Morgunblaðið - 09.02.2001, Qupperneq 23
ERLENT
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 9. FEBRÚAR 2001 23
RICHARD Tomlinson, fyrrverandi
njósnari bresku leyniþjónustunnar
MI6, heldur því fram í bók, sem gefin
var út í Rússlandi nýlega, að þekktur
ritstjóri í Bretlandi, Dominic Lawson,
hafi verið á mála hjá MI6 og Nelson
Mandela, fyrrverandi forseti Suður-
Afríku, hafi lengi verið í leynilegu
sambandi við leyniþjónustuna. Law-
son og Mandela hafa báðir vísað
þessu á bug sem algjörum þvættingi
og sjálfur hefur Tomlinson viður-
kennt að hafa spunnið það upp að
breska leyniþjónustan væri viðriðin
dauða Díönu prinsessu.
Rekinn fyrir slæma
frammistöðu
Tomlinson hóf störf fyrir MI6 árið
1991 og var rekinn fjórum árum síðar
fyrir slæma frammistöðu í njósna-
ferðum til Bosníu. Hann bar því við að
hann hefði þjáðst af þunglyndi á þess-
um tíma og verið óreyndur. Hann hélt
til Nýja-Sjálands og hugðist snúa aft-
ur til Bretlands í því skyni að höfða
mál gegn leyniþjónustunni vegna
brottvikningarinnar. Hann fór einnig
til Ástralíu og reyndi að fá þarlent út-
gáfufyrirtæki til að gefa út endur-
minningar sínar. Þegar Tomlinson
sneri aftur til Bretlands árið 1996 var
hann handtekinn og dæmdur í árs
fangelsi fyrir að afhenda ástralska út-
gáfufyrirtækinu ágrip af endurminn-
ingum sínum og brjóta þannig bresk
lög um verndun ríkisleyndarmála.
Tomlinson var leystur úr haldi árið
1998 og flúði land, fyrst til Evrópu-
ríkja og síðan Nýja-Sjálands, Ástralíu
og Ameríkuríkja. Hann segir að út-
sendarar bresku leyniþjónustunnar
hafi brotist inn í hús hans eða ráðist á
hann a.m.k. ellefu sinnum í sex lönd-
um. Hann dvelur nú á Ítalíu og segir
að útsendarar MI6 hafi stolið skjölum
og tölvu úr dvalarstað sínum fimm
dögum eftir að hann gerði samning
um útgáfu endurminninga sinna,
„Brotið mikla“, í Rússlandi.
Bókin var gefin út á ensku í 10.000
eintökum og ráðgert er að selja helm-
ing þeirra í Bretlandi. Breskur dóm-
stóll hefur úrskurðað að ekki megi
greiða Tomlinson höfundarlaun fyrir
bókina þar sem hann hafi undirritað
samning við MI6 árið 1997 um að
hann afsalaði sér öllum réttindum til
höfundarlauna fyrir bækur eða grein-
ar um störf sín fyrir leyniþjónustuna.
Tomlinson segir að hann hafi verið
þvingaður til að undirrita samninginn
þegar hann var í fangelsi en MI6 neit-
ar því. Samningurinn mun hafa kveð-
ið á um að leyniþjónustan greiddi
Tomlinson 60.000 pund, andvirði 7,5
milljóna króna, fyrir að skýra ekki frá
störfum sínum sem njósnara.
Dularfullt útgáfufyrirtæki
Áður óþekkt fyrirtæki í Rússlandi,
Narodní Variant, gaf bókina út og er
það talið tengjast rússnesku leyni-
þjónustunni FSB, arftaka KGB.
Breskt netfyrirtæki, 192.com, annast
sölu bókarinnar á Netinu og kveðst
gera það í nafni málfrelsis. Breska ut-
anríkisráðuneytið segist ekki ætla að
reyna að hindra útgáfuna en vill koma
í veg fyrir að Tomlinson hagnist á
bókinni.
Norodní Variant hefur aldrei gefið
út bækur áður, er ekki með neina
skrifstofu og finnst hvergi í opinber-
um skrám yfir rússnesk fyrirtæki.
Útgáfufyrirtækið LCIC í Moskvu
hefur tekið við útgáfu bókarinnar og
segir að Norodní Variant einbeiti sér
nú að „nýju verkefni með öðrum höf-
undi“.
Tomlinson segist hafa fengið 28.000
pund, andvirði 3,5 milljóna króna, í
fyrirframgreiðslu frá Norodní Vari-
ant. Rússi, sem kallar sig Sergej
Korovín, hefur komið fram fyrir hönd
„fyrirtækisins“ og The Daily Tele-
graph segir að vestrænir leyniþjón-
ustumenn telji sig hafa fengið óyggj-
andi sannanir fyrir því að hann sé á
mála hjá FSB. Rétt nafn hans sé Kir-
ill Vladislavovítsj Tsjastsjín og hann
hafi lýst sér sem „sérfræðingi í upp-
lýsingatækni“ þegar hann hafi heim-
sótt Bretland árið 1997.
Vildu ná sér niðri á MI6
MI6 telur að rússneska leyniþjón-
ustan hafi ekki aðeins gefið endur-
minningar Tomlinsons út heldur
einnig bætt við köflum í bókina til að
klekkja á bresku leyniþjónustunni,
gömlum erkifjanda KGB.
Oleg Gordíevskí, fyrrverandi KGB-
maður sem flúði til Bretlands eftir að
hafa njósnað fyrir MI6 í nokkur ár,
tekur undir þetta. Hann segir í grein í
The Daily Telegraph að enginn vafi
leiki á því að rússneska leyniþjónust-
an hafi gefið bókina út og skrifað stór-
an hluta hennar.
Gordíevskí segir að rússneska
leyniþjónustan hljóti t.a.m. að hafa
skrifað kafla um Platon Obukhov,
rússneskan stjórnarerindreka sem
gerðist njósnari fyrir MI6 1995, árið
sem Tomlinson var rekinn. Gordí-
evskí segir að Tomlinson hafi verið
lágt settur í bresku leyniþjónustunni
og útilokað sé að hann hafi haft að-
gang að svo viðkvæmum upplýsing-
um. Hermt er að upplýsingarnar um
Obukhov hafi ekki verið í drögum
Tomlinsons að endurminningunum
sem komust í hendur MI6.
Obukhov var handtekinn árið 1996
og rússneska leyniþjónustan yfir-
heyrði hann í fjögur og hálft ár. Hann
var síðan dæmdur í ellefu ára fang-
elsi.
Gordíevskí telur að rússneska
leyniþjónustan hafi gefið út bók
Tomlinsons til að ná sér niðri á MI6,
einkum vegna útgáfu svokallaðs
Skjalasafns Mítrokhíns í september
1999 sem var álitinn mikill sigur fyrir
bresku leyniþjónustuna. Vassilí Mítr-
okhín var skjalavörður KGB og flúði
til Bretlands árið 1992 eftir að hafa
tekið afrit af skjölum leyniþjónust-
unnar þar sem öllum mikilvægum að-
gerðum hennar frá því um miðjan
þriðja áratuginn og þar til Sovétríkin
leystust upp var lýst nákvæmlega.
„Rússnesku leyniþjónustumennirnir
hafa leitað að einhverju, hverju sem
er, til að hefna sín á MI6. Þeir fundu
það í óútgefinni bók Tomlinsons,“
segir Gordíevskí.
Dominic Lawson sagður hafa
verið á mála hjá MI6
Tomlinson heldur því m.a. fram í
bókinni að Dominic Lawson hafi verið
á mála hjá MI6 þegar hann var rit-
stjóri The Spectator og fengið dul-
nefnið „Smallbrow“. Hann sakar ekki
Lawson um að hafa njósnað fyrir
leyniþjónustuna en segir að ritstjór-
inn hafi aðstoðað hana við að senda
njósnara til ýmissa landa undir því yf-
irskini að þeir væru blaðamenn á veg-
um vikublaðsins. Hann kveðst til að
mynda hafa notað kynningarbréf frá
Lawson, sem hafi kynnt hann sem
blaðamann The Spectator, þegar
hann var sendur í njósnaferð til
Skopje í Makedóníu.
Lawson er nú ritstjóri The Sunday
Telegraph og vísar þessum fullyrð-
ingum á bug sem „kjaftæði“.
Mandela sakaður um
tengsl við MI6
Tomlinson heldur því einnig fram
að Nelson Mandela hafi verið í leyni-
legu sambandi við MI6 frá því hann
var ungur lögfræðingur og lítt þekkt-
ur félagi í Afríska þjóðarráðinu
(ANC). Mandela og eiginkona hans,
Winnie, fóru til Frakklands árið 1990,
skömmu eftir að hann að hann var
leystur úr haldi eftir 27 ára fangels-
isvist. Tomlinson segir að þau hafi þá
farið í „leynilega“ heimsókn til Bret-
lands með þyrlu breskra sérsveita.
Þau hafi verið flutt í hús í Kent og átt
þar „leynilegar viðræður“ við fulltrúa
MI6.
Þremur árum eftir heimsóknina á
breska leyniþjónustan að hafa fengið
upplýsingar um að hægriöfgamenn í
Suður-Afríku hefðu lagt á ráðin um að
myrða Mandela. MI6 afstýrði bana-
tilræðinu, að sögn Tomlinsons.
Mandela hefur lýst þessum fullyrð-
ingum sem „svívirðilegum upp-
spuna“.
Tomlinson fullyrðir einnig að MI6
hafi lagt til að Slobodan Milosevic,
fyrrverandi Júgóslavíuforseti, yrði
ráðinn af dögum og skrifað tveggja
síðna skýrslu um hvernig standa ætti
að tilræðinu.
Játar ósannsögli
Að sögn Tomlinsons snerist starf-
semi MI6 einnig um peninga. Hann
heldur því m.a. fram að háttsettur
embættismaður í þýska fjármála-
ráðuneytinu hafi verið á mála hjá MI6
og veitt leyniþjónustunni upplýsingar
um fyrirhugaðar vaxtabreytingar.
Leyniþjónustan hafi einnig lagt mikla
áherslu á fá til liðs við sig embætt-
ismenn í stofnunum eins og Seðla-
banka Evrópu og Efnahags- og fram-
farastofnuninni (OECD).
Tomlinson heldur því fram í bók-
inni að breska leyniþjónustan hafi
verið viðriðin dauða Díönu prinsessu,
sem dó í bílslysi í París 1997, en hann
viðurkenndi eftir útgáfu bókarinnar
að sú fullyrðing væri uppspuni.
Í bókinni eru allnákvæmar lýsingar
á starfsháttum MI6 en sérfræðingar í
málefnum leyniþjónustunnar segja
Tomlinson hneigjast til að gera of
mikið úr eigin afrekum og upphefja
sjálfan sig.
Andrew Roberts, sem kynntist
Tomlinson þegar þeir voru við nám í
Cambridge, hefur eftir vinum hans að
hann hafi verið haldinn „007-geð-
flækju“ og litið á sig sem nokkurs
konar James Bond. Hann hafi alltaf
þráð frægð og valið rangt starf því
það sé aðal góðs njósnara að vekja
ekki á sér athygli.
„Richard þurfti að skrifa bók, ekki
aðeins vegna peninganna, heldur
einnig vegna gríðarlegrar löngunar í
frægð,“ skrifar Roberts í The Sunday
Telegraph.
Bók fyrrverandi njósnara MI6 gefin út í Rússlandi
Leyniþjónusta Rússa
bendluð við útgáfuna
Reuters
Rússneskur útgefandi kynnir
bók Richards Tomlinsons á
blaðamannafundi í Moskvu.
Rússneska leyniþjónustan hefur ekki að-
eins verið sökuð um að standa á bak við út-
gáfu endurminninga Richards Tomlinsons,
fyrrverandi njósnara bresku leyniþjónust-
unnar MI6, heldur er hún einnig sögð hafa
bætt nokkrum köflum við bókina.