Morgunblaðið - 30.03.2001, Side 56
MINNINGAR
56 FÖSTUDAGUR 30. MARS 2001 MORGUNBLAÐIÐ
✝ Birgir Jóhanns-son kaupmaður
fæddist í Reykjavík
6. apríl 1925. Hann
lést á Landsspítal-
anum í Fossvogi 22.
mars síðastliðinn.
Birgir var sonur
hjónanna Guðlaug-
ar Árnadóttur hús-
freyju, f. 6. apríl
1885, og Jóhanns
Hafsteins Jóhanns-
sonar, sem lengst af
var forstöðumaður
Manntalsskrifstof-
unnar í Reykjavík,
f. 12. september 1885. Hann var
yngstur ellefu systkina, og er að-
eins einn bróðir á lífi, Már Jó-
hannsson, f. 1920. Önnur systkini
Birgis voru Guðrún, f. 1906, d.
1973, Sigríður, f. 1908, d. 1995,
Ferdínand, f. 1910, d. 1984, Alex-
ander, f. 1912, d. 2001, Svavar, f.
1914, d. 1988, Haukur, f. 1916, d.
1989, Valur, f. 1918, d. 1984,
Hilmar, f. 1921, d. 1922, Drop-
laug, f. 1923, d. 1969.
Birgir kvæntist árið 1954 Ás-
Eftir barnaskólapróf hóf Birg-
ir nám í Verslunarskóla Íslands
og útskrifaðist þaðan árið 1943.
Ýmis störf stundaði hann eftir
útskrift, m.a. í Húsgagnaverslun
Kristjáns Siggeirssonar. 24 ára
gamall fær hann vinnu á hóteli á
Keflavíkurflugvelli og gegndi því
starfi í þrjú ár. Þá ákvað hann að
gerast sjálfstæður atvinnurek-
andi og setti upp sitt fyrsta fyr-
irtæki, Hverfiskjötbúðina, sem
var til húsa á Hverfisgötu 50 í
Reykjavík, og rak hana til 1960.
Á sama tíma byggði hann fjög-
urra hæða íbúðar- og verslunar-
hús á Laugavegi 133. Í þessu
nýja húsi setti hann á stofn gisti-
heimili og rak til 1967. Því næst
stofnaði Birgir þurrhreinsun á
fyrstu hæð hússins og rak hana í
þrjú ár en að þeim loknum vann
hann hjá Agli Vilhjálmssyni
þangað til árið 1974, þegar hann
stofnaði Hlemmkjör á jarðhæð
Laugavegs 133. Sú verslun var
starfrækt í sex ár. Í beinu fram-
haldi stofnaði hann myndbanda-
leigu á sama stað sem smám sam-
an breyttist í minjagripa- og
ferðamannaverslun og starfrækti
þá verslun þangað til hann veikt-
ist síðastliðinn nóvember.
Útför Birgis fer fram frá Dóm-
kirkjunni í Reykjavík í dag og
hefst athöfnin klukkan 13.30.
dísi Erlendsdóttur
frá Teigi í Fljótshlíð,
f. 1927, d. 1967. For-
eldrar Ásdísar voru
Erlendur Erlendsson
frá Teigi í Fljótshlíð
og Ingibjörg Stein-
þórsdóttir frá Elliða-
ey á Breiðafirði.
Börn Birgis og Ásdís-
ar eru: 1) Erlendur
Sturla verkfræðing-
ur, f. 1956, kvæntur
Jórunni Rothenborg,
f. 1962, börn þeirra
eru Alexander, f.
1988, og Daníel
Hans, f. 1997. 2) Halla Hrund
ljósmóðir, f. 1956, gift Gunnari
Pétri Péturssyni, f. 1955, börn
þeirra eru Ásdís Rósa, f. 1981,
Ingibjörg Lára, f. 1983, og Gunn-
ar Davíð, f. 1989. 3) Birgir Jó-
hann hljómlistarmaður, f. 1964, í
sambúð með Cirilu Rós Jamora,
barn þeirra er óskírður drengur,
f. 2001. Birgir Jóhann og fyrr-
verandi sambýliskona hans,
Gunnhildur, eiga saman Sigrúnu,
f. 1986.
Í dag kveðjum við tengdaföður
minn, Birgi Jóhannsson, eftir stutta
en mjög erfiða sjúkralegu. Birgir,
sem var þaulvanur ferðalangur,
hafði ferðast á eigin vegum heims-
horna á milli og það óraði engan
fyrir því þegar Birgir fór í annað
sinn til Taílands að ferðin endaði í
bráðauppskurði og gjörgæslulegu,
fyrst í framandi landi og síðan sam-
fleytt á fjórða mánuð hér heima.
Þessi stóri, lífsglaði og ljúfi maður
var alls ekki tilbúinn að kveðja
þennan heim. Hann hafði alltaf nóg
fyrir stafni í búðinni sinni á Lauga-
veginum þar sem hann rak minja-
gripabúð. Þar var hann ánægðastur
þegar ferðalangar frá öllum heims-
hornum litu inn og hann gat spjall-
að við þá á hinum ýmsu tungu-
málum um alla heima og geima
meðan hann seldi þeim peysur og
aðra gripi úr búð sinni. Það var allt-
af ljúft að koma niður í búð til Birg-
is, alltaf heitt á könnunni og strák-
unum þótti gott að fá mjólk og kex
hjá afa Birgi.
Við Erlendur og strákarnir okkar
bjuggum steinsnar frá Birgi í tæp
14 ár og var það ákaflega gott fyrir
strákana að vita af afa Birgi í næsta
húsi, þar sem þeir gátu alltaf hlaup-
ið til hans og dundað sér eitthvað,
ef ekki við annað, þá að telja alla
krónupeningana sem afi var með í
peningakassanum. Sunnudagssteik-
in hjá okkur var líka fastur liður,
bæði fyrir strákana, en ekki síst
fyrir afa sem þótti gaman að heilsa
upp á fólkið sitt og fá sér sneið af
stórsteikinni með mikilli sósu út á.
Birgir var mjög stoltur af barna-
börnum sínum og fylgdist alltaf
með því hvernig þeim vegnaði,
stórum sem smáum. Ég veit að
hluti af því sem hughreysti hann á
gjörgæslunni í Taílandi var það að
fá daglega pistla frá barnabörnun-
um á Íslandi lesna upphátt. Þau
sem gátu skrifuðu sjálf sín tölvu-
bréf og við skrifuðum fyrir hin um
stórt og smátt í daglegu amstri hér
heima við leik og störf.
Þegar Halla og Erlendur fóru út
til Taílands til að vera með pabba
sínum, og fá hann heim sem fyrst,
var það svo sannarlega ekki þessi
útkoma sem við höfðum reiknað
með, en með þrotlausri vinnu og
umhyggju sýndu þau ást sína til
hans og hversu mikils virði hann
var þeim.
Þegar ég kynntist nýju tengda-
fjölskyldunni minni, fyrir tæpum 20
árum, tóku allir vel á móti mér en
sérstaklega ljúft var hvað tengda-
pabbi tók mér óendanlega vel og
var alltaf brosandi og ánægður al-
veg sama hverju maður fann upp á.
Smá stríðni var alltaf vel tekið,
hvort sem það var út af sósunni eða
salatinu sem hann nær undantekn-
ingalaust afþakkaði, pent en ákveð-
ið.
Birgir var ákaflega glaðlyndur
maður, mikill húmoristi, vingjarn-
legur og hjálpsamur og fyrir mig
var Birgir alltaf til staðar, sem var
ljúft, sérstaklega vegna þess að ég
var ekki bara flutt að heiman, held-
ur til annars lands og frá nánustu
fjölskyldu í Danmörku.
Það er alltaf sárt og óskiljanlegt
að þurfa að kveðja ástvini, unga
sem aldna, og börnin hans Birgis
fengu svo sannarlega snemma að
finna fyrir djúpri sorg þegar þau,
innan við 10 ára aldur, þurftu að
kveðja mömmu sína sem dó langt
fyrir aldur fram.
Ég bið góðan Guð að geyma og
hjálpa börnunum hans Birgis og
barnabörnunum og öðrum ástvinum
í gegnum missi þeirra og sorg.
Jórunn Rothenborg.
Mig langar í örfáum orðum að
kveðja hann Birgi Jóhannsson,
tengdaföður minn. Leiðir okkar
lágu saman fyrir 22 árum þegar ég
kynntist dóttur hans, Höllu Hrund,
er síðar varð eiginkona mín. Hann
tók mér strax mjög ljúflega og var
áhugasamur um það sem ég, þá
ungur maður, var að ákveða varð-
andi framtíðina. Það var áberandi
hvað honum var umhugað um að við
unga fólkið menntuðum okkur. Ef-
laust hefði hann viljað að við sýnd-
um meiri fyrirhyggju varðandi fjöl-
skyldustærðina meðan á náminu
stóð en aldrei orðaði hann það nú
beint. Þeim mun ánægðari var hann
og stoltur af henni Cindy sinni þeg-
ar hún nú síðast bætti B.S.-gráð-
unni við annað nám. Sjálfur hóf
hann að læra frönsku, þá orðinn
sextugur, því hann hugðist heim-
sækja heimsborgina París.
Birgir hafði mjög gaman af því
að veiða. Á árum áður var farið í
marga ferðina í laxveiði út um land-
ið, eða bara upp að Elliðavatni, því
þar var oft svo yndislegt að dvelja.
Hin seinni árin átti hann erfiðara
með að ganga en samt naut hann
þess engu að síður að fylgjast með
frá bakkanum þegar Erlendur son-
ur hans kastaði flugunni.
Það var á ferðalagi í Taílandi á
síðasta ári að hann veiktist alvar-
lega. Í framhaldi af erfiðri aðgerð
tók við nærri fjögurra vikna gjör-
gæsla í landi svo óralangt í burtu.
Það var svo stuttu fyrir jólin að
hann var fluttur heim. Hann náði
ekki heilsu aftur og lést fimmtudag-
inn 22. mars. Þessi tími frá heim-
komunni var stöðug barátta er
færði okkur ýmist eitt skref fram
eða aftur. En mikið var hann glaður
að komast heim. Á þessum tíma
gafst okkur góður tími til að ræða
málin. Hann sagði mér frá óum-
ræðilegri gleði sinni og þökk þegar
Cindy og Eddi birtust á gjörgæsl-
unni í Taílandi. Hversu glaður og
stoltur hann væri af börnum sínum
og barnabörnum og hversu miklar
væntingar hann hefði fyrir þeirra
hönd. Sonarsonurinn sem fæddist
fyrir rúmum mánuði var enn einn
sólargeislinn í lífi hans.
Að lokum vil ég þakka þér sam-
fylgdina árin öll og sérstaklega
samtal okkar og hlý orð nú í janúar.
Far þú í friði,
friður Guðs þig blessi,
hafðu þökk fyrir allt og allt.
Gekkst þú með Guði,
Guð þér nú fylgi,
hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.
(V. Briem.)
Guð blessi minningu þína.
Þinn tengdasonur,
Gunnar Pétur.
Elsku afi minn,
„Þegar þú ert sorgmæddur, skoðaðu þá
aftur huga þinn og þú munt sjá, að þú
grætur yfir því sem var gleði þín.“
(Khalil Gibran.)
Núna er tæplega fjögurra mán-
aða þjáningum lokið. Nú færðu að
hvílast og það áttu sko skilið. Ég er
viss um að þegar ég er skrifa þessi
orð þá ert þú uppi hjá Guði, veið-
andi með bros á vör.
Það koma ótal minningar upp í
hugann þegar ég hugsa um þessi
tæp átján ár sem þú varst gamli
góði afi með bumbuna. Þegar ég
var yngri var sko algjört ævintýri
að fara í heimsókn til afa. Það var
endalaust hægt að finna eitthvað að
gera, gramsandi í öllu milli himins
og jarðar. Það var líka toppurinn á
tilverunni að fá cocoa puffs í rauðu
bollana með mjólk út á og fá að
glápa á Tomma og Jenna-spólur.
Ég man líka svo vel eftir því þegar
ég var um fimm ára og við fórum öll
saman til Danmerkur. Einn daginn
fórum við í tívolíið og ég fékk að
keyra í eldgömlum bílum. Þú sast
við hliðina á mér og sagðir að
seinna, þegar ég væri orðin eldri,
þá færum við aftur saman að keyra.
Það var svo rosalega gaman og ég
man svo vel eftir þessu en ég man
samt mest eftir því hvað ég var
stolt og ánægð að eiga svona góðan
og skemmtilegan afa, afa með risa-
stóra bumbu.
Ég varð eldri og eldri og var nú
misjafnt hvað maður hafði tíma til
að sinna honum afa sínum. En aldr-
ei mun ég gleyma hversu vel þú
tókst alltaf á móti mér þegar ég
kom í heimsókn. Síðastliðið ár hef
ég verið upptekin og alltaf á fullu
en ég reyndi þó að koma við hjá þér
þegar ég var í bænum. Alltaf fékk
ég risastórt faðmlag og bros út að
eyrum þegar ég kom. Ótal spurn-
ingar fylgdu svo, hvernig mér gengi
í skólanum, hvenær þú færir að sjá
mig í sjónvarpinu spila körfubolta,
hvort ég væri nú kominn með kær-
asta og hvort trúlofun eða barn
væri á leiðinni. Endalaust gastu
spurt og allt fannst þér jafnmik-
ilvægt sem ég var að gera.
En nú er víst þessu góða og fal-
lega ævintýri lokið og verð ég að
kveðja. Ég vil biðja góðan Guð og
alla hans engla að taka nú vel á
móti þér og styrkja okkur öll.
Elsku afi, ég sakna þín sárt.
Aldrei skal ég gleyma þér og barna-
börnin mín fá sko að heyra sögur af
besta afa í heimi.
Þín
Ingibjörg Lára.
Látinn er í Reykjavík Birgir Jó-
hannsson kaupmaður. Að leiðarlok-
um minnist ég ánægjulegra kynna
við Birgi hátt á annan áratug síð-
asta skeið ævi hans.
Birgir rak verslun við Laugaveg
og starfaði farsællega við hana til
skamms tíma. Var engan bilbug á
honum finna allt þar til hann veikt-
ist alvarlega í nóvember síðastliðn-
um. Þrátt fyrir dugnað og leikni
lækna og góða hjúkrun síðan eru
dagar hans allir. Syrgja hann nú
skyldmenni og vinir.
Fyrr á tíð mun Birgir hafa rekið
nýlenduvöruverslun eins og mat-
vöruverslanir nefndust. En síðustu
áratugi voru á boðstólum í verslun
Birgis við Laugaveg í grennd við
Hlemm myndbönd um tíma og síðar
gjafavörur og fallegar prjónavörur
ýmiss konar. Búðin var vissulega
nálægt víglínu á hernaðarlega mik-
ilvægum stað miðað við viðskipta-
vini, en ekki dugir að sitja auðum
höndum þótt svo sé og bíða. Aðrar
búðir eru á hverju strái og kaup-
maðurinn þarf í sífellu að fylgjast
með þróuninni, breyta til ef þörf
krefur.
Birgir var árvökull og honum var
annt um viðskiptavini sína.
Margt hefur verið unnt að kaupa
hjá Birgi um dagana af þessa heims
gæðum.
En ég hef fyrir satt að hlýlegar
móttökur hjá kaupmanninum hafi
ekki síður verið eftirsóknarverðar.
Margur jafnvel, einkum er um
hægðist er á leið, mun hafa komið í
kaffisopa í búðina til Birgis sér til
hugarhægðar ef svo bar undir, og
rætt vandræði sín við mann jafn-
aðargeðs og léttrar lundar.
Birgir var þægilegur í viðmóti,
glettinn í tilsvörum og hafði frá
mörgu að segja, gjarnan einhverju
kímilegu.
Kynni okkar Birgis hófust með
nýjum venslum er verða með hjóna-
böndum næstu kynslóða. Oft höfum
við hist og talast við heima hjá syni
hans Erlendi og Jórunni, systur-
dóttur minni, þeim gestrisnu hjón-
um. Verða nú þáttaskil hjá þeim
börnum Birgis og barnabörnum.
Tíminn líður og einn kemur þá ann-
ar fer.
Dagana sem Birgir lá á Landspít-
ala fæddist sonarsonur hans á fæð-
ingardeildinni. Frændi hans, annar
sonarsonur Birgis, vex úr grasi,
málsnjall fjögurra ára snáði. Um
daginn þykist hann maður með
mönnum og svarar í síma er ég
hringdi til Jórunnar og Erlends
varðandi útför afa hans.
Sá stutti segir: „Þú mátt ekki
ónáða mig núna, Þór frændi. Ég er
að horfa á Pókemon í sjónvarpinu.
En hérna er mamma.“ Góður afi
verður að vonum ekki lengi í minn-
um hafður hjá kornabarni og ein-
lægum óvita, en eldri barnabörnin
geyma minningar í huga sér um
ánægjulegar samverustundir með
afa sínum.
Við Jóhanna kona mín vottum
börnum Birgis, barnabörnum og
öðrum aðstandendum samúð í sökn-
uði þeirra. Blessuð sé minning
Birgis Jóhannssonar.
Þór Jakobsson
veðurfræðingur.
BIRGIR
JÓHANNSSON
✝ Guðríður Gísla-dóttir fæddist á
Hellissandi 5. septem-
ber 1933. Hún lést á
líknardeild Landspít-
alans 15. mars síðast-
liðinn. Foreldrar
hennar voru Gísli
Þorsteinsson, f. 9.3.
1897, d. 9.12. 1936, og
Brynhildur Sveins-
dóttir, f. 20.9. 1901, d.
2.12. 1979. Systkini
Guðríðar eru: 1) Pét-
ur, f. 26.7. 1924, lát-
inn, kvæntur Fann-
eyju Samsonardóttur.
2) Sigríður, f. 8.10. 1925, gift Sig-
urði Júlíussyni, látinn. 3) Sigur-
geir, f. 8.3. 1927, látinn. 4) María, f.
25.5. 1929, gift Ásgeiri Einarssyni.
5) Sigurást, f. 15.11. 1930, gift
Ólafi V. Sigurðssyni, þrjú létust í
æsku tvíburasystur Svandís og
Dagbjört og Sveinn.
Hinn 5. september 1956 giftist
Guðríður Sigurði
Richardssyni, f. 17.6.
1932. Dætur þeirra
eru: 1) Louisa, f. 7.11.
1956, gift Pétri H.
Ólafssyni, f. 21.12.
1953. Börn þeirra
eru Hildur Péturs-
dóttir, f. 24.10. 1976,
í sambúð með Hjör-
leifi Jónssyni, f.
15.10. 1976, þeirra
sonur er Jón Óli, f.
5.8. 1998; og Ólafur
Haukur Pétursson, f.
13.5. 1985.
2) Anna María Sig-
urðardóttir, f. 4.5. 1961, í sambúð
með Viðari Sigurðssyni, f. 11.12.
1959, þeirra börn, tvíburar, Bryn-
dís og Sigurður, f. 12.6. 1992. 3)
Brynja Sigurðardóttir, f. 22.9.
1963, hennar sonur er Hákon Her-
mannsson, f. 28.11. 1992.
Útför Guðríðar fór fram í kyrr-
þey.
Elsku amma mín, það er með
miklum trega sem ég kveð þig nú í
síðasta skipti. Á þessari stundu er
margt sem kemur upp í hugann því
margar voru stundir okkar. Fyrstu
sex ár ævi minnar bjó ég nánast hjá
ykkur afa á Háaleitisbrautinni og
sagðir þú alltaf að heilsu mína og
hreysti skyldi ég þakka skyrinu og
lýsinu sem þú gafst mér á hverjum
einasta degi allan þennan tíma. En
eins og þú veist, amma, varð þetta
til þess að ég gat ekki borðað skyr
aftur fyrr en ég var þrettán ára.
Það sem er mér svo mikilvægt er
að hafa alltaf getað talað við þig um
allt sem ég þurfti og þú varst alltaf
tilbúin að hlusta á allt sem ég hafði
að segja. Minnisstæðast er mér sím-
talið sem við áttum kvöldið áður en
sonur minn var skírður og ég var að
fá þitt álit á nafninu sem við Hjölli
höfðum valið. Þú fórst bara að
skellihlæja því þér fannst nafnið
renna einum of vel saman. En þú
varst ánægð með nafnið og ber hann
það í dag. Erfitt þykir mér þó að
geta ekki ráðfært mig við þig aftur
þegar ég þarf á að halda en þó svo
að ég geti ekki hringt í þig aftur
mun ég halda áfram að tala við þig
því ég veit að þú heyrir í mér og
hlustar alltaf.
Síðasta stund okkar er mér ákaf-
lega mikilvæg og þakka ég fyrir að
hafa fengið tækifæri til að segja þér
allt sem mér lá á hjarta og ég veit
líka að þær fréttir sem ég sagði þér
glöddu þig mjög.
Ég skal passa hann afa fyrir þig
sem á um mjög sárt að binda og
hann saknar þín mikið eins og við öll
en til minningar um þig, elsku
amma, ber ég nú fallega krossinn
sem þið afi gáfuð mér í jólagjöf um
árið.
Ég elska þig, elsku amma mín, og
hugsa alltaf um þig.
Þín eina
Hildur.
GUÐRÍÐUR
GÍSLADÓTTIR