Morgunblaðið - 19.05.2002, Blaðsíða 13
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 19. MAÍ 2002 13
þættir í þessu sambandi eru þörf Reykjavík-
urborgar fyrir aukið landrými, flugöryggi og
samgöngumál. Þeir aðilar, sem gæta þessara
hagsmuna, þurfa að komast að sameiginlegri
niðurstöðu um framtíð Vatnsmýrinnar.“
Finnst þér ekki komnar fram nægar upplýs-
ingar nú þegar til að flokkurinn taki afstöðu til
þess hvort flugvöllurinn eigi að vera eða fara?
„Ef svo væri, hefði stefna okkar verið á ann-
an veg. Það hefur til dæmis komið í ljós að við
gerð aðalskipulagsins til ársins 2024 hafa
menn ekki sest niður og rætt þessi mál á efnis-
legum forsendum með þátttöku allra hags-
munaaðila enda er niðurstaðan í samræmi við
það. Hin eina flugbraut R-listans í aðalskipu-
laginu endurspeglar pólitíska málamiðlun inn-
an hans en segir okkur ekki hvort flugvöll-
urinn verður eða fer, því að eina brautin er
ónothæf til áætlunarflugs. Okkar stefna er
betri, heiðarlegri og skynsamlegri en þessi
ótrúlega R-lista lausn.“
Þið hafið auglýst mikið að þið ætlið að bæta
hag aldraðra í borginni. Þú hefur verið gagn-
rýndur fyrir það undanfarið að þú hafir verið
þingmaður Reykjavíkur í 11 ár en ekki sýnt
þessum málum neinn áhuga. Hvernig svar-
arðu þessari gagnrýni?
„Þessi gagnrýni er sett fram af fólki, sem er
pólitískir andstæðingar mínir og telja allt, sem
ég geri eða geri ekki gagnrýnivert. Sem þing-
maður og ráðherra hef ég að sjálfsögðu haft
áhuga á að sinna málefnum aldraðra. Ég hef
tekið þátt í afgreiðslu margra mála, sem horfa
til heilla fyrir eldri borgara. Sem menntamála-
ráðherra var ég hins vegar að sinna sérstak-
lega málefnum sem snerta unga fólkið meira
en aldraða. Ég hef í minni tíð sem mennta-
málaráðherra að sjálfsögðu ekki tjáð mig um
allt sem lýtur að málefnum ríkisstjórnarinnar
eða borgarmálunum vegna þess að ég hef ver-
ið að sinna af einbeitni þeim málum sem mér
var trúað fyrir. Að segja að ég hafi ekki áhuga
á öðrum málaflokkum er fráleitt. Þingmenn og
aðrir hefðu á hinn bóginn álitið mig fara út fyr-
ir verksvið mitt ef ég hefði sífellt verið að tala
um málefni aldraðra þegar ég var að sinna
menntamálum.
Þegar ég kem að borgarmálunum fæ ég gott
tækifæri til að láta að mér kveða í þágu aldr-
aðra með beinum hætti og sýna í verki að ég
hef áhuga á þeim, enda setur D-listinn einn
fram stefnu í Reykjavík, sem mótast mjög af
tilliti til hagsmuna aldraðra.“
Biðlistar pólitískt stjórntæki
í höndum R-listans
Þið ætlið að leysa húsnæðisvanda þeirra
fjölskyldna sem búa í dag við óviðunandi að-
stæður og eru á biðlistum eftir félagslegu hús-
næði. Hvernig ætlið þið að framkvæma þetta?
„Ég viðurkenni fúslega, að mér var ekki
ljóst, fyrr en ég hóf kosningastarf mitt með
nánum tengslum við Reykvíkinga, að ástandið
í húsnæðismálum væri orðið jafnslæmt hér og
raun ber vitni. Fjölmargir hafa komið til mín
og lýst miklum vanda. Þetta á ekki síst við um
einstæðar mæður. Ein þeirra sagði mér, að
hún hefði nýlega leitað til þeirra, sem ráðstafa
félagslegu húsnæði í Reykjavík og fengið það
svar að koma aftur eftir fjögur til fimm ár, bið-
listinn væri svo langur. Mér er betur ljóst en
áður að margir, sem treystu á að R-listinn
myndi veita meiri félagslega þjónustu á öllum
sviðum en Sjálfstæðisflokkurinn, hvetja einna
helst til þess, að nú verði breyting á stjórn
borgarinnar og umboð R-listans verði ekki
endurnýjað. Í biðlistakerfinu, sem er einkenni
R-listans, er fólk beinlínis hrætt við að gagn-
rýna stjórnarhætti hans opinberlega undir
fullu nafni. Fólk óttast hreinlega, að skömmt-
unarstjórar kerfisins muni beita valdi sínu
gegn sér, þegar ráðskast er með biðlistana.
Stundum læðist sá grunur að mér, að R-listinn
líti á biðlistana sem æskilegt stjórntæki til að
treysta sig pólitískt í sessi.
Það þarf fyrst og fremst að fylgja þannig
stefnu í lóða- og húsnæðismálum að allir geti
sæmilega við unað, af því að hún miðar að því
að leysa vandann en ekki auka á hann eins og
gerst hefur hjá R-listanum. Úrræðin eru mis-
munandi eftir einstökum hópum. Nýta á kosti
hins opinbera kerfis eftir því sem unnt er en
einnig eiga samstarf við einkaaðila. Ég tel til
dæmis að það þurfi að gera átak í þágu náms-
manna. Það er ljóst að landrými við Háskóla
Íslands fyrir byggingar í þágu Félagsstofn-
unar stúdenta er uppurið og það þarf að finna
lóð eða lóðir fyrir nýja stúdentagarða. Ég tel
jafnframt að það beri að huga að því hvort
byggja skuli heimavist fyrir framhaldsskóla í
Reykjavík. Nýta á frumkvæði einkaaðila en
ekki að banna til dæmis framleigu á húseign-
um þeirra í þágu hins félagslega kerfis. Það
eru þannig margir þættir sem þarf að líta til
og umbætur gerast ekki með einu penna-
striki.“
Er forystumaður en ekki prímadonna
Það hefur mikið borið á þér í kosningabar-
áttunni. Lítur þú á að um sé að ræða kosningu
um borgarstjóra fremur en borgarstjórn?
„Ég lít á mig sem foringja í liðsheild og ég
hefði aldrei náð neinum árangri án þess að
hafa með mér þetta góða fólk á listanum eða
alla hina, sem koma að kosningastarfi okkar í
öllum hverfum borgarinnar. Ég tel mig frekar
forystumann meðal jafningja en þá príma-
donnu að allt standi og falli með mér. Það er
munur á framboðunum að þessu leyti. Við
frambjóðendur D-listans störfum náið saman
og höfum tengst góðum böndum undir því
álagi, sem fylgir kosningabaráttu en í henni er
leiðtoginn oft dreginn fram þótt hópurinn og
liðsheildin skipti öllu máli. Þetta hefur verið
mjög skemmtilegur og lærdómsríkur tími. Ég
hef mikla ánægju af kynnum við þúsundir
borgarbúa undanfarna daga og vikur. Í stjórn-
málastörfum hef ég lagt mig fram um að vera í
nánum tengslum við fólk og meðal annars nýtt
tölvur og Netið í þeim tilgangi, tölvubréfin í
kosningabaráttunni hef ég ekki talið og ekki
heldur alla, sem ég hef hitt. Þessi samskipti
veita mér mesta ánægju í stjórnmálastarfinu
og að sjálfsögðu ætla ég að leggja rækt við þau
í borgarstjórn.
Ég hef greinilega fundið að það er gjá á milli
borgarbúa og þeirra, sem stjórna í nafni R-
listans – biðlistastjórnin byggist á því að leysa
ekki vandann heldur setja nöfn á listann. Í
skipulagsmálum eru sjónarmið íbúa höfð að
engu, hvort sem litið er til Suðurhlíða, Land-
símalóðar í Grafarvogi, Alaskalóðar í Breið-
holti eða landfyllinga við Eiðisgranda og Ána-
naust. Ég hef aldrei fyrr háð kosningabaráttu,
sem byggist á jafnmiklum kynnum við kjós-
endur og nú síðustu vikurnar. Raunar hélt ég
fyrirfram, að slík yfirferð mundi á einhverju
stigi lenda í blindgötu, en ekkert slíkt hefur
gerst vegna hinna góðu aðstoðar, sem ég nýt
við þessa skipulagningu alla.“
Fari svo að R-listinn haldi völdum í borg-
inni, ætlar þú að sitja í minnihluta næstu fjög-
ur ár?
„Ég hef ekki annað í hyggju. Ég er að bjóða
mig fram til þess að vinna borgina og vinna
fyrir borgarbúa. Það er mitt höfuðmarkmið.
Stjórnmálamenn ráða því ekki sjálfir, hvort og
hvenær þeir ná markmiðum sínum, því að þeir
leggja framtíð sína í vald kjósenda. Mestu
skiptir, að þeir telji sig hafa lagt mál þannig
fyrir kjósendur, að þeir geti í raun ekki gert
betur – séu þar með sáttir við sjálfan sig, hvað
sem öllu öðru líður. Ég hef tekið margar
ákvarðanir á síðustu mánuðum, sem snerta
mína framtíð og fjölskyldu minnar. Fyrir mig
persónulega skiptir mestu, að ég sé sáttur við
þær ákvarðanir sjálfur og þeir, sem næstir
mér standa. Ég hef háð kosningarbaráttuna
nú á þeirri forsendu, að enginn geti efast um
einlægan áhuga minn á því að leggja fram alla
krafta mína til að gera góða Reykjavík að enn
betri borg.“
Lífshamingjan snýst ekki um pólitísk völd
En haldi R-listinn völdum, hvernig líst þér á
að sitja í minnihluta í fjögur ár? Er það ekki
þolinmæðisverk fyrir fyrrverandi ráðherra að
gera það?
„Það finnst mér ekki. Þetta er verkefni sem
ég tek að mér, án þess að nokkur hafi knúið
mig til þess. Ég hef oft skipt um starf og sinni
verkefnum, á meðan ég tel mig geta látið gott
af mér leiða. Ef maður er sáttur við sjáfan sig
er maður líka sáttur við annað. Ég veit að lífs-
hamingjan snýst ekki um að hafa pólitísk völd.
Mér finnst hins vegar vænt um það, ef mér er
trúað fyrir því að takast á við verkefni í þágu
annarra og legg mig fram um að vinna vel fyr-
ir þá, sem sýna mér traust.“
Rétt að lokum. Hvers vegna eiga kjósendur
í Reykjavík að kjósa D-listann fremur en aðra
flokka?
„Sjálfstæðisflokkurinn hefur í áratugi verið
forystuaflið við stjórn Reykjavíkur og hann er
öflugasta félagslega aflið í Reykjavík með ræt-
ur í öllum hverfum borgarinnar. Sjálfstæð-
ismenn hafa mikinn metnað fyrir hönd
Reykjavíkur og þeir hafa ávallt nálgast úr-
lausn mála með hagsmuni allra borgarbúa að
leiðarljósi. Nú bjóðum við fram skýra stefnu
og samhentan lista, sem vill gera samning við
borgarbúa til fjögurra ára um málefni, sem
eru til mikilla heilla fyrir Reykvíkinga. Við
höfum háð þessa kosningabaráttu með já-
kvæðum hætti í nánum tengslum við borg-
arbúa. Við viljum framkvæma þessa stefnu
með borgarbúum. Þeir einir geta veitt okkur
umboð til þess.
Fólki finnst að það sé ótrúlega langt á milli
sín og stjórnenda borgarinnar. Þetta á ekki að
vera svona. Af borgaryfirvöldum eru teknar
ákvarðanir um hluti sem varða borgarbúa
beint og það á að halda þannig á málum, að ná-
ið samband sé á milli þeirra sem stjórna og
þeirra sem búa í borginni. Það er eins og brúin
úr ráðhúsinu til borgarbúa hafi verið tekin í
sundur. Þessu verður að breyta. Ég verð æ
meira var við, að sífellt fleiri telja tímabært að
breyta um stjórnarhætti og þar með stjórn-
endur.“
Hvers vegna á fólk ekki að kjósa R-listann
eða önnur framboð sem eru í boði í borginni?
„Ef fólk kýs R-listann, þá er það að lýsa yfir
vilja til að halda áfram þeirri kyrrstöðu og
doða sem setur æ meiri svip á borgarlífið. Með
R-listanum er tryggt, að áfram verður safnað
skuldum, árlegar vaxtagreiðslur skipta millj-
örðum af öllum þessum skuldum og munu
halda áfram að vaxa með þeim. Með R-listan-
um er tryggt að Orkuveitan mun halda áfram
að veikjast. Með R-listanum er tryggt að Geld-
inganesið verður eyðilagt með tvöföldu um-
hverfisslysi. Með R-listanum er tryggt að bið-
listarnir munu halda áfram að lengjast. Með
R-listanum er tryggt að óánægja með fé-
lagslega þjónustu mun halda áfram að aukast.
Með R-listanum er tryggt að áfram verður álit
íbúa haft að engu við skipulag á óbyggðum
svæðum í næsta nágrenni þeirra. Er ekki gott
að hafa nú tækifæri til að breyta?“
að breyta
Morgunblaðið/Kristinn
„Sjálfstæðisflokkurinn hefur í áratugi verið forystuaflið við stjórn Reykjavíkur og hann er öflugasta félagslega aflið í Reykjavík ...“
rsj@mbl.is