Morgunblaðið - 22.06.2002, Side 28

Morgunblaðið - 22.06.2002, Side 28
ERLENT 28 LAUGARDAGUR 22. JÚNÍ 2002 MORGUNBLAÐIÐ Kíktu inn á bílaland.is JOHNNY Paul Penry, dæmdur morðingi sem setið hefur lengi á dauðadeildinni í Texas, elskar lita- bækur og trúir á jólasveininn. Sam- fangi hans, Doil Lane, getur alls ekki án vaxlitanna sinna verið. „Hann er alltaf að senda mér myndir,“ segir William Allison, lögfræðingur í borg- inni Austin, en Lane hefur verið skjólstæðingur hans í fimm ár. „Myndir af slökkvibílum og blómum og rjómaísbílum. Öll bréfin frá hon- um byrja á sömu setningunni: Hvað segirðu gott? Ég segi allt fín“ (svo). Greind Penrys mælist á bilinu 50 til 63, og geðlæknar segja að Lane hafi andlega getu á við sex til átta ára barn. Þeir Penry og Lane eiga nú möguleika á að dauðadómunum yfir þeim verði breytt í lífstíðarfangelsi eftir að hæstiréttur í Bandaríkjunum úrskurðaði í fyrradag að aftökur þroskaheftra sakamanna samræmd- ust ekki áttunda viðauka bandarísku stjórnarskrárinnar, þar sem lagt er bann við grimmilegum og óvenjuleg- um refsingum. Sagði rétturinn að samkvæmt almenningsálitinu í Bandaríkjunum væri grimmilegt og óvenjulegt að taka af lífi fólk sem hefði andlegan þroska á við barn. Sex af níu dómurum hæstaréttar voru fylgjandi úrskurðinum, en þrír voru á móti. Í áliti meirihlutans sagði m.a. að átján af þeim 38 ríkjum Bandaríkjanna sem beita dauðarefs- ingum hefðu samþykkt ný lög sem banna að þroskaheftir sakamenn séu líflátnir. Aðeins fimm ríki hafi á und- anförnum áratug tekið af lífi saka- menn með greindarvísitölu undir 70, sem er hin hefðbundna skilgreining á þroskaheftingu. „Þetta er því svo sannarlega orðin óvenjuleg refsing,“ sagði John Paul Stevens hæstaréttardómari í meiri- hlutaálitinu. „Þetta væri einnig grimmilegt,“ sagði hann, „því að þeir sem hefðu litla andlega getu væru líklegri til að láta hvatvísi ráða gjörð- um sínum og síður líklegir til að hug- leiða afleiðingarnar. Einungis hinir verstu morðingjar ættu að sæta hinni hörðustu refsingu, dauða. Þar sem þroskaheft fólk er síður ábyrgt fyrir ofbeldisverkum sínum hlýtur það að vera „algerlega undanskilið“ dauða- refsingum,“ sagði Stevens. Ásakaðir um hroka Antonin Scalia hæstaréttardómari var andvígur úrskurðinum og brást harkalega við. Sakaði hann samdóm- ara sína um að „ætla í hroka sínum að þeirra siðgæði sé æðra siðgæði al- múgans“. Hann dró dár að „innan- tómum orðum almenningsálits“ á málinu, og spáði því að úrskurðurinn myndi valda ringulreið. „Það er hægt að gera sér upp einkenni þroskaheft- ingar. Þetta mun gera að verkum að réttarhöld þar sem krafist er dauða- dóms verða að leik,“ sagði William H. Rehnquist, forseti hæstaréttarins, sem einnig var andvígur úrskurðin- um. Telja má víst að úrskurður hæsta- réttar verði til þess að þyrma lífi margra þeirra 3.700 dauðamanna sem beðið hafa aftöku í Bandaríkj- unum, en ekki er ljóst nákvæmlega hversu margra. Einnig má búast við að úrskurðurinn leiði til þess að allt fari á fullt í þeim 20 ríkjum Banda- ríkjanna sem hingað til hafa leyft af- tökur þroskaheftra sakamanna. Verða ríkin að skilgreina þroskaheft- ingu og takast á við flóðbylgju áfrýjana frá föngum sem segjast falla undir skilgreininguna. Þrátt fyrir áratuga rannsóknir er þroskahefting enn teygjanlegt hug- tak sem ekki verður skilgreint af- dráttarlaust. Fyrir aðeins um 40 ár- um var þroskahefting skilgreind fyrst og fremst með greindarprófum og voru mörkin við 85 stig eða svo. En frekari rannsóknir og breytt al- menningsálit hefur leitt af sér öllu flóknari skilgreiningu sem endur- speglar ekki aðeins getu einstaklinga til að standast próf á andlegri getu, heldur einnig getu þeirra til að standa sig í lífinu sjálfu. Þótt greindarvísitala á bilinu 70– 100 hafi oft verið talin vera um það bil skilgreiningin á þroskaheftingu hafa sálfræðingar bent á að margt fólk sem mælist á því bili geti lifað sjálf- stæðu lífi, unnið fyrir sér, gengið í hjónaband og eignast fjölskyldu. „Við reynum að skoða heildarmyndina og taka með í reikninginn öll þau atriði sem eru til bóta þegar ákvarðað er hvort tiltekinn einstaklingur sé þroskaheftur,“ sagði Jack Naglieri, sálfræðingur við George Mason-há- skóla. „Stundum er alls ekki einfalt mál að skera úr um það.“ Gagnrýni á greindarpróf Mælingar á gáfum eiga sér langa sögu og hafa ekki alltaf gengið þrautalaust. Hefur komið fram gagn- rýni vegna meintra kynþáttafordóma í prófunum, notkunar prófa á fólk sem ekki kann mikið í ensku og deilt er um mikilvægi niðurstaðna úr slík- um mælingum. En jafnvel að menn- ingarþáttum slepptum er mæling á gáfum ónákvæm vísindi, og geta ýmsir þættir haft áhrif á niðurstöð- urnar, þ. á m. hvaða próf er notað, hvenær það er haldið og áhugi þess sem tekur það. En jafnvel þótt vel samið próf sé notað og próftakinn sé samvinnuþýður eru samt talsverðar líkur á að hin raunverulega greind- arvísitala hans – öndvert við mælda greindarvísitölu – sé 10 stigum hærri eða lægri. En sálfræðingar telja greindarpróf engu að síður notadrjúg. Greindar- vísitala, segir Bruce Bracken, sál- fræðingur við William and Mary-há- skóla, „gefur bestu vísbendingarnar um svo að segja alla þætti lífsins: Frammistöðu í skóla, herþjálfun, sál- fræðimeðferð, líkur á dauða um miðj- an aldur, glæpahneigð.“ Fólk með háa greindarvísitölu fær bestu menntunina, fær bestu störfin, hefur hæstu tekjurnar og lifir lengst. Þeir sem mælast með lægri greindarvísi- tölu bera aftur á móti oft minna úr býtum. Erfðir taldar ráða mestu Um 2,3 til 2,5 af hundraði Banda- ríkjamanna hafa greindarvísitöluna 70 eða lægri, að sögn ýmissa sérfræð- inga, en einungis um helmingur þessa fólks er skilgreint sem þroska- heft. Greindarvísitala ræðst að miklu leyti af erfðum. Sumir vísindamenn segja að erfðir ráði allt að 75% um greindavísitölu einstaklings en aðrir vísindamenn segja hlutfallið vera um 55%. Mjög lága greindarvísitölu má oft rekja til „mistaka“ náttúrunnar. Í 20 til 30 prósentum tilvika alvarlegr- ar andlegrar fötlunar eru orsakirnar erfðagallar, eins og til dæmis þeir sem valda Downs-heilkennum. Önn- ur 11% má rekja til erfiðleika við fæð- ingu, t.d. skorts á súrefnisflæði til fóstursins. Heilaáverkar eftir fæð- ingu eru orsakirnar í þrem til tólf prósentum tilvika. Í öðrum tilvikum eru orsakirnar óþekktar.Úrskurður hæstaréttarins mun að öllum líkind- um leiða til þess að margir dauða- menn áfrýi málum sínum og reyni að sýna fram á að þeir séu þroskaheftir. Það er auðvelt að svindla á greind- arprófi, ef maður vill fá lága útkomu – maður einfaldlega gefur röng svör. „Árvakur sálfræðingur tekur slíkt með í reikninginn,“ sagði Bracken. En jafnvel þótt grunur vakni um svindl, bætti hann við, getur sálfræð- ingurinn ekki hækkað útkomuna að vild. En sá sem leggur prófið fyrir tekur tillit til ýmissa annarra þátta, áður en hann reiknar út endanlega niðurstöðu. Mismunandi skilgreiningar Í þeim ríkjum Bandaríkjanna sem hingað til hafa leyft aftökur á þroska- heftum sakamönnum hefur ekki gilt sama skilgreiningin. Í Arkansas, til dæmis, telst maður þroskaheftur ef greindavísitala hans er 65 eða lægri, en saksóknari getur andmælt því við- miði. Í Nýju Mexíkó og nokkrum öðr- um ríkjum er viðmiðið greindarvísi- talan sjötíu eða lægri. Af neðanmálsgreinum í úrskurði hæstaréttarins á fimmtudaginn má ráða að rétturinn myndi taka gilda skilgreiningu á þroskaheftingu sem fæli m.a. í sér greindarvísitöluna 70 eða lægri og aðlögunarerfiðleika sem hófust fyrir 18 ára aldur. Undir þessa skilgreiningu myndu ekki falla þeir dauðamenn sem eru andlega fatlaðir vegna veikinda eða líkamlegs skaða sem þeir hafa orðið fyrir á fullorðinsaldri. Einna þekkt- astur slíkra fanga var Rickey Ray Rector, sem sendi náðunarbeiðni til Bills Clintons, fyrrverandi Banda- ríkjaforseta, er Clinton var ríkisstjóri í Arkansas og í framboði til forseta. Clinton hafnaði beiðninni og flýtti sér heim úr kosningaferð vegna aftök- unnar á Rector. Lögfræðingar Rectors héldu því fram að hann gerði sér enga grein fyrir því að dauðinn væri endanlegur. Það síðasta sem hann hafi gert sýni fram á þetta. Rector bað um að fá peacanhnetuböku sem síðasta máls- verð sinn og ákvað síðan að geyma hana og borða hana eftir að hann yrði tekinn af lífi. En Rector var ekki þroskaheftur. Hluti heilans hafði ver- ið tekinn úr honum eftir að hann skaut sig í höfuðið skömmu áður en hann var handtekinn. Garðyrkjumaður Guðs Meðal þeirra þroskaheftu dauða- manna sem teknir hafa verið af lífi í Texas á undanförnum árum var Mar- io Marquez, sem var 36 ára og dæmd- ur til dauða fyrir að myrða fyrrver- andi konu sína og frænku hennar. Marquez hafði greindarvísitöluna 66. George W. Bush, núverandi Banda- ríkjaforseti, var þá ríkisstjóri í Texas og hafnaði náðunarbeiðni Marquez árið 1995. Robert McGlasson, sem var verjandi Marquez, ræddi við hann áður en hann var leiddur inn í aftökuklefann. Marquez sagði: „Mig langar til að vera garðyrkjumaður hjá Guði og sjá um dýrin.“ McGlasson sagði á fimmtudaginn að hann hefði verið búinn að komast að því hvernig best væri að hafa sam- skipti við skjólstæðing sinn. „Ef ég lét sem ég væri að ræða við sjö eða átta ára dreng gengu samskipti mín við hann mun betur. Hann talaði um uppáhalds matinn sinn og hvað hann saknaði mömmu sinnar og pabba mikið, jafnvel þótt foreldrar hans hafi misþyrmt honum mikið.“ Ógilti úrskurð frá 1989 Ekki liggja fyrir nákvæmar tölur um það hversu margir þeirra 3.700 dauðamanna sem sitja í fangelsum í Bandaríkjunum eru þroskaheftir. Sumir lögspekingar hafa talið að allt að tíu af hundraði teljist þroskaheftir, en saksóknarar hafa sagt að hlutfallið sé mun lægra. Með úrskurði sínum á fimmtudaginn felldi hæstiréttur úr gildi fyrri úrskurð sinn frá 1989 um að aftökur þroskaheftra séu ekki brot á stjórnarskránni, en sá úrskurður var byggður á þeirri forsendu að al- menningsálitið í Bandaríkjunum teldi slíkt ekki grimmilegt. Í úrskurðinum 1989 sagði réttur- inn þó, að dómarar og kviðdómendur skyldu meta andlegan vanþroska „til málsbóta“ við ákvörðun refsingar, sem mögulega ástæðu til að þyrma lífi sakamanns. Ennfremur krefjast margir saksóknarar ekki dauðarefs- ingar ef sakborningurinn er þroska- heftur. Samkvæmt upplýsingum mann- réttindasamtakanna Amnesty Int- ernational hafa 12 manns með greindarvísitöluna 70 eða lægri verið teknir af lífi í Bandaríkjunum síðan 1991. William F. Schulz, fram- kvæmdastjóri samtakanna, sagði að úrskurðurinn á fimmtudaginn hafi „loksins skipað Bandaríkjunum á bekk með siðmenntuðum þjóðum hvað varðar slíkar aftökur. Dóms- kerfið okkar hefur nú komist á sama stig og siðvitund bandarísku þjóðar- innar er á.“ Munur á réttu og röngu Í fyrra gerði Bush forseti marga hissa þegar hann sagði hópi erlendra gesta að hann væri andvígur aftökum á þroskaheftu fólki, jafnvel þótt nokkrir sakamenn með lága greind- arvísitölu hafi verið teknir af lífi þeg- ar Bush var ríkisstjóri í Texas. Að- stoðarmenn forsetans sögðu að Bush teldi að það ætti að ráða úrslitum hvort sakborningurinn hefði vitað mun á réttu og röngu er hann framdi glæpinn. Dómarar nota þetta oft sem viðmið er þeir ákveða hvort fólk sé sakhæft, en þetta er sjaldnast notað sem við- mið þegar skorið er úr um hvort fólk sé þroskaheft. Núverandi ríkisstjór- ar í bæði Texas og Oklahóma hafa beitt neitunarvaldi gegn frumvörpum um að lífi þroskaheftra sakamanna skuli þyrmt á þessum forsendum. Umdeildur úrskurður Hæstaréttar Bandaríkjanna um bann við aftökum á þroskaheftum Erfitt að skera úr um hver er þroskaheftur The Los Angeles Times. Reuters James Ludwig, fangavörður á dauðadeildinni í Livingston í Texas, fyrir utan klefa dauðamanns. ’ Það er hægt aðgera sér upp ein- kenni þroskaheft- ingar ‘

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.