Morgunblaðið - 21.09.2002, Side 37

Morgunblaðið - 21.09.2002, Side 37
UMRÆÐAN MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 21. SEPTEMBER 2002 37 LAUGARDAGINN 31. ágúst birtist grein í Morgublaðinu eftir forstöðumann dönsku umhverfismatsstofn- unarinnar, Björn Lomborg. Birting greinarinnar hefur vakið talsverða athygli nú þegar heimsþing Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun stendur yfir í Jóhann- esarborg. Grein Lom- borg ber nafnið „Þró- un en ekki sjálfbærni“, sem er nokkuð athyglisvert í ljósi þess að upphaf- lega greinin heitir „The Environ- mentalists are wrong“. Sjálfsagt hefur ákvörðun verið tekin um að breyta titlinum til að milda yfir- bragð greinarinnar. En látum það liggja á milli hluta, yfirlýsingagleði Lomborg er næg þó að breytt sé um titil á greininni. Hvert er inn- tak greinar hans? Eins og oft áður þykist Lomborg vera að leiðrétta blekkingar sem vísindamenn og umhverfisverndarsinnar hafi haldið að almenningi. Ekki tekst Lomborg ætlunar- verk sitt enda gengur hann manna harðast fram í blekkingum og út- úrsnúningum. Nokkur atriði langar mig að nefna í þessu sambandi. Lomborg er mjög gjarn á að stilla upp afarkostum í grein sinni. Hann stillir upp þróun gegn sjálfbærni eins og þessir kostir geti ekki farið saman. Flestir myndu sjálfsagt þvert á móti segja að sjálfbærni væri merki um þróun. Einnig stillir hann upp fjármagni sem þarf að nota til að framfylgja Kyoto-sátt- málanum sem ímyndaðri hindrun gegn fjárhagsaðstoð til þriðja heimsins. Þetta gerir hann til að slá ryki í augu manna og gera þannig Kyoto-sáttmálann tortryggilegan, sem þann samning er komi í veg fyrir myndarleg fjárframlög til þró- unaraðstoðar. Það er að sjálfsögðu algjörlega út í hött að halda því fram að þeir fjármunir sem hugs- anlega gæru sparast við að uppfylla ekki Kyoto-bókunina myndu renna sjálfkrafa til þróunaraðstoðar. Lomborg beitir einnig blekking- um þegar hann talar um Kyoto- bókunina sem lokamarkmið í bar- áttunni gegn útblæstri gróðurhúsa- lofttegunda og segir: „Að auki benda öll reiknilíkön til að Kyoto-samþykktin muni hafa hverfandi áhrif á loftslag og ein- ungis fresta loftslagsbreytingum sem spáð er að verði fyrir árið 2100 um sex ár. Þrátt fyrir það er áætl- aður kostnaður við Kyoto-bókunina á bilinu 150–350 milljarðar dollara árlega.“ Svo virðist sem Lomborg sé einn um að átta sig ekki á því að Kyoto- bókunin er fyrsta skrefið til að draga úr losun gróðurhúsaloftteg- unda. Gildistími Kyoto-bókunarinnar er hins vegar aðeins frá 2008–2012 eða fjögur ár. Margoft hefur Lomborg verið bent á þetta atriði en hann skellir skollaeyr- um við. Staðreyndir skipta ekki mestu máli fyrir hann heldur að þeim sé hagrætt með fyrirfram ákveðna nið- urstöðu í huga. Villandi tölfræði ,,Þrátt fyrir að okk- ur finnist við þurfa að grípa til róttækra aðgerða vegna loftslagsbreytinga sýna hagfræði- legir útreikningar fram á að það er miklu dýrara að grípa til róttæks niðurskurðar á útblæstri koltvísýr- ings en greiða þann kostnað sem hlýst af aðlögun að hlýrra loftslagi. Hvaðan hefur Lomborg þessar tölur? Er það til að mynda ljóst að það verði alltaf jafn dýrt um alla framtíð að minnka útblástur gróð- urhúsalofttegunda? Hugmyndin að baki Kyoto-bókuninni er meðal annars sú að við leitum nýrra leiða við að leysa vandamálin. Við Ís- lendingar gerum til að mynda metnaðarfulla tilraun með því að nota vetni til að knýja bíla. Eigum við að hætta við hana vegna þess að kostnaðurinn við að byggja vetnisstöðvar í stað bensínstöðva og kaupa nýja vetnisbíla í stað bensínbíla sé svo mikill? Auðvitað ekki! Lomborg er þekktur fyrir að nota tölfræði á villandi hátt. Í greininni nefnir hann að aðeins 0,7% dýrategunda verði útdauð næstu 50 árin. Flestir hugsa eflaust sem svo að þetta sé ekki há tala, einmitt eins og Lomborg er að ýta undir. En prósentutalan segir ekki hálfan sannleikann þegar rætt er um útrýmingu dýra. Lomborg get- ur þess auðvitað ekki að mjög stíf- ar reglur gilda um það hvenær megi skrá dýr sem útdautt og þar af leiðandi segir þessi tala okkur frekar lítið. Áhyggjur vísinda- manna snúa að því að dýrateg- undum sé útrýmt nú með meiri hraða en áður hefur þekkst. Við verðum líka að hafa í huga að þó að 0,7% sé lágt hlutfall er stór tala á bak við það og að hver dýrategund er einstök. Ef röksemdafærsla Lomborg væri tekin bókstaflega ættu menn hér á landi að yppa öxl- um yfir því ef rjúpan dæi út með vísan til þess að hún sé einungis agnarsmá prósenta af dýralífi jarð- ar. Tegund sem deyr út verður ekki lífguð við aftur. Morgunblaðið og umhverfismál Fleiri dæmi er hægt að tína til úr grein Lomberg og það er í sjálfu sér ótrúlegt þar sem greinin er annars mjög stutt. En helsta áhyggjuefni mitt er þetta: Hvað verður til þess að Morgunblaðinu finnst það þurfa að birta jafn lélega grein um umhverfismál og raun ber vitni? Fjöldi greina hefur birst um ástand umhverfismála í tengslum við umhverfisráðstefnuna í Jóhann- esarborg sem hefði heldur verið ástæða til að birta í blaðinu. Þar hefur ekki skort vandaðar greinar sem lýsa efasemdum um markmið- in sem þar eru sett ef það var það sem Morgunblaðið var að leita eft- ir. Lomborg kemur hins vegar óorði á efahyggju vegna þess að hann þykist beita raunverulegum vísindum en er í raun slægur áróð- ursmaður. Margir geta stært sig af því að vinna með vísindalegar nið- urstöður án þess að um vísindi sé að ræða, til að mynda sköpunar- sinnar og stjörnuspekingar. En myndi Morgunblaðinu detta í hug að láta sköpunarsinna eða stjörnu- spekinga fá miðopnu laugardags- blaðsins til að hrekja staðhæfingar viðurkenndra vísinda? Eflaust ekki og enn síður ef okkur bærust frétt- ir utan úr heimi um þing líffræð- inga eða stjarnfræðinga. Umhverfismálum hefur síst verið sinnt of mikið í Morgunblaðinu og hefði verið gaman að sjá miklu meiri umfjöllun og útskýringar á því sem fram fer í Jóhannesarborg þessa dagana. Það voru því veruleg vonbrigði þegar loksins var smuga fyrir Morgunblaðið að gera um- hverfismálum góð skil að það skyldi leita á náðir Björns Lomborg. Mikil barátta hefur verið háð fyrir því að vekja fólk á Vesturlöndum til vit- undar um umhverfismál. En ekki er nóg að gert og er það meðal annars vegna þess sem heimsþing Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun stendur yfir í Jóhannesar- borg. Við stöndum frammi fyrir mörgum flóknum umhverfisvanda- málum sem taka þarf á. Ekki þýðir alltaf að segja að allt sé í himnalagi eins og Lomborg virðist telja réttu viðbrögðin. Betra er að gera sér grein fyrir því að náttúran þarf að njóta vafans. Umhverfisspjöll og ummhverfissóðaskapur sem Lom- borg þykist ekki taka eftir verða ekki tekin aftur. Blekkingar Björns Lomborg Huginn Freyr Þorsteinsson Umhverfismál Betra er að gera sér grein fyrir því, segir Huginn Freyr Þorsteinsson, að náttúran þarf að njóta vafans. Höfundur er nemi og í stjórn ungra vinstri grænna. MIKIL umskipti fylgja því þegar fólk hverfur af vinnumark- aði. Fyrir marga er slíkt þó tilhlökkunar- efni því ótal möguleikar bjóðast eldri borgurum hvað tómstundir varð- ar og eins gefst fólki fjöldi tækifæra til að ferðast, innanlands sem utan. Metnaðar- fullt starf er unnið á þessum vettvangi m.a. á Akureyri og starfs- fólk er reiðubúið að mæta óskum þeirra sem þjónustunnar njóta, þannig að á stundum kemst eldra fólk ekki yfir að taka þátt í öllu því sem hugur þess stendur til. Þannig ganga hlutirnir fyrir sig í nokkur góð ár. Nú á tímum ná æ fleiri háum aldri og að því kemur að halla fer undan fæti, heilsunni hrak- ar eftir því sem aldurinn færist yfir. Í kjölfarið verður erfiðara með úrræði. Fæstir hafa aðstöðu til að taka las- burða foreldra sína inn á heimili sitt, enda yfirleitt enginn heimavið yfir daginn til að sinna þeim. Gamla fólk- ið er sett á biðlista – og svo er beðið. Þetta ástand hafa margir upplifað á síðustu misserum, því mikill skortur er á plássum fyrir aldraða sjúka. Hefur fólk lent í umtalsverðum vand- ræðum þegar foreldrar þeirra eða aðrir ástvinir komast í þennan hóp. Það fólk sem nú lifir sitt ævikvöld er fólkið sem lagði grunninn að því nútímavelferðarþjóðfélagi sem við lifum í. Það hefur skilað sínu ævi- starfi, greitt sína skatta og staðið við sínar skyldur. Það á það síst af okkur skilið að við bjóðum því ekki upp á viðunandi aðstæður þegar það í lok ævi sinnar á við veikindi að stríða. Það er verulega slæm upplifun fyrir þetta sjúka gamla fólk, sem allar bjargir eru bannaðar, að finna að fyr- ir það er hvergi pláss. Þótt sjúkdómar af margvíslegu tagi herji á líkamann eru flestir með fullu viti og þykir illt að ganga í gegnum þessa bitru reynslu. Sjúkrahúslegur verða tíðari og lengri en áður, en inn á milli er fólk sent til síns heima, jafnvel þótt það hafi ekki nokkrar aðstæður til að vera þar fársjúkt og þá í flestum tilfellum upp á aðstandendur sína komið. Stundum er það svo að sjúkrahúsin eru að létta af sér álag- inu og senda fólkið heim of snemma. Þegar aftur er snúið inn á sjúkra- húsið, ef til vill eftir einungis einn til tvo daga, þarf að fara í gegnum slysadeild þar sem innlögnin er skráð en slíkt ferli getur tekur frá þremur og upp í fimm klukkustundir meðan beðið er eftir niðurstöðum úr hinum ýmsu rannsóknum. Það segir sig sjálft að slíkt tekur á. Á meðan niðurstaðna er beðið má svo kannski heyra lækna segja að verið sé að leita að plássi á deildum, en þegar þangað er komið er ekki óalgengt að við blasi auð og uppbúin rúm. Þetta á las- burða gamalt fólk erfitt með að skilja. Mikið hefur áunnist í réttindabar- áttu fatlaðra á undanförnum árum og er vel að þeim hópi búið. Öðru máli gegnir um sjúka aldraða og á þeim vettvangi er margt eftir óunnið. For- eldrar fatlaðra barna hafa myndað sterkan hagsmunahóp og orðið mikið ágengt á umliðnum árum. Margir hafa á síðustu árum upplifað þær að- stæður að aldraðir foreldrar þeirra veikjast og eiga sér þá ekki öruggt athvarf, þar sem þörfum þeirra er sinnt. Misjafnt er hversu langan tíma ferlið tekur, þ.e. frá því brýn þörf er fyrir hjúkrunarrými fyrir einstak- linginn og þar til líf hans fjarar út. Það næst því ekki að mynda sterkan hagsmunahóp til að berjast af afli fyrir réttindum þessa gamla sjúka fólks. Menn eru virkir rétt á meðan á þeirra eigin baráttu fyrir plássi stendur og þá miðar hún mest að því að koma sínum manni að í kerfinu. Þegar það tekst eða einstaklingurinn deyr á fólk ekki lengur brýnna hags- muna að gæta. Þessu verður að breyta, við verðum að gera bragar- bót varðandi öldrunarmálin. For- eldrar okkar eiga skilið að ævikvöld- ið verði hlýtt og notalegt. Aldraðir sjúkir útundan í heil- brigðiskerfinu Þyri Þorvaldsdóttir Höfundur er sjúkraliði á Kristnes- spítala í Eyjafjarðarsveit. Heilbrigðisþjónusta Aldraðir eiga það síst af okkur skilið, segir Þyri Þorvaldsdóttir, að við bjóðum þeim ekki upp á viðunandi að- stæður þegar þeir í lok ævi sinnar eiga við veikindi að stríða.

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.