum Arnóri Inga því
hann er svo duglegur og góður
strákur. Ég kveð þig að sinni en
veit að einhvern daginn þegar
minn tími kemur þá sjáumst við
aftur. Þangað til segi ég takk fyrir
allar þær stundir sem við áttum
saman og allt sem þú gafst okkur.
Elsku Arnór Ingi, Ronald,
amma, mamma, Maggi, Sverrir,
Kalli og allir sem syrgja hana Sig-
rúnu. Ég bið Guð um að gefa ykk-
ur styrk á þessum erfiðu tímum.
Elva Dögg Pedersen.
Elsku Sigrún Sóley, nú ertu far-
in, en ekki til Hollands heldur til
Guðs. Ég veit að það verður tekið
vel á móti þér þar, því þú varst svo
góð og gefandi persóna, vildir gera
allt fyrir alla, en gleymdir svo oft
sjálfri þér. Sorgir þínar og missir
voru margvísleg í lífinu, en það
vissum bara við, sem fengum að
eiga hlutdeild í því. Þú barst ekki
sorgir þínar á torg. Vildir frekar
vera káta og hressa Sigrún Sóley.
Mesta sorgin var dóttir þín, sem
þú fékkst ekki að vera með. Hugur
þinn var alltaf hjá henni og ef þú
lest þetta máttu vita að mamma
þín elskaði þig og þráði að vera hjá
þér. Guð blessi þig, vina.
Þú áttir líka mjög erfitt þegar
þú misstir barnið sem þú gekkst
með og varst næstum dáin sjálf.
Þú hringdir í mig þegar þú hafðir
náð heilsu. Samt varstu nú aldrei
mjög heilsuhraust og sagðir mér
alla söguna.
Ég fann svo til með þér. Mér
fannst þú eiga það svo innilega
skilið að fá að verða hamingjusöm
með nýja manninum þínum. Þú
tókst þessu með mikilli ró, en ég
vissi að sorgin var mikil. Þú fædd-
ist hetja og dóst sem hetja. Þú
komst nokkrum sinnum til Íslands
í febrúar/mars. Ég var farin að
hlakka svo til að eiga með þér einn
dag, eins og við gerðum oft. Fara á
kaffihús og tala saman um allt sem
fyrir okkur hafði komið frá því við
SIGRÚN SÓLEY
KARLSDÓTTIR
WESSELINK
✝ Pétur Þorgilssonfæddist í Reykja-
vík 27. apríl 1926.
Hann lést á líknar-
deild Landspítalans í
Fossvogi 14. janúar
síðastliðinn. For-
eldrar hans voru
Þorgils Sigtryggur
Pétursson, f. 18.5.
1892, d. 9.1. 1979, og
Guðný Ingigerður
Eyjólfsdóttir, f. 28.2.
1897, d. 11.12. 1943.
Systkini Péturs:
Óskar, f. 5.3. 1919,
Jóhanna, f. 17.2.
1920, Guðrún f. 18.11. 1921, d.
20.3. 1997, Gróa, f. 18.12. 1923, d.
29.3. 1993, Tryggvi, f. 29.10.
1940, d. 12.11. 1979.
Hinn 6. ágúst 1949 kvæntist
Pétur eftirlifandi konu sinni,
Ingunni Ólafsdóttur, f. 25.8.
1928. Foreldrar hennar voru
Ólafur Jónsson, f. 3.3. 1904, d.
27.12. 1984, og Solveig Magn-
úsdóttir, f. 22.1. 1907, d. 6.12.
1993.
Börn Péturs og
Ingunnar eru Sol-
veig, f. 28.8. 1949,
maki Guðjón Valdi-
marsson, börn Ing-
unn og Helga Rúna.
Ólafur Tryggvi, f.
16.8. 1951, maki
Margrét Þorgeirs-
dóttir, börn Rakel
Ýr, Katrín Rós og
Lewis Tryggvi, sem
er látinn. Guð-
ný Ingigerður, f.
28.2. 1955, börn
Helga og Magnea
Ingibjörg, Auður, f.
22.3. 1957, maki Ríkharður
Sverrisson, börn Pétur, Ríkharð-
ur Björgvin og Margrét. Lang-
afabörnin eru tvö.
Pétur lærði bifreiðasmíðar hjá
föður sínum og vann lengst af við
þá grein, síðast á bifreiðaverk-
stæði Mjólkursamsölunnar í
Reykjavík.
Pétur verður jarðsungin frá
Fossvogskirkju í dag og hefst at-
höfnin klukkan 13.30.
Elsku pabbi og afi, nú ert þú farinn
til betri heima og laus við allar þján-
ingar. Það er erfitt að sætta sig við að
missa foreldri og afa, nokkuð sem
maður kvíðir fyrir alla ævi. Þú skip-
aðir stóran sess í lífi okkar og munum
við alltaf minnast þín sem yndislegs
föður og afa. Elsku afapabbi, þú þarft
ekki að hafa áhyggjur af mömmu, við
munum passa hana vel fyrir þig.
Kallið er komið,
komin er nú stundin,
vinaskilnaðar viðkvæm stund.
Vinirnir kveðja
vininn sinn látna,
er sefur hér hinn síðsta blund.
Margs er að minnast,
margt er hér að þakka.
Guði sé lof fyrir liðna tíð.
Margs er að minnast,
margs er að sakna.
Guð þerri tregatárin stríð.
Far þú í friði,
friður Guðs þig blessi,
hafðu þökk fyrir allt og allt.
Gekkst þú með Guði,
Guð þér nú fylgi,
hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.
(V. Briem.)
Sérstakar þakkir til heimahlynn-
ingar Krabbameinsfélagsins, svo og
starfsfólks líknardeildar Landspítala
í Fossvogi.
Þín dóttir og afadóttir,
Solveig og Ingunn.
Einhvers staðar á svæðinu milli
himins og jarðar á tímabilinu frá
vöggu til grafar er æviskeið okkar
mannanna.
Þar og þá eigum við land okkar og
líf, markað annars vegar af baklandi
því sem eru foreldrar okkar og hins
vegar er framtíðarland barna okkar.
Faðir minn Pétur er nú látinn.
Skikinn hans yfirgefinn en ræktaður.
Verkamaður lands þess kemur þar
ekki meir en eftir stöndum við, blóm-
in hans og jurtir. Hann sáði til okkar
og hlúði, gaf fyrirhöfn sína og hlýju,
umhyggju og alúð. Verkin hans voru
ekki til umræðu, sýnis eða auglýst
neitt frekar. Hann stóð við sitt,
traustur og dulur, heiðarlegur, þraut-
seigur og ósérhlífinn. Hjálpsamur
þeim sem til hans leituðu, stundum
um of þegar grannt er skoðað nú.
Við hin stöndum nú og hér í ævinni
okkar, hans lokið og fyrir mér vakir
fyrst og síðast þakklæti.
Hann lagði þennan grunn minn og
undirstöðu í uppeldi, ábyrgð og leið-
sögn, sem svo sannarlega hefur dug-
að vel til þessa. Hjá pabba var þessi
festa, sem aldrei var á torg borin, og
stundum finnst mér að svo hafi verið
því pabba fannst það ekki koma nein-
um við. Hann stóð bara vaktina sína
og rækti skyldu sína heima og heim-
an og hann varð alveg ótrúlega fastur
punktur tilverunnar, óhagganlegur,
fastur fyrir og alltaf hann sjálfur.
Þetta hefur verið forsenda þess ör-
yggis, sem hægt er að líta nú sem
góða líðan og tryggingu æskuheim-
ilisins en þar var í senn styrkur og
skjól. Það var eiginlega ekki fyrr en
ég stofnaði mitt eigið heimili, að eins
og restin af pabba kom í ljós. Það var
hann sem hjálpaði mér að flytja, var
allt í öllu og að kvöldi flutningadags
var eins og ég hefði þá þegar búið þar
í langan tíma. Hann gerðist þá vinur
minn alveg upp á nýtt, nú sem félagi
og vinur á jarnréttisgrundvelli.
Líklega var hann fram að því næst-
um eingöngu skyldurækinn maður í
vinnu. Sjálfsvirðing þjóðarsálarinnar
íslensku hefur alltaf átt svo mikið
undir því hjá gengnum kynslóðum að
standa sína plikt í vinnunni. Slíkt var
hans.
Á þessum síðustu tímum áttum við
ákaflega gott samfélag, okkur þraut
ekki umræðu, hann eins og opnaði
nýja vídd milli okkar, einlægni og
trúnað.
Hin hliðin var þó langt frá því horf-
in, til dæmis fannst honum verst við
veikindi sín í lokin hvað þetta væri nú
mikil fyrirhöfn fyrir okkur hin og
mikið á okkur lagt.
Þannig var hann allt að því fram-
takslaus í eigin málum. Bílarnir hans
endurspegluðu það kannski helst.
Hann átti oftast fábreytt farartæki
þótt bíladellan vildi glæsivagn til
aksturs fram lífsins veg. Svo fór hann
um þá höndum sínum og fagmennsku
og maður varð stoltur af fína bílnum
sem orðinn var. Nei, þá var sá bíll
seldur og pabbi ók næstu druslu í
hlaðið í Álftamýrinni. Allt var þetta
liður í því að standa fjölskylduvaktina
og með þessu var aflað aukreitis í bú-
ið. Það var alltaf númer eitt.
Hjálpin hans beindist ekki aðeins
að mér. Þegar fjölskyldan stækkaði
vorum við öll hans og hann okkar
allra, boðinn og búinn að hjálpa, vera
til staðar og alltaf sem vinur.
En mestur er missir mömmu.
Henni er styrks þörf og huggun.
Megi alfaðir alls leiða hana til hugg-
unar og minningar um góðan dreng
sem ætíð var henni allt og hún hon-
um.
Aftur þökk. Þökk.
Auður, Ríkharður og börn.
Ég trúi varla enn að þú sért farinn
frá okkur. Ég var hjá þér þegar þú
fórst og slíka sorg hef ég aldrei fyrr
upplifað. Ég áttaði mig ekki á því
strax en stór partur af mér dó þennan
dag. Þú ert mér ómetanlegur. Þegar
ég rifja upp allt sem við lifðum saman
líður mér vel. Þannig ætla ég að
reyna að hugsa. Ég var hjá þér og
ömmu öll mín uppvaxtarár og þú
varst ávallt svo blíður og góður.
Þegar ég byrjaði að fara á skíði
með ömmu komstu alltaf með, stóðst í
fjallinu og horfðir á. Þú komst líka
alltaf þegar ég var að keppa til að
hvetja mig áfram. Sama hvernig
gekk þá varstu alltaf ánægður með
frammistöðu mína, ekki bara hvað
varðar skíðin heldur líka skólann og
allt sem ég tók mér fyrir hendur. Ég
minnist þess þegar þú komst heim til
ömmu og við borðuðum saman há-
degismatinn áður en ég átti að fara í
skólann. Það eru stundir sem ég met
hvað mest því það sýndi mér hvernig
lífið á að vera. Þú og amma voruð svo
góð við hvort annað, báruð mikla
virðingu hvort fyrir öðru og elskuðuð
hvort annað. Og ég fann einnig svo
vel hvað þið bæði elskuðuð mig, takk
fyrir það, elsku afi. Væntumþykja þín
í garð annarra var ómetanleg, og því
ekki hægt annað en að elska og virða
mann eins og þig. Þú varst ekki bara
afi minn, heldur varstu ekki síður
pabbi í mínum huga. Ég er kennd við
þig og því er ég mjög stolt af. Ef ég
hugsa um pabba þá kemur þú alltaf
upp í huga minn. Þegar ég var lítil var
ég spurð hver pabbi minn væri og að
sjálfsögðu sagði ég að það værir þú.
Þú varst minn afi-pabbi, sá besti í
heimi. Ég sakna þín óendanlega mik-
ið, en veit að þú ert nú á góðum stað
að fylgjast með okkur öllum. Ég lofa
líka að passa ömmu fyrir þig. Elsku
afi-pabbi, ég sakna þín og elska þig
og ég mun minnast þín alla mína ævi.
Þú hefur átt stóran þátt í að gera ævi
mína ánægjulega og með því að minn-
ast þín muntu halda áfram að gera
það. Ég vona að þér líði vel núna þar
sem þú ert. Mundu bara að ég mun
alltaf hugsa um yndislegasta afa-
pabba sem til er í heiminum.
Ég elska þig.
Helga Rúna Péturs.
PÉTUR
ÞORGILSSON