Morgunblaðið - 09.08.2003, Síða 26
FÓLK af íslenskum ættum í Banda-
ríkjunum og Kanada leggur almennt
mikið upp úr upprunanum og ýmsar
árlegar uppákomur eru liður í því að
viðhalda íslensku arfleifðinni. Til-
gangur Íslendingadagshátíðarinnar
í Gimli er til dæmis að treysta og
kynna íslenska menningu og safna
fólki af íslenskum ættum saman til
að minnast og halda upp á þann ár-
angur sem íslenska samfélagið í
Kanada hefur náð.
Fleiri nefndir en íbúar
„Við reynum okkar besta en auð-
vitað er allt smærra í sniðum hjá
okkur en hjá þeim í Gimli enda eru
íbúarnir hjá okkur færri en nefnd-
irnar hjá þeim,“ segir Curtis Olaf-
son, formaður Íslendingafélagsins í
Norður-Dakóta, um árlegu hátíðina í
Mountain, þar sem um 100 manns
búa. Hátíðin, sem fer jafnan fram
fyrstu helgina í ágúst, var nú haldin í
104. sinn en að þessu sinni var þess
sérstaklega minnst að 125 ár eru frá
landnámi Íslendinga í Norður-
Dakóta. Mikið var lagt upp úr ís-
lensku arfleifðinni og meðal annars
var Íslendingabók aðgengileg á Net-
inu fyrir þá sem vildu og greinilegt
að gestir kunnu vel að meta fram-
takið.
Curtis segir að þrátt fyrir fámenn-
ið séu margir tilbúnir að leggja mik-
ið á sig til að hátíðin verði þeim og
fyrirrennurunum til sóma. „Það er
mikilvægt að minnast landnemanna
og allra þeirra góðu verka með fram-
tíðina í huga. Við verðum að standa
saman í svona fámennu samfélagi og
það höfum við gert.“
Heimsókn Ólafs Ragnars Gríms-
sonar, forseta Íslands, til Norður-
Dakóta á hátíðina 1999 vakti mikla
athygli og segir Curtis að hún hafi
verið mikil lyftistöng fyrir sam-
félagið. „Samskiptin við Ísland hafa
aukist í kjölfarið og við fáum stöðugt
fleiri gesti frá Íslandi,“ segir hann.
Í Pembinasýslu búa um 1.000
manns af íslenskum ættum en talið
er að um 5.000 manns hafi sótt hátíð-
ina í Mountain, sem fór fram 1. til 3.
ágúst. Magnus Olafson, sem verður
83 ára í haust og hefur verið í for-
svari hjá fólki af íslenskum ættum í
Norður-Dakóta í áratugi, segir að
aðeins 1999, þegar hátíðin hafi verið
haldin í 100. sinn, hafi verið fleiri
gestir eða um 8.000 manns. „Ég hef
ekki komið mikið að málum að und-
anförnu en þessi hátíð skiptir mjög
miklu máli fyrir okkur,“ segir hann.
„125 ár eru ekki langur tími í mann-
kynssögunni, en það er merkilegt
hvað hefur verið gert hér á þessum
árum og ástæða til að halda því á
lofti. Í byggðunum hérna var flest
fólk um aldamótin 1900 en um 1905
fór fólk að flytjast í burtu. Í manntal-
inu 1900 voru 770 í Garðarhreppnum
en nú eru þeir um 50. Sömu sögu er
að segja af Mountain. Það var fjöl-
skylda á hverjum landsbletti, en
fólkið kom hingað vegna landsins og
það gefur enn ríkan ávöxt.“
Samfelld hátíð í 114 ár
Íslendingadagshátíðin í Gimli fer
alltaf fram fyrstu helgina í ágúst en
undanfarin ár hefur í raun verið um
fjögurra til sex daga fjölskylduhátíð
að ræða, þó formleg dagskrá standi
aðeins yfir í þrjá daga, frá laugar-
degi til mánudags. Hátíðin hefur
vaxið að umfangi með hverju árinu
og æ fleiri koma til Gimli þessa helgi
en talið er að gestir í þessum um
1.600 manna bæ hafi verið um 50 til
60 þúsund að þessu sinni.
Þeir sem veljast til forystu í Ís-
lendingadagsnefndinni í Gimli taka
að sér ákveðin stjórnarstörf í átta ár.
Fyrst verður viðkomandi 2. varafor-
seti í tvö ár, síðan varaforseti næstu
tvö árin, þá forseti í tvö ár og svo frá-
farandi forseti í tvö ár. Tim Arnason
hefur verið forseti undanfarin tvö ár
og því hefur mikil ábyrgð hvílt á
hans herðum. „Við höfum verið með
sérstaka gesti frá Íslandi og að
þessu sinni fengum við meðal annars
KK Víkingabandið frá Hafnarfirði til
að skemmta,“ segir hann spurður
um hvað standi upp úr. „Það stóð sig
vel og ég gleymi því aldrei þegar fé-
lagarnir kölluðu á pabba í hátíðar-
kvöldverðinum á sunnudagskvöld og
báðu hann um að syngja með sér.“
Íslendingadagurinn er næstelsta
menningarhátíðin í Norður-
Ameríku. Fyrsta íslenska hátíðin fór
fram í Milwaukee 1874 en fyrsta ís-
lenska hátíðin í Manitoba fór fram í
Winnipeg 1890. Þar var hún haldin
árlega til og með 1931 en frá 1932
hefur hún verið haldin hátíðleg í
Gimli. Þetta er helsta Íslendingahá-
tíðin í Norður-Ameríku og dregur
hún að sér gesti víðs vegar að en al-
gengt er að fjölskyldur komi saman í
Gimli á þessum tímamótum ár hvert.
„Dagskráin gekk mjög vel fyrir sig,“
segir Tim. „Við fengum margar góða
kveðjur og það var ánægjulegt að
hafa marga Íslendinga frá Íslandi
með okkur. Svo virðist sem helgin
hafi orðið að einum löngum sam-
felldum degi en þessi dagur var sér-
stakur og alltaf eitthvað um að vera.
Hver hápunkturinn á eftir öðrum.“
Tim segir að þótt hann hætti sem
forseti í haust hætti hann ekki störf-
um fyrir nefndina enda eigi hann eft-
ir að sinna störfum fráfarandi for-
seta í tvö ár og svo taki eitthvað
annað við á þessu sviði. „Þetta hefur
verið mikið starf undanfarin ár og
eflaust verður gott að fá einhverja
hvíld en hún verður hvorki löng né
mikil. Það góða við Íslendingadaginn
er að hann er hluti af lífi manns,
hvort sem þú ert forseti eða ekki.
Hátíðin hefur alltaf skipað ríkan sess
í mínu lífi og hún á eftir að gera það
um ókomna framtíð.“
Íslenska ríkisstjórnin hefur styrkt
hátíðina undanfarin ár og segir Tim
að sá stuðningur sé ómetanlegur.
„Vegna forsetaembættisins var mér
boðið til Íslands í júní í fyrra og sú
ferð stendur upp úr hvað sjálfan mig
varðar á þessu tveggja ára forseta-
tímabili. Ég held að tengslin við Ís-
land hafi aldrei verið sterkari en nú
og þessi tenging skiptir gríðarlega
miklu máli. Samstarf á milli þjóð-
anna og milli ýmissa félaga skiptir
sköpum og ég hef alls staðar lagt
áherslu á mikilvægi samvinnu. Við
höfum til dæmis unnið vel með fé-
lögum okkar í Mountain vegna hátíð-
ar þeirra um sömu helgi, við störfum
með Lögbergi-Heimskringlu vegna
styrktarmótsins í golfi sem hefur
farið fram í tengslum við Íslend-
ingadaginn undanfarin þrjú ár og á
sama tíma höfum við unnið með
Gimli kvikmyndahátíðinni sem hefur
fallið vel inn í dagskrána hjá okkur.
Snorraverkefnið hefur líka verið
þáttur í þessu hjá okkur og hafa ber í
huga að þó við séum sterk sem ein-
staklingar þá eru okkur allir vegir
færir sem heild.“
Sandra Sigurdson hefur verið
varaforseti Íslendingadagshátíð-
Íslendingadagshátíðir í Mountain í Bandaríkjunum og Gimli í Kanada
Morgunblaðið/Steinþór Guðbjartsson
Fjallkonan er stór þáttur Íslendingadagsins. Hér er hún með meyjum sínum og íslenskum sendiherrafrúm í Ottawa
og Washington. Frá vinstri: Anna Birgis, Meghan Sproule, Sigrid Johnson, Britany Maguet og Hervör Jónasdóttir.
arinnar undanfarin tvö ár og verður
því næsti forseti. „Ég er mjög
spennt að taka við þessu verkefni og
það eru ánægjulegir tímar fram-
undan,“ segir hún. Sandra segir að
alltaf megi gera ráð fyrir einhverjum
breytingum eða breyttum áherslum
með nýju fólki en hátíðin sé í föstum
skorðum og ástæðulaust að breyta
einhverju aðeins breytinganna
vegna. „Við erum alltaf opin fyrir
einhverju nýju en hátíðin er góð eins
og hún er. Aðalatriðið er að halda
góðum siðum áfram á lofti og vera
vakandi fyrir nýjungum.“
Hlýtt og
yndislegt fólk
Á meðal gesta í Mountain og Gimli
voru um 100 manns frá Íslandi. Þar á
meðal sr. Karl Sigurbjörnsson, bisk-
up, sendiherrahjónin í Washington,
Helgi Ágústsson og Hervör Jónas-
dóttir, sendiherrahjónin í Ottawa í
Kanada, Hjálmar W. Hannesson og
Anna Birgis, og aðalræðismanns-
hjónin í Winnipeg í Kanada, Korn-
elíus Sigmundsson og Anna Soffía
Hauksdóttir.
Helgi Ágústsson segir að hátíð-
irnar í Mountain og Gimli séu sér-
staklega eftirminnilegar og móttök-
urnar einstakar. „Þetta hefur verið
afskaplega mikil upplifun,“ segir
hann, en hann heimsótti Íslend-
ingabyggðirnar í Norður-Dakóta og
Manitoba í fyrsta sinn um nýliðna
helgi. „Ég hef verið á leiðinni hingað
í 30 ár og það er ólýsanleg tilfinning
að vera hérna. Ég held að fólkið sem
ég hef hitt hérna sé eitthvert besta
fólk sem ég hef fyrirhitt á lífsleið-
inni. Þetta er svo hlýtt og yndislegt
fólk sem hefur tekið okkur opnum
örmum. Það er eftirminnilegt að
hafa hitt gamalt fólk sem talar ís-
lensku og sérstaklega að hlusta á 94
ára gamlan mann, Magnús Elíason,
fara með fjögur löng kvæði eftir
Gutta, Guttorm J. Guttormsson. Það
er slík upplifun að ég gleymi henni
aldrei.“
Curtis Olafson og Björk Eiríksdóttir í Mountain kynntu
íslensku byggðina þar á hátíðinni í Gimli.
Veðrið lék við gesti í Gimli. F.v.: Kornelíus Sigmundsson, Hjálmar W.
Hannesson, Helgi Ágústsson og Kris Stefansson, fylkisdómari í Winnipeg.
Ógleymanleg
upplifun
Mikil hátíðarhöld voru í Íslendingabyggðunum
Mountain í Norður-Dakóta í Bandaríkjunum og
Gimli í Manitoba í Kanada um nýliðna helgi. Stein-
þór Guðbjartsson var á meðal fjölmargra gesta.
steg@mbl.is
Tim Arnason og Sandra Sigurdson að lokinni hátíð-
ardagskrá Íslendingadagsins í Gimli-garði.
Við rústir Þingvallakirkju í Eyford í Norður-Dakóta. Frá vinstri: Sr. Þor-
björn Árnason, Karl Sigurbjörnsson biskup og sr.Halldór Reynisson.
ÚR VESTURHEIMI
26 LAUGARDAGUR 9. ÁGÚST 2003 MORGUNBLAÐIÐ