Morgunblaðið - 23.04.2002, Blaðsíða 44

Morgunblaðið - 23.04.2002, Blaðsíða 44
MINNINGAR 44 ÞRIÐJUDAGUR 23. APRÍL 2002 MORGUNBLAÐIÐ ✝ Sigurður Hall-dórsson fæddist í Borgarnesi 25. maí 1946. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Eir 16. apríl síðast- liðinn. Foreldrar hans eru Sigríður Sigurðardóttir, f. á Hvammstanga 27.9. 1912, og Halldór Sig- urðsson, sparisjóðs- stjóri í Borgarnesi, f. á Geirmundarstöð- um í Skagafirði 29.9. 1902. Systkini Sig- urðar eru Hreinn, f. 29.7. 1934, og Björk, f. 15.4. 1939. Eftirlifandi kona Sigurðar er Guðrún Ásgeirsdóttir lyfjatækn- ir, f. 6.9. 1946. Þau gengu í hjóna- band árið 1966. Sig- urður stundaði nám við Samvinnuskól- ann á Bifröst og út- skrifaðist þaðan ár- ið 1966. Stúdents- prófi lauk hann frá Samvinnuskólanum árið 1977. Síðar stundaði Sigurður nám við háskólann í Stirling í Skotlandi og lauk þaðan námi í hagfræði árið 1982. Sigurður starfaði lengst af sem fjármálastjóri hjá Smjörlíki-Sól hf. Útför Sigurðar fer fram frá Lágafellskirkju í dag og hefst at- höfnin klukkan 13.30. Mig langar að skrifa til þín nokkur orð vegna þess að ég er núna svo óralangt í burtu. Ég er þakklát fyrir að hafa átt stund með þér og hvatt þig áður en ég fór, þá fannst mér að allt gæti gerst og við sæjumst kannski ekki aftur er ég kæmi til baka, þú varst svo mikið veikur þá. Reyndar hefur það áður verið svo en nú var ég að fara svo langt frá þér, ég reyndi að segja svo margt fallegt við þig og ég held að þú hafir heyrt það allt, þú brostir. Fyrsta morgun minn á ítalíu hringdi Guðrún og þá vissi ég hvað var. Þú hefur staðið þig eins og hetja öll árin sem þú hefur verið veikur, ég efast um að nokkur maður hafi heyrt þig kvarta eða látið eitthvað fara í taugarnar á þér, það er ótrúlegt. Þú hefur verið geðprýðin sjálf alla tíð og það hefur hjálpað öllum sem þurftu að annast þig í veikindunum, ekki síst henni Guðrúnu þinni sem hefur gert það af slíkri snilld og alúð að enginn gæti gert betur, það vita allir sem til þekkja. Ég vil þakka Guð- rúnu af öllu hjarta fyrir allt. Þegar þú varst táningur dóu for- eldrar okkar og ég ung og nýgift tók að sjálfsögðu ábyrgð á drengnum, en það var aldrei neitt vandamál. Svo kynntist þú Guðrúnu þinni og þið giftuð ykkur ung og þá sá ég að þú varst í öruggum höndum og hefur verið síðan. Þið áttuð sem betur fer mörg góð og yndisleg ár áður en þú veiktist. Ég veit að ykkur þótti innilega vænt hvoru um annað og þú vildir oft segja henni að þú elskaðir hana. Elsku Siggi minn, það er hægt að skrifa svo margt um þig skemmtilegt frá þínum yngri árum, frá tónlistinni og mörgu fleiru, en ég ætla bara að hugsa það með sjálfri mér og geyma það. Ég kveð þig með söknuði og bið guð að leiða þig og gefa Guðrúnu styrk til að takast á við lífið. Með þökk fyrir allt. Þín systir, Björk Halldórsdóttir. Sigurður Halldórsson, mágur minn og vinur, lést að morgni þriðju- dagsins 16. apríl. Siggi var aðeins 55 ára gamall og búinn að berjast við sinn erfiða sjúkdóm í rúma tvo ára- tugi. Í öll þessi ár heyrði ég hann aldrei kvarta að öðru leyti en því að hann sagði stundum þegar hann var spurður hvernig honum liði, að hon- um væri illt í mjöðminni. Ekkert annað amaði að honum. Siggi var einstakt ljúfmenni og mikill húmoristi sem alltaf var gam- an að hitta. Fyrir stuttu hitti ég á hann svo einstaklega kátan og glað- an og við hlógum og gerðum að gamni okkar og hann hafði sitt gamla blik í augunum. Þegar við vorum yngri átti Siggi það til að segja okkur gamansögur sem fengu okkur til að veltast um af hlátri. Sérstaklega voru margar góð- ar frá æskuárunum í Borgarnesi þegar hann og Bubbi voru ýmislegt að bralla. Þær fjölluðu um næpu- þjófnað úr görðum grannanna og byssuleiki með alvöruvopn og margt fleira skondið sem ekki er vert að hafa eftir hér. Ég held að sögurnar hafi allar verið sannar og lítt krydd- aðar en Siggi sagði þannig frá að þær urðu óborganlegar. Siggi var mikill tónlistarmaður. Hann spilaði á gítar og þótti frábær gítarleikari. Hann spilaði í mörgum hljómsveitum og m.a. spilaði hann lengi í hljómsveit í Borgarnesi sem hét Straumar. Á þessum árum gekk hann með svört, ferköntuð Shadows- gleraugu og þegar hann spilaði sló hann ævinlega taktinn með öðrum fætinum svo eftir var tekið. Seinna færðist tónlistaráhuginn yfir í klass- íska tónlist, hann söng lengi með Pólýfónkórnum og hafði yndi af að hlusta á fallega tónlist. En tóneyrað nýttist Sigga líka þegar við tókum einu sinni upp á því að fara í dans- skóla. Siggi og Guðrún, ég og Óli og Guðmundur og Þórunn. Þá var það þannig að kennararnir prófuðu okk- ur öðru hverju í því að þekkja hvaða dans ætti nú að dansa við lagið sem sett var á fóninn. Þetta vafðist fyrir mörgum en fljótlega áttaði hópurinn sig á því að einfaldast var að bíða að- eins og athuga þegar Siggi sveif af stað með Guðrúnu, hvað þau væru að dansa og gera svo bara eins. Þetta brást aldrei. Hjónaband þeirra Guðrúnar og Sigga var einstakt og aldrei fór þeim styggðaryrði á milli. Guðrún hefur undanfarinn áratug annast Sigga í veikindum hans og í raun vakað yfir honum nótt og dag. Þau eru í mínum huga hetjur sem hafa tekið því sem að höndum bar af aðdáunarverðu æðruleysi. Ég er þakklát Sigga fyrir samfylgdina og mun geyma dýrmæt- ar minningar um góðan dreng. Ingibjörg. Við Siggi vorum báðir innfæddir Borgnesingar og ólumst upp í þessu litla þorpi þar sem allir þekktu alla. Móðir mín, Jóhanna Runólfsdóttir, þekkti Sigríði og Halldór foreldra Sigga og talar um þau af mikilli hlýju og virðingu. Þau reyndust henni afar vel þegar hún átti erfiðan tím í lífi sínu. Þau dóu bæði þegar Siggi var á unglingsárum og eftir það bjó Siggi hjá systur sinni Björk og manni hennar Friðjóni Sveinbjörnssyni sparisjóðsstjóra. Aldursmunur á okkur Sigga nægði til þess að við kynntumst ekki fyrr en við vorum orðnir fullorðnir menn og svo vildi til að við giftumst systrum. Þegar ég hugsa um Sigga er mér efst í huga hvað hann var allt- af í góðu skapi, alltaf jákvæður og gamansamur og alltaf gat hann gert grín að sjálfum sér og spunnið upp sögur útfrá minnsta óhappi sem hann lenti í. Aldrei heyrði ég hann tala illa um nokkurn mann og alltaf var kímnin hans góðlátleg. Við fórum oft saman á handbolta- leiki og æstum okkur upp yfir spenn- andi leikjum og ræddum á eftir um hvernig leikmennirnir hefðu átt að spila leikinn en það vissum við alltaf betur en þeir sem stjórnuðu leikn- um. Á meðan tengdaforeldrar okkar, Sigrún og Ásgeir, bjuggu enn í Borg- arnesi, kom fjölskyldan oft öll saman á Helgugötunni um jólin og þá minn- ist ég sérstaklega kvölda þegar við Siggi, tengdamóðir okkar Sigrún og svo Ingibjörg sátum frameftir og spiluðum vist. Þá ríkti mikil kátína og spilað var af krafti og sjaldan þótti ástæða til að segja pass. Siggi var einn af þessum góðu, heiðarlegu mönnum sem gott var að vera í návist við. Eftir að Siggi veiktist hefur Guð- rún hugsað um hann og gert allt fyr- ir hann sem í mannlegu valdi stóð. Hún á skilið aðdáun og virðingu og ég votta henni mína dýpstu samúð. Sömuleiðis samhryggist ég systkin- um hans, Björk og Hreini. Ólafur Ágúst. Ég stóð á tröppum Samvinnuskól- ans að Bifröst haustið 1964 ásamt hópi nemenda, sem höfðu komið með Norðurleiðarrútunni, þegar hús- freyja staðarins vék sér að mér og sagði líkt og maðurinn forðum: „Fylg þú mér“. Ég tók í skyndi tvo pinkla og skeiðaði á eftir henni inn og upp á heimavistargang. Hún stoppaði við næstinnstu dyrnar, opn- aði þær og sagði: „Ég set þig með pilti úr Borgarnesi,“ síðan snerist hún á hæli og skundaði fram gang- inn. Ég losaði mig við pinklana og hraðaði mér á eftir henni, náði henni í dagstofunni, þar sem hún nam stað- ar hjá hópi fólks, sem var í hróka- samræðum og sagði hátt og skírt: „Sigurður! Ég setti mann inn til þín.“ Innan úr þvögunni birtist ljós hrokkinhærður haus með dökk gler- augu, sem horfði augnablik á hús- freyjuna og sagði „Jaá“ og hvarf óð- ara aftur í þvöguna. Ég sótti þá föggur mínar og bar þær upp á her- bergið, sem ekki var ýkja stórt. En hvar átti ég að setja mitt dót? Her- bergið var næstum fullt af eigum þessa væntanlega herbergisfélaga míns. Ég virti fyrir mér það sem þarna var; stærðar gítartaska, tveir magnarar með hátölurum, annar ekki lítill, útvarp, segulband, plötu- spilari, fullur pappakassi af plötum, ferðatöskur og pinklar. Hann var úr Borgarnesi þessi piltur, örstutt frá, þurfti hann þetta allt, eða var hann fluttur að heiman fyrir fullt og allt? Hvaða plötur voru í kassanum? Á hvað hlustar hann? Átti það fyrir mér að liggja að þurfa að hlusta á einhvern hrylling? Við athugun á plötusafninu kom í ljós að þarna var mikið af jazzplötum, gítartónlist, að sjálfsögðu Hank Marvin, og margt fleira. Þetta lofaði að minnsta kosti góðu. Ekki varð þessi Borgarnespilt- ur á vegi mínum þegar ég fór í vett- vangskannanir um skólann þennan fyrsta dag og það var ekki fyrr en heimavistinni hafði verið læst um kvöldið að við hittumst inni á her- berginu. Við kynntum okkur, hann hét Sigurður Halldórsson og átti heima í Borgarnesi, nei, hann var ekki fluttur að heiman, það voru að- eins nauðsynlegustu hlutirnir sem hann hafði tekið með sér núna, hann átti von á meiru á morgun. Við hófumst fljótlega handa við að ganga frá föggum okkar og á meðan töluðum við um alla heima og geima, tengdum plötuspilarann og létum Hank létta okkur störfin. Eftir því sem okkur miðaði varð mér ljóst að ég hefði líklega verið heppinn að hafa fylgt húsmóðurinni og hafa ver- ið settur inn hjá piltinum úr Borg- arnesi. Í ljós kom að hann hafði ein- staka kímnigáfu og létta lund. Hann virtist ekki taka hlutina allt of alvar- lega, sagðist ekki hafa neinn sérstak- an metnað viðvíkjandi náminu en vildi að strax yrði stofnuð hljómsveit í skólanum til að leika fyrir dansi. Hann hefði verið að kanna hverjir af nemendum annars bekkjar væru lík- legir til að vera með í væntanlegri hljómsveit og svo þyrfti að athuga með fyrstubekkjarnemana. Þegar á Bifrastarárunum hafði Sigurður fellt hug til Guðrúnar Ás- geirsdóttur, sýslumannsdóttur úr Borgarnesi. Fyrri veturinn sem hann var á Bifröst var hún námsmey á Húsmæðraskólanum að Varma- landi. En seinni veturinn sat hún í festum í Borgarnesi meðan hann var í strangri gæslu Guðmundar skóla- meistara á Bifröst. Voru nú góð ráð dýr. Hagur okkar Sigurðar hafði nú heldur vænkast frá fyrra árinu, við komnir í stærra herbergi við þriðja mann, Jón Bjarna, og mikill samhug- ur hjá okkur herbergisfélögunum. Var ólíklegustu brögðum beitt svo koma mætti á samfundum þeirra hjónaleysanna um helgar. Það tókst með aðstoð góðra manna. Árin tvö liðu hratt, tónlistin og Guðrún áttu hug hans allan og er ekki að orðlengja það, „fátæki frum- bókarmaðurinn og sýslumannsdótt- irin“ giftu sig sumarið eftir. Kynni okkar fjögurra hófust fyrir alvöru með tveggja mánaða ferða- lagi um Evrópu sumarið ’68. Þetta ár voru stúdentaóeirðir víða um álfuna og hippatímabilið stóð sem hæst. Eiginlega má segja að þetta ferðalag hafi verið hálfgerður kommúnubú- skapur. Bíllinn, tvö tjöld, gaseldavél og skurðarhnífur fyrir „franskar“ voru lykilatriði í þessari ferð. Far- angurinn var skorinn við nögl og þá máttu sáttir sannarlega þröngt sitja. Fyrstu búskaparárin bjuggu Siggi og Guðrún í Borgarnesi. En eftir að hafa verið í nokkur ár ráðsett hjón í Reykjavík, ákvað Sigurður Hall- dórsson að gerast skólapiltur á nýj- an leik. Eftir stúdentspróf hér heima og frábæran námsárangur með verð- launum fyrir ólíklegustu fög, jafnvel þýsku, sem hann taldi ekki beint til sinna uppáhaldsfaga, skyldi haldið á vit ævintýranna. Þau tóku sig þá upp „unglingarnir“, rétt eins og farfugl- arnir og fóru til Skotlands, þar sem Sigurður hóf nám í hagfræði við há- skólann í Stirling. Margar góðar sögur rötuðu hér heim á Frón bæði af fjölþjóðlegu samfélagi stúdenta- garðanna og ekki síður af tilraunum Sigurðar til útskýringa á íslenskri hagfræði fyrir skoskum prófessor- um, en það telst varla neitt áhlaupa- verk. Að námi loknu kom Sigurður þó ekki aðeins heim með háskóla- gráðuna, heldur líka „Emmessinn“. Þessi Emmess er skrýtin skepna og óútreiknanleg og einmitt af því hvað hún er óútreiknanleg, ákváðum við strax að taka ekkert mark á henni. Svo hún fékk ekki aðgang að okkar samverustundum og vináttu. En, þessi saga er saga um sigur andans yfir efninu. Samband Sigga og Guðrúnar var einstakt. Siggi bar Guðrúnu á höndum sér, hann dáði hana og var henni svo góður og þau hvort öðru, að það var unun að vera með þeim. Þessi aðdáun Sigga hélst til síðustu stundar og var ríkulega endurgoldin. Guðrún gerði líf Sigga svo ríkt og ljúft og það var bara svo gaman að vera til. Kæri vinur, við þökkum þér allar ánægjustundirnar og ykkur báðum, við komum alltaf ríkari af ykkar fundi allt til síðasta dags, þið eruð órjúfanleg heild og þannig vildir þú hafa það. Far í friði. Guðmundur og Þórunn „frænka þín“. Kær vinur er fallinn frá og við er- um slegin þegar við fáum fréttina. Jafnt þótt hún komi ekki á óvart eftir áralanga erfiða sjúkdómsbaráttu. Að okkur sest sár söknuður og hugurinn fer yfir sviðið eftir ævilöng kynni. Vinir sem hafa þekkst frá fæðingu eiga margbreytilegar minningar sem oft voru færðar í skrautlegan búning og koma upp í hugann. Sagnameistarinn Sigurður gat gert minnstu tilvik að skemmtisögum. Það voru iðulega rifjuð upp atvik frá fyrstu skólaárunum í Borgarnesi. Þeir vinirnir sátu að sjálfsögðu sam- an öll skólaárin og gerðu allt eins. Þeir fengu t.d. báðir 20 á fyrsta reikningsprófinu og héldu að þeir hefðu sprengt skalann. Oft er búið að skemmta sér yfir veiðisögum um gæsaveiði og meðhöndlun bráðar- innar, sem ekki var sérlega kunn- áttusamleg og rjúpum sem enginn matur var í, af því að þeir skutu báðir sömu rjúpuna. Við munum lengi ylja okkur við minningar frá samveru okkar og Sigga og Guðrúnar í gengum árin. Frá þessum yndislegu tímum þegar umræðurnar heilu kvöldin snerust um það hvað Bítlarnir væru nú að meina með nýjustu plötunni sinni og alltaf var verið að „skemmta sér“. Síðan þegar þau voru flutt suður komu heimsóknir stuttar eða langar sem gátu jafnast á við bestu skemmtanir. Hæst rís þó ferðin með þeim til Sterling í Skotlandi, þar sem Sigurður var við hagfræðinám. Þá fengum við að njóta með þeim og kynnast mörgu því sem Sigurður hafði mest dálæti á. Hann undi sér þar sérlega vel og Skotar og Skot- land átti alltaf stóran hlut í hjarta hans. Sigurður hafði mikla tónlistar- hæfileika og var farinn að spila í hljómsveit fimmtán ára gamall. Hljómsveitin Straumar er minnis- stæðust. Hún var hin borgfirska Shadows þess tíma og átti sér marga áhangendur sem fylgdu henni hvert sem hún fór. Hann var snillingur á gítar og gat gripið í flest hljóðfæri. Þó lærði hann ekki nótur fyrr en hann fór að syngja með Pólýfón- kórnum mörgum árum seinna. Það eru forréttindi að hafa átt mann eins og Sigurð Halldórsson að vini. Hann var alltaf jákvæður og tilbúinn að styrkja aðra, svo var hann bara svo einstaklega skemmti- legur maður, sérlega glaðlyndur og gefandi. Og ekki spillti svo hún Guð- rún hans fyrir. Það var alltaf endur- nærandi að vera nálægt þeim, þar sem ríkti þetta yndislega andrúms- loft glettni og hlýju. Það er stundum sagt að ástarsam- bönd unglinga endist illa, haldi sjald- an ævina út. Guðrún kom ný í annan bekk í unglingaskóla í Borgarnesi. Ástin blossaði fljótlega og Sigurður þurfti síðan ráðherraundanþágu til að gifta sig tvítugur. Þetta samband virtist aðeins styrkjast þessa fjóra áratugi sem það varði og var þó und- ir lokin meira á það lagt en venjulegt er. Við kveðjum þennan vin okkar með innilegu þakklæti fyrir sam- fylgdina og flytjum henni Guðrúnu hans hjartans samúðarkveðjur. Anna Ólafsdóttir, Björn Jónsson. Kveðja frá skólafélögum á Bifröst Þaðvar glaðvær og bjartsýnn hóp- ur ungmenna sem hélt út í lífið, vel nestaður af lærdómi og hugsjónaeldi frá Samvinnuskólanum á Bifröst, út- skriftardaginn vorið 1966. Í þessum hópi var var Sigurður Halldórsson SIGURÐUR HALLDÓRSSON Allt er nú orðið svo undarlega hljótt. Ég bið minn Guð að gefa þér góða draumanótt. (Hugrún.) SÓLEY INGVARSDÓTTIR ✝ Sóley Ingvars-dóttir fæddist á Landspítalanum við Hringbraut hinn 1. nóvember árið 2000. Hún lést á barnadeild Land- spítalans hinn 10. apríl síðastliðinn og var útför hennar gerð frá Bústaða- kirkju 18. apríl. Elsku litla Sóley okkar. Nú er hetju- legri baráttu þinni við illvígan sjúkdóm lokið. Þegar líf þitt var rétt að hefjast tók Guð í taumana og kallaði þig til sín. Við sem eftir stöndum skiljum ekki tilganginn, en Sóley okkar, við trúum því að Guð hafi þurft á litlum, sætum og skemmtileg- um engli að halda. Elsku Sæunn, Ingv- ar og fjölskyldur. Megi Guð styrkja ykkur í þessum mikla og sára missi. Vinarkveðja. Sigurbirna (Sibba) og Kjartan.
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60
Blaðsíða 61
Blaðsíða 62
Blaðsíða 63
Blaðsíða 64
Blaðsíða 65
Blaðsíða 66
Blaðsíða 67
Blaðsíða 68

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.