Morgunblaðið - 15.03.2003, Side 38

Morgunblaðið - 15.03.2003, Side 38
UMRÆÐAN 38 LAUGARDAGUR 15. MARS 2003 MORGUNBLAÐIÐ Í KJÖLFAR viðtals við Jóhann Ágúst Sigurðsson, prófessor í heimilislækningum, sem birtist í Morgunblaðinu 13. október síðast- liðinn hófust miklar umræður um sjúkdómsvæðingu en í viðtalinu hélt Jóhann því fram að verið væri að búa til sjúklinga og sjúkdóma. Og að slíkt hefði kostnað í för með sér fyrir heilbrigðiskerfið og væri að hluta til skýringin á því hversu mikið heilbrigðiskerfið þendist út. Í DV (18. janúar 2003) er svo annað viðtal við Jóhann þar sem rætt er um þá gríðarlegu aukningu sem átt hefur sér stað í notkun geðlyfja á Íslandi á síðustu árum og því haldið fram að samfélagið, eins og það er í dag, framleiði sjúklinga sem þjáist af kvíðaröskunum. Neysla geðlyfja á Íslandi í samanburði við Norðurlöndin Þegar litið er til Norðurlandanna kemur í ljós að Íslendingar eiga Norðurlandametið í neyslu geð- lyfja. Árið 2001 voru þannig seldir tæplega 80 dagsskammtar á hverja 1.000 íbúa á Íslandi sem er tvöfalt meira en í Danmörku og Finnlandi. Í Noregi er salan um 45 dags- skammtar á hverja 1.000 íbúa. Sví- ar, sem eru næsthæstir í þessu til- liti með um 55 DDD/1.000 íbúa, komast ekki með tærnar þar sem við erum með hælana. Neysla þess- ara lyfja hefur aukist hratt frá því að þau voru fyrst sett á markað árið 1988 og hefur nú meira en tífaldast frá því sem þá var. Kostnaðurinn samfara allri þessari neyslu á geð- lyfjum er gríðarlegur og fer vax- andi. Þannig var kostnaðurinn rúmar 100 milljónir árið 1989 og var kominn í um 800 milljónir króna árið 1999. Síðasta ár slær allt út, en þá voru geðlyf seld fyrir 1,3 milljarða. Ljóst er að sprenging hefur orðið í notkun geðlyfja, sem er kannski ekki svo skrítið í ljósi þess að rann- sóknum víðs vegar að hefur borið vel saman um að þunglyndi sé van- meðhöndlað og þess vegna gleðiefni að fleiri sem á þurfi að halda njóti nú þeirra úrræða sem til eru. Al- þjóðaheilbrigðisstofnunin telur þunglyndi vera vaxandi vandamál og því ekki útlit fyrir að draga fari úr notkun geðlyfja fyrr en menn reyni fleiri aðferðir til þess að stemma stigu við vandanum. Þunglyndi og kvíði oft samfélagslegt vandamál Í viðtalinu í DV bendir Jóhann á að nær sé að ráðast að rótum vand- ans en að skrifa upp á lyf án þess að fara í saumana á hvað liggur að baki. Þannig tekur hann sem dæmi að í mörgum tilfellum leiði kynferð- isleg misnotkun og einelti til þung- lyndis og/eða kvíða. Önnur atriði ekki síður mikilvæg eru misnotkun á áfengi og öðrum vímuefnum en sýnt hefur verið fram á tengsl milli neyslu og þunglyndis og kvíða. Þá er talið að mikil og langvarandi streita geti einnig lagt lóð á vog- arskálarnar. Þunglyndi helst í hendur við fjölda erfiðra atburða og áfalla á lífsleiðinni (e. negative life events) en dæmi um það geta verið ofangreind atriði auk fjölda ann- arra. Einnig er mikilvægt að hafa í huga að geðsjúkdómar á borð við þunglyndi og kvíða geta verið ætt- gengir og orsakanna því ekki að leyta í ytri aðstæðum. Má ekki gera forvarnarstarf tortryggilegt Í viðtalinu í Morgunblaðinu 13. október sl. segir Jóhann og vitnar þar í British Medical Journal: „Að- ferðin við að búa til og selja sjúk- dóma er alltaf sú sama. Fjölmiðlum eru sendar upplýsingar um ástand eða sjúkdóm, sem áður hefur verið ómeðhöndlaður eða lítill gaumur gefinn. Gefið er í skyn að um sé að ræða algengt og alvarlegt ástand sem hægt sé að meðhöndla. Algengi þessa ástands er magnað upp og reynt að búa til þörf sem ekki var til staðar áður þar sem markmiðið er að skapa ótta almennings. Jafn- framt er bent á nýjustu meðferðina og nýjustu tækin til greiningar.“ Hægt er að taka undir með Jóhanni um nauðsyn þess að fjölmiðlar, stjórnmálamenn og aðrir vegi og meti þær upplýsingar sem fyrir þá eru á borð bornar. Hins vegar má ekki gleymast í þessari umræðu að forvarnar- og fræðslustarf á að gegna mikilvægu hlutverki í heil- brigðiskerfinu, því nauðsynlegt er að almenningur sé vel upplýstur um helstu einkenni og afleiðingar sjúkdóma eins og þunglyndi. Enda er fólk líklegra til þess að leita sér aðstoðar ef það býr yfir slíkri vitn- eskju og fá þar með greiningu og meðhöndlun við hæfi. Það má líka vel vera að ein af ástæðum þess hve kostnaðarsamt heilbrigðiskerfið er sé sú að sjúklingar komist of seint undir læknishendur og meðferð því torsóttari og batahorfur verri. Sjúkdómsvæðing og stór- aukin notkun geðlyfja Eftir Tinnu Traustadóttur „Þunglyndi helst í hend- ur við fjölda erfiðra at- burða og áfalla á lífsleiðinni …“ Höfundur er lyfjafræðingur og stjórnarmaður í SUS. „MIG langar bara að eiga mömmu sem elskar mig.“ Þetta eru orð ungr- ar stúlku sem er háð fíkniefnum eða var það a.m.k. þegar þessi orð voru sögð fyrir um ári síðan. Stúlkan gerði sér hins vegar ekki grein fyrir því að hún átti mömmu sem elskaði hana og mömmu sem hafði átt fjöl- margar andvökunætur og mömmu sem gerði allt sem hún gat til þess að reyna að hjálpa dóttur sinni sem var bara því miður svo ofurseld fíkninni að hún vildi ekki hlusta eða taka mark á mömmu. Þegar málin eru skoðuð kemur því miður í ljós að vítt og breitt um land- ið er fjöldi foreldra sem glímir við fíkn barna sinna. Fíkniefnaneyslu sem byrjaði e.t.v. í litlum mæli, en af því að fíkillinn getur oft leynt neysl- unni lengi fyrir sínum nánustu þá er mikill skaði skeður loks þegar brugðist er við neyslunni. Foreldrar þurfa stöðugt að vera á varðbergi, erfitt er að segja til um hvaða unglingar verða fyrir barðinu á fíkninni. Unglingar sem stunda íþróttir og/eða taka þátt í öðru skipu- lögðu félagsstarfi eru taldir vera bet- ur varðir fyrir freistingunum. En því miður sýna dæmi að íþróttaungling- urinn getur líka fallið fyrir freisting- unni eins og hver annar unglingur. Hvað get ég gert og hvert get ég leitað aðstoðar eru spurningar sem margir foreldrar spyrja sig þegar vágesturinn hefur bankað upp á eða þegar grunur vaknar um að eitt- hverjar breytingar séu að eiga sér stað hjá unglingnum. Margar leiðir eru færar og margir fagaðilar eru til þess að veita ráð. Til að koma á framfæri upplýsingum um hvernig bregðast skuli við og hvert hægt sé að leita, mun Ungmenna- félag Íslands og Kammerkór Reykjavíkur í samstarfi við Lögregl- una í Reykjavík standa fyrir útgáfu á bæklingi þar sem lögð verður áhersla á að fræða foreldra um fyrstu einkenni og rétt viðbrögð við vímuefnanotkun unglinga. Í þessu tilefni verða glæsilegir styrktartónleikar haldnir nú á næst- unni: Þann 20. mars kl. 20.00 verða tónleikar í Ólafsvík, á Ísafirði, á Ak- ureyri, á Egilsstöðum og á Selfossi. Laugardaginn 22. mars kl. 17.00 verða tónleikar í Hallgrímskirkju í Reykjavík. Fíkn er fjötur Eftir Önnu R. Möller Höfundur er stjórnarmaður UMFÍ . „Margar leiðir eru færar og margir fag- aðilar eru til þess að veita ráð.“ EITT af frægustu leikritum tutt- ugustu aldar var samið í Vínarborg um aldamótin 1900. Höfundur þess hét Arthur Schnitzler og var geð- læknir. Leikritið hefur löngum ver- ið talið húðstrýking á yfirstéttinni í Vín um daga Schnitzlers fyrir úr- kynjun hennar og yfirdrepsskap. Það samanstendur ekki af öðru en tíu tveggja manna tölum, karls og konu hverju sinni. Hver af tíu per- sónum leiksins á aðild að tveimur slíkum fundum. Framan af hverj- um fundi er afar dátt með þeim tveimur sem talast við. Þá eru ljós- in slökkt og leikhúsgestir sitja í myrkri litla stund. Þegar ljósin kvikna aftur eru dáleikarnir orðnir að fáleikum. Þess ber að geta að í fyrsta atriði leiksins er það ekki yf- irstéttarfólk sem hittist að máli, heldur hermaður og vændiskona. Í lokaatriðinu fáum við melluna aftur á tveggja manni tali við greifa sem hafði áður fundað með frægri leik- konu. Þetta leikrit heitir Reigen á þýzku. Það þýðir Baugur. Fyrir nokkrum árum var sýnd af því ný leikgerð í London, og litlu síðar hjá Leikfélagi Reykjavíkur. Þá hét það Bláa herbergið. Margir furðuðu sig á þessari nafnbreytingu, en aðrir töldu að ekki hefði verið stætt á öðru þar sem upphaflega nafnið hefði getað teflt viðskiptasamning- um í uppnám bæði á Englandi og Íslandi. Sagt var að Baugsmæðgur hefðu látið fé af hendi rakna til beggja sýninga. Á hinn bóginn væri Bláa herbergið hlutlaust heiti. Blá herbergi væru víða, til dæmis á kín- verskum matsölustöðum í London, og mörg þeirrar náttúru að þar myrkvaðist allt um stund með ófyr- irsjáanlegum afleiðingum. Við þetta bætist að í Baugi Schnitzlers eru myrkraverkin alltaf hin sömu, í öllum tíu atriðum leiks- ins, eftir því sem næst verður kom- izt. Baugur snýst allur um eitt efni sem er vændi hárra sem lágra. Þar er allt selt og keypt. Í bláum her- bergjum getur hins vegar margt gerzt þegar ljósin slokkna. Þar geta menn til dæmis upptendrazt af hneykslun á vændi. Samt verða dá- leikar að fáleikum sem er hinn dul- arfulli kjarni málsins bæði í Baugi og Bláa herberginu. Sígild verk eins og Baugur hafa oft áhrif á aðra höfunda. Á dög- unum heyrði ég leikþætti í útvarpi og sjónvarpi. Þeir voru eftir lög- fræðing sem einnig er kunnur rit- höfundur. Nú ber mér að taka skýrt fram að ég er ekki að saka þennan ágæta höfund um ritstuld. Hann tekur myrkraverkastef Schnitzlers alveg sjálfstæðum tök- um og spinnur úr því frumlegt verk. Hjá honum eru það ekki karl og kona sem talast við, heldur tveir lögfræðingar. Þar með er enginn dónaskapur í verki hans. Og eftir að ljósin kvikna birtast fáleikarnir einkum í því að annar lögfræðing- urinn lætur lögregluna vita af hin- um, auðvitað óformlega því að þetta eru menntaðir lögfræðingar. Í Baugi Scnitzlers er engin lögregla. Í öðru atriði leiksins kemur skemmtileg kúvending sem á sér enga hliðstæðu hjá Schnitzler. Ég vona að mér takist að fara rétt með hana. Þar segir að auðvitað hefði menntaður lögfræðingur vitað allan tímann að ekki þyrfti að láta lög- regluna vita. Hann hefði bara haft tal af reyndum lögreglumanni sem svo vildi til að væri sálmaskáld og hefði einu sinni ætlað að gefa sér tösku, og það væri vonandi ekkert að því að tveir rithöfundar spjöll- uðu saman. Í Baugi Schnitzlers er ekkert sálmaskáld. Flestir hafa skilið þessa leikþætti sem ádeilu á svonefnt sundrungar- lið sem ógnar heilbrigðum stjórn- arháttum í landinu. Lokasetning leiksins var: „Ég má ekki til þess hugsa að sundrungarliðið komist til valda.“ Fáleikarnir voru bara plat. Það er engin sundrung, nema í sundrungarliðinu. En þá birtist í Morgunblaðinu leikdómur sem varpar nýju ljósi á efnið. Það er menntaður lögfræð- ingur sem skrifar. Hann leiðir í ljós að það var raunar sundrung í bláa herberginu. Með lögfræðingunum tveimur! Leikdómarinn segir ann- an lögfræðinginn hafa verið náinn samstarfsmann hins, en svo hafi hann komið í bláa herbergið vegna þess að hann hafi verið „gerður út af örkinni“ af fyrirtæki nokkru „til að viðra ákveðna hugmynd með hagsmuni fyrirtækisins í huga.“ Þá sundraðist eðlilega allt. Leikdómarinn nefnir ekki hver þessi „ákveðna hugmynd“ var, enda er einn galdur þessarar bók- menntahefðar sá að myrkraverkin eru einmitt myrkraverk. En hann varpar nýju ljósi á fáleikana og þar með allan boðskap verksins. Bláa herbergið Eftir Þorstein Gylfason „En þá birtist í Morg- unblaðinu leikdómur sem varpar nýju ljósi á efnið.“ Höfundur er prófessor við Háskóla Íslands. UNDANFARIN ár hefur verið mörkuð stefna í Grunnskólum Reykjavíkur um að breyta kennslu- háttum töluvert undir þeirri yfirskrift að stefnt skuli að einstaklingsmiðuðu námi. Þetta merkir að rótgrónar hug- myndir manna um bekki sem einn kennari messar yfir eru að verða úr- eltar. Stefnt skal að því að kenna inn- byrðis ólíkum nemendahópum þar sem nemendur eru t.d. á ólíkum aldri. Í hópunum fást allir nemendur við sama viðfangsefni en á ólíkan máta og eiga verkefni hvers og eins að miðast við áhugasvið hans og getu. Þessi hugmynd byggist að hluta til á kenningum um fjölgreind, þ.e. að margs konar greind sé til. Skólakerfið hefur hingað til miðast mjög við tvenns konar greind, þ.e. málgreind og rökgreind sem nemendur nota til að mynda við tungumálanám og stærðfræðinám. Annars konar greind, s.s. hæfileikar til að eiga sam- skipti við fólk, myndrænir hæfileikar o.s.frv. hafa síður fengið að njóta sín í skólakerfinu. Hver og einn fái að njóta sín Þessi hugmyndafræði hugnast mörgum vel enda hlýtur það að teljast ákjósanlegt ástand að hver og einn fái að njóta sín á eigin grundvelli. Hins vegar telja margir þessa hugmynda- fræði hálfgerða draumsýn enda á ís- lenskt skólakerfi ennþá langt í land í þessum efnum. Til marks um það eru samræmdu prófin sem nú eru ekki aðeins í 10. bekk eins og áður var heldur einnig í 4. og 7. bekk. Námið á þessum árum hlýtur að miðast mjög við að nemend- ur nái góðum árangri í samræmdum fögum og hætt er við því að önnur fög verði útundan. Grunnskólar starfa nú í mun meira samkeppnisumhverfi en áður var og skólar eru metnir út frá árangri á samræmdum prófum. Það er því hætt við því að hugsjónin um einstaklingsmiðað nám troðist undir í hinum samræmda og staðlaða hama- gangi. Hugmyndir um einstaklingsmiðað nám hafa verið að ryðja sér til rúms víða um heim, einkum í Bandaríkjun- um og annars staðar á Norðurlönd- um. Í Reykjavík hafa fræðsluyfirvöld sett fram stefnu þessa efnis en það skýtur skökku við að yfirvöld mennta- mála í landinu hafi á sama tíma fjölg- að samræmdum prófum sem bendir til annarrar stefnu á þeim bænum. Og nú verður farið að halda sam- ræmd próf í framhaldsskólum. Marg- ir hafa gagnrýnt framkvæmd þeirra prófa en ég spyr um grundvöll þeirra. Ljóst er að samræmd próf í fram- haldsskólum gera skólum erfiðara að marka sér sérstöðu. Ef meta á gæði framhaldsskóla út frá árangri þeirra í samræmdum prófum bitnar það á fjölbreytni námsframboðs og hætt er við því að ofurkapp verði lagt á þær námsgreinar sem liggja undir í sam- ræmdu prófunum. Greinilegt er að þessi umræða hefur ekki farið fram og stjórnmálamenn hafa jafnvel fallið í þá gryfju að tala um að öllum nem- endum sé hollt að taka próf – eins og málið snúist um leti nemenda. Málið snýst auðvitað um það hvort og þá hverju samræming skili og hvort hún bitni ekki á sérstöðu hvers skóla. Áhugavert verður að fylgjast með þróun fræðslumála næstu árin enda þurfa yfirvöld menntamála á öllum vígstöðvum að sammælast um sam- eiginleg markmið og sameiginlega stefnu. Það er vonandi að hugsjónin um einstaklingsmiðað nám komi þar sterk inn, hvort sem er í grunnskólum og framhaldsskólum. Í skólakerfinu á að leitast við að hlú að hverjum og ein- um. Það á ekki að ganga út á að búa til árangur á þröngum sviðum til að líta vel út á samræmdum og stöðluðum pappírum. Þá eru menn fallnir í þá gryfju að ganga eftir samræmdu göngulagi fornu. Samræmt göngulag fornt Eftir Katrínu Jakobsdóttur Höfundur er varaformaður Fræðslu- ráðs Reykjavíkur og formaður UVG. „Ef meta á gæði fram- haldsskóla út frá ár- angri þeirra í samræmdum prófum bitnar það á fjölbreytni námsframboðs …“

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.