Morgunblaðið - 13.08.2002, Blaðsíða 10
FRÉTTIR
10 ÞRIÐJUDAGUR 13. ÁGÚST 2002 MORGUNBLAÐIÐ
Á RÁÐSTEFNU í sameindalækn-
isfræði, sem stendur yfir í Reykja-
vík, hélt Stefán Karlsson, prófessor í
sameindalæknisfræði við Háskólann
í Lundi, erindi um genalækningar.
Stefán stýrir rannsóknarstofu í
genalækningum en hann er bæði
læknir og erfðafræðingur að mennt.
Hann hefur starfað að þróun gena-
lækninga síðan 1985, fyrst við Heil-
brigðisstofnun Bandaríkjanna í
rúman áratug en hann hefur unnið í
Lundi síðan 1996.
Að sögn Stefáns vinnur hann að
rannsóknum á stofnfrumum í bein-
merg, það er frumurnar sem mynda
allar blóðfrumur og er markmiðið að
reyna að flytja gen inn í stofnfrum-
urnar svo hægt sé að lækna erfða-
sjúkdóma sem eru bundnir við blóð-
kerfið. Hann segir að þetta séu hinir
ýmsu sjúkdómar, efnaskiptasjúk-
dómar, blóðleysissjúkdómar og
sjúkdómar sem eyðileggja ónæmis-
kerfið, svo einhverjir séu nefndir.
„Í fyrirlestri mínum byrjaði ég á
því að tala um vinnu okkar við sjúk-
dóm sem nefnist Diamond-Blackfun
blóðleysi. Ég sýndi fram á að við
getum bætt mjög myndun rauðu
frumanna þegar við flytjum gölluð
gen inn í stofnfrumur frá sjúkling-
unum, þar með fáum við mun betri
blóðmyndun en áður. En við höfum
bara sýnt fram á þetta í vefjaræktun
enn sem komið er og ekki gert nein-
ar tilraunir á sjúklingunum sjálf-
um,“ lýsir hann.
Fyrsta árangursríka
genatilraunin
Hann segir að sjúkdómurinn lýsi
sér á þann veg að sjúklingarnir þurfi
að fá blóðgjöf næstum mánaðarlega.
Með því safnast svo mikið járn fyrir
í líkamanum að á endanum verða
vefjaskemmdir. Fólk deyr því oft á
þrítugsaldri vegna of
mikillar járnsöfnunar.
„Við höfum sýnt fram
á að það lítur út fyrir
að við getum leiðrétt
gallann,“ bendir Stef-
án á og telur jafnvel
að hægt verði að nota
þessa meðferð á sjúk-
lingum eftir 3–4 ár.
Stefán fjallaði í fyr-
irlestri sínum um ár-
angursríka genatil-
raun sem gerð var í
París fyrir um tveim-
ur árum, en starfs-
bræðrum hans þar
hefur tekist að með-
höndla börn, sem haldin eru arf-
gengri ónæmisbilun.
Hann segir sjúkdóminn vera ákaf-
lega sjaldgæfan og lýsa sér í því að
börn sem fæðist með þennan sjúk-
dóm geta ekki varið sig fyrir sýk-
ingu og ná því sjaldnast eins árs
aldri. Hann lýsir því að tekist hafi að
flytja eðlilega genið inn í stofnfrum-
urnar á frumum frá sjúklingum, sem
hafa gallað gen er leiðir til ónæm-
isbilunar. Síðan er frumunum, sem
búið er að meðhöndla, komið fyrir á
ný í sjúklingnum og virðist sem
sjúklingarnir hafi náð bata og orðið
nánast heilbrigðir. „Það hefur ekki
tekist að sanna ennþá hvort sjúk-
lingarnir verða fullkom-
lega heilbrigðir því
menn vita ekki hvort
lækningin vari í 5 ár eða
alla ævi,“ bætir hann
við.
Stefán segist hafa
fjallað um þessa tilraun,
því hann telur það mik-
ilvægt að segja frá ár-
angri í genalækningum
þar sem sjúklingarnir
ná bata. Hann leggur
áherslu á að menn hafi
glímt við genalækning-
ar í klínískum tilraunum
í meira en tíu ár og
þetta sé fyrsta árang-
ursríka genatilraunin sem hefur
verið gerð á sjúklingum. Hann
bendir á að öll áhugaverð vinna
hingað til, sem hefur borið árangur,
hafi verið gerð í dýrum eða frumu-
ræktun. Það hafi verið gerðar marg-
ar tilraunir á sjúklingum en þær
hafi ekki tekist.
Eyðniveiran flytur gen
inn í fleiri stofnfrumur
„Ég endaði fyrirlestur minn á því
að tala um framtíðina, nýjar gena-
ferjur sem byggjast á eyðniveirunni.
Undanfarin þrjú, fjögur ár hafa
menn farið að vinna með blóðfrumur
og reynt að nota eyðniveiruna til að
flytja gen inn í stofnfrumur. Öll
veirugenin eru tekin burt úr eyðni-
veirunni, sem heitir HIV-1 og í stað-
inn eru sett inn gen sem vantar í við-
komandi sjúkdóm. Ef gen er gallað í
viðkomandi sjúkdómi, þá setur mað-
ur inn heilbrigt gen í staðinn í veir-
una og notar til að flytja inn í stofn-
frumuna,“ útskýrir Stefán en
rannsóknarstofan sem hann stýrir
hefur þróað slíkar genaferjur í fjög-
ur ár og er í fararbroddi í slíkum
rannsóknum.
Að sögn hans er talið að með
eyðniveirunni sé mögulegt að flytja
genin inn í hlutfallslega fleiri stofn-
frumur en með veirunum sem hing-
að til hafa verið notaðar. Hann segir
að með þessum eldri veirum sé hægt
að flytja gen inn í mesta lagi 10% af
stofnfrumunum en með þessari leið
sé vonast til að hægt verði að flytja
gen inn í 30–40% af öllum stofn-
frumunum. „Það er fyrst og fremst
vegna þess að HIV-veiran getur
smitað frumur sem eru ekki í skipt-
ingu, en flestar stofnfrumur liggja í
dvala. Veiran er því góð genaferja
fyrir stofnfrumurnar vegna þess að
90–95% af þeim eru í dvala hverju
sinni,“ leggur hann áherslu á.
Hann segir að eyðniveiran komi
mest að notum við meðhöndlun
erfðasjúkdóma til dæmis í blóðkerf-
inu. Einnig gæti hún verið notuð við
sjúkdómum í lifur og ýmsum öðrum
líffærakerfum.
Aðspurður hvort engin áhætta
fylgi því að nota eyðniveiruna í þess-
um tilgangi segir Stefán að auðvitað
sé allt fræðilega mögulegt. Hins
vegar séu þessar genaferjur þannig
hannaðar að það sé ekki nokkur
möguleiki á að búa til venjulega
eyðniveiru úr þeim. Hann bendir þó
á að áhættan geti verið önnur. „Það
er til dæmis hugsanlegt að veiran
geti skemmt gen þegar hún hefur
fest sig við litningana, því enn er
ekki hægt að stjórna því hvar hún
lendir. Í þessu tilfelli eins og öðrum
verður að vega og meta hugsanlegan
ávinning fyrir sjúklinginn og hugs-
anlega áhættu,“ segir hann.
Hann segir þetta helsta vanda-
málið við genaferjurnar því ef veira
komist inn í of marga staði sé þessi
hætta fyrir hendi. Í dag festast að
meðaltali 5 veirur inn í litningunum
en 1–2 eru æskilegar. „Við bindum
eins og er miklar vonir við þessar
nýju genaferjur. En það er eins og
oft í vísindunum, maður verður fyrst
voðalega ákafur þegar það kemur
ný tækni og maður fær nýjar nið-
urstöður, en síðan koma oft einhver
vandkvæði í ljós sem maður veit
ekki af til að byrja með,“ undirstrik-
ar Stefán og ítrekar að enn hafi ekki
fundist neinir aðrir sérstakir van-
kantar á þessum genaferjum. Hann
segir að enn hafi þær ekki verið
prófaðar á sjúklingum.
Stefán telur að mikil framtíð búi í
genalækningum og segist sannfærð-
ur um að á næstu tíu árum verði
smátt og smátt hægt að lækna vissa
erfðasjúkdóma með þessum hætti.
En hann bætir við að auðvitað sé
það mjög háð því hvaða sjúkdómar
eigi í hlut og hverjar orsakir þeirra
séu.
Stefán Karlsson, prófessor í sameindalæknisfræði, vinnur að þróun genalækninga
Stefán Karlsson
Eyðniveiran notuð sem
lækning við erfðasjúk-
dómum í blóðkerfinu
FJÖLDI manns lagði í gær leið
sína út á Ægisgarð til að skoða
rússneska tundurspillinn Admiral
Chabanenko en rússneski Norð-
urflotinn er hér með skipið og
birgðaskipið Sergey Ocipov í
flotaheimsókn þessa dagana. Í til-
efni heimsóknarinnar til Íslands
ræddu þeir Alexander Rannikh
sendiherra Rússlands á Íslandi og
Vladimir Dobroskochenko vísi-
aðmíráll og yfirmaður herskip-
anna við blaðamenn.
Dobroskochenko, sem er næst-
ráðandi rússneska Norðurflotans,
sagði að markmið heimsókn-
arinnar væri fyrst og fremst að
bæta tengsl og styrkja böndin
milli Íslands og Rússlands. Hann
benti á að samskipti landanna
ættu sér langa sögu og á sínum
tíma hefðu Sovétríkin verið með-
al fyrstu þjóða sem viðurkenndu
sjálfstæði Íslands. Þá minntist
hann á fund Ronalds Reagan og
Mikhails Gorbastjov í Reykjavík
árið 1986 og sagði þann fund
hafa valdið umskiptum og mark-
að upphaf loka kalda stríðsins.
Dobroskochenko sagði að þetta
væri í fyrsta sinn sem hann kæmi
til Íslands, en hann hefði nokkr-
um sinnum siglt hér hjá, en hann
hefur starfað á skipum rússneska
sjóhersins í tæp 30 ár og gegnt
þar mörgum embættum. Sagðist
hann þakklátur fyrir hlýjar mót-
tökur á Íslandi og sagði ferðina
mikla upplifun fyrir áhafnar-
meðlimi Chabanenko og Sergey
Ocipov, en þeir eru á sjötta
hundrað. Meirihluti starfsmanna
skipanna væri ungir hermenn á
aldrinum 17–19 ára og fyrir
flesta væri þetta í fyrsta og
sennilega eina skiptið sem þeir
ferðast frá Rússlandi.
Jafnframt benti Dobroskoch-
enko á að þetta sé í þriðja sinn
sem rússnesk herskip komi hing-
að til lands, hið fyrsta hafi komið
1871, hið næsta 1969 og nú hið
þriðja.
Rússar og Vesturlönd
starfa nú saman
Alexander Rannikh, sendiherra
Rússa, sagði einnig að heimsókn-
in nú væri liður í að auka sam-
starf Rússa og Íslendinga og
rússneski flotinn vildi með komu
sinni hingað sýna Íslendingum
virðingu sína. Hann vakti athygli
á að Ólafur Ragnar Grímsson
hefði fyrstur íslenskra forseta
heimsótt rússneskt herskip og
hún sýndi að samskipti þjóðanna
væru að verða nánari.
Þá væri heimsókn vísiaðmíráls-
ins til bandaríska varnarliðsins á
Keflavíkurflugvelli einnig tákn-
ræn fyrir breytta heimsmynd, en
Rússar og Vesturlönd starfi nú
saman í baráttunni gegn alþjóð-
legum hryðjuverkum.
Rússneski tundurspillirinn Admiral Chabanenko í Reykjavík
Markmiðið
að styrkja
böndin milli
Íslands og
Rússlands
Morgunblaðið/Júlíus
Rússneskir sjóliðar af Chabanenko skemmtu fólki með söng á Ingólfs-
torgi í gær en flestir eru þeir að ferðast í fyrsta sinn frá Rússlandi.
Morgunblaðið/Þorkell
Alexander Rannikh, sendiherra Rússlands, og Vladimir Dobroskoch-
enko vísiaðmíráll um borð í rússneska tundurspillinum Chabanenko.
Morgunblaðið/Þorkell
Rússneski tundurspillirinn Chabanenko er 8.000 tonn að stærð og eru áhafnarmeðlimir 434.
BJÖRGUNARSVEITIR Slysa-
varnafélagsins Landsbjargar frá
Árborg, Eyrarbakka og Grímsnesi
leituðu á laugardag að Pálma Þór-
issyni, 23 ára manni, sem saknað er
eftir bílslysið í Hvítá 2. ágúst síð-
astliðinn.
Sautján björgunarsveitarmenn
tóku þátt í leitinni ásamt þremur
leitarhundum og voru notaðir þrír
slöngubátar ásamt svifnökkva til
leitar á ánni. Leitað var frá slysstað
við Brúarhlöð niður að Kópsvatns-
eyra. Ekki hefur verið tekin
ákvörðun um frekari aðgerðir.
Árangurs-
laus leit
í Hvítá
EGYPSK kona, 75 ára að aldri, sem
var farþegi í flugvél Lufthansa á leið
frá Þýskalandi til Bandaríkjanna á
laugardag, fékk hjartaáfall í flugi og
var því millilent á Keflavíkurflugvelli
til að koma henni undir læknishend-
ur.
Lenti vélin um klukkan 12 og var
konan flutt á Landspítala – háskóla-
sjúkrahús þar sem hún var úrskurð-
uð látin um klukkan 13 að loknum ár-
angurslausum lífgunartilraunum.
Úrskurðuð
látin eftir hjarta-
áfall í flugi
TVEIR karlmenn sem slösuðust al-
varlega í bílslysi á Vesturlandsvegi
við Fiskilæk í Leirár- og Melasveit 6.
ágúst, eru báðir á batavegi á gjör-
gæsludeild Landspítalans í Foss-
vogi.
Að sögn vakthafandi læknis eru
þeir komnir úr öndunarvél og er líð-
an þeirra eftir atvikum góð.
Slysið varð þegar tvær bifreiðir
rákust saman af miklu afli með þeim
afleiðingum að kona á áttræðisaldri
beið bana.
Á batavegi
eftir bílslys
♦ ♦ ♦
♦ ♦ ♦