Morgunblaðið - 01.09.2002, Blaðsíða 8

Morgunblaðið - 01.09.2002, Blaðsíða 8
FRÉTTIR 8 SUNNUDAGUR 1. SEPTEMBER 2002 MORGUNBLAÐIÐ RJÚPA hefur löngum verið vinsæl- asta bráð íslenskra skotveiðimanna og þeir eru margir sem vilja ekkert annað í jólamatinn. Tölur um fjölda veiddra fugla koma frá veiðimönnunum sjálfum sem eiga að skila veiðistjóraemb- ættinu upplýsingum um aflann einu sinni á ári. Frá því að veiðikorta- kerfið var tekið upp árið 1995 hafa að meðaltali verið skotnar 148.000 rjúpur á ári. Um 5.000 veiðimenn taka þátt í veiðunum ár hvert en þar af hafa um 500 manns skotið helming af rjúpunum. Þessir svo- nefndu magnveiðimenn selja aflann og má hafa verulegt fé upp úr veið- unum. Fyrir síðustu jól lýstu kaup- menn óánægju sinni með hátt verð frá veiðimönnum sem vildu fá 1.000 krónur fyrir hverja rjúpu. Það verð hefur sjálfsagt verið í hærri kant- inum en engu síður er ljóst að verslun með rjúpur veltir tugmillj- ónum. Þessar magnveiðar vill Nátt- úrufræðistofnun banna með öllu og vonast með því til að draga úr veið- um um allt að helming. „Líta ber á rjúpuveiðar sem tóm- stundagaman en ekki atvinnu,“ er álit Náttúrufræðistofnunar en undir það hafa samtök skotveiðimanna margoft tekið. Jafnframt leggur stofnunin til að veiðitíminn verði styttur niður í einn mánuð og veitt verði í nóvember eingöngu næstu fimm ár að minnsta kosti. Þar sem stutt sé þar til veiðitíminn hefjist komi þó til greina að fresta þessari styttingu veiðitímans til haustsins 2003. Nátturufræðistofnun segir að- gerðirnar bæði réttlætanlegar og nauðsynlegar enda hafi rjúpum fækkað verulega á undanförnum áratugum og stofninn virðist vera í sögulegu lágmarki. Vegna þessarar miklu fækkunar verður rjúpan sett á válista yfir tegundir í yfirvofandi hættu. Afar líklegt að gripið verði til aðgerða Tillögur stofnunarinnar byggjast á greinagerð Ólafs K. Nielsen fuglafræðings um ástand rjúpn- astofnsins. Ráðgjafarnefnd um villt dýr fær greinargerðina til umsagn- ar og veitir síðan Siv Friðleifsdótt- ur umhverfisráðherra ráðgjöf. Í samtali við Morgunblaðið sagðist Siv ætla að bíða eftir niðurstöðu nefndarinnar áður en hún tæki ákvörðun. „Miðað við ástand rjúpnastofns- ins er afar líklegt að það verði grip- ið til aðgerða en á þessari stundu er ekki hægt að segja hverjar þær verða,“ segir Siv. Vonast er til að nefndin skili tillögum um miðjan september og ákvörðun umhverf- isráðherra muni liggja fyrir áður en hefðbundinn rjúpnaveiðitími hefst, 15. október nk. Áka Ármanni Jónssyni veiði- stjóra hafði ekki borist greinargerð Náttúrufræðistofnunar þegar Morgunblaðið ræddi við hann. Hann sagði að bentu gögnin til þess að grípa þyrfti til aðgerða gæti hann verið sammála því að fyrsta aðgerð yrði að stöðva sölu á rjúpu. Hann hefur aftur á móti efasemdir um kosti þess að stytta veiðitímann og er ekki viss um að það myndi draga úr veiðum. „Með styttri veiðitíma eykst veiðiálagið á rjúpuna á þessum tíma. Fleiri veiðimenn færu þá ein- faldlega til veiða á sama tíma,“ sagði hann. Afleiðingin yrði m.a. sú að rjúpan næði síður að nærast og hvílast á veiðitímanum og fleiri rjúpur myndu falla úr vannæringu og streitu. Þá væri varasamt að grípa til tveggja aðgerða í einu, þ.e. banna sölu og stytta veiðitímann, því að þá gæti orðið erfitt að sjá hvor aðgerðin skilar árangri. Áki sagðist frekar vilja banna söluna og láta þar við sitja en héldi rjúpunni áfram að fækka mætti grípa til frekari aðgerða næsta haust. Að- spurður hvort ekki væri ljóst að þegar þyrfti að grípa til verndarað- gerða þar sem talningar sýndu að rjúpnastofninn væri í sögulegu lág- marki sagði Áki að þetta væri eðli- leg sveifla í stofninum. „Ég sagði það við Siv [Friðleifsdóttur] fyrir fjórum árum þegar hún tók við að næsta lægð í rjúpnastofninum yrði haustið 2002, rétt fyrir kosningar. Þá yrði mikill pólitískur þrýstingur fyrir því að friða,“ segir Áki. Þessi spá hans hafi ræst. Stofnsveiflur að þurrkast út og fjöldinn í lágmarki Ólafur K. Nielsen, fuglafræðing- ur hjá Náttúrufræðistofnun, segir á hinn bóginn nauðsynlegt að grípa til aðgerða strax. Náttúrulegar stofn- sveiflur rjúpnastofnsins séu við það að þurrkast út og stofninn sé nú í sögulegu lágmarki. Að jafnaði líða um 10 ár milli hámarksára, eða toppa, í sveiflum rjúpnastofnsins og sýna niðurstöður talninga að mun- urinn á hámarks- og lágmarksári er 4–10-faldur. Þessar sveiflur eru náttúruleg fyrirbæri og stjórnast ekki af skot- veiðum. Síðasti toppur var á ár- unum 1996–1997 en að sögn Ólafs var hann minni en nokkru sinni frá því að mælingar hófust. Toppurinn árið 1955 hafi þannig verið fjórum sinnum stærri en toppurinn sem kom síðast. Talsverð óvissa ríkir um stofn- stærð rjúpunnar en Ólafur segir að líklega telji stofninn að hausti um 400–600.000 fugla. Áður fyrr hafi fuglarnir skipt milljónum. „Rjúpan var einn af einkennisfuglum mó- anna rétt eins og heiðlóa og þúfu- tittlingur. Í vor var hún hreinlega sjaldgæf,“ segir hann. Þá verði menn að hafa í huga að rjúpan skipi mikilvægan sess í vistkerfi landsins og sé t.a.m. forsendan fyrir tilvist fálka hér á landi. Ísland beri ábyrgð á einhverjum stærsta fálkastofni Evrópu, þótt ekki sé hann stór, 300–400 pör, og er afkoma hans al- gjörlega háð rjúpum. „Ef stofn- sveiflurnar þurrkast út er fótunum kippt undan fálkastofninum. Rjúp- an er hans fæða árið um kring og hann étur ekkert annað en rjúpu, fyrir varptíma og meðan hann ligg- ur á eggjum,“ segir Ólafur. Nauðsynlegt sé að grípa strax til aðgerða og veiðitakmörkun sé eina stjórntækið sem stjórnvöld hafi í höndum. „Markmiðið er að rjúpan endurheimti aftur sinn fyrri sess í vistkerfinu, hún verði aftur einn af einkennisfuglum móanna, tryggja verndun fálkans og skynsamlega nýtingu rjúpnastofnsins. Það er ekkert sjálfgefið lögmál að rjúpan sé markaðsvara frekar en heiðlóa og hrossagaukur sem báðir eru ljúf- fengir fuglar,“ segir Ólafur. 500 manns skjóta rúmlega 70.000 rjúpur Aðspurður hvort ekki sé hætta á að veiðiálagið aukist svo mikið í nóvember að ávinningur af styttri veiðitíma verði lítill sem enginn segir Ólafur að venjan sé sú að langflestir veiðimenn haldi til veiða um leið og rjúpnaveiðitímabilið hefst, 15. október. Á fyrstu vikunni sé meira en fjórðungur fuglanna drepinn. Í október sé jörð oft auð og því verður rjúpan auðveld bráð fyrir veiðimenn sem geta séð hana á fleiri hundruð metra færi. „Ég held að það séu allir sam- mála um að það er lítið af rjúpu og fer minnkandi áratug eftir áratug. Þessu verðum við að snúa við. Ég held við getum líka verið sammála um að draga úr veiðiálaginu, hvern- ig sem það verður gert,“ segir hann. Rjúpan endurheimti sinn fyrri sess Náttúrufræðistofnun hefur lagt til við um- hverfisráðherra að sett verði algjört og ótíma- bundið bann við verslun með rjúpur og veiði- tíminn verði takmark- aður við nóvember. Með þessum aðgerðum vonast menn til að veiðar minnki um meira en helming. Morgunblaðið/Ingó Rjúpan er vinsælasta bráð íslenskra skotveiðimanna. Árlega veiða um fimm þúsund rjúpnaveiðimenn tæplega 150.000 rjúpur. Náttúrufræðistofnun leggur til bann við verslun með rjúpur og styttingu veiðitímans ’ Rjúpur eruforsenda fyrir tilvist fálka. ‘ ’ 10% veiði-manna veiða 50% af rjúpunum. ‘ CP-félagið á Íslandi Vettvangur fyrir CP-fötlun CP-FÉLAGIÐ á Ís-landi var stofnaðsíðastliðið haust. Tilgangur þess er að mynda félagsskap foreldra barna með CP-fötlun með fötluðum og fagaðilum. Ómar Örn Jónsson, for- maður félagsins, sagði Morgunblaðinu nánar frá félaginu og CP-fötlun. – Hvað er CP? „CP, eða Celebral Palsy, er fötlun sem á rætur að rekja til skemmda í heila. CP hefur verið þýtt á ís- lensku sem heilalömun. Okkur þótti íslenska heitið misvísandi og ekki nógu lýsandi fyrir fötlunina. Þess vegna höfum við ákveðið að notast við al- þjóðlegu skammstöfunina í nafni félagsins. Við viljum kenna samfélaginu að þekkja þá skamm- stöfun yfir fötlunina í framtíðinni. Hér er um mjög fjölbreytta fötlun að ræða, allt frá því að vera vart sjáanleg, og nokkuð sem ekki háir viðkomandi mikið í daglegu lífi, yf- ir í mjög alvarlega hreyfihömlun þar sem jafnvel er líka um að ræða þroskahömlun eða aðrar viðbótar- fatlanir. Það er stór og fjölbreyti- legur hópur sem tilheyrir CP. Hins vegar glíma foreldrar við sambærileg tilfinningaleg mál vegna þessa.“ – Hvað var undanfari þess að þið stofnuðuð félagið? „Í tengslum við Foreldrafélag Greiningarstöðvar ríkisins hittust nokkrir foreldrar barna með CP, og þegar við fórum að ræða saman kom fljótlega í ljós að við höfðum lent í mjög sambærilegum að- stæðum, átt í sömu vandræðum og leitað upplýsinga víða. Hugmynd- in um að stofna félagið kviknaði, og um sumarið 2001 var vinnuhóp- ur að störfum sem mótaði fé- lagsstarfið. Ákveðið var að félagið væri opið öllum, fötluðum, foreldr- um og fagaðilum, enda samstarf mjög mikið á milli allra þessara hópa.“ – Hvernig tókst stofnun félags- ins og fyrsta starfsárið? „Stofnun félagsins tókst vonum framar, mæting á stofnfundinn fór fram úr björtustu vonum okkar og greinilegt að þörfin fyrir félag af þessu tagi var fyrir hendi. Fljót- lega eftir stofnun félagsins fórum við að skilgreina betur að hverju við vildum einbeita okkur. Við höf- um verið í mjög góðu sambandi við Þroskahjálp, Styrktarfélag lam- aðra og fatlaðra og Umhyggju, fé- lög sem hafa staðið sig mjög vel í réttindamálum og ýmsum bar- áttumálum. Við ákváðum að ein- beita okkur að fræðslu um CP- fötlun og að skapa vettvang fyrir alla áhugasama um CP til að hitt- ast í hvers kyns félagsstarfi.“ – Á hvern hátt hafið þið miðlað fræðslu um CP og hvernig hefur félagsstarfinu verið háttað? „Við höfum haldið nokkra opna fræðslufundi fyrir almenning þar sem farið hefur verið yfir mismunandi gerðir CP-fötlunar og hegð- unarvanda sem getur fylgt fötluninni. Þar að auki höfum við haft bókaða fyrir okkur sundlaug mán- aðarlega í Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra. Það hefur mælst mjög vel fyrir. Við höfðum einnig sum- arferð í júlí, í Reykholt, sem tókst mjög vel. Við grilluðum, fórum í sund og höfðum skemmtiatriði. Þangað komu jafnt krakkar sem eru í hjólastól, eiga erfitt með gang og ekki.“ – Það hlýtur að vera mjög gef- andi fyrir ykkur að hafa náð sam- an og myndað þetta félag. „Já, mikil ósköp. Það getur eng- inn sett sig í þau spor að eignast fatlað barn, og þess vegna er það mjög gefandi og styrkjandi að leita til annarra foreldra í sam- bærilegri aðstöðu. Það er ótrúlega mikill styrkur í þeim 200 fé- lagsmönnum sem hafa gengið í fé- lagið.“ – Þörf fyrir félagið er greinileg. „Já, og það er undarlegt að svona félag hafi ekki verið stofnað fyrr. Sambærileg félög á hinum Norðurlöndunum eru yfir fimmtíu ára gömul, þannig að það var kom- inn tími til að stofna til félagsskap- ar af þessu tagi hér á landi.“ – Hvað getur þú nefnt af við- fangsefnum næsta vetrar? „Starfið er enn í mótun, enda fé- lagið aðeins að verða eins árs. Við munum að sjálfsögðu halda áfram með sundið og fræðslufundina næsta vetur. Einnig höfum við lát- ið uppfæra heimasíðuna okkar, www.cp.is, sem gegnir mikilvægu hlutverki í samskiptum milli fé- lagsmanna, og verður hún opnuð með nýju sniði nú bráðlega. Þar verður mikið af þýddu fræðsluefni um CP, sem mikið hefur skort hér á landi. Við notum tölvupóstinn mikið við að halda sambandi við fé- lagsmenn. Að auki er í undirbún- ingi fræðslubæklingur um CP sem vonandi verður gefinn út fljótlega. Rætt hefur verið um að opna síma þar sem fólk getur hringt, spjallað, miðlað og leitað stuðnings. Varðandi vetrarstarfið eru margar hugmyndir uppi sem síðar á eftir að útfæra nánar. Við höfum til dæmis áhuga á að ná meira til eldra fólks með CP-fötlun svo eitthvað sé nefnt. Við vinnum allt í sjálfboða- vinnu, þannig að starfið litast af því og fjárhagsstöðu félagsins. Ég á von á að starfsemi CP-félagsins eigi eftir að aukast jafnt og þétt næstu ár og stuðla þannig að meiri samskiptum fatlaðra, aðstand- enda þeirra og fagfólks.“ Ómar Örn Jónsson  Ómar Örn fæddist 17 desem- ber 1971 í Reykjavík. Hann lauk stúdentsprófi frá Mennta- skólanum við Sund árið 1991 og útskrifaðist sem viðskiptafræð- ingur cand. oecon. frá Háskóla Íslands 1999. Ómar Örn hefur starfað í hugbúnaðargeiranum undanfarin ár en hóf nýlega störf sem sölustjóri stórnotenda hjá Öryggismiðstöð Íslands. Óm- ar Örn er formaður CP-félagsins sem stofnað var haustið 2001. Hann er kvæntur Elfu Dögg S. Leifsdóttur og eiga þau tvö börn, Dag Stein og Örnu Ösp. Stuðningur og fræðsla um CP á Íslandi
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60
Blaðsíða 61
Blaðsíða 62
Blaðsíða 63
Blaðsíða 64

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.