Morgunblaðið - 11.09.2002, Blaðsíða 33
MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 11. SEPTEMBER 2002 33
Hann var félagi í klúbbnum í yfir 30
ár eða frá árinu 1970. Í klúbbstarfinu
var hann virkur, sótti vel fundi þar til
síðustu mánuðina að heilsubrestur
hamlaði fundarsókn. Fyrir vel unnin
störf í klúbbnum var hann m.a. fyrir
nokkrum árum sæmdur Paul Harris-
orðunni, sem er sérstök heiðursvið-
urkenning til Rótarýfélaga.
Á yfirborðinu virtist Ketill oft vera
hrjúfur, en við nánari kynni fannst
vel að hann var tilfinninganæmur og
hlýr, þó svo að hann flíkaði ekki sín-
um tilfinningum að öllu jöfnu. Und-
irritaður átti oft skemmtilegar sam-
ræður við Ketil á Rótarýfundum og
fann þá vel hve hugur hans var opinn
fyrir ýmsum málefnum og ekki síst
hinum mannlegu þáttum tilverunnar.
Efst í hugann koma upp ljúfar minn-
ingar úr árlegum ferðalögum okkar
Rótarýfélaganna ásamt mökum og
stendur þar hæst uppi fimm dag ferð
okkar til Grænlands í ágúst 2000.
Ketill og Margrét voru þátttakendur
í þeirri ferð og þar lék Ketill á als oddi
og var hrókur alls fagnaðar.
Við félagarnir geymum með okkur
minningarnar um ljúfan dreng og
þökkum samfylgdina í gegnum árin.
Við vottum Margréti og öðrum að-
standendum okkar dýpstu samúð.
Fyrir hönd Rótarýklúbbs Kópa-
vogs
Kristófer Þorleifsson
forseti.
Við vorum allir svo glaðir fyrir
hönd vinar okkar, gömlu strákarnir á
hornborðinu á Kaffi París sem hitt-
umst á laugardögum til að hlæja enn
einu sinni að gömlu bröndurunum.
Við vorum glaðir yfir því hvað vinur
okkar var bjartsýnn og jákvæður eft-
ir að vera loksins kominn að, eftir
nærri hálft á biðlistanum, ákveðinn í
að nú væri nýr tími í vændum. Nýr
tími með nýju fjöri og nýjum þrótti,
nýjum verkefnum.
Ketill var maður sem kvartaði
aldrei. Ýmis áföll þurfti hann að þola í
lífinu en hann hristi það allt af sér og
stóð ætíð sterkari en áður. Hans
styrkur var þrautseigjan og trúin á
að hver væri sinnar gæfu smiður; að
aldrei megi gefast upp. Þegar hann
hóf verslunarstörf árið 1957 í miðbæ
Reykjavíkur kom í hans hlut að halda
uppi merki föðurins, athafnamanns-
ins sem féll frá stórum systkinahópi í
blóma lífsins.
Í þá daga var ekki úr miklu að
moða fyrir unga athafnamenn. Versl-
unar- og atvinnulíf allt bundið í
dróma hafta og ríkisafskipta sem
leiddu af sér endalaus boð og bönn.
Athafnamenn urðu að vinna með ann-
arri hendi við fyrirtækið en með hinni
ýta við kerfinu, losa um höftin, svo að
fólk gæti reynt sig og sýnt hvað í því
bjó. Þetta gekk hægt, óskaplega
hægt, en með þrautseigjunni tókst
það og nú er Ísland orðið ríkt land,
sem nýtur ávaxta þeirra verðmæta
sem menn þessa tíma sköpuðu með
lífsstarfi sínu, menn eins og Ketill Ax-
elsson.
Það var gaman að vera með í
þessu, fá að kynnast Katli og eiga
hann að vini. Einkum var örvandi að
finna hve miklu ástfóstri Ketill tók við
miðbæ Reykjavíkur. Hann var
óþreytandi við að koma með hug-
myndir og halda þeim að borgar-
stjórninni. Reyndar varð okkur
stundum tíðrætt um borgarstjórnina,
sem okkur félögunum við hornborðið
góða á Kaffi París fannst eiga í sí-
felldri „stéttabaráttu“. Það var einn
af „gömlu bröndurunum“ okkar að
þar sem gangstéttum miðbæjarins
hefur verið umbylt einu sinni á ári
hlyti það að sjálfsögðu að vera í anda
elsta slagorðs Sjálfstæðisflokksins,
„stétt með stétt“.
Það er mikil eftirsjá að Katli, við
munum sakna hans vinirnir og hans
verður sárt saknað í fjölskyldunni
stóru sem hann skilur eftir sig. Hugg-
un er harmi gegn, að þar eru menn og
konur sem bera munu merkið áfram.
Ég sendi þeim öllum, ásamt börnum
mínum Helgu Guðrúnu og Erlingi,
okkar innilegustu samúðarkveðjur,
einkum þó Margréti Gunnlaugsdótt-
ur, eiginkonu Ketils, sem var ómet-
anleg stoð hans og stytta, félagi og
vinur í fjörutíu ár. Blessuð sé minn-
ing okkar góða vinar Ketils Axelsson-
ar.
Jónas Elíasson.
✝ Kristín Bjarna-dóttir fæddist á
Fjósum í Svartárdal
3. febrúar 1917. Hún
lést á Hjúkrunar-
heimilinu Skjóli 3.
september síðastlið-
inn. Foreldrar henn-
ar voru Ríkey Gests-
dóttir, f. 11. sept.
1890, d. 29. ágúst
1983, og Bjarni Jóns-
son, f. 10. júlí 1890, d.
23. júní 1963. Systkini
Kristínar voru átta:
Hulda, f. 1914, Þor-
björn, f. 1916, Þorbjörg Guðrún, f.
1919, Ingólfur, f. 1921, Jón, f. 1922,
Steinunn, f. 1923, Jónas, f. 1925, og
Bjarni Hólm, f. 1927. Af þeim eru
Þorbjörg, Jónas og Bjarni á lífi.
Árið 1939 giftist Kristín Guð-
mundi Ögmundssyni bifreiðar-
stjóra frá Syðri-Reykjum í Bisk-
upstungum, f. 16. ágúst 1902, d. 9.
júní 1946. Börn þeirra eru 1) Unn-
ur Hlín, f. 12. apríl 1940, maki I)
Birgir E. Sigurðsson, þau skildu.
Maki II) Guðjón Tómasson, þau
skildu. Börn Unnar eru Berglind,
Kristín Petrína og Einar. 2) Bjarni
Hrafn, f. 9. júlí 1943, maki María
Þorgrímsdóttir, börn þeirra eru
Kristín Birna, Guðmundur og
Matthías. 3) Ögmundur Heiðar, f.
9. júlí 1943, maki Kristín Jónsdótt-
ir, börn þeirra eru Guðmundur,
Jón og Unnur. Fyrir átti Ögmund-
ur Önnu Kristínu og
Ævar. 4) Guðmundur
Hlynur, f. 20. júlí
1945, maki Álfheiður
Guðjónsdóttir, börn
þeirra eru Ásthildur
Elín, Hrund og Guð-
jón Hlynur. Seinni
maður Kristínar var
Björn Jónsson lög-
regluþjónn frá
Haukagili í Hvítár-
síðu, f. 3. sept. 1915,
d. 13. febrúar 1992.
Börn þeirra eru 1)
Jón Haukur, f. 9.
febrúar 1953, maki Ágústa Egils-
dóttir sem lést af slysförum í febr-
úar síðastliðnum. Börn þeirra eru
Agla Heiður, Björn Ívar, Sara
Hrönn og Birkir Örn. 2) Brynhild-
ur Ríkey, f. 4. mars 1954, d. 27.
nóvember 2001. Maki I) Kristján
Sigurðsson, þau skildu. Maki II)
Bergsteinn Vigfússon, þau skildu.
Maki III) Helgi Jónsson. Börn
Brynhildar eru Harpa María, Sig-
urður Ásgeir, Eydís Rán og Ingi-
björg Sædís. 3) Hjördís, f. 15. októ-
ber 1957, maki Jónas Sævar
Hrólfsson, börn þeirra voru Sigur-
rós, Birna Dís og Helga Björk.
Hjördís, Birna Dís og Helga Björk
fórust í snjóflóðinu í Súðavík 16.
janúar 1995.
Útför Kristínar fer fram frá
Langholtskirkju í dag og hefst at-
höfnin klukkan 15.
Elskuleg tengdamóðir mín er fallin
frá og langar mig að minnast hennar
með nokkrum orðum. Kristín fæddist
á þeim tíma sem kjör margra Íslend-
inga voru bágborin. Foreldrar hennar
bjuggu við erfiðar aðstæður og barna-
hópurinn var stór. Þegar Kristín var
fimm ára gömul fór hún í fóstur hjá
Kristínu föðursystur sinni að Þor-
steinsstöðum í Lýtingsstaðahreppi.
Þar bjó hún fram á fullorðinsár. Þótt
ekki væri langt yfir í Húnavatns-
sýsluna þar sem fjölskylda Kristínar
bjó voru heimsóknir fátíðar og Kristín
hafði lítið af fjölskyldu sinni að segja
næstu árin. Kristín byrjaði snemma
að vinna fyrir sér og var meðal annars
í kaupavinnu. Hún stundaði nám í
Húsmæðraskólanum á Blönduósi og
nýttist það nám henni vel. Fljótlega
eftir það flutti hún til Reykjavíkur og
vann ýmis störf, m.a. rak hún um tíma
mötuneyti. Hún kynntist fyrri manni
sínum, Guðmundi, og þau stofnuðu
heimili, fyrst á Vífilsgötu 10 en síðar á
Bollagötu 10 þar sem þau bjuggu þar
til Guðmundur lést langt um aldur
fram. Kristín var 29 ára og orðin
ekkja með fjögur ung börn. Það hefur
ekki verið auðvelt en einhvern veginn
gekk þetta allt upp. Hún sá fyrir fjöl-
skyldunni með því að taka leigjendur
inn á heimilið og einnig naut hún
stuðnings vina og ættingja. Kristín
var lánsöm þegar hún kynntist síðari
manni sínum, Birni, börnunum fjölg-
aði og fljótlega byggðu þau sér nýtt
hús í Goðheimum 18.
Það eru orðin rúm þrjátíu ár síðan
ég kom fyrst á heimili Kristínar
tengdamóður minnar og Björns í
Goðheimum 18. Mótttökurnar voru
hlýjar enda voru þau hjón mjög gest-
risin. Alla tíð síðan hafa samskipti
okkar Kristínar verið mikil og góð. Á
fyrstu búskaparárum okkar Ög-
mundar var hann til sjós og þá var
gott að eiga þau Kristínu og Björn að.
Hún tók að sér að annast nýfæddan
son okkar meðan ég sat á skólabekk
og fyrir það verð ég ævinlega þakklát.
Margs er að minnast og hugurinn
leitar gjarnan til gömlu góðu daganna
í Goðheimunum. Þar hittust börnin og
barnabörnin og gekk stundum mikið
á. Kristín og Björn voru bæði víðlesin
og vel að sér um menn og málefni
þannig að ekki skorti umræðuefni við
eldhúsborðið. Þau höfðu gaman af að
ferðast og fóru m.a. í margar utan-
landsferðir. Þegar ég hugsa til baka
undrast ég hvað þau voru iðin við að
kaupa óteljandi gjafir handa þeim
sem heima sátu. Þá var ekki síður
gaman að hlusta á þau segja frá ferð-
um sínum og lýsa því sem fyrir augu
bar.
Árið 1991 flutti Kristín í Álftamýri
54. Þá var Björn búinn að missa heils-
una og lá rúmfastur á spítala þar sem
hann lést nokkrum mánuðum síðar.
Heilsu Kristínar var einnig farið að
hraka. Síðustu árin hefur hvert áfallið
af öðru dunið yfir fjölskylduna, snjó-
flóðið í Súðavík þar sem mæðgurnar
Hjördís, Birna Dís og Helga Björk
fórust. Það var mikill missir fyrir
Kristínu og aðdáunarvert hvernig
hún tókst á við sorgina. Síðastliðinn
vetur missti hún aðra dóttur sína,
Brynhildi, og skömmu síðar einnig
tengdadótturina Ágústu sem einnig
var henni mjög kær. Þá var Kristín
komin á Hjúkrunarheimilið Skjól þar
sem hún naut umönnunar góðs fólks
allt til enda. Á kveðjustundu er mér
efst í huga þakklæti fyrir þann hlý-
hug, vináttu og traust sem Kristín
sýndi mér og mínum í gegnum tíðina.
Guð blessi minningu Kristínar
Bjarnadóttur.
Kristín Jónsdóttir.
Látin er heiðurskonan Kristín
Bjarnadóttir tengdamóðir mín, hetja
hvunndagsins frá síðustu öld, því
Kristín var mikil hetja.
Ung að árum varð hún ekkja, þá
móðir fjögurra ungra barna. Þá var
engin hjálp í boði nema frá fjölskyldu
og vinum, engar bætur að fá eins og
tíðkast í dag.
Eiginmaður hennar, Guðmundur
Ögmundsson, hafði legið veikur á
sjúkrahúsi í heilt ár áður en hann lést.
Þegar að því kom voru börnin Unnur
Hlín fimm ára, tvíburarnir Bjarni
Hrafn og Ögmundur Heiðar þriggja
ára og Guðmundur Hlynur eins árs,
en hann var skírður við kistu föður
síns. Þá voru þau búsett á Bollagötu
10.
Seinna kynntist hún Birni Jóns-
syni, sem kvæntist henni og gekk
börnum hennar í föðurstað. Þau eign-
uðust Jón Hauk, Brynhildi Ríkeyju
og Hjördísi. Kristín og Björn komu
þessum stóra barnahópi öllum upp og
ráku heimilið með miklum myndar-
brag.
Þau byggðu sér íbúð í Goðheimum
18 og bjuggu þar áfram og þar ætla
ég nú að staldra við, þar sem kynni
mín við hana og hennar stóru fjöl-
skyldu hófust fyrir 39 árum. Þar var
margt um manninn, mikið líf og fjör
og gestkvæmt á heimilinu. Stór systk-
inahópur og tengdabörnin voru óðum
að bætast í hópinn svo og barnabörn-
in. Þetta voru mjög skemmtileg ár,
samgangur mikill á milli fjölskyldn-
anna ungu og Kristín og Björn voru
stolt og ánægð með hópinn sinn.
Kristín sagði mér oft frá liðnum tíma
og t.d. frá því þegar börnin voru send
í sveit á sumrin, hversu mikil vinna
það var að undirbúa þau. Það þurfti
að sauma föt og gera við svo allt yrði í
stakasta lagi. Ég hef grun um að hún
hafi oft verið þreytt þegar búið var að
leggja nótt við dag í þeim undirbún-
ingi.
Kristín var ekki fyrir það að bera
tilfinningar sínar á torg, hún var aldr-
ei margmál um hlutina né gerði mikið
úr þeim, hélt bara áfram veginn hvað
sem á gekk, rétt eins og hún yrði
sterkari við mótlætið, sem var á
stundum mikið. Hún var svo sannar-
lega hetja.
Þá ég hníg í djúpið dimma,
Drottinn, ráð þú hvernig fer.
Þótt mér hverfi heimsins gæði, –
hverfi allt, sem kærst mér er:
Æðri heimur, himnafaðir,
hinumegin fagnar mér.
(M. Joch.)
Ég er þakklát fyrir að hafa átt hlut-
deild í lífi Kristínar Bjarnadóttur.
Blessuð sé minning hennar.
Álfheiður Guðjónsdóttir.
Í dag verður til moldar borin elsku-
leg amma mín, Kristín Bjarnadóttir.
Undanfarna daga hefur mér oft orðið
hugsað til hennar og æskuminning-
arnar hafa streymt upp á yfirborðið.
Það var ávallt líf og fjör hjá afa og
ömmu í Goðheimunum, viðNonni
bróðir vorum þar tíðir gestir og lék-
um okkur ásamt frændsystkinunum.
Leikvöllurinn var víðfemur, reisulegt
húsið, garðurinn og garðar nágrann-
anna og gatan öll. Meira að segja bíl-
skúrsþakið fékk ekki að vera í friði
fyrir okkur. Heilu herdeildirnar voru
stofnaðar og völdust menn í lið eftir lit
á sparipeysunum. Engum leiddist í
heimsókn hjá afa og ömmu og maður
gat ávallt reitt sig á heitt kakó og kök-
ur hjá ömmu eftir ærslafullan dag.
Eftir að afi missti heilsuna fluttist
amma í Álftamýrina og nýja heimilið
hennar varð áfram miðstöð fjölskyld-
unnar. Fyrir tæpu ári fluttist amma
síðan á hjúkrunarheimilið Skjól þar
sem hún dvaldi síðasta æviár sitt.
Engu að síður hélt húnfjölskyldunni
boð á jóladag í Álftamýri, vitandi að
það væri í síðasta sinn sem slíkt væri
haldið.
Það var gott að vera barnabarn
hennar ömmu og minningarnar um
hana eru fallegar og hlýjar. Þegar ég
hugsa til hennar kemur alltaf upp
mynd af henni brosandi, þessu ein-
læga brosi hennar sem ég sé stundum
hjá pabba mínum. En amma var líka
hörð af sér og þrátt fyrir margan ást-
vinamissi lét hún aldrei bugast. Skap-
festa hennar var mikil og skoðanir
sterkar og lá hún sjaldnast á þeim.
Amma bjó líka yfir hárbeittrikímni-
gáfu sem yfirgaf hana aldrei og hún
var stálminnug. Það kom mér á óvart
fyrir skömmu þegar hún hermdi dá-
lítið upp á mig sem ég hafði sagt henni
í hálfkæringi fyrr í sumar. Það kenndi
mér þá lexíu að gaspra ekki eitthvað
sem ég væri ekki ákveðinn í að standa
við.
Það kann að vera eigingirni en ég
hefði viljað njóta návistar hennar
lengur. Það er með miklum söknuði
sem ég kveð hana í þetta sinn en ég
veit að hún mun taka vel á móti mér
þegar við hittumst næst. Þangað til
mun ég ylja mér við minningarnar.
Guðmundur Ögmundsson.
Elsku amma. Nú er komið að
kveðjustund. Við viljum þakka þér
fyrir allar góðu stundirnar með þér.
Það var alltaf svo gaman að koma til
þín og afa í Goðheimana, þar leið okk-
ur alltaf svo vel, við komum á hverju
sumri með mömmu og pabba. Þið afi
dekruðuð alltaf við okkur eins og ykk-
ur einum var lagið. Eftir að afi dó
komstu svo á hverju sumri til okkar á
Eskifjörð þar sem þið mamma fóruð í
ótal gönguferðir og rúnta. Þér fannst
svo gott að sitja í stofunni og horfa út
um gluggann yfir fjörðinn. Það var
alltaf svo gaman að tala við þig því þú
vissir svo mikið um alla hluti, enda
hafðirðu upplifað tímana tvenna. Þú
varst svo ótrúlega dugleg, hafðir
misst mikið yfir ævina, tvo eigin-
menn, tvær dætur, tvær dótturdætur
og nú síðast tengdadóttur. Mörgum
hefðu fallist hendur fyrir löngu, en þú
tókst á við allt þetta og annað með
miklum dug. Elsku amma, nú ertu
komin til mömmu, afa, Binnu,
Hjöddu, Birnu og Helgu, passaðu upp
á þau fyrir okkur. Við kveðjum þig
með orðunum sem þú sagðir alltaf við
okkur þegar við vorum að fara að
sofa: „Guð gefi þér góða nótt.“
Þín
Agla Heiður, Björn Ívar,
Sara Hrönn og Birkir Örn.
Lækkar lífdaga sól.
Löng er orðin mín ferð.
Fauk í faranda skjól,
feginn hvíldinni verð.
Guð minn, gefðu þinn frið,
gleddú og blessaðu þá,
sem að lögðu mér lið.
Ljósið kveiktu mér hjá.
(H. Andrésd.)
Við þökkum elsku ömmu fyrir sam-
fylgdina á lífsleiðinni.
Hvíl í friði.
Ásthildur Elín, Hrund
og Guðjón Hlynur.
Af eilífðar ljósi bjarma ber,
sem brautina þungu greiðir.
Vort líf, sem svo stutt og stopult er,
það stefnir á æðri leiðir.
Og upphiminn fegri’ en auga sér
mót öllum oss faðminn breiðir.
(Einar Benediktsson.)
Elsku amma, nú ert þú laus við all-
ar þínar þjáningar.
Eflaust hefur þú endurheimt kímni
þína og húmor á þessum nýja stað í
tilverunni hjá afa Bjössa, Binnu,
Hjöddu og litlu englunum hennar.
Hafðu þökk fyrir allt og allt.
Þín
Kristín Birna, Guðmundur
og Matthías.
Nú er hún elsku amma mín látin,
það er eins og afi og hinir mörgu ást-
vinir hennar sem kvatt hafa á undan
hafi ákveðið að sækja hana í veisluna,
á afmælisdaginn hans afa. Ég kýs
allavega að trúa því og ylja mér við þá
hugsun að nú sé hún búin að fá lang-
þráðan frið.
Það hefði ekki hver sem er tekið að
sér ungabarn komin hátt á sextugs-
aldurinn, en það gerði hún og ég varð
þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að alast
upp hjá henni og afa í Goðheimum.
Ég á margar góðar minningar þaðan,
ein dýrmætasta og elsta minning mín
er að á hverjum morgni áður en ég fór
á leikskólann einhvern veturinn, stóð-
um við amma alltaf við gluggann í
borðstofunni og horfðum á tunglið dá-
litla stund og hún sagði mér sögu um
karlinn í tunglinu.
Ég skreið líka uppí til þeirra á
hverju hvöldi og þau skiptust á að lesa
fyrir mig öll Grimms-ævintýrin, þjóð-
sögur Jóns Árnasonar, H.C. Ander-
sen, Önnu í Grænuhlíð og endalaust
fleiri bækur. Seinna las ég fyrir þau
bæði ljóð og sögur og eftir að afi dó þá
las ég oftast Pollíönnu fyrir ömmu.
Hún átti oft ansi erfitt síðustu árin og
gat átt erfitt með að sjá björtu hlið-
arnar en það var alveg sama hvað,
hún átti alltaf til ást og kærleika
handa mér og ég veit að hún bað fyrir
okkur öllum afkomendum sínum á
hverju einasta kvöldi.
Amma og afi höfðu ákaflega gaman
af að ferðast, hvort sem það var inn-
anlands eða utan, þau buðu mér með
sér til Sviss, Ítalíu og Spánar og eru
þær minningar mér afar kærar.
Ég er svo fegin að hafa fengið að
kynnast henni eins vel og ég gerði og
að hún skyldi hafa fengið að sjá mig
snúa við blaðinu á sínum tíma og kom-
ast út úr þeim vanda sem ég var í. Það
var eina leiðin fyrir mig til að þakka
henni allt sem hún hefur gefið mér og
gert fyrir mig í gegnum tíðina og ég
veit að hún kunni að meta það og
spurði mig alltaf reglulega hvort ég
færi ekki á fundi og hvort ég færi ekki
örugglega með bænirnar mínar. Ég
held líka að hennar umhyggja og trú
hafi haft sitt að segja.
Þegar vel lá á henni gat hún verið
alveg óendanlega fyndin og skemmti-
leg. Ég mun alltaf sakna hennar
ömmu minnar en hún lifir áfram í
hjarta mínu og vonandi munum við
hittast aftur einn góðan veðurdag.
Með ástarkveðju
Harpa María.
KRISTÍN
BJARNADÓTTIR