Morgunblaðið - 18.10.2002, Síða 50

Morgunblaðið - 18.10.2002, Síða 50
MINNINGAR 50 FÖSTUDAGUR 18. OKTÓBER 2002 MORGUNBLAÐIÐ Elsku Kiddý. Mig langar að kveðja þig. Það er sorgleg stað- reynd að ég skuli ekki fá að hitta þig aftur í þessum heimi. Ég átti alls ekki von á þeim fréttum 24. sept- ember sl. að þú værir dáin. Þú fórst svo fljótt. Ég sem var að fara að hringja í þig. Ætlaði að spjalla við þig um daginn og veginn og þakka þér fyrir gjafirnar sem þú sendir krökkunum. Þau voru mjög ánægð eins og alltaf. Þú mundir alltaf eftir afmælisdögunum þeirra og gladdir þau alltaf á jólunum. Mér finnst leiðinlegt að hafa ekki náð að heimsækja þig á Flateyri en þú varst ekki heima er við komum við í fyrrasumar. Takk fyrir ánægju- legar samverustundir í útlöndum, við fórum saman í fimm utanlands- ferðir, allar jafn einstakar og skemmtilegar. Takk fyrir símtölin og netpóstinn. Þú sýndir okkur um- hyggju þegar Gissur yngri veiktist og hafðir áhyggjur. Þér var ekki sama. Þú sýndir það svo oft. Þó að tengslin hafi rofnað hélst á milli okk- ar gott samband. Fyrir það verð ég þér ævinlega þakklát. Arnar heim- sótti þig rétt áður en kallið kom. Hann er þakklátur fyrir að hafa fengið að hitta þig eftir svo langan tíma og átt með þér góðan tíma. Hann sagði mér að heimilið þitt hefði verið fallegt og hlýlegt. Það kom mér ekkert á óvart. Það var alltaf svo snyrtilegt og fínt hjá þér. Ég vona og veit að þér líður betur þar sem þú ert í dag og bið Guð að gæta þín. Elsku Lúlla, Sóla, Bjössi og Tinna. Guð styrki ykkur á þessum erfiða tíma. Börnin mín syrgja KRISTÍN G. BJÖRNSDÓTTIR ✝ Kristín Gunn-björg Björns- dóttir fæddist í Stykkishólmi 3. maí 1947. Hún lést á Flat- eyri 24. september síðastliðinn og var útför hennar gerð í kyrrþey að ósk hinn- ar látnu. Kiddý-ömmu, ég syrgi vin sem er farinn langt fyrir aldur fram. Nú legg ég augun aftur, ó, Guð, þinn náðarkraftur mín veri vörn í nótt. Æ, virst mig að þér taka, mér yfir láttu vaka þinn engil, svo ég sofi rótt. (Þýð. Sveinbjörn Egilsson.) Hvíl í friði, Kiddý mín. Hrefna Gissurardóttir. Elsku Kiddý amma. Þegar mamma sagði okkur að þú værir dá- in þá trúðum við henni ekki. Við fáum aldrei aftur að sjá þig og það þykur okkur svo sárt því þú varst alltaf svo góð við okkur og okkur þykir svo vænt um þig. Við erum oft að skoða myndir af þér og okkur þegar við fórum öll saman til Kanarí. Við ætlum aldrei að gleyma því. Þá var svo gaman. Það var líka svo gaman á jólunum þegar þú fórst í jólasveinabúninginn og þóttist vera jólasveinn og við trúðum því alveg þá. Gengum í kringum jólatréð og sungum jólalög. Við urðum soldið hrædd þegar þú fórst einu sinni í tröllkonubúning, við vorum líka bara fjögurra og sex ára þá. En gleymum því aldrei. Gleymum aldrei góðu stundunum. Þegar þú komst í heim- sókn með vídeóvélina og tókst upp þegar við vorum að leika okkur úti í garði. Þú sendir okkur alltaf afmæl- isgjafir og jólagjafir eftir að þú flutt- ir frá Stykkishólmi. Við erum heppin að hafa átt þig Kiddý amma. Þú varst alltaf svo góð. Við vitum að þú varst veik og vonum að þér líði betur hjá guði. Við sendum þér bænina okkar. Vertu yfir og allt um kring með eilífri blessun þinni, sitji Guðs englar saman í hring sænginni yfir minni. (Sig. Jónsson frá Presthólum.) Bless, Kiddý amma. Hreiðar og Sunna Rós. Kveðja frá Landssamtökunum Þroskahjálp Fallinn er frá Krist- ján Jónsson frá Ísafirði. Kristján var á árunum 1981-1989 stjórnarmaður í Landssamtökunum Þroskahjálp og hlaut gullmerki sam- takanna árið 1991. Kristján var alla tíð mikill baráttumaður fyrir bættum hag fólks með þroskahömlun og afar hreinskiptinn í allri þeirri baráttu. Innan Þroskahjálpar eru þekkt um- mæli hans þegar honum þótti hægt miða að byggja upp þjónustu við fólk með þroskahömlun og samherjar sem og aðrir vildu ræða fullmikið um hlutina. „Þegar hlutir eru komnir af hönnunar- og könnunarstiginu tekur við mas- og þrasstigið.“ Hvorugt stigið þótti Kristjáni líklegt til að leiða af sér þær framkvæmdir sem þörf var á. Undir svolítið hrjúfu yfirborði Kristjáns var mikill mannvinur og ekki skemmdi það fyrir að leiftrandi kímni og góð frásagnagáfa var hon- um eðlislæg. Undirritaður þakkar Kristjáni góða vináttu. Þótt við vær- um af sitthvorri kynslóðinni og deild- um hvorki lífsreynslu eða skoðunum bar aldrei skugga á okkar samskipti. Kristján orðaði það gjarnan sjálfur einhvern veginn þannig að sem betur fer væri til gott fólk með allavega skoðanir. Kristján hringdi gjarna eða leit við á skrifstofu samtakanna til að spyrjast fyrir um hvernig hlutirnir gengju fyrir sig, þau samtöl voru ávallt gefandi. Á síðast ári sá hann sér fært að mæta á setningu 25 ára afmælisþings samtakanna, þó ekki gengi hann heill til skógar. Landssamtökin Þroskahjálp votta börnum Kristjáns og öðrum ættingj- um sína dýpstu samúð. Friðrik Sigurðsson, framkvæmdastjóri. Kristján J. Jónsson var mikill dáðadrengur. Hann fæddist í Hnífs- dal árið 1921 og eins og venja var á þeim tíma hóf hann snemma að vinna við sjóinn. Um fermingu var hann farinn að beita og þótti alla tíð afburða beitningamaður. Hann stundaði sjóinn frá Hnífsdal í byrjun en varð síðar skipstjóri á ýmsum KRISTJÁN JÓN JÓNSSON ✝ Kristján JónJónsson fæddist í Hnífsdal 8. septem- ber 1921. Hann lést á Hrafnistu í Hafnar- firði 8. október síð- astliðinn og var útför hans gerð frá Garða- kirkju á Álftanesi 15. október. bátum frá Ísafirði. Kristján var mikill félagsmálamaður, var m.a. formaður sjó- mannadagsráðs til fjölda ára og átti lengi sæti í bæjarstjórn. Kristján hóf störf sem hafnsögumaður ár- ið 1974 og gegndi því starfi í hartnær 2 ára- tugi við góðan orðstír. Það var ætíð mikið fjör í kringum Kristján enda maðurinn áhuga- samur um lífið í kring- um sig og hafði skoðan- ir á mönnum og málefnum líðandi stundar. Samstarfsmenn hans á Ísa- fjarðarhöfn þakka honum samstarfið og allar góðu stundirnar og votta að- standendum samúð sína. Starfsmenn Ísafjarðarhafnar. Með fáum orðum vil ég minnast míns góða vinar Kristjáns J. Jóns- sonar um leið og ég þakka honum samfylgdina. Kristján var eldhugi og var þá sama hvort hann stóð í brúnni sem skipstjóri, sem bæjarfulltrúi eða eins og ég þekkti hann best; baráttu- og hugsjónamann fyrir bættu og betra lífi til handa fötluðum. Þegar undirrituð kom að Styrkt- arfélagi fatlaðra á Vestfjörðum um miðjan áttunda áratuginn hitti ég Kristján sem reyndist óþreytandi í stuðningi sínum við þetta unga félag. Hann gerði það með reynslu sinni, sínu stóra hjarta og meðfæddum létt- leika sem hreif okkur öll. Árum sam- an unnum við, samhentur hópur, að því að færa þjónustu við fatlaða heim í hérað og það tókst ekki síst fyrir harðfylgi Kristjáns. Á þessum árum fékkst engin þjón- usta við fatlaða á Vestfjörðum en með nýjum lögum um málefni fatl- aðra rofaði til þótt fjármagn væri af skornum skammti þá eins og nú. Stjórn Styrktarfélagsins ákvað á þessum tíma að ganga til liðs við stjórnvöld til að reyna að flýta fyrir úrræðum í þessum efnum. Kristján virkjaði m.a. Lionshreyf- inguna á Ísafirði í róðra ár eftir ár til fjáröflunar á m/b Guðnýju ÍS sem var í eigu Sigurðar Sveinssonar á Ísafirði. Styrktarfélagið, Lionshreyf- ingin og mikill fjöldi velviljaðra fyr- irtækja og einstaklinga lögðu okkur lið og lögðu þar með grunninn að þeirri góðu þjónustu sem fatlaðir njóta nú á Vestfjörðum. Á þessum tíma bar Bræðratungu hæst, þjón- ustumiðstöð sem við vorum ákaflega stolt af, heimili sem gerði brottflutt- um Vestfirðingum kleift að flytja aft- ur heim og veitti jafnframt þjónustu við þá sem enga höfðu haft. Þá var ekki verið að telja tímana, spá í dag- peninga eða ferða- og fundakostnað, þá var bara gengið í verkin og duldist þá engum hver var kallinn í brúnni. Kristján var árum saman fulltrúi okkar í stjórn Þroskahjálpar og heiðruðu samtökin hann fyrir störf sín og gladdi það hann mjög. Ég minnist Kristján líka úr pólitík- inni á Ísafirði en hann var bæjar- fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í mörg ár. Á þeim vettvangi skóf hann ekki af skoðun sinni frekar en fyrri daginn enda pólitíkin á Ísafirði kapítuli út af fyrir sig í sögunni. Hann lét heldur ekki sitt eftir liggja í flokksstarfinu og ég get ekki annað en minnst á sumarferðir kjördæmisráðs á þess- um árum þegar Kristján var með okkur ásamt Ingu konu sinni, lék á als oddi, sneri derhúfunni öfugt og tók lagið. Það er ógleymanlegt. Ég og fjölskylda mín þökkum okk- ar góða vini samstarf og vináttu lið- inna ára og sendum börnum hans og öðrum aðstandendum hugheilar samúðarkveðjur. Hildigunnur Lóa Högnadóttir. Ég kynntist Kristjáni og fjöl- skyldu hans í gegnum mægðir er ég kvæntist dóttur hans, Maríu. Eld- húskrókurinn á Fjarðarstræti 57 varð oft vettvangur heitra pólitískra umræðna þar sem menn töluðu fyrir sitt hvorri stjórnmálastefnunni. Þá var gjarnan bornar á borð nýbakaðar pönnukökur í boði húsfreyjunnar Ingu, en heimili þeirra einkenndist af gestrisni og höfðingsskap þar sem allir fundu sig velkomna. Frá fyrstu kynnum mínum við Kristján var eins og milli okkar væru ósýnileg bönd, sem lýstu sér í því að ég naut föð- urlegrar umhyggju hans, sem væri hann faðir minn en ekki bara tengda- faðir. Annað var, að þegar sjósókn og sjómennsku bar á góma varð Maríu oft á orði að hún hefði það á tilfinn- ingunni að ég og pabbi hennar vær- um á sama aldri. Ég held hinsvegar að það hafi verið af því að við áttum margt sameiginlegt, s.s. byrjuðum báðir ungir til sjós, vorum smávaxn- ir, þurftum að sanna okkur við harð- ar aðstæður og ekki var annað lifi- brauð að hafa en að fara til sjós þótt hugur stefndi til annars. Vinur sem hverfur yfir móðuna miklu verður ekki kvaddur án tára, hins vegar verður Kristján ekki kvaddur án þess að um leið og tárin eru þerruð færist bros minninganna yfir varir því slíkur gleðigjafi var hann alla tíð. Já sögurnar hans Krist- jáns voru einstakar og fullar af kímni því hann átti auðvelt með að sjá spaugilegu hliðarnar á lífinu og færa í söguform. Ef orð ekki dugðu til brá hann gjarnan á leik með húfuna sína og var hrókur alls fagnaðar. Þannig var Kristján en bak við kímnina var alvarlegur guðhræddur og heiðar- legur maður sem mátti hvergi aumt sjá. Störf hans að líknarmálum og pólitík voru fórnfús og gefandi. Minnisstæð er þátttaka hans í stjórn Þroskahjálpar og frumkvæði að upp- byggingu Bræðratungu, sem varð vistheimili fyrir þroskahefta á Vest- fjörðum. Það voru ófáar sjóferðirnar sem hann reri með Guðnýjuna á gömlu miðin sín og kom að landi með úrvinda Lions-félaga og vænlegan afla til að leggja í uppbyggingu Bræðratungu. Það verður ekki skilið við minningu Kristjáns án þess að geta efnahagslegrar nægjusemi hans og iðkun kristilegs siðferðis. Það voru forréttindi að kynnast honum og eiga samleið. Sæmundur, Svanur og fjölskylda, María og börnin mín, Eyjólfur Vest- mann, Kristján Snorri og Inga Kar- en, megið þið sækja styrk í söknuði og njóta gleði í minningum. Ingólfur Vestmann Ingólfsson. Ég vil með fáum orðum minnast Kristjáns Jónssonar eða Stjána eins hann var alltaf kallaður í minni fjöl- skyldu. Á mínum uppvaxtarárum á Ísafirði var kunningsskapur góður milli fjölskyldu okkar og Stjána og Ingu. Stjáni var afskaplega skemmti- legur maður, léttur í lund, sem lét spaugsyrðin oft fjúka en þó aldrei á kostnað annarra. Honum varð oft tíð- rætt um menn og málefni því í hans starfi á Fagranesinu hitti hann marga og upplifði eflaust margt skemmtilegt sem á vegi hans varð. Eftir að faðir minn varð ekkjumaður og ég fór vestur í heimsóknir þá brást það ekki að Stjáni datt inn í heimsókn og upphófust þá mikil hlátrasköll, þegar Stjáni lét móðan mása og eins og alltaf var þetta á létt- um nótum. Á afliðnu hausti heimsótti ég Stjána á Hrafnistu í Hafnarfirði. Það var augjóst að heilsu hans hafði hrak- að. Hann talaði mikið um árin á Ísa- firði, einnig varð honum tíðrætt um Ingu sína sem hann talaði um af mik- illi hlýju, en einnig með söknuði. Ég vil að leiðarlokum þakka Stjána góð kynni og tryggð þá sem hann hefur ávallt sýnt fjölskyldu minni. Stefanía Finnbogadóttir. Það er laugardagur- inn 28. september og ég er stödd í Prag. Yndislegur dagur og við hjónin förum í okkar eigin skoð- unarferð. Göngum meðal annars í gegnum stóran almenningsgarð. Ég er alveg heilluð af öllum þessum stóru trjám með þykka stofninn, og segi við manninn minn að svona tré eigum við ekki á Íslandi. Seinna þennan sama dag fæ ég fréttir að heiman, hann Nonni á Bakka er sofnaður svefninum langa. Mig setur hljóða. Hugurinn fer á flug. Ég var 14 ára þegar systir mín Olga, kynnt- ist Bjarna sínum, einum af bræðr- unum á Bakka. Frá þeim tíma hef ég átt svolítið í „Bakkasveitinni“,og margar góðar minningar svo sem alla útreiðartúrana, heyskapinn, veiðiferð fram á heiði svo ekki sé nú minnst á réttirnar! Þar sem ég sit þarna á hótelher- berginu í Prag, fer hugurinn í fagra sveit norður á Íslandi, Vatnsdalinn, og þá rennur upp fyrir mér þetta með stóru trén, eikina. Auðvitað eru margar eikur á Íslandi og nú var enn JÓN BJARNASON ✝ Jón Bjarnasonfæddist í Skóla- húsi Sveinsstaða- hrepps, A-Hún., 18. nóvember 1925. Hann lést á Heil- brigðisstofnuninni á Blönduósi hinn 28. september síðastlið- inn og var útför hans gerð frá Blönduós- kirkju 5. október. ein eikin horfin úr mínu lífi. Nonni var vinur vina sinna, traustur, tryggur og góðhjartaður. Og í gegnum árin hafa margir getað leitað á Bakka í hlýju, skilning og skjól. Hann var svo heppinn að hreppa eina heimasætuna úr daln- um, og hafa þau verið samstíga í rúm 50 ár. Nú hin síðari ár hófust þau heiðurshjón á Bakka handa við að rækta skóg, það er táknrænt fyrir þau að auðga og fegra dalinn sinn. Nonni var mikill dýra- og náttúruunnandi en hann barst ekki á í orðum, en verkin hans töluðu sínu máli. En eikin hans Nonna sú sem allan sinn aldur hefur staðið í Vatnsdalnum, vaxið, dafnað, blómgast og borið ávöxt er nú fallin, en rætur hennar eru um allt land í formi minninga sem allir þeir fjöl- mörgu sem hann þekktu munu geyma í hjörtum sér um ókomin ár. Þetta var fallegur haustdagur í Prag. En ekki var hann síðri viku seinna norður í Húnavatnssýslu þeg- ar Nonni á Bakka var til moldar bor- inn. Meira segja móðir náttúra vott- aði þessum aldna vini sínum virðingu og skartaði sínu fegursta. Elsku Didda mín, Lalli, Bjarni, Kobbi, Svenni, Jonni og fjölskyldur. Þið eruð greinarnar á stóra trénu, megið þið blómstra og bera ávöxt. Að liðnum vetri kemur aftur vor. Kristín Erna Jónsdóttir. Minningargreinum þarf að fylgja formáli með upplýsing- um um hvar og hvenær sá sem fjallað er um er fæddur, hvar og hvenær dáinn, um foreldra hans, systkini, maka og börn og loks hvaðan útförin verður gerð og klukkan hvað. Ætlast er til að þetta komi aðeins fram í for- málanum, sem er feitletraður, en ekki í greinunum sjálfum. Formáli minningar- greina

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.