Morgunblaðið - 02.11.2002, Síða 28
HÖFUÐBORGARSVÆÐIÐ
28 LAUGARDAGUR 2. NÓVEMBER 2002 MORGUNBLAÐIÐ
ÞAÐ er ekki annað að sjá en að
ró hafi færst yfir skólastarfið í
Klébergsskóla. Í kennslustofum í
eldri byggingu skólans sitja
yngstu krakkarnir niðursokknir í
verkefni og í nýju byggingunni.
Þar sem skrifstofur skólans eru
nú til húsa, er angandi vöffluilm-
ur yfir öllu. Enda er ástæða til
því verið er að halda upp á að
hönnuðir skólans, teiknistofan
arkitektur.is, hlutu á dögunum al-
þjóðleg verðlaun fyrir hönnun
byggingarinnar.
Verðlaunin nefnast Merit
Awards en það er bandaríska vef-
tímaritið Design Share sem veitir
þau. Tímaritið sérhæfir sig í um-
fjöllun um skólabyggingar en í
umsögn dómnefndar kemur fram
að skólinn þyki einstaklega vel
hannaður til að mæta kennslu-
fræði- og samfélagslegum kröfum
nútímans.
Yfir kaffibolla og gómsætum
vöfflum segja arkitektarnir Guð-
mundur Gunnarsson og Haraldur
Örn Jónsson og skólastjórinn Sig-
þór Magnússon frá nýju bygging-
unni og því þróunarstarfi sem
henni er ætlað að hýsa. En fyrsta
spurningin lýtur þó að því hvern-
ig framkvæmdum hafi miðað frá
því í haust þegar fresta varð
skólabyrjun þar sem byggingin
var langt frá því hæf til þess að
hýsa skólastarf.
„Það kom nýr verktaki að mál-
inu um það leyti sem skólinn var
að hefjast og hann hefur verið að
reyna að kippa þessu í liðinn,“
segir Sigþór. „Nú er þetta komið
á rétt ról og við getum verið mjög
bjartsýn á að skólanum verði lok-
ið að mestu leyti næsta haust. Það
eina sem gæti hindrað það eru
fjárveitingar.“
Ánægð með hvað skólastarfið
bjargaðist vel í haust
Þegar er búið að taka stjórn-
unarálmuna í notkun og tengi-
gangur milli nýju byggingarinnar
og þeirrar eldri er langt kominn.
„Nú erum við að verða nokkuð
sátt en fyrst og fremst erum við
ánægð með hvað skólastarfið
bjargaðist vel í gegnum þessar
hremmingar. Það var mikill kraft-
ur í kennurunum og við vorum
mjög ánægð með samskiptin við
foreldrana sem voru okkur innan
handar í þessu öllu saman.“
Sigþór segist þó ekki síst
ánægður með samskiptin við arki-
tektana sem hafa unnið með
skólastjórnendum um þróun bygg-
ingarinnar og Guðmundur segir
svolítið frá verðlaununum. „Þetta
er viðurkenning fyrir hönnun
þessa skóla og þeirra nýjunga
sem koma fram í formi hans.
Meðal annars er það þessi sýn að
nota skólann sem hluta af sam-
félagsmiðstöð fyrir íbúana utan
skólatíma þannig að það nýtist
mjög vel. Þetta verður eins konar
félagsheimili fyrir íbúana hérna
og ég get nefnt að bókasafnið fyr-
ir svæðið verður hér í húsinu.“
Sigþór bendir á að samnýtingin
nái einnig til annarra hluta skól-
ans eins og smíðastofu, tölvustofu
og annarra sérgreinastofa. „Við
höfum möguleika á að nýta hús-
næðið undir námskeið fyrir
íbúana, þannig að þetta verði
menntamiðstöð en ekki bara
grunnskóli.“
Áhugi á íslenskum
skólabyggingum erlendis
Guðmundur segir alltaf gaman
að fá viðurkenningu fyrir það sem
vel er gert. „Það sýnir kannski að
Reykjavíkurborg er að reisa góða
skóla og við hér heima erum ekki
aftarlega heldur framarlega í
skólabyggingum þannig að menn
eru jafnvel farnir að líta hingað.
Það var bara í síðustu viku sem
var haft samband við okkur út af
öðrum skóla sem við höfum líka
verið að gera, Húsaskóla, og
beðnir um að senda upplýsingar
um hann til Skotlands. Þannig að
það er nokkur áhugi á þeim
skólabyggingum sem við erum að
hanna hér heima.“ Þá segir hann
verðlaunin vissulega auka kynn-
ingu stofunnar á erlendri grund.
Byggingin tengist einnig
breyttum kennsluháttum í skól-
anum. „Við höfum verið að þróa
skólastarfið, bæði með kennslu
þvert á árganga og með meira
einstaklingsmiðuðu námi,“ segir
Sigþór. „Það er ekki hægt að
stíga þessi skref nema maður hafi
skólabyggingu sem er hönnuð fyr-
ir það.“
Hann útskýrir þetta nánar. „Ef
þú ferð upp á loft og skoðar
skólastofurnar sem verða næsta
vetur í 8., 9. og 10. bekk þá eru
engir veggir þar á milli. Þar
verða þrír árgangar á sama svæði
en síðan er það okkar að ákveða
hvernig við skiptum þeim upp en
við notum létt skilrúm til þess.“
Hann segir að þessi skipting verði
ekki endilega milli bekkja heldur
verði jafn líklegt að skiptingin
verði milli stelpna og stráka eða á
einhvern annan hátt.
Haraldur segir þetta ekki ósvip-
að eins og á nútímaskrifstofu þar
sem hurðir skilja vinnufélaga ekki
að. „Þetta verður opið svæði þar
sem þú hefur þitt vinnusvæði og
svo fylgist kennarinn bara með.“
Fjórir árgangar
í senn
Þetta verður þó ekki í fyrsta
sinn sem slík árgangablöndun
verður viðhöfð í skólanum. „Við
erum búin að vera að undirbúa
þessar breytingar í sex ár,“ segir
Sigþór. „Við byrjuðum með
yngstu krakkana og 1., 2., 3. og 4.
bekkir eru orðnir mjög þjálfaðir í
því að vinna saman, jafnvel fjórir
árgangar í senn. Það er grund-
völlurinn fyrir því að þau geti síð-
ar verið á svona svæði þar sem
þau verða stundum að vinna sam-
an og stundum í hópum.“ Hann
segir þetta einnig hafa verið inn-
leitt á miðstiginu og næsta haust
sé ráðgert að allir árangar verði
komnir inn í þetta kerfi.
Þá segir Sigþór að skólinn sé
að tileinka sér fjölgreindarkenn-
inguna svokölluðu, sem gerir ráð
fyrir að hver nemandi búi yfir
margs konar greind á mismun-
andi sviðum sem reynt er að láta
njóta sín í náminu. Þannig fái þeir
sem eru duglegir að rata að tak-
ast á við námið út frá þeim hæfi-
leika og svo mætti lengi telja.
„Það má segja að þetta sé fyrsti
skólinn þar sem farið er inn á
þessar nýju brautir sem Fræðslu-
miðstöð er að reyna að fá fólk til
að vinna eftir,“ útskýrir Har-
aldur. „Smám saman er opnað á
milli kennslustofanna þannig að
þessi lokaða kennslustofu-
hugmynd detti upp fyrir á end-
anum.“
Arkitektar Klébergsskóla hljóta bandarísk hönnunarverðlaun fyrir hönnun skólans
„Menntamiðstöð en
ekki bara grunnskóli“
Kjalarnes
Morgunblaðið/Þorkell
Sigþór Magnússon skólastjóri og arkitektarnir Guðmundur Gunnarsson og
Haraldur Örn Jónsson hjá arkitektur.is fyrir framan skólabygginguna.
Morgunblaðið/Þorkell
Yngstu árgangarnir í skólanum hafa vanist því að vinna saman þvert á ald-
ur og þessar hnátur eru niðursokknar í spennandi verkefni.
Þegar gengið er inn í Klébergsskóla í
dag blasir við önnur sjón en í skólabyrjun
þegar allt var á tjá og tundri vegna fram-
kvæmda við skólann. Bergþóra Njála
Guðmundsdóttir kíkti í heimsókn og
komst að því að skólabyggingin mun
einnig þjóna íbúum Kjalarness
sem eins konar félagsheimili.
BÆJARRÁÐ Kópavogs hefur
ákveðið að auglýsa til úthlutunar lóð-
ir í seinni áfanga norðursvæðis
Vatnsenda en mikil eftirspurn var
eftir lóðum í fyrri áfanganum. Út-
hlutun þeirra lóða var ákveðin á
fundi ráðsins á fimmtudag.
Alls var úthlutað lóðum fyrir rúm-
lega 220 íbúðir í fyrri áfanganum en
þar af eru um 180 í fjölbýli. Lóðirnar
voru auglýstar þann 22. september
síðastliðinn og var umsóknarfrestur
til 9. október. Að sögn Birgis Sig-
urðssonar skipulagsstjóra var gríð-
arleg eftirspurn eftir þessum lóðum.
„Það fóru milli sjö og áttahundruð
umsóknareyðublöð frá okkur og við
fengum á þriðja hundruð umsóknir.
Það er eitthvað sem við höfum ekki
séð fyrr, þó að áður hafi verið mikið
um umsóknir. Í þetta sinn keyrði um
þverbak og kerfið hjá okkur hrein-
lega stíflaðist.“
Möguleiki á hesthúsum
Birgir segir mikið hafa verið um
umsóknir frá einstaklingum. „Ég er
ekki í nokkrum vafa um að öll sú um-
ræða sem hefur átt sér stað um
Vatnsendann hefur orðið til þess að
fólk hefur áttað sig á hversu mikill
dýrðarstaður þetta er.“
Að sögn Birgis varð þessi mikla
eftirspurn til þess að ákveðið var í
bæjarráði á fimmtudag að auglýsa
lóðir í seinni hluta norðursvæðisins
til úthlutunar, væntanlega í næstu
viku. „Þar erum við með um 220
íbúðir, þar af um 150 í fjölbýli og síð-
an er restin í raðhúsum, parhúsum
og tvíbýli.“
Hann segir að á hluta þeirra lóða
verði hægt að byggja hesthús en svo
var einnig um nokkrar einbýlishúsa-
lóðir í fyrri áfanganum. „Þó ég sé
sjálfur hestamaður kom mér veru-
lega á óvart hvað ásóknin er mikil í
þennan möguleika.“ Hann bendir þó
á að hverfið sé þekkt hesthúsasvæði
og að reiðleiðir frá því séu góðar.
Þá voru verklagsreglur vegna
lóðaúthlutana ræddar í bæjarráði en
að sögn Birgis kveða þær meðal ann-
ars á um að lóðarumsækjandi þarf
ekki að vera búsettur í Kópavogi til
að fá lóð. „Það eru engin landamæri
heldur skiptir fyrst og fremst máli að
viðkomandi geti sýnt fram á að hann
hafi fjárhagslegt bolmagn til að
byggja. Það er grunnurinn.“
Nýjar lóðir aug-
lýstar í næstu viku
Vatnsendi
STJÓRN Höfuðborgarsamtakanna
hefur farið fram á það við Flug-
málastjórn að hún geri opinberlega
grein fyrir kostnaði við byggingu
flugvallar í Vatnsmýri á árunum
1999 – 2002. Þá er óskað eftir skýr-
ingum á því hvers vegna byggingu
NA-brautar var flýtt. Flugmála-
stjóri segir sjálfsagt að opinbera
kostnað við verkið þegar uppgjöri
er lokið.
Í bréfi samtakanna er sérstak-
lega óskað eftir skýringum á til-
drögum þess að framkvæmdum við
NS-brautina var flýtt um eitt ár að-
eins þremur vikum eftir almenna
atkvæðagreiðslu um framtíð Vatns-
mýrarinnar. Eins er óskað eftir út-
skýringum á áhrifum flýtingarinnar
á fjármálasamskipti og verksamn-
ing Flugmálastjórnar og Ístaks,
sem var verktaki við framkvæmd-
irnar. Þá er beðið um upplýsingar
um fjármögnun og kostnað við flýt-
inguna.
Að sögn Þorgeirs Pálssonar flug-
málastjóra er eðlilegt og sjálfsagt
að gera grein fyrir kostnaði við
verkið. „Það liggur í hlutarins eðli
að þetta verk verður tekið út mjög
vandlega og yfirfarið af öllum þar
til bærum yfirvöldum. Hins vegar
er varla búið að klára uppgjör á
verkinu ennþá.“
Segir atkvæðagreiðsluna
ekki hafa haft áhrif
Hann segir að verkið hafi allt
verið unnið á þremur árum eins og
upphaflega var áætlað. „Það er rétt
að við hefðum unnið þetta meira á
árinu 2002 en raunin varð því flýt-
ingin fólst í því að ákveðnir verk-
þættir voru fluttir fram til ársins
2001 frá árinu 2002. Það þýddi að
þessi flugbraut komst í notkun í
heilu lagi í stað þess að því væri
skipt í tvo áfanga sem hefði bæði
haft óþægindi og kostnað í för með
sér.“
Hann vísar því á bug að atkvæða-
greiðslan um framtíð Vatnsmýrar-
innar hafi haft einhver áhrif á þessa
ákvörðun. „Hér hafa menn verið
fyrst og fremst að hugsa um flug-
öryggi og að þessi flugvöllur stæð-
ist þær kröfur sem eru gerðar til
slíkra mannvirkja. Atkvæðagreiðsl-
an var ekki einu sinni í okkar huga
og skipti ekki nokkru máli í þessu
sambandi. Reyndar vildum við upp-
haflega klára þetta verk á tveimur
árum og það voru ekki síst verktak-
arnir sem höfðu áhuga á því þar
sem það liggur ákveðinn kostnaður
í því að vera með aðstöðu hand-
bæra í þetta langan tíma.“
Stjórn Höfuðborgarsamtakanna óskar eftir skýringum
vegna framkvæmda við NS-braut Reykjavíkurflugvallar
Flugmálastjóri segir
flugöryggi ástæðuna
Vatnsmýri