Morgunblaðið - 06.06.2001, Qupperneq 4
FRÉTTIR
4 MIÐVIKUDAGUR 6. JÚNÍ 2001 MORGUNBLAÐIÐ
FÉLAGSHEIMILIÐ Drangey, við
Stakkahlíð í Reykjavík, þar sem
fundur FÍN var haldinn, tekur um
200 manns í sæti en aðsókn á fund-
inn var slík að nokkuð þröngt var um
fundargesti. Á fundinum mátti með-
al annarra sjá velflesta starfsmenn
Hafrannsóknastofnunar sem á sama
tíma var að kynna veiðiráðgjöf sína
fyrir næsta fiskveiðiár.
„Ég fer ekki í vinnu í dag,“ sagði
einn fundarmanna, „ég sýni félögum
mínum samstöðu.“ Í fréttatilkynn-
ingu frá samtökunum segir: „Samn-
ingar eru ekki enn í sjónmáli þó að
haldnir hafi verið hátt á þriðja tug
funda [...] Nú er svo komið að ríkið
vill ekki tryggja FÍN þann sveigj-
anleika í launatöflu sem nauðsynleg-
ur er til að gegnsæi núverandi launa-
kerfis haldist.“
Þungt hljóð í fólki
Þrúður G. Haraldsdóttir, fram-
kvæmdastjóri FÍN, segir hljóðið
vera heldur að þyngjast í félags-
mönnum. „Við erum búin að vera
samningslaus síðan í lok október og
illa gengur að komast að sameigin-
legri niðurstöðu við nefndina,“ segir
hún. „Það sem við höfum lagt einna
mesta áherslu á í viðræðum okkar er
að fá víkkun á launarömmum okkar,
þ.e.a.s. aukið svigrúm. Það sem er í
raun verið að gera er að stöðva þró-
un á nýja launakerfinu.“ Hún segir
að óánægja meðal félagsmanna fari
stigvaxandi. „Það er mjög mikil
breyting síðustu þrjár vikurnar á
viðhorfum félagsmanna. Það er vax-
andi óþolinmæði og óánægja með
þessa afstöðu [samninganefndar rík-
isins].“
Til marks um þessa óánægju benti
Þrúður á ályktanir frá vinnustaða-
fundum fjölda aðildarfélaga FÍN þar
sem farið er fram á það við stjórnina
að undirbúningur boðunar verkfalls
félagsins verði hafinn nú þegar. Hún
talar ennfremur um að vitanlega
verði félagið að miða sig við sam-
bærilegar stéttir. „Við erum t.a.m.
með fólk sem er að kenna á fram-
haldsskólasviði og hljótum að líta til
þess sem hefur verið gert hjá fram-
haldsskólakennurum en við erum
töluvert mikið undir því. Augljóslega
gengur ekki upp að hafa kennara
starfandi hlið við hlið eða í sambæri-
legum stofnunum og það er þetta
mikill launamunur.“
Ágreiningur um launaramma
Þrúður segir að með þrengingu
launaramma sé komið í veg fyrir al-
menna launaþróun og af þeim sökum
horfi ekki vel fyrir ríkisstofnanir
sem eru í samkeppni við almennan
markað um starfsfólk og útlit fyrir
að þær verði illa staddar eftir eitt til
tvö ár. „Við erum hreinlega ekki far-
in að tala um prósentur ennþá held-
ur er enn verið að tala um sveigj-
anleika til að fylgja almennri
launaþróun.“ Undir þessi orð tekur
Ína Björg Hjálmarsdóttir en hún er
formaður FÍN og formaður samn-
inganefndar félagsins. „Fyrsti fund-
ur var fyrsta nóvember árið 2000,
þannig að við erum búin að eiga í við-
ræðum í rúmlega hálft ár. Við töld-
um að þessar samningaviðræður
væru tiltölulega einfaldar,“ sagði Ína
Björg. „Við lögðum mikla áherslu á
ganga frá því með hvaða hætti gera
skyldi stofnanasamninga. Við eydd-
um ansi miklu púðri í það og rædd-
um ekkert annað á meðan. Það er
svo ekki fyrr en fyrir um mánuði að
við gengum frá stofnanaþættinum
að því leyti hvernig gerð og endur-
skoðun samninganna skuli fara
fram.“ Ína segir að í raun steyti enn
á forminu því félagið nýti alla launa-
ramma og þurfi að fá meiri sveigj-
anleika til að launakerfið geti haldið
áfram að þróast. „Annars verður
horfið aftur til gamla kerfisins þar
sem menn fengu dagvinnulaun í
formi yfirvinnutíma, en það viljum
við ekki. Við viljum halda þessu
launakerfi sem tekið var upp árið
1997.“ Hún segir samninganefnd
ríkisins ekki bjóða nóg í viðræðunum
og telur ljóst að nauðsynlegt verði að
fara út í frekari aðgerðir til að ná
markmiðum félagsins. „Það er
merkilegt að þurfa að fara í aðgerðir
bara til að ná formi en ekki pró-
sentuhækkunum.“
Frekari aðgerðir
Ína segir verið að skoða á hvaða
formi frekari aðgerðir verði. „Við
höfum verið að skoða mismunandi
leiðir, tímabundin verkföll og ótíma-
bundin verkföll. Einnig höfum við
velt öðrum möguleikum fyrir okkur,
auglýsingaherferðum og fundaher-
ferðum til að vekja athygli á þessu.“
Þennan baráttufund sagði Ína vera
félagsfund en ekki vinnustöðvun.
„Eftir því sem mér er sagt er ekki
um að ræða nein tímamörk á félags-
fundum,“ segir Ína. Þrúður G. Har-
aldsdóttir tók í sama streng: „Okkur
veitir ekki af þessum tíma til að
ræða þau viðhorf samninganefndar
ríkisins sem hafa komið fram í þess-
um þverneitunum þeirra.“ Þrúður
segist ekki vita um hvort þörf verði á
fleiri fundum sem þessum. „Við
verðum að geta upplýst okkar
félagsmenn, þeir segja okkur hvað
við eigum að gera og við verðum að
hafa þá fundi sem gefa þeim svigrúm
til að koma skilaboðum til stjórnar
félagsins,“ sagði Þrúður.
Í ályktun sem félagið sendi frá sér
eftir fundinn er mótmælt harðlega
neikvæðum viðbrögðum samninga-
nefndar ríkisins við réttmætum
kröfum félagsins. Mótmælt er þeim
drætti sem orðið hefur á samninga-
ferlinu en félagið telur að með þess-
um vinnubrögðum sé ríkið að hafa fé
af félagsmönnum og í reynd að
brjóta grundvallarlýðréttindi hvað
varðar frjálsan samningsrétt. Þá
kemur fram að fundurinn hafi falið
stjórn félagsins að skipuleggja stig-
vaxandi aðgerðir til að fylgja kröfum
félagsins eftir. „Við byrjum eflaust
strax að undirbúa verkfall en við
boðum ekki til atkvæðagreiðslu með-
al félagsmanna fyrr en stjórnin telur
það tímabært,“ segir Ína Björg.
Óánægja náttúrufræð-
inga fer stigvaxandi
Morgunblaðið/Billi
Í hópi náttúrufræðinga sem fjölmenntu á baráttufund í Félagsheimilinu Drangey var Þrúður G. Haraldsdóttir,
framkvæmdastjóri FÍN.
Félag íslenskra nátt-
úrufræðinga hélt al-
mennan félagsfund í
gær þar sem rædd var
staðan í samninga-
viðræðum við launa-
nefnd ríkisins. Dagskrá
fundarins stóð frá
klukkan níu til klukkan
fjögur og sendi fund-
urinn frá sér yfir-
lýsingu þar sem átalinn
er seinagangur í samn-
ingaviðræðunum.
ELDSNEYTISVERÐ hefur hækk-
að hjá olíufélögunum um og eftir
helgina nema hjá Olíufélaginu hf.,
Esso, þar sem verðið hefur staðið í
stað. Hjá Félagi íslenskra bifreiða-
eigenda (FÍB) er það mál manna að
Olíufélagið hf. hafi brennt sig á því
að fara fyrstir af stað síðast þegar
verð hækkuðu og séu nú að reyna að
laða til sín aftur þau viðskipti sem
þeir kunni að hafa misst.
Á föstudaginn fyrir hvítasunnu-
helgi reið Olís á vaðið og hækkaði
bensínverð um fimm krónur lítrann
og dísilolíu um fjórar krónur. Skelj-
ungur sigldi svo í kjölfarið með sömu
hækkanir eftir helgina. Þó með
þeirri undantekiningu að verðið á
nýja 99 oktana bensíni þeirra, Shell
V-Power, breyttist ekki að því er
fram kemur á heimasíðu Skeljungs.
Olíufélagið hf., Esso, hefur ekki enn
hækkað verð á sínu eldsneyti. Magn-
ús Ásgeirsson, innkaupastjóri elds-
neytis hjá Olíufélaginu, sagði seinni
partinn í gær ekkert vera að gerast
hjá þeim og að engar ákvarðanir hafi
enn verið teknar um hækkanir.
Þessi munur á eldsneytisverði ol-
íufélaganna breytir engu fyrir þær
stöðvar sem olíufélögin reka í sam-
einingu. Á þeim er boðið upp á varn-
ing frá hinum olíufélögunum þrátt
fyrir að eitt þeirra standi að rekstr-
inum. Magnús segir að þá ráði eft-
irlitsaðili stöðvarinnar verðinu. „Ef
Skeljungur eða Olís er með stöðina
gildir þeirra verð, ef við erum með
hana gildir okkar,“ segir Magnús.
Bensín-
verð
óbreytt
hjá Olíu-
félaginu
SÁTTAFUNDUR í kjaradeilu
sjúkraliða og samninganefndar rík-
isins (SNR), sem haldinn var í gær
hjá ríkissáttasemjara, var árangurs-
laus. Boðað hefur verið til næsta
fundar 14. júní.
„Það var lítið sem gerðist. Það var
ekkert í spilunum. Boðað er til fund-
ar eftir viku, sem sýnir í raun og
veru að það er ekkert að gerast,“
sagði Kristín Á. Guðmundsdóttir,
formaður Sjúkraliðafélags Íslands,
eftir fundinn í gær.
Sjúkraliðar hafa verið með lausa
samninga frá 1. nóvember á seinasta
ári og er mikil óánægja meðal þeirra
vegna seinagangs í viðræðunum.
Kristín segist ekki vita hvert
framhaldið verður. SNR hafi látið á
sér skiljast að nefndin vilji einbeita
sér að viðræðum við sjúkraliða í júní-
mánuði. „En meira veit ég ekki,“
sagði Kristín.
Í gær komu trúnaðarmenn sjúkra-
liða á Landspítala – háskólasjúkra-
húsi saman til fundar þar sem kjara-
málanefnd félagsins gerði grein fyrir
stöðunni. Engar ákvarðanir hafa
verið teknar um hvort gripið verður
til aðgerða til að þrýsta á um gerð
samninga.
Sáttafundi hjúkrunarfræðinga
og ríkisins frestað
Sáttafundi í kjaradeilu hjúkrunar-
fræðinga og ríkisins sem halda átti
sl. föstudag var frestað fram yfir
helgi og í gær var ákveðið að fresta
fundinum á nýjan leik til miðviku-
dagsins 13. júní kl. 10.
Tveggja sólarhringa verkfalli
hjúkrunarfræðinga lauk á miðnætti
á föstudag. Að sögn Herdísar
Sveinsdóttur, formanns Félags ís-
lenskra hjúkrunarfræðinga, er ekk-
ert að frétta af hugsanlegum fram-
haldsaðgerðum á þessari stundu.
Hjúkrunarfræðingar hafa mót-
mælt harðlega við fjármálaráðherra
þeirri aðgerð að draga laun af hjúkr-
unarfræðingum sem sinntu störfum
sínum samkvæmt gildandi undan-
þágum hjá stofnunum ríkisins með-
an á verkfallinu stóð og hafa einnig
krafist þess að hjúkrunarfræðingar,
sem skiluðu fullum vinnumánuði í
samræmi við starfshlutfall, fái full
laun fyrir störf sín. Að öðrum kosti
hefur félagið sagst munu krefjast
dráttarvaxta á vangoldnum launum
auk kostnaðar sem til kann að falla.
Kjaradeila sjúkraliða og ríkisins
Árangurslaus fundur
HÉRAÐSDÓMUR Reykjavíkur
hefur úrskurðað karlmann í gæslu-
varðhald til 11. júní nk. vegna gruns
um aðild að peningafölsun.
Maðurinn var handtekinn á
sunnudag eftir að fölsuðum seðlum
var framvísað í verslun í borginni en
eftir það beindust grunsemdir að
manninum. Lögreglan telur að hann
geti gefið upplýsingar um fölsun á
seðlum sem hafa verið settir í um-
ferð á undanförnum vikum.
Mennirnir þrír sem sátu í gæslu-
varðhaldi vegna fölsunar á húsbréf-
um fyrir um 116 milljónir losnuðu úr
haldi á föstudag. Lögreglan fór ekki
fram á framlengingu á varðhaldinu
en málið er talið að mestu upplýst.
Í gæsluvarð-
hald vegna pen-
ingafölsunar
♦ ♦ ♦