Morgunblaðið - 10.03.2002, Blaðsíða 12
12 SUNNUDAGUR 10. MARS 2002 MORGUNBLAÐIÐ
HRYÐJUVERKAMENN,sem tengjast al-Qaeda,samtökum Osama binLadens, hafa skipulagt og
fjármagnað hrinu sprengjutilræða í
Indónesíu og á Filippseyjum á síð-
ustu 14 mánuðum. Tilræðin eru liður í
heilögu stríði sem háð er með það að
markmiði að stofna íslamskt ríki í
Suðaustur-Asíu.
Frásagnir manna, sem hafa viður-
kennt aðild að tilræðunum, opinber
skjöl og upplýsingar frá yfirvöldum
sýna að hryðjuverkahreyfingin
Jemaah Islamiah hefur skipulagt
sprengjuárásir á kristið fólk í þessum
heimshluta.
Hreyfingin hefur meðal annars
staðið fyrir sprengjuárásum á að
minnsta kosti 18 kirkjur og önnur
skotmörk, rænt banka til að fjár-
magna heilagt stríð, ráðið kristinn
stjórnmálamann í Malasíu af dögum
og skipulagt skæruhernað herskárra
múslíma á afskekktum eyjum í
Indónesíu. Að minnsta kosti 35
manns hafa beðið bana og meira en
230 særst í árásum hreyfingarinnar,
að sögn lögreglu.
Yfirvöld komust að því seint á síð-
asta ári að hreyfingin væri að und-
irbúa sjö sprengjuárásir sem gera
átti samtímis á sendiráð Bandaríkj-
anna og skrifstofur bandarískra fyr-
irtækja í Singapúr. Nota átti flutn-
ingabíla hlaðna sprengiefni í árás-
unum.
Yfirvöld í Singapúr, Malasíu og á
Filippseyjum hafa handtekið meira
en 40 menn sem taldir eru tengjast
hryðjuverkahreyfingunni. Stjórnin í
Singapúr birti á dögunum myndir
sem félagar í Jemaah Islamiah höfðu
tekið af bandaríska sendiráðinu og
fleiri skotmörkum.
Þjáningar múslíma sagðar
réttlæta sprengjuárásirnar
Starfsemi hreyfingarinnar var
miklu viðameiri og metnaðarfyllri en
talið var í fyrstu. Abu Bakar Bashir,
sem er talinn trúarlegur leiðtogi
hreyfingarinnar, segir að múslímar
heyi heilagt stríð til að stofna ísl-
amskt ríki. Stríðið er einkum háð á
svæði sem nær til eyjunnar
Mindanao á Suður-Filippseyjum og
Sulawesi og Mólúkka-eyja í Indónes-
íu.
Bashir neitar því að hann sé viðrið-
inn hryðjuverk en segir að þjáningar
múslíma réttlæti sprengjuárásir utan
átakasvæðanna, meðal annars á
kirkjur sem styðja kristna menn í
átökum á eyjunum.
„Heilagt stríð er háð hvarvetna þar
sem sem múslímar eru kúgaðir,“
sagði trúarleiðtoginn í viðtali nýlega.
„Ef múslími er kúgaður ber öðrum
múslímum skylda til að verja hann.“
Annars leiðtoganna
leitað
Tveir menn eru taldir hafa skipu-
lagt hryðjuverkin: Riduan Isamudd-
in, indónesískur klerkur sem er einn-
ig nefndur Hambali; og Faiz bin Abu
Bakar Bafana, sem er með ríkisborg-
ararétt í Malasíu en hefur verið hand-
tekinn í heimalandi sínu, Singapúr.
Yfirvöld í Indónesíu hafa fyrirskipað
handtöku Hambalis og hann er á
flótta. Yfirvöld í Malasíu og Singapúr
hafa einnig lýst eftir honum.
Yfirvöldin segja að Hambali og
Bafana séu helstu leiðtogar Jemaah
Islamiah og tengist al-Qaeda. Lög-
reglan og vitni segja að þeir hafi báðir
skipulagt sprengjutilræði sem kost-
uðu tugi manna lífið.
Upphaf alþjóðlegrar hryðju-
verkastarfsemi í Indónesíu
Lögreglan í Indónesíu segir að
sprengjutilræði í verslunarmiðstöð í
Jakarta 1. ágúst hafi verið fyrsta
sprengjuárásin þar í landi sem vitað
sé að tengist alþjóðlegri hryðjuverka-
starfsemi. Margar sprengjuárásir
höfðu verið gerðar í Indónesíu síð-
ustu tvö árin, meðal annars á kirkjur,
en þær höfðu ýmist verið raktar til
aðskilnaðarsinna í Aceh-héraði á eyj-
unni Súmötru eða uppreisnarmanna í
hernum. Engin var talin tengjast al-
þjóðlegri hryðjuverkastarfsemi þar
til sprengjuárásin var gerð á versl-
unarmiðstöðina í Jakarta, sex vikum
fyrir hryðjuverkin í Bandaríkjunum.
Lögreglan segir að Taufik Abdul
Halim, 27 ára, hafi sett sprengju í
pappakassa og haldið á honum í versl-
unarmiðstöðinni. Sprengjan hefði
sprungið of snemma með þeim afleið-
ingum að hann missti annan fótinn og
sex aðrir særðust. Eftir að hann var
handtekinn komst lögreglan að því að
hann er Malasíubúi og var félagi í
Mújahedín-hreyfingu Malasíu,
hryðjuverkahreyfingu sem talið er að
tengist Jemaah Islamiah.
Halim sagði í viðtali við Los Angel-
es Times í dómhúsi í miðborg Jakarta
að hann hefði komið til Indónesíu árið
2000 og farið til Ambon, höfuðstaðar
Mólukka-eyja, til að taka þátt í heil-
ögu stríði við kristna íbúa eyjaklas-
ans. Nokkrum mánuðum síðar fór
hann til Jakarta þar sem hann er tal-
inn hafa tekið þátt í að minnsta kosti
einni sprengjuárás á kirkju fyrir til-
ræðið í verslunarmiðstöðinni.
Eftir tilræðið handtók lögreglan
Dedi Setiono, öðru nafni Abbas, sem
játaði að hafa ekið Halim með
sprengjuna í verslunarmiðstöðina.
Hann hafði fengið þjálfun í hernaði í
Afganistan.
„Þeir ætluðu að sprengja verslun-
armiðstöðina í loft upp vegna þess að
þeir héldu að skrifstofa kristinnar
hreyfingar á efri hæð byggingarinnar
hefði fjármagnað baráttu kristinna í
Ambon,“ sagði lögfræðingur Abbas.
Abbas sagði í viðtalinu að baráttan
á Mólúkka-eyjum væri heilagt stríð
gegn kristnum íbúum eyjaklasans.
„Þeir áttu upptökin og við erum að-
eins að verja okkur.“
Skipulögðu árásir
á kirkjur í Jakarta
Abbas, sem er fertugur, reyndist
vera tengdur Hambali, öðrum leið-
toga Jemaah Islamiah. Hann kvaðst
hafa hitt Hambali árið 1987 þegar
þeir tóku þátt í hernaðinum gegn sov-
éska hernámsliðinu í Afganistan. Þeir
hittust aftur í Ambon.
Abbas sagði lögreglunni að hann
hefði verið á fundi með Hambali í
Jakarta seint á árinu 2000 þar sem
skipulagðar hefðu verið sjö árásir á
kristnar kirkjur í höfuðborginni á að-
fangadag jóla. Abbas sagði að Hamb-
ali hefði skipulagt og fjármagnað
árásirnar að mestu með aðstoð ann-
ars klerks, Imams Samudra.
Lögreglan segir að Hambali hefði
falið Abbas að stjórna sprengjuárás-
unum á kirkjurnar í Jakarta.
Gortaði af því að
hafa hitt bin Laden
Nokkrir rannsóknarmannanna
telja að Hambali sé helsti bandamað-
ur al-Qaeda í Suðaustur-Asíu. Fé-
lagar í Jemaah Islamiah, sem hafa
verið handteknir í Malasíu, segja að
hann hafi gortað af því að hafa hitt
Osama bin Laden nokkrum sinnum
og að hafa vitað af áformunum um
hryðjuverkin í Bandaríkjunum 11.
september áður en þau voru framin.
Yfirvöld segja að Hambali séð við-
riðinn hryðjuverkaáform, sem teng-
ist al-Qaeda, í að minnsta kosti fjór-
um löndum. Hann hafi til að mynda
lagt fé í misheppnað samsæri um að
sprengja tólf flugvélar í loft upp og
myrða Jóhannes Pál II páfa árið
1995. Embættismenn í Malasíu segja
að Hambali hafi verið gestgjafi
tveggja af hryðjuverkamönnunum,
sem tóku þátt í árásunum 11. sept-
ember, og manns sem grunaður er
um að hafa tekið þátt í sprengjuárás-
inni á bandaríska tundurspillinn Cole
í Jemen í október 2000. Í Singapúr er
hann sagður hafa sent nýliða Jemaah
Islamiah í þjálfunarbúðir al-Qaeda í
Afganistan og tekið þátt í skipulagn-
ingu árásarinnar á bandaríska sendi-
ráðið, sem komið var í veg fyrir.
Sprengjuárásir á
24 kirkjur í Indónesíu
Hambali og aðrir leiðtogar Jemaah
Islamiah voru með bækistöðvar í
Malasíu þar sem hann notaði bæna-
hópa til að safna liði. Hann sneri aftur
til Indónesíu seint á árinu 2000.
„Við höfum upplýsingar um að
Hambali hafi sagt vinum sínum í Mal-
asíu að hann hygðist fara til Indónes-
íu og halda þar dálitla veislu,“ sagði
talsmaður indónesísku lögreglunnar.
„Þessi veisluhöld reyndust vera
sprengjuárásir.“
Aðfangadagskvöld árið 2000
sprungu sprengjur í 24 kirkjum víða í
Indónesíu á messutíma. Nítján
manns létu lífið og meira en hundrað
særðust. Sprengjurnar voru allar
eins og sprungu flestar með nokkurra
mínútna millibili.
Fleiri sprengjuárásir voru gerðar.
Lögreglan telur að Hambali og Sam-
udra séu viðriðnir þrettán þeirra,
meðal annars tvær árásir á kirkjur í
júlí, tíu dögum fyrir sprengjutilræðið
í verslunarmiðstöðinni í Jakarta.
„Í öllum þessum tilvikum var
Hambali leikbrúðustjórnandinn á
bak við tjöldin,“ sagði talsmaður
indónesísku lögreglunnar. „Hann tók
ekki þátt í árásunum sjálfum, en
stjórnaði fundunum, sá um skipu-
lagninguna, úthlutaði verkefnum.“
Blóðug átök milli
múslíma og kristinna
Nokkur hundruð kílómetra eru á
milli átakasvæðanna þriggja –
Mindanao, Mólúkka-eyja og Sulaw-
esi. Vegna lítils landamæraeftirlits er
auðvelt fyrir íslömsku hreyfingarnar
að flytja skæruliða, vopn og sprengj-
ur á átakasvæðin.
Bandaríkjastjórn hefur sent 600
hermenn til Mindanao og þeir eiga að
þjálfa og aðstoða her Filippseyja í
baráttunni við íslömsku uppreisnar-
hreyfinguna Abu Sayyaf, sem hefur
tengst Osama bin Laden. Íslamskar
hreyfingar hafa barist gegn stjórn
Filippseyja í mörg ár og Abu Sayyaf
hefur rænt erlendum ferðamönnum
og þorpsbúum til að krefjast lausn-
argjalds og drepið tugi gísla sinna.
Talið er að liðsmenn einnar af
stærstu íslömsku hreyfingunum,
Moro-frelsisfylkingarinnar, séu um
15.000 og á meðal þeirra eru nokkrir
útlendingar. Bandaríkjastjórn segist
ekki hafa í hyggju að gera árásir á
hreyfinguna þrátt fyrir meint tengsl
hennar við hryðjuverkastarfsemi.
Leiðtogar Moro hafa hótað að skjóta
bandaríska hermenn sem fara á yf-
irráðasvæði hreyfingarinnar.
Að minnsta kosti 6.000 manns hafa
beðið bana í átökum múslíma og
kristinna manna á Mólúkka-eyjum,
sem hétu áður Kryddeyjar og drógu
nafn sitt af kryddverslun sem þar
hófst fyrir um 500 árum. Kveikt hefur
verið í mörgum þorpum og um hálf
milljón manna hefur flúið heimkynni
sín vegna átakanna. Múslímar hafa
tekið hundruð kristinna manna til
fanga, neytt þá til að taka íslamska
trú og kristnar konur hafa verið um-
skornar.
Leiðtogar múslíma og kristinna
íbúa Mólúkka-eyja undirrituðu frið-
arsamning nýlega en ekki er víst að
átökunum linni þar sem nokkrar ísl-
amskar hreyfingar hafa ekki sam-
þykkt samninginn. Átökin hafa
breiðst út til eyjunnar Sulawesi þar
sem kveikt hefur verið í hundruðum
íbúðarhúsa. Yfirvöld telja að herskáir
múslímar, sem tengjast al-Qaeda,
hafi haft þjálfunarbúðir nálægt
átakasvæðinu þar sem erlendir
skæruliðar hafi verið þjálfaðir.
Stjórnleysi ríkir á eyjunum á svæð-
inu, sem eru um 1.600, og óttast er að
þær verði athvarf flóttamanna úr röð-
um íslamskra öfgamanna, meðal ann-
ars liðsmanna al-Qaeda sem hafa flú-
ið Afganistan.
Skipulögðu hryðjuverk í Manila
Þegar Hambali skipulagði hryðju-
verk Jemaah Islamiah í Indónesíu
var annar Indónesi, Fathur Rohman
Al-Ghozi, að undirbúa sprengjuárásir
á Filippseyjum. Lögreglan í Manila
handtók hann í janúar eftir að hafa
fengið ábendingu frá yfirvöldum í
Singapúr og játningar hans hafa
varpað ljósi á samstarf íslömsku
hreyfinganna í þessum heimshluta.
Al-Ghozi fór til Pakistans árið 1990
eftir trúarnám í Indónesíu. Hann
gekk í Jemaah Islamiah og var þjálf-
aður í hernaði í búðum sem afganskur
múlla stjórnaði á landamærum Pak-
istans og Afganistans. Al-Ghozi fór til
Malasíu árið 1995 til að ræða við Faiz
Bafana, leiðtoga Jemaah Islamiah,
sem er talinn tengjast leiðtogum al-
Qaeda í Afganistan. Al-Ghozi kvaðst
hafa fengið fyrirmæli frá Bifana um
að fara til Filippseyja og taka þátt í
„heilögu stríði á Mindanao“.
Seint á árinu 2000, þegar Jemaah
Islamiah var um það bil að hefja
sprengjuárásirnar í Indónesíu, var
hreyfingin að undirbúa hryðjuverk í
Manila. Al-Ghozi kvaðst hafa skipu-
lagt sprengjuárásir sem liðsmenn
Moro-frelsisfylkingarinnar áttu að
gera. Hann greiddi þeim andvirði
600.000 króna til að kaupa 75 kg af
sprengiefni og koma sprengjunum
fyrir. Bafana samþykkti áformin í
símasamtali, að sögn Al-Ghozis.
Bafana og Hambali fóru til Manila í
byrjun desember 2000 til að ræða
áformin og skoða hugsanleg skot-
mörk. Sprengjurnar sprungu á fimm
stöðum 30. desember, meðal annars í
samgöngumiðstöð. 22 menn biðu
bana og meira en hundrað særðust.
Ráðgerðu sjö sprengjuárásir
í Singapúr
Rannsóknarmenn hafa leitt getum
að því að sprengjutilræðin á Filipps-
eyjum og í Indónesíu hafi verið nokk-
urs konar æfing fyrir hryðjuverk í
Singapúr. Þar var ráðgert að gera sjö
sprengjuárásir með flutningabílum
og hver þeirra átti að vera hlaðinn
sprengifimum áburði. Yfirvöld segja
að Al-Ghozi og meintur liðsmaður al-
Qaeda, sem kallaði sig Sammy, hafi
farið til Singapúr í október sl. og byrj-
að að skipuleggja hryðjuverkin með
aðstoð Bafana.
Þegar einn hryðjuverkamannanna
pantaði 17 tonn af ammóníumnítrati í
byrjun desember létu yfirvöld í
Singapúr til skarar skríða og hand-
tóku 13 menn í hópnum, þeirra á með-
al Bafana og bróður hans. Al-Ghozi
var síðan handtekinn í Manila en
samstarfsmaður hans, „Sammy“,
leikur enn lausum hala.
„Þessir hópar Jemaah Islamiah í
Singapúr hafa verið leystir upp en
þeir sem lögðu á ráðin bak við tjöldin
leika enn lausum hala í Indónesíu,“
sagði forsætisráðherra Singapúr í
ræðu nýlega. „Hættan líður ekki hjá
fyrr en tryggt er að þessir útsendarar
al-Qaeda eigi hvergi athvarf á eyjun-
um í kringum okkur.“
Reuters
Barist fyrir íslömsku
ríki í Suðaustur-Asíu
Jakarta. Los Angeles Times.
Hryðjuverkamenn, sem
tengjast al-Qaeda, hafa
háð heilagt stríð með
mannskæðum sprengju-
árásum á kirkjur og
fleiri skotmörk í
Indónesíu og á Filipps-
eyjum, auk þess sem
þeir skipulögðu hrinu
hryðjuverka í Singapúr.
’ Ef múslími erkúgaður ber öðrum
múslímum skylda
til að verja hann ‘
Lögreglan í Singapúr hefur handtekið
þessa þrettán menn fyrir að hafa lagt á
ráðin um sprengjuárásir á sendiráð
Bandaríkjanna og skrifstofur banda-
rískra fyrirtækja. Þeir eru allir félagar í
íslömsku hreyfingunni Jemaah Islamiah
sem hefur staðið fyrir sprengjutilræðum
í Indónesíu og á Filippseyjum. Faiz bin
Abu Bakar Bafana (lengst til hægri í
neðstu röðinni) er talinn vera annar af
helstu leiðtogum hreyfingarinnar.