Morgunblaðið - 22.05.2002, Qupperneq 28
LISTIR
28 MIÐVIKUDAGUR 22. MAÍ 2002 MORGUNBLAÐIÐ
LISTAMAÐURINN á horninu er
meðal þeirra verkefna sem sett hafa
hvað mestan svip á borgina á und-
anförnum mánuðum. Verkefnið var
skipulagt af tveim listamönnum,
þeim Ásmundi Ásmundssyni og
Gabríelu Friðriksdóttur. Nú má til
mánaðamóta sjá greinargóða saman-
tekt á öllu því sem gert var í nafni
verkefnisins, í sal Ráðhússins í
Reykjavík. Að sjálfsögðu er það af
ýmsum toga þótt megnið séu verk
sem ekki var ætlað að standa um ald-
ur og ævi heldur vera stundlegt inn-
legg inn í umræðuna um möguleika
listarinnar í venjulegu umhverfi.
Á tímum þegar minnisvarðar eiga
erfitt uppdráttar er hollt að spyrja
hverju listin geti áorkað, komið fyrir
á förnum vegi. Hvernig tökum við
hlutum sem koma okkur á óvart í
umhverfinu? Eins og oft vill verða
þegar um svona verkefni er að ræða
þá snýst skipulagningin eilítið upp í
kapphlaup um það hver hitti best
naglann á höfuðið. Í staðinn fyrir að
leggja ögn meiri áherslu á tilraunina
sem umhverfislegt verkefni – reyna
virkilega á getu listarinnar úti í –
hopuðu flestir sýnenda inn í skel
sína, fyrirfram vissir um að list
þeirra tækist ekki að drífa upp sam-
ræður – díalóg – um eðli útiverka.
Þá er farið að spilla eilítið fyrir
samvinnuverkefnum af þessum toga
að aðrir listamenn eru næstum einir
um að mæta á staðinn til að klappa
kollegum sínum lof í lófa. Þannig er
sameiginlegt listamannahangs farið
að ógna skoðanaskiptum og hefta út-
breiðslu eðlilegs áhuga annarra fyrir
því sem sýnt er. En þegar ég hugsa
aftur í tíma þá hefur íslensk menning
alltaf byggt á lokuðum klúbbum.
Slíkt sellufyrirkomulag – eins og það
sem nafni minn heitinn lýsti svo eft-
irminnilega í Atómstöðinni – tryggir
að ekkert óvænt trufli það sem kalla
mætti sameiginlega upplifunaráætl-
un hópsins.
Svo er það skemmdarfýsnin sem
spillti oftar en einu sinni fyrir áætl-
uninni. Það er merkilegt hve lúalega
er komið fram við listamenn sem
ekkert gera af sér annað en stilla
upp verkum sínum. Eflaust varð
þetta til að þrengja verulega svæðið
sem listamennirnir kusu að nýta sér.
Það sem byrjaði með dágóðri sókn út
í úthverfi Reykjavíkur, skrapp mest-
megnis saman í hundrað og einum
þegar sá fyrir endann á verkefninu.
En án þess að farið sé í beina ein-
kunnagjöf til handa listamönnunum
sem þátt tóku í Listamaðurinn á
horninu, þá skiluðu þeir flestir af sér
skemmtilegum verkum. Að vísu var
áherslan ef til vill of einhliða, þótt
gjörningar séu vissulega góðra
gjalda verðir. Syrpan varð því í heild
sinni einum of fyrirséð, ef frá eru
taldar örfáar, frábærlega heppnaðar
undantekningar. En ef tekið er mið
af því besta verður Listamaðurinn á
horninu vonandi ekki það síðasta
sem gert er til að máta listina við
daglegt borgarlífið.
Hornabolti
Frá yfirlitssýningunni í Ráðhúsi Reykjavíkur á verkefninu Listamað-
urinn á horninu. Sýningin stendur til 31. maí næstkomandi.
MYNDLIST
Ráðhús Reykjavíkur
Til 31. maí. Opið alla virka daga
frá kl. 8.20–16.15.
BLÖNDUÐ TÆKNI
12 LISTAMENN
Halldór Björn Runólfsson
TILRAUNAKENND frumsamin
tónlist, með og án orða, var yfir-
skrift hádegistónleika nr. 2 í Ráð-
húsi Reykjavíkur á Listahátíð 2002.
Aðeins eitt verk var á dagskrá og í
kynningu Ragnhildar Gísladóttur
kom fram að verkið heitir Blending
og er eins konar hljóðferli í fjórum
köflum. Leikið var á hljómborð,
hljóðgervil, gítar og trommur auk
þess sem Ragnhildur söng með í
nokkrum kaflanna. Verkið er samið
eða spunnið í kringum sögu af ungri
„máttarvana kvinnu“ sem laðast að
sér eldri, sterkari og reyndari
manni, og þar með losnar hún við að
taka ábyrgð. Ragnhildur vildi líkja
sögunni og ferlinu við pólitískt ferli
– tökum ekki ábyrgð. Ragnhildur
sagði frá söguþræðinum fyrir hvern
kafla fyrir sig. Fyrsti kaflinn fjallar
um kynni máttvana konunar og
sterka eldri mannsins. Tónlistin fer
hægt af stað með góðri stígandi og
deyr síðan út í lokin – allt leikur í
lyndi. Í öðrum kafla er konan í
slæmu standi. Þótt sambandið hafi
byrjað vel fer sá gamli smám saman
að drottna yfir konunni og heimtar
sitt og engar refjar. Konan missir
alla ábyrgð og líður frekar illa –
kosningar framundan. Tónlistin
hefst með trommusólói og síðan
bætist gítarinn við og kaflinn er að
mestu eins konar dúett á milli þess-
ara hljóðfæra. Í þriðja kafla er kon-
an orðin ófær um að tjá sig og alger-
lega ábyrgðarlaus – tekur ekki
ábyrgð á neinu – en allt fer þó vel.
Tónlistin er samspil allra hljóðfær-
anna með söng. Fjórði kaflinn segir
frá að konan fékk gjöf. Fékk hjól að
gjöf. Hún hjólar langt í burt til að
hugsa ráð sitt og kemur síðan til
baka til að segja nei, en sá gamli er
óbreyttur á sínum stað og allt fer í
gamla farið – situr við það sama. Í
þessum lokakafla er tónlistin þrótt-
mikil og stormasöm allt frá byrjun.
Sú tónlist sem hér var flutt er
skemmtilegur spuni út frá téðri
sögu og þar með gefnum forsendum.
Tónlistin túlkaði hugarástand ungu
konunnar – þess máttvana – og
stormasamt samband hennar við
eldri manninn – þann sterka. Allar
blíðar hugsanir og undirgefni svo og
átökin í sambandinu komu vel fram
og voru skemmtilega túlkuð. Hér
var á ferðinni úrvals tónlistarfólk
sem skilaði góðu og samstilltu sam-
spili og vel gerðum einleiksköflum,
var lifandi og naut þess sem það var
að gera.
Spunnið
um sögu
TÓNLIST
Ráðhús Reykjavíkur
Arnar Þór Gíslason, Barði Jóhannsson,
Jóhann Gunnarsson og Ragnhildur Gísla-
dóttir. Ráðhúsi Reykjavíkur þriðjud. 14.
maí kl. 12.30.
SPUNI
Jón Ólafur Sigurðsson
Listahátíð í Reykjavík
Dagskráin í dag
Miðvikudagur 22. maí
Kl. 12.30 Listasafn Íslands
Fyrir augu og eyru. Strengjakvartettinn
Eþos, sem skipaður er Auði Hafsteins-
dóttur og Gretu Guðnadóttur fiðluleik-
urum, Guðmundi Kristmundssyni víólu-
leikara og Bryndísi Höllu Gylfadóttur
sellóleikara, flytur tvo strengjakvartetta
eftir Stravinsky. Sá fyrri heitir Þrjú verk
fyrir strengjakvartett, saminn árið 1914,
en sá seinni Concertino, saminn 1920,
og verður hann frumfluttur á tónleik-
unum. Aðgangur er er ókeypis.
Kl. 15.00 Gerðuberg
Týndar mömmur og talandi beinagrindur í
Gerðubergi. Barnasýning frá Pero leikhús-
inu í Stokkhólmi. Sýningin er fyrir börn á
aldrinum þriggja til fimm ára. Höfundur
og aðalleikari Bára Magnúsdóttir. Selló-
leikari Katrin Forsmo. Leikstjóri Peter
Engkvist.
Kl 17.05 Hitaveitutankur
undir Perlunni
Örleikverk og myndlistargjörningur eftir
Árna Ibsen og Rósu Sigrúnu Jónsdóttur:
Til að koma í veg fyrir misskilning ákvað
mamma að best væri að þegja. Leikstjóri
Harpa Arnardóttir. Verk fyrir karla og kon-
ur, slatta af leirtaui, fortíð, nútíð endur-
óm og Jim Reeves.
Útvarpað beint í Víðsjá á Rás 1. Aðgangur
er ókeypis.
Kl. 20.00 Háskólabíó
June Anderson. Einsöngstónleikar einnar
glæsilegustu sópransöngkonu heims sem
líkt er við Callas og Sutherland. Píanó-
leikari Jeff Cohen.
Strengjakvartettinn Eþos.
SVOKALLAÐAR „splatter“-
myndir eiga sér vafasama hefð í kvik-
myndasögunni, en þær snúast um það
öðru fremur að sýna varnarleysi
manneskjunnar og sundurlimun
mannslíkamans á sem frumlegastan
máta. Er þar sjálfur söguþráður
myndanna aukaatriði í samanburði
við þær aðstæður sem persónur eru
settar í og með hvaða hætti leikstjór-
um tekst að „bæta við“ eða „snúa á“
hefðina t.d. með óvenjulegum háls-
snúningum.
Resident Evil er sannarlega splatt-
er-mynd í anda samtímans, enda
byggir hún á samnefndum tölvuleik
og býr sér til söguþráð í kringum hug-
myndina um sífellt óljósari mörk véla
og mennsku á tímum stórfyrirtækja-
hagsmuna og framþróunar í líftækni
og gervigreindar. Byrjun myndarinn-
ar lofar þannig dálítið forvitnilegum
söguþræði sem í raun þurrkast fljót-
lega út í hreina splatter-súpu þar sem
sundurtættir uppvakningar, byssur
og hávær rokkmúsík gegna aðahlut-
verki. Þá er aðalhetjuhópur myndar-
innar fljótur að hristast saman og er
fyrirsætan Milla Jovovich þar í fá-
klæddum miðpunkti.
Það er hreinlega fyndið hvernig
vandasöm uppbygging söguaðstæðna
er látin sigla sinn sjó um leið og réttu
hitastigi í hasarnum er náð, og þá er
reyndar lítið eftir annað en að bíða
mis-fyrirsjáanlega atburðarásina af
sér. En þar sem ég er ekki þeim hæfi-
leikum gædd að geta skemmt mér til
lengdar yfir því að horfa á ólíkar teg-
undir af afhausunum og hrapallegum
örlögum aðalsöguhetja af mismun-
andi kynþáttum reyndist sú bið nokk-
uð löng.
Hausar á flugi
KVIKMYNDIR
Sambíóin Álfabakka, Kringlunni
Leikstjórn: Paul W.S. Anderson. Handrit:
Alan McElroy og P.W.S. Anderson. Aðal-
hlutverk: Milla Jovovich, Michelle Rodr-
iguez, Eric Mabius o.fl. Sýningartími:
100 mín. Bandaríkin, 2002.
Resident Evil (Illur bólstaður) Heiða Jóhannsdóttir