Morgunblaðið - 13.02.2003, Qupperneq 15

Morgunblaðið - 13.02.2003, Qupperneq 15
ERLENT MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 13. FEBRÚAR 2003 15 MYNDIR þú ganga svo langt að segja að atburðir á vettvangi Atl- antshafsbandalagsins (NATO) í þessari viku marki upphaf enda- loka sambandsins yfir Atlantsála? „Nei. Ég tel engu að síður að samskiptin séu í uppnámi og það al- varlegu. Við verðum að horfast í augu við þá staðreynd. Hins vegar hefur þetta samband oft áður verið talið af en síðan hefur komið á dag- inn að blása hefur mátt lífi í það að nýju, með þeim afleiðingum að það styrktist. Og ég tel að þegar öll kurl eru komin til grafar í Írak, hvernig svo sem fer, muni reynast nauðsyn- legt að eiga hreinskilnislegar um- ræður um það hvað fór úrskeiðis, hverjum sé um að kenna og hvernig berja megi í brestina,“ segir Ronald Asmus, sem nú vinnur að rann- sóknum hjá Council on Foreign Relations en var áður staðgengill varautanríkisráðherra Bandaríkj- anna. En hvað sem líður fyrri uppá- komum; er ekki einsdæmi að undir liggi framtíð allra helstu al- þjóðastofnana, NATO, Sameinuðu þjóðanna og Evrópusambandsins? „Við þurfum að forðast þann harmleik sem fælist í því að mitt í þeirri viðleitni að bregðast við hættunni, sem stafar af Saddam Hussein, tækist okkur óvart að skaða þessar stofnanir, að ekki sé talað um eyðileggja þær. Það myndi þýða að bæði evrópskum og banda- rískum ráðamönnum hefði orðið verulega á í messunni. Ég held hins vegar ekki að til þessa muni koma. Sé maður heið- arlegur leikur þó enginn vafi á að allar þessar lykilstofnanir hafa beð- ið skaða af þessu uppnámi. Skortur á samstöðu meðal Vesturveldanna sendir þannig röng skilaboð til Saddams Husseins. Ef þú værir að taka viðtal við Saddam Hussein núna, en ekki mig, myndi hann sjálfsagt meta hlutina svo og draga þá ályktun að Vesturveldin séu svo sundruð í afstöðu sinni að þau muni ekki geta beitt sér gegn honum.“ Asmus er demókrati og hætti því störfum í utanríkisráðuneytinu þegar George W. Bush tók við völd- um í Bandaríkjunum, eins og venja er um æðstu embættismenn ráðu- neytanna. Hann segir að umræðan um það, hvað gera eigi í málefnum Íraks, sé í öllum megindráttum lok- ið í Bandaríkjunum. „Eftir ræðu Colins Powells í öryggisráðinu [í síðustu viku] höfum við, sem telj- umst til efasemdarmanna um Bush- stjórnina, snúið bökum saman með stjórnarsinnum,“ segir Asmus. Hann segir vissulega marga hafa vantrú á Bush Bandaríkjaforseta, og margir hafa efa- semdir um stefnu for- setans í Íraksmálum. Menn hafi hins vegar skrifað upp á ályktun öryggisráðsins nr. 1441 og allir hafi skilið hvað í því fólst. Colin Powell hafi sýnt fram á að Saddam Hussein sé brotlegur við efni ályktunarinnar og því þurfi að grípa til við- eigandi ráðstafana, í samræmi við það sem í ályktuninni segði. „Það kom mér á óvart hversu lítil áhrif ræða hans hafði í Evr- ópu. Spurningin sem blasir við er sú hvort menn hafi áttað sig á því hvað þeir voru að skrifa upp á er þeir samþykktu ályktun nr. 1441,“ segir Asmus. Hann er spurður um ummæli Donalds Rumsfelds, varnarmála- ráðherra Bandaríkjanna, um „gömlu“ Evrópu, þ.e. Þýskaland og Frakkland, sem mörgum þóttu afar ögrandi. Hann tekur undir að þau hafi verið vafasöm. „Bandaríkin geta ekki átt gagn- leg samskipti við Evrópu ef Evrópa er klofin í herðar niður milli þessa gamla og þess nýja, eða yfirhöfuð klofin á nokkurn hátt. Atburðir undanfarinna vikna hafa sýnt að samskiptin yfir Atlantshafið og samrunaferlið í Evrópu eru tengd innbyrðis. Ef samstarf Evrópu og Bandaríkjanna gengur illa hefur það neikvæð áhrif á samskipti Evr- ópuþjóðanna innbyrðis. Bandaríkin þurfa á sterkri Evrópu að halda, ekki veikri. Sundruð Evrópa er okkur ekki hagstæð. Auðvitað get- um við af og til beðið aðrar Evr- ópuþjóðir að standa uppi í hárinu á Frakklandi og Þýskalandi, en við getum ekki gert það á hverjum degi. Það þjónar ekki hagsmunum Bandaríkjanna.“ Asmus segir mest um vert eins og staðan er núna að leysa þann hnút, sem nú blasir við. „Ég held að í næstu viku munir þú sjá nýja við- leitni [af hálfu Banda- ríkjanna] til að bæta samskiptin við Frakk- land og Þýskaland og Rússland – líklega þá síðustu því ég tel endataflið í Íraksmál- unum nú hafið – þann- ig að reynt verði að finna sameiginlegan flöt á málinu, svo hægt sé að stíga næsta skref. Ég er sjálfur sann- færður um að þessi forseti [Bush] ætlar sér að stíga næsta skrefið; ef nauðsyn krefur með stuðningi aðeins fárra þjóða.“ Þýðir þetta að hann ræðst gegn Írak jafnvel þó að neitunvaldi verði beitt á vettvangi Sameinuðu þjóð- anna gegn ályktun er heimili hern- aðaríhlutun? „Að beita neitunarvaldi í örygg- isráðinu er afdrifarík ákvörðun. Slíkt tel ég þjóðir ekki eiga að gera nema grundvallarhagsmunir þeirra séu sannarlega að veði. Ég tel að ef Frakkar beittu neitunarvaldi myndi það hafa önnur áhrif en þeir stefna að. Beiti þeir neitunarvaldi hefði það nefnilega afar slæm áhrif á áhrif og völd Sameinuðu þjóðanna, og þá er að huga að því að fastasæti í öryggisráðinu er ein helsta trygg- ing Frakka fyrir því að þeir hafi áhrif í alþjóðamálum. Ég tel ekki heldur að Vladímír Pútín [Rússlandsforseti] muni, þeg- ar dagur er að kveldi kominn, raun- verulega vilja beita sér þannig gegn George W. Bush. Til þessa gæti þó vissulega kom- ið. Það kemur í ljós í næstu viku. Ég held að einmitt núna séum við að horfa upp á Þjóðverja, Frakka og Rússa senda merki um að eitthvað meira þurfi að koma til áður en þeir geti hugsað sér að gefa Bandaríkj- unum grænt ljós, sem líklega gerð- ist með því að þeir sætu hjá við af- greiðslu í öryggisráðinu. Hugsanlegt er þó að sundrungin sé í reynd svo mikil að ekki verði gengið til atkvæða um þetta mál; að engin ný ályktun verði lögð fram í öryggisráðinu. Staðreyndin er sú að það hefði mun alvarlegri afleið- ingar fyrir Sameinuðu þjóðirnar ef lögð væri fram ályktun, sem ein- hver myndi síðan beita neit- unarvaldi gegn, heldur en ef menn einfaldlega verða sammála um að vera ósammála í Íraksmálunum.“ Til hvers er NATO? Í nóvember sl. sendi Asmus frá sér bókina Opening NATO’s Doors en þar fjallar hann um stækkun bandalagsins. Hann segir það afar slæmt mál að nú skuli sú staða kom- in upp að aðildarríki NATO geti ekki orðið sammála um svo smá- vægilegan hlut eins og þann að hefja áætlanagerð vegna varna Tyrklands. Þetta gefi mönnum ekki tilefni til að trúa því að hægt sé að treysta NATO til annarra verka. „Spurningin hefur lengi verið þessi: til hvers er NATO? Hvert er hlut- verk NATO í nýjum heimi, þegar kommúnismi er farinn veg allrar veraldar og lýðræði, friður og ör- yggi ríkir í Evrópu? Hjá NATO hafa menn reyndar sagt að bandalagið verði að undirbúa sig þannig að það geti tekið á öðrum ógnum, annars staðar í veröldinni. Í Bandaríkj- unum notumst við hins vegar oft við þá reglu að menn fái tvö tækifæri, bregðist þeir í þriðja sinn séu þeir úr leik. Staðreyndin er sú að NATO hef- ur nú brugðist tvisvar. Reynt var að gera umbætur á bandalaginu í kringum 50 ára afmæli þess 1999 en Evrópumenn reyndust ekki reiðu- búnir þá. Síðan skellur 11. sept- ember 2001 yfir. Evrópumennirnir lýsa því þá yfir að þeir séu tilbúnir að heyja stríð með Bandaríkjunum en þá segir Bandaríkjastjórn: við þurfum ekki á ykkur að halda! Þar féll NATO enn á prófinu sem snýst um að breyta bandalaginu þannig að það þjóni tilgangi í nýjum heimi. Íraksdeilan er þriðja prófraunin og ef NATO bregst að þessu sinni hlýtur maður að velta fyrir sér hvort kanslari Þýskalands eða for- seti Bandaríkjanna muni í framtíð- inni, þegar vandi steðjar að, nokkuð hafa áhuga á að snúa sér til NATO. Munu menn ekki segja: NATO hef- ur brugðist þrisvar sinnum, við þurfum að leita annarra leiða? Æxlist hlutir svona felst í því mikill harmleikur. Það er því rétt að gera sér alveg grein fyrir því að það er mikið í húfi einmitt núna,“ sagði Ronald Asmus. david@mbl.is Ronald D. Asmus „Sambandið hefur beðið skaða“ Ronald Asmus stýrði Evrópudeild bandaríska utanríkisráðuneytisins í forsetatíð Bills Clintons og hann er sérfróður um málefni NATO. Davíð Logi Sigurðsson ræddi við hann um kreppuna í samskiptum Bandaríkjanna og Evrópu.

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.