Morgunblaðið - 13.08.2002, Side 34
MINNINGAR
34 ÞRIÐJUDAGUR 13. ÁGÚST 2002 MORGUNBLAÐIÐ
✝ Ómar Ólafssonfæddist í Haga-
nesi í Fljótum 24. maí
1951. Hann lést á
heimili sínu í Kópa-
vogi sunnudaginn 4.
ágúst síðastliðinn.
Foreldrar hans voru
Guðbjörg Sólveig
Márusdóttir, f. 1.12.
1923, d. 29.8. 1998 og
Ólafur Jóhannsson, f.
17.10. 1927. Ómar
ólst upp hjá móður
sinni og hjónunum
Guðlaugu Márusdótt-
ur og Jóni Kort
Ólafssyni í Haganesi til 10 ára ald-
urs en fluttist þá að Minni-Reykj-
um er móðir hans giftist Þórarni
Guðvarðarsyni. Systkini Ómars
sammæðra eru Elsa H. Jónsdóttir,
f. 9.10. 1944, Ari Már Þorkelsson,
f. 16.1. 1948, Egill Þórarinsson, f.
26.1. 1960, og Brynja Þórarins-
dóttir, f. 4.9. 1962. Fóstursystkini
Ómars eru Jónína Elísabet, f. 30.6.
1946, Stefanía, f. 27.9. 1947, Kári
Kort, f. 6.8. 1949, Björk, f. 15.8.
1951, Gyða, f. 6.12. 1955, Erla
Sjöfn, f. 9.10. 1962. Systkini Óm-
ars samfeðra eru Björn, f. 17.6.
1952, Kjartan, f.
24.4. 1954, Sigrún, f.
27.5. 1956, Sigríður,
f. 9.11. 1958, Sóley, f.
9.12. 1960, og Ólaf-
ur, f. 10.7. 1963. Son-
ur Þórarins er Örn,
f. 12.1. 1951. Ómar
kvæntist 17. sept.
1976 Rannveigu
Ingibjörgu Péturs-
dóttur f. 3. nóv.
1954. Foreldrar
hennar eru Helga
Jóhannsdóttir, f.
12.12. 1922, d. 8.12.
1996, og Pétur Guð-
jónsson, f. 9.6. 1916. Synir Ómars
og Rannveigar eru Pétur Már, f.
29.5. 1976, og Atli Þór, f. 1.8.1979.
Ómar lauk barnaskóla á Sól-
görðum í Fljótum og vann síðan
ýmis störf, var starfsmaður hjá
Landsvirkjun um 10 ára skeið eða
til ársins 1981 þegar fjölskyldan
fluttist að Laugalandi í Fljótum.
Fyrstu árin stunduðu þau búskap
en 1985 stofnuðu þau útgerð og
fiskverkun í Haganesvík.
Útför Ómars verður gerð frá
Kópavogskirkju í dag og hefst at-
höfnin klukkan 10.30.
Kæri uppeldisbróðir. Þau verða
erfið þessi síðustu spor með þér í
dag. Hverjum hefði dottið það í hug
þegar þið hjónin buðuð til mikils
fagnaðar þegar þú varðst fimmtugur
fyrir aðeins einu ári að þessi illvígi
sjúkdómur tæki sér bólfestu í þínum
heilbrigða líkama fyrir réttum átta
mánuðum. Í hvert skipti sem ég gekk
út frá ykkur Rannveigu fylltist ég
stolti og undrun hversu þið voruð
bæði sannfærð um að útbreiðsla
krabbameinsins stoppaði og þú næð-
ir fullri heilsu aftur. Ævinlega þegar
ég kom til ykkar var spurt frétta og
ekki var ég búinn að stoppa lengi
þegar tal okkar barst að hestum og
hestamennsku. En þegar nær dró og
endalokin augljós gekkstu frá öllum
þínum málum með æðruleysi sem
var einn af þínum stóru kostum. Það
var sárt að svara því játandi þegar þú
spurðir mig að því hvort ég sæi mun
á útlitinu fyrir réttum tveimur vik-
um. Þá fyrst greindi ég vonleysi þeg-
ar þú sagðir: „Þetta er búið Kári
minn.“
Ekki er spurt um aldur þegar
dauðinn ber að dyrum hjá fólki en
þegar stórt er spurt verða svörin oft-
ast engin eða óljós. Ómar minn, á
stundum sem þessari renna margar
góðar minningar í gegnum hugann
og þá helst frá uppvaxtarárunum. Þú
ólst upp hjá okkur í Haganesi til 10
ára aldurs í stórum systkinahópi. Þér
fannst stundum ósanngjarnt að vera
tekinn frá okkur þegar mamma þín
flutti með þig að Grund og seinna að
Minni-Reykjum þegar hún hóf bú-
skap með Þórarni. Við Ari vildum
ekki alltaf hafa þig með í öllum leikj-
um okkar. Þú varst jú bara litli bróðir
en ávallt einn af okkur.
Það var skondið að fylgjast með
Ómari þegar Rannveig kom til sög-
unnar og með þeim tókst sterkt og
hamingjusamt samband og samstarf
sem stóð allt til enda. Það byrjaði
með smá refabúskap en endaði með
blómlegri útgerð og hrossabúskap.
Ómar og Rannveig eignuðust tvo
mannvænlega syni og þegar þeir
luku skyldunámi var hugað að fram-
haldsnámi í Reykjavík og keypt var
íbúð í Kópavogi þar sem fjölskyldan
dvaldi yfir veturinn. Þegar voraði var
síðan flutt aftur í Fljótin þar sem
hugur Ómars var ávallt. Ómar var öt-
ull og sístarfandi að búa í haginn fyr-
ir Rannveigu sína og drengina tvo.
Elsku Rannveig. Þér verður seint
þakkað hversu þrautseig og yndisleg
þú varst Ómari. Við Kristín sendum
þér, Atla og Pétri okkar innilegustu
samúðarkveðjur og megi góður guð
styrkja ykkur í sorginni.
Kári Kort.
Elsku Ómar. Ég horfi upp í him-
ininn og trúi því að þú sért stjarnan
sem skín skærast. Einhver hafði að
orði daginn sem þú lést að himinninn
gréti líka því að önnur eins rigning
hafði ekki komið í Reykjavík í manna
minnum.
Það er óskiljanlegt að þú sért all-
ur. Hvar er réttlætið? Maður í blóma
lífsins. Ég minnist þess að fyrir réttu
ári vorum við stödd um verslunar-
mannahelgina í Haganesi og þið
Rannveig komuð daglega frá Lauga-
landi og þá var farið á hestbak. Þú
naust þess þá eins og ávallt að vera í
góðra vina hópi. Alltaf varst þú já-
kvæður og ljúfur drengur og stutt
var í bros og glettni.
Það eru rétt átta mánuðir síðan þú
greindist veikur og daginn fyrir Þor-
láksmessu fékkstu þær slæmu fréttir
að þú værir með ólæknanlegt
krabbamein. Það var döpur jólagjöf.
Margur hefði brotnað og gefist upp
en þið Rannveig reynduð allt til að
sigrast á meininu. Það sýnir bara
hversu samstillt þið voruð að berjast
fram á síðasta dag og missa aldrei
vonina um bata. En að lokum sigruðu
æðri máttarvöld og Ómari var fengið
annað hlutverk annars staðar. Það
var aðdáunarvert að fylgjast með
þeirri baráttu sem þið háðuð. Í mín-
um huga eins og annarra var alltaf
talað um Ómar og Rannveigu sem
eitt.
Við Pétur biðjum algóðan guð um
að styrkja þig Rannveig mín, Pétur
og Atla syni ykkar í ykkar miklu
sorg. Missir ykkar er mikill.
Legg ég nú bæði líf og önd,
ljúfi Jesús, í þína hönd,
síðast þegar ég sofna fer
sitji Guðs englar yfir mér
(Hallgr. Pétursson.)
Gyða.
Elsku Ómar, í dag er komið að
kveðjustundinni. Nú er lokið stuttu
en erfiðu stríði við hinn slæma sjúk-
dóm sem þú greindist með rétt fyrir
jólin. Strax í upphafi var ljóst að
framundan var erfið barátta en þið
Rannveig voruð staðráðin í að reyna
allt sem hægt væri til að sigrast á
sjúkdómnum. Það var ótrúlegt æðru-
leysi sem þið sýnduð og saman sigld-
uð þið í gegnum erfiðleikana með
vonina að vopni allt fram til síðasta
dags.
Þær eru margar minningarnar
sem við eigum um Ómar en það sem
efst er í huga okkar er hversu sam-
stillt þau Rannveig voru alla tíð. Þau
stunduðu sjóinn saman og unnu
aflann sjálf og ráku sitt fyrirtæki
með miklum myndarbrag. Ómar var
mjög hraustur og hafði gaman af allri
útiveru og naut þess að ferðast um og
njóta náttúrunnar. Það var því mikið
áfall fyrir hann þegar sjúkdómurinn
fór að draga úr honum mátt, en aldr-
ei kvartaði hann, það var helst að
hann hefði áhyggjur af því að Rann-
veig sín kæmist ekki neitt.
Þrátt fyrir veikindin lagði hann
það á sig að koma norður eins oft og
hægt var og oft var hann með hugann
í sveitinni sinni. Margar góðar minn-
ingar eigum við frá Laugalandi þar
sem við fjölskyldur okkar áttum góð-
ar stundir saman, einnig frá fjöl-
skyldumótunum á Gamla-Hrauni þar
sem Ómar var hrókur alls fagnaðar.
Þá söng hann með sinni tæru fallegu
rödd og reyndi eftir fremsta megni
að hjálpa okkur hinum að halda lagi
og gerði létt grín að sönghæfileikum
okkar.
Elsku Ómar, við viljum þakka fyr-
ir allar samverustundirnar og við
munum reyna að styðja Rannveigu
þína og strákana eins og við getum.
Elsku systir, Pétur og Atli, megi
Guð styrkja ykkur í sorginni, minn-
ingin um góðan dreng mun lifa.
Margs er að minnast,
margt er hér að þakka.
Guði sé lof fyrir liðna tíð.
Margs er að minnast,
margs er að sakna.
Guð þerri tregatárin stríð.
Far þú í friði,
friður Guðs þig blessi,
hafðu þökk fyrir allt og allt.
Gekkst þú með Guði,
Guð þér nú fylgi,
hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.
(Vald. Briem.)
Systkinin frá Hrauni.
Þau ljós sem skærast lýsa,
þau ljós sem skína glaðast
þau bera mesta birtu
en brenna líka hraðast
og fyrr en okkur uggir
fer um þau harður bylur
er dauðans dómur fellur
og dóm þann enginn skilur.
En skinið loga skæra
sem skamma stund oss gladdi
það kveikti ást og yndi
með öllum sem það kvaddi.
Þótt burt úr heimi hörðum
nú hverfi ljósið bjarta
þá situr eftir ylur
í okkar mædda hjarta.
(Friðrik Guðni Þórleifsson.)
Þessi erindi komu mér í hug er ég
frétti að morgni 4. ágúst að frændi
minn og vinur hefði dáið þá um nótt-
ina. Ekki er hægt að segja að and-
látsfregnin hafi komið á óvart því
Ómar hafði barist hetjulega við hinn
mikla vágest krabbameinið stuttri en
kröftugri baráttu. Kynni okkar Óm-
ars eru næstum jafnlöng aldri okkar,
alin upp í sömu sveit, systkinabörn,
skóla- og fermingarsystkin og var
ætíð mikill samgangur á milli bæj-
anna. Ómar var einn af þessum
mönnum sem auðga tilveruna og
gera hana skemmtilegri. Hann var
hrókur alls fagnaðar þegar það átti
við, en einnig nálægur á erfiðum
stundum. Á skólaárum okkar í Fljót-
unum minnist ég þess að gott var að
hafa Ómar með sér í liði, hann var
bæði skotfastur í boltaleikjum og
sprettharður í eltingaleik, kappsam-
ur og fylginn sér. Þessir eiginleikar
komu sér líka vel síðar á ævinni þeg-
ar hann settist að á Laugalandi og
hóf að stunda sjóinn frá Haganesvík.
Á Laugalandi var hann kóngur í ríki
sínu með fjallið og heita vatnið á aðra
hönd, en ólgandi úthafið á hina. Ég
býst við að það mikla frjálsræði sem
svona umhverfi veitir hafi verið hon-
um mikils virði. Þarna bjuggu þau
Ómar og Rannveig með sonunum
tveimur, þeim Pétri Má og Atla Þór,
næstum öll sín búskaparár, enda
bæði ættuð af þessum slóðum.
Hversu miklar sem annir voru var
alltaf sjálfsagt heimboð í Laugaland
ef Fljótin voru heimsótt. Ómar var
frændrækinn mjög og þau hjón afar
góð heim að sækja. Því miður vannst
ekki alltaf tími til að koma þar við en
margar skemmtilegar stundir sitja
eftir í minningunni við spjall og
stundum var hvolft bolla og litið í
meira í gamni en alvöru.Við sáum að
vísu ýmislegt í bollunum en aðalat-
riðið var að þeir væru bjartir og að
hafa gaman af stundinni.
Ómar var mikill göngugarpur og
var búinn að ganga á ótrúlega marga
tinda í sínu nánasta umhverfi og víð-
ar um landið ásamt konu sinni en þau
voru samhent í því sem öðru. Nú er
lífsgöngunni hér lokið en eftir situr
minningin um góðan dreng sem
skildi eftir sig ótrúlega mikla birtu
sem mun lýsa okkur sem eftir sitjum
um ókomin ár.
Að lokum vil ég fyrir hönd fjöl-
skyldu minnar votta Rannveigu,
Pétri Má og Atla Þór okkar innileg-
ustu samúð.
Sigurjóna Björgvinsdóttir.
Ég ætla að skrifa hér nokkur
minningarorð um Ómar á Lauga-
landi.
Á hverju sumri frá því að ég var
lítil hef ég fengið að fara í Laugaland
og dvalist þar í nokkurn tíma. Alltaf
hefur þetta verið yndislegur tími og á
ég margar góðar minningar þaðan
sem ég mun ávallt geyma. Ómar og
Rannveig voru mér sem foreldrar og
strákarnir Atli og Pétur sem bræður.
Þau tóku alltaf vel á móti mér og ég
var alltaf velkomin í Laugaland. Hjá
þeim sat maður aldrei og lét sér leið-
ast, það var alltaf fundið eitthvað að
gera. Við t.d. spiluðum ólsen eða
memory og stundum var labbað nið-
ur í fjöru og hrossin skoðuð í leiðinni
og þeim klappað. Ég fékk líka að
vinna með þeim í fiskinum.
Ég man eftir því þegar ég var að
byrja að hjálpa þeim í fiskinum, þá
var ég bara pínulítil og náði varla upp
fyrir borðið. Þá átti ég að henda fisk-
inum upp á borðið svo Ómar og
Rannveig gætu skorið hann. Ég átti
voðalega erfitt með að ná taki á fisk-
inum og missti hann alltaf í þessum
risavettlingum sem ég var í. Alltaf
hlógu Rannveig og Ómar að mér og
hjálpuðu mér. Svo þegar ég var búin
að því var ég látin þvo fiskinn með
Rannveigu, og þá hlógu þau enn
meira að mér því ég var svo rennandi
blaut að það var eins og ég hefði bara
dottið ofan í kerið. Svo þegar ég var
orðin aðeins stærri ætlaði Ómar að
reyna að kenna mér að skera haus-
ana af svo hann þyrfti ekki að gera
það, en guð minn almáttugur, það var
nokkuð sem ég aldrei náði að með-
höndla. Stundum gleymdi ég mér svo
alveg við að horfa á hröðu handtökin
hans Ómars og je minn eini, þau voru
sko ekkert smáhröð og þeim gleymi
ég aldrei.
Oft þurftu Rannveig og Ómar að
fara út í Siglufjörð með fisk eða eitt-
hvað að snúast og fékk ég þá að fara
með og oft var stoppað og keypt pínu
gotterí í leiðinni. Ég hékk alltaf í
rassinum á Ómari og fór með honum
út um allt. Alltaf þegar ég bað hann
um eitthvað gerði hann það og oft lét
hann undan suðinu í mér um að koma
út í fótbolta eða eltingaleik, sem var
alltaf jafn gaman. Það var alveg ótrú-
legt hvað hann sýndi mér mikla þol-
inmæði, en ég var alltaf utan í honum
að suða um eitthvað. Hann var alveg
yndislegur og alltaf svo kátur og
hress að það var alltaf hægt að hlæja
með honum.
Í vor þegar ég fermdist var Ómar
orðinn mjög veikur og máttfarinn, en
lét sig samt hafa það að koma í ferm-
inguna mína og fékk ég þá ósk mína
uppfyllta.
Ég mun ávallt geyma hann í hjarta
mér og allar góðu minningarnar og
hann verður mér alltaf sem faðir
hvar sem hann er. Áfram verðum við
sem fjölskylda en með þig í hjarta
okkar.
Bylgja Finnsdóttir.
Það er erfitt hlutskipti að þurfa að
sætta sig við heilsubrest á besta
aldri. Hann Ómar uppeldisbróðir
móður okkar er látinn, rúmlega
fimmtugur að aldri. Það er sorglegt
að hugsa til þess að lífi hans sé lokið.
Ljúfari og heilsteyptari mann höfum
við ekki fyrirhitt. Það var alltaf gam-
an þegar við hittumst. Stutt var í
hláturinn og stríðnin var ekki langt
undan.
Fyrstu minningarnar okkar eru
þegar Ómar og Rannveig bjuggu
með Pétur Má lítinn inni í Kópavogi.
Við systkinin vorum nýflutt í Selja-
hverfið og það var ósjaldan sem við
fengum leyfi til að fara á hjólunum
okkar um malarveginn sem lá inn í
Kópavog. Þar var alltaf tekið vel á
móti okkur með þeirri hlýju og elsku
sem einkenna heimili þeirra. Fjöl-
skyldan stækkaði og þegar Atli
fæddist ákváðu ungu hjónin að flytja.
Við urðum ekkert sérstaklega glöð
þegar við fengum fréttirnar um
flutninginn, þar sem Ómar og Rann-
veig voru á leið norður í land, og
lengra yrði því fyrir okkur að heim-
sækja þau.
Þetta sýnir vel elju þeirra og
dugnað, að flytja af höfuðborgar-
svæðinu með tvö lítil börn lengst
norður í land til að setjast þar að.
Við vorum svo lánsöm að sam-
bandið slitnaði ekki heldur buðu Óm-
ar og Rannveig okkur systkinunum
að dvelja hjá sér yfir sumartímann.
Þetta var skemmtilegur tími og
minningarnar geymum við í hjörtum
okkar.
Samhentari hjón en þau Ómar og
Rannveigu er erfitt að finna. Síðustu
mánuðir hafa verið fjölskyldunni erf-
iðir og kallið kom alltof fljótt.
Við viljum votta Rannveigu, Pétri
Má og Atla Þór alla okkar samúð.
Megi Guð gefa ykkur styrk. Blessuð
sé minning Ómars Ólafssonar.
„Einstakur“ er orð sem notað er þegar lýsa á
því sem engu öðru er líkt, faðmlagi eða
sólarlagi eða manni sem veitir ástúð með
brosi eða vinsemd.
„Einstakur“ lýsir fólki sem stjórnast af rödd
síns hjarta og hefur í huga hjörtu annarra.
„Einstakur“ á við þá sem eru dáðir og dýr-
mætir og hverra skarð verður aldrei fyllt.
„Einstakur“ er orð sem best lýsir þér.
(Terri Fernandez.)
Guðlaug Ósk og Hermann Már.
Við sjáum að dýrð á djúpið slær,
þó degi sé tekið að halla.
Það er eins og festingin færist nær,
og faðmi jörðina alla.
Svo djúp var þögnin við þína sæng,
að þar heyrast englar tala,
og einn þeirra blakar bleikum væng,.
svo brjóst þitt fái svala.
Nú strýkur hann barm þinn blítt og hljótt,
svo blaktir síðasti loginn.
En svo kemur dagur og sumarnótt,
og svanur á bláan voginn.
(Davíð Stefánsson frá Fagraskógi.)
Við fráfall Ómars færum við Rann-
veigu, Pétri og Atla Má okkar inni-
legustu samúðarkveðjur og biðjum
algóðan Guð að blessa þau.
Elsa og fjölskyldan Hofsósi.
ÓMAR
ÓLAFSSON
Blómastofa Friðfinns,
Suðurlandsbraut 10,
sími 553 1099, fax 568 4499.
Opið til kl. 19 öll kvöld
Kransar • Krossar • Kistuskreytingar
Erfisdrykkjur
50-300 manna
Glæsilegir salir
Bræðraminni ehf., Kíwanishúsinu,
Engjateigi 11, sími 588 4460.