Morgunblaðið - 09.02.2001, Page 41

Morgunblaðið - 09.02.2001, Page 41
MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 9. FEBRÚAR 2001 41 öllum ógleymanleg. Natni hennar og nákvæmni varð stundum tilefni hláturs og galsa t.d. þegar dúkar voru straujaðir eða silf- ur fægt en við öfunduðum hana auð- vitað af nákvæmninni og natninni og hvað allt var vel gert og fallegt, bæði stórt og smátt. Hún Jónína gerði flesta hluti ótrúlega vel. Það var gaman að skemmta sér með Jónínu Tryggva. Það var mikið hlegið og sungið. Jónína var hagmælt og átti auðvelt með að setja saman snjallar vísur við þekkt lög og þá var sungið. Hin skapandi hugsun hennar kom þá vel í ljós. Það var erfitt að sætta sig við hvernig sjúkdómurinn lék hana. Hún barðist. Það var alltaf von meðan var líf. Nú er hún öll. Lífi hennar er lokið og nýr kafli tekur við en ekki aðeins hjá henni heldur líka hjá okkur sem eftir lif- um.Við erum fátækari þegar hún er farin úr nálægð. En það mikilvæg- asta er ósýnilegt augunum. Í kafla okkar er minningin um hana Jónínu þráður, sterkur og litríkur, og við geymum hann. Við vottum ástvinum Jónínu okkar dýpstu samúð. Hvíl í friði kæra Jónína. Samstarfsfólk í leikskólaskor Kennaraháskóla Íslands. Skólasystir okkar hún Unna, hefir nú lokið lífsgöngu sinni, alltof snemma. Við skólasystkin hennar, frá Íþróttakennaraskóla Íslands, höfum vart áttað okkur á, að eftir- leiðis verði hún ekki með, er við kom- um saman. Samfélag skólasystkina í heima- vistarskóla, er um margt frábrugðið öðrum skólasamfélögum, einkum þegar um lítinn hóp er að ræða. Í okkar hópi voru einstaklingar harla ólíkir, en kannski einmitt þess vegna bundumst við afar sterkum böndum. Bönd og kaðlar trosna gjarnan og stökkna með aldrinum, en vináttu- bönd eru þeirrar gerðar að mögu- leikar eru fyrir hendi, að þau verði traustari. Þáttur Unnu í að treysta okkar vináttuband var stór. Í okkar huga verður hún ætíð sama unga stúlkan, sem við kynntumst á Laug- arvatni fyrir rúmlega 40 árum, myndarleg, röggsöm og hreinskiptin með leiftrandi augu og jákvætt hug- arfar. Jákvætt hugarfar var hennar að- alsmerki. Oft átti hún á brattann að sækja, ekki hvað síst hin síðari ár, en einmitt þá sneri hún hlutunum blátt áfram við og hughreysti okkur, sem höfðum áhyggjur af heilsu hennar og líðan. Við kveðjum þig elsku Unna og reynum að læra af þér og oft á okkur eftir að koma í hug yfirlýsing þín og einkunnarorð á okkar fundum. „Mér finnst gaman.“ Við vottum aðstandendum ein- læga samúð. Skólafélagar í Íþrótta- kennaraskóla Íslands veturinn 1956–1957. Látin er merk kona, kona með stórt hjarta fullt af virðingu fyrir manneskjunni. Kona sem átt hefur stóran þátt í menntun leikskólakenn- ara á undanförnum áratugum. Og á þann hátt átt drjúgan þátt í mótun þess starfs sem fram fer í leikskólum á Íslandi í dag. Kynni mín af Jónínu Tryggvadótt- ur eru einmitt af þeim vettvangi. Ég kynntist henni er ég hóf nám við Fósturskóla Íslands haustið 1981 en þann vetur kenndi Jónína okkur sálfræði og síðan einnig á öðru ári og svo á lokaári leikskólakennaranáms í samþættu þemanámi. Alla tíð síðan hef ég metið þessa einstöku konu mikils. Áhugi hennar og elja var mikil við að koma þroskasálarfræðinni þannig til skila að við sem ætluðum að fara að taka að okkur að vera þátttakend- ur í uppeldi og menntun yngstu borgaranna værum sem best undir það búin. Áhuginn var brennandi og það var alltaf eins og hver dagur væri mikilvægasti dagurinn. Kennslan var sett fram af virðingu fyrir börnum og okkur kennaranemunum, kennslan var lifandi og með krefjandi hætti. Sé minnst á hreyfiþroska barna dettur mér Jónína í hug þegar hún vippaði hún sér upp á kennaraborðið og sýndi nemendum sínum hvers- vegna það er mikilvægt að börn skríði. Já, Jónínu Tryggvadóttur var sérstaklega umhugað um hreyfiupp- eldi barna og á hún án nokkurs vafa stóran þátt í því hve vel er hugað að hreyfiuppeldi í leikskólum í dag. Henni var mjög umhugað um geð- tengsl og tilfinningar barna. Í glós- unum mínum frá 18. nóvember 1981 hef ég eftir Jónínu ,, Barn þarf að búa við ástúð og traust geðtengsl til að öðlast sterkra sjálfsmynd og „Það er alltaf ástæða fyrir því að börn haga sér eins og þau haga sér.“ Árið 1997–98 stundaði ég ásamt fríðum flokki leikskólastjórnenda víðsvegar af landinu framhaldsnám í stjórnun. Umsjá með náminu hafði þá Jónína Tryggvadóttir og einnig sá hún um kennslu sem lýtur að þróun fullorðinna í starfi. Notaði hún m.a. bókina Emotional Intelligence e. Daniel Goleman við þá kennslu og hafði reyndar gert frá útkomu henn- ar 1996. Bók þessi er nú komin út í þýðingu Áslaugar Ragnars og heitir Tilfinningagreind. Mér fannst nánast eins og bókin hefði verið samin fyrir Jónínu og hún væri í beinu framhaldi af ýmsu því sem hún lagði áherslu á árin 1981–84. Jónína Tryggvadóttir var sú sem flutti okkur heim hugmyndafræði Einingakubbanna (Prattkubbanna), stærðfræðilega hönnuðum efnivið sem hún kynntist í háskólanum í Bank Street í New York þar sem hún stundaði sitt framhaldsnám. Þar er Jónína einnig áhrifavaldur í starfi ís- lenskra leikskóla því að þeir eru ófáir leikskólakennararnir sem kynntust hugmyndafræði Carolin Pratt hjá henni Jónínu og flestir leikskólar geta státað af þessum efnivið í dag. Við skólasysturnar í stjórnunar- náminu áttum því láni að fagna að fara til New York í náms- og kynn- isferð haustið 1998 með Jónínu sem fararstjóra. Vinkona hennar, hún Harriet Cuffaro, prófessor við Bank Street-skólann, skipulagði allar mót- tökur fyrir okkur. Það var einstakt að finna þá væntumþykju og þá virð- ingu sem Jónína naut í Bank Street- skólanum. Í þessari ferð deildum við Kristín Sæmundsdóttir og Jónína herbergi og kynntumst við þá enn betur. Eina nóttina höfðum við Kristín vaknað, sögðum nokkur orð hvor við aðra og fórum að flissa, Jónína vaknaði, reis upp og sagði: „Ó, hvað það er ynd- islegt að heyra í svona silfurbjöllum og hélt svo áfram að sofa.“ Þessi minning ásamt ótalmörgum öðrum kom upp í huga okkar þegar við fréttum um andlát okkar kæru vin- konu og kennara. Ég tel að ég eigi Jónínu Tryggva- dóttur meira að þakka en flestum öðrum mætum kennurum sem ég hef haft í lífinu. Mér hefur oft orðið hugs- að til hennar í lífi og starfi og haft margt það sem hún miðlaði okkur nemendum sínum að leiðarljósi. Ég kveð Jónínu Tryggvadóttur með virðingu og þökk fyrir liðin ár og votta ástvinum og ættingjum hennar samúð mína. Lovísa Hallgrímsdóttir leikskólastjóri. Mikilhæf kona hefur kvatt. Unna, eins og hún var nefnd af ættingjum og vinum, var glæsilegur fulltrúi hinna fjölmenntuðu nútímakvenna. Að henni stóðu sterkir stofnar. Hún var greind, sterk og hugrökk. Ég sá hana fyrst er hún hóf skóla- göngu sjö ára gömul í Laugarnes- skólanum, en þar kenndi ég stúlk- unum leikfimi. Hún var frábær nemandi, áhugasöm, dugleg og góð- um hæfileikum gædd á því sviði, sem og öðrum. Við áttum samleið í mörg ár – ár sem ég minnist með gleði og þakklæti. Aðeins örfá minningabrot: Ég minnist hennar í „Stjörnudansinum“ á litlu jólunum. Broshýr og ham- ingjusöm lítil stúlka í hvítum stjörnu- kjól. Unga stúlkan í úrvalsflokki kvenna í fimleikum í Ármanni, góður félagi og traustur. Fánaberi 17. júní á Melavelli, tígu- leg og hnarreist. Í æfingum á háu Ármannsslánni þar sem hún renndi sér í „splitt“ sem á gólfi væri. Á fimleikasýningum innanlands og utan, þokkafull og kraftmikil. Nú er hún horfin. Bros hennar og hlýja er hún hitti gamla kennarann sinn yljaði. Blessuð sé minning henn- ar. Ég votta aðstandendum dýpstu samúð. Guðrún. Í dag kveðjum við samstarfskonu okkar Jónínu Þóreyju Tryggvadótt- ur. Jónína var hæfileikarík kona og hafði aflað sér margs konar mennt- unar, sem hún nýtti vel á starfsvett- vangi. Við minnumst þess hve hún var glaðvær og góður félagi í daglegu amstri á sameiginlegum vinnustað okkar á Flókagötu, þó að hún væri því miður aldrei alveg heil heilsu eftir að hún kom til starfa með okkur. Jón- ína var engu að síður óbilandi í kraft- mikilli baráttu sinni fyrir hag og mál- stað Símenntunarstofnunar og vildi veg hennar sem mestan alla tíð. Þrátt fyrir versnandi heilsu lagði hún hart að sér við að ljúka þeim verk- efnum sem hún hafði tekið að sér og hlífði sér hvergi. Síðustu mánuði sýndi hún slíkan fádæma kraft og kjark í baráttu sinni við illvígan sjúkdóm að vakti aðdáun okkar og virðingu. Jónína var mikill kennari og við sem með henni fylgd- umst á þessum tíma höfum margt lært, lært hvernig má berjast, en einnig hvernig má sættast við óblíð örlög. Við þökkum góðum vinnu- félaga samfylgdina og vottum að- standendum einlæga samúð. Starfsfólk Símenntunar- stofnunar KHÍ. Á kaffistofunni flökti umræðan stefnulaust milli einhvers málefnis sem í upphafi hafði borið á góma og útúrdúra. Liðin atvik og persónur úr lífi viðstaddra blönduðust fyrirsögn úr blaði frá í gær sem einhver var að lesa á skjön við súpudisk og áður en varði voru stöku tveggja manna tal og slitróttur hlátur við annan enda langborðsins orðin eini vitnisburður- inn um þá andagift sem hádegisverð- urinn hafði þó kveikt að vanda. Eng- inn sá ástæðu til að brydda upp á neinu mikilvægu svo jafnvel hrá- slagalegt slagviðrið þennan dag í október fyrir bráðum ellefu árum hélt áfram að lemja utan rúðurnar athugasemdalaust. Svo var hurðinni hrundið upp og smellurinn frá örmjó- um skóhæl, miðlungi háum, boðaði endalok lognmollunnar. Skórnir voru svartbláir og támjóir. Ofan við hnén lék faldurinn á þröngu pilsi við bláa dragt og hvíta skyrtu. Fótleggirnir grannir og stæltir undir næloni í dökkum lit, hárið vendilega kembt og undið í dálítið aflangan hnút aftan á hnakka og í stungið kambi úr íben- holti. Kveðjan var hiklaus, röddin kraftmikil og svolítið dimm. Göngu- lagið þróttmikið, fasið afdráttarlaust. Jónína Tryggva. Glæsileg þarna á miðjum kvunndegi og maður skildi vel þá lævísu tilraun skaparans að gefa henni svolítið skarð í vör í vöggugjöf til að eiga sjálfur ein- hverja von í ástum hennar. Við tók- um kveðju hennar og lofgjörð um ilminn af fiskisúpunni, daginn og veðrið og ósjálfrátt réttist úr okkur í sætunum kringum borðið. Slagviðri reyndist vera hennar uppáhaldsveð- ur, einkum snemma hausts, og það gátum við að sumu leyti tekið undir líka, svona þegar allt kom til alls. Settist hjá okkur og við fengum okk- ur aftur á diskana fyrir innblástur hennar og þvert á yfirlýstan ásetn- ing. Hún blandaði sér í sundurlaust skraf okkar og tók að veita því ein- hvers konar viðnám af þeirri hjart- ans alvöru sem fylgir því að vera snortinn af hugsjón. Hún hafði verið í árs leyfi frá Fósturskólanum og kom endurnýjuð til baka úr smiðju rót- tækrar mannúðarstefnu í Bank Street College í New York. Nú greip hún á lofti staka þræði úr hjali okkar að lokinni fiskisúpunni og í hálfnuð- um kaffibolla og óf þá inn í vef þeirra hugsjóna og fræða sem hugur henn- ar glóði af eftir Ameríkuförina. Kaffibollaskrafið verðskuldaði reyndar ekki slíka upphefð. Við tók- umst þó svona til hálfs á loft með henni en flæktumst von bráðar aftur í viðjar stundlegra útúrdúra og misstum flugið. Eitt tiltók dæmi úr barnæsku sinni, annað byrjaði gamla sögu sem í miðjum klíðum var rofin af upphrópun uppúr blaðinu góða frá í gær. Hvert um sig drap málefninu enn víðar á dreif, eins og við átti yfir bolla af kaffi að loknum góðum máls- verði. Böl heimsins yrði hvort eð er ekki bætt í einu matarhléi. Við nut- um þó þessa eldmóðs hennar vegna þess hve upplífgandi hann var en vorum um leið dálítið á varðbergi að hún raskaði ekki þeirri notalegu ró sem góð samviska með góðum mat í góðum félagsskap veitir. Engin hætta, hún var umburðarlynd við okkur. Um skeið gat maður jafnvel farið að halda að skapari hennar hefði veitt henni orlof frá þeirri baráttu fyrir mannlegri reisn sem henni virt- ist ætlað að heyja á þessari jörð. En það reyndist rangt ályktað. Er dofna tók yfir kaffistofunni og æ sjaldnar small við pinnahæll eða glampaði eld- móður í auga hóf hann þessa ástmey sína hátt yfir sjónarrönd okkar allra í baráttu hennar við dauðann, þennan sendiboða elskhugans eilífa. Og sú lét ekki dekstra sig lengi heldur tók kápuna, sté við boðberann nokkur spor í dyragættinni, hnarreist í támjóum skóm, og svo var hún þotin. Gunnlaugur Sigurðsson. Ég kveð góðan vin og samstarfs- konu, Jónínu Tryggvadóttur, í hryggð og þökk. Við vorum samferðamenn í námi og starfi í um þrjá áratugi. Jónína lauk íþróttakennaraprófi og kenn- araprófi og starfaði við barnakennslu í áratug áður en hún koma aftur til náms í menntadeild Kennaraskólans um 1970. Þar hitti ég hana fyrst. Síð- an sátum við saman í áföngum í ár- daga félagsvísinda í Háskóla Íslands. Jónína valdi sálarfræðina og fór síðar til framhaldsnáms í þróunarsálar- fræði við Bank Street College í New York, þar sem hún lauk meistara- prófi. Í framhaldsnámi sínu lagði Jónína megináherslu á þróunarsálar- fræði og menntun leikskólakennara. Þar naut hún reynslu sinnar og þekk- ingar í íþróttafræðum og starfa sinna sem barnakennari. Hún stundaði rannsóknir á tengslum hreyfiþroska, rökhugsunar og vitsmunaþroska. Í því samhengi notaði hún og kynnti hérlendis sérhannaða þroska- kubba, sem byggðust m.a. á rann- sóknum Fröbels á leikföngum og kenningum Deweys um virkni og nám. Við hófum samtímis störf við kennaramenntun, árið 1976. Hún við Fósturskólann, ég við Kennarahá- skólann. Þegar skólanir voru samein- aðir í aldarlok í nýjum Kennarahá- skóla Íslands, höguðu forlögin því svo til að við deildum vinnustað í skrifstofuhúsnæði KHÍ á Flókagötu ásamt litlum hópi samstarfsmanna. Á þeim vinnustað ríkti góður andi og félagslíf. Eldhúsið varð miðja í önn dagsins þar sem allir lögðu fram matvæli, skoðanir og gamanmál. Þar settust menn niður á lögbundnum matmálstímum og deildu áhyggjum og árangri, vandamálum og nýjum uppgötvunum. Jónína féll ákaflega vel inn í þetta samfélag; ákveðin og stefnuföst, lífsreynd og næm á mann- lega eiginleika. Við hin fundum strax að hér var kominn félagi sem gerði kröfur til sjálfs sín og annarra, ein- lægur talsmaður leikskólastigsins, gagnmenntuð í fræðunum og gjör- kunnug skólastarfi. Hún var ákveðin í skoðunum og lét þær óhikað í ljós. En hún vildi líka fá andsvör og hafði áhuga á pælingum félaga sinna. Þannig var Jónína skemmtilegur og verðugur andstæðingur í kappræðu, því að ætíð var stutt í kímni og að lok- um leitað bestu niðurstöðu í hverju máli. Hún hafði ótakmarkaðan metn- að fyrir hönd stofnunar sinnar og fagstéttar og hlífði sér hvergi í starfi. Eftir að veikindin tóku að draga úr henni mátt hamaðist hún langan vinnudag við að ljúka, af metnaði og natni, verkum sem henni fannst að ljúka yrði. Síðast hitti ég Jónínu á líknardeild Landspítalans ásamt með nokkrum samstarfsmönnum af Flókagötunni. Af krafti og reisn ræddi hún veikindi sín og verkefnin sín í Kennaraháskólanum. Fyrr en varði hafði hún lyft okkur öllum yfir stað og stund og við vorum komin í eldhúshaminn af Flókanum og létum móðan mása um fræði og störf; menn og málefni líðandi stundar. Við viss- um öll hvert stefndi og Jónína best af öllum. Ég votta Þórði Gunnari og fjöl- skyldu Jónínu Tryggvadóttur mína dýpstu samúð. Sigurjón Mýrdal. ✝ Kjartan Jónsson,bifreiðastjóri, fæddist á Akureyri 21. apríl 1918. Hann lést á Landakoti 2. febrúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru Jón Eyjólfur Berg- sveinsson frá Svefn- eyjum á Breiðafirði, erindreki Slysa- varnafélags Íslands, f. 27.6. 1879, d. 17.12. 1954 og Ástríður María Eggertsdóttir frá Fremri-Langey á Breiðafirði, f. 22.6. 1885, d. 16.11. 1963. Kjartan var sjötti í röð 10 systkina, nú eru þrjú þeirra eftirlifandi en þau eru Steinunn Ásta Elísabet, (Lóa), f. 13.6. 1920, Friðrik, f. 4.7. 1921 og Kristbjörg María, f. 2.4. 1924. Hinn 19.1. 1946 kvæntist Kjartan eftirlifandi eigin- konu sinni Gróu Þor- leifsdóttur, f. 12.9. 1921, börn þeirra eru; Sigríður, búsett í Lúxemborg; Jón Þór, búsettur í Dala- byggð og Þorleifur, búsettur í Banda- ríkjunum. Kjartan starfaði sem verkamaður hjá Eimskipafélaginu og síðar sem leigubifreiðastjóri á Hreyfli. Kjartan verður jarðsunginn frá Áskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30. Þegar ég sest niður til að skrifa nokkur minningarorð um bróður minn Kjartan þá minnist ég þess er ég sat við rúmið hans á Landakots- spítala kvöldið fyrir andlát hans, að fyrir tveim vikum var hann svo hress að hann gat sest upp í rúminu og far- ið framúr að borða í matstofunni, þegar Gróa kom í heimsókn á gift- ingardegi þeirra hinn 19. janúar sl. var hann svo glaður og kátur og hlakkaði til að koma heim, því nú gæti hann bara tekið leigubíl heim og gengið upp í íbúð sína sem er á annarri hæð og hann hélt áfram, kannski næ ég heilsu og get heimsótt börnin okkar, Jón í Dalabyggð, til Sigríðar í Lúxemborg, Þorleifs í Flórída eða þá út í Fremri-Langey. Það var stórt hugsað því hugurinn var hjá fjölskyldunni. En svo hrakaði honum skyndilega og hann gat ekki sest upp lengur, hann gerði sér ljóst að önnur ferð væri í undirbúningi og var sáttur við það. Þakkir skulu færðar læknum, hjúkrunarfólki og starfsfólki Landa- kots fyrir frábæra umönnun meðan hann var í þeirra umsjón. Innilegar samúðarkveðjur til þín Gróa mín og barna þinna og fjöl- skyldna þeirra frá mér og fjölskyldu minni. Lóa systir sendir sínar inni- legustu samúðarkveðjur en hún ligg- ur veik og getur því ekki verið við út- för bróður síns. Þakka samfylgdina kæri bróðir. Þín systir, María. KJARTAN JÓNSSON

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.