Morgunblaðið - 07.02.2004, Blaðsíða 10
FRÉTTIR
10 LAUGARDAGUR 7. FEBRÚAR 2004 MORGUNBLAÐIÐ
Leikfélag | Þórólfur Árnason, borg-
arstjóri, sagði á fundi borgarstjórnar
á fimmtudag að hann hefði fengið bréf
frá Leikfélagi Reykjavíkur þar sem
tilkynnt var að það væri nú opið félag.
„Allir geta orðið félagar í LR,“ sagði
hann og hvatti Reykvíkinga til að taka
þátt í starfinu.
Skúffumál | LR var mikið til um-
ræðu á borgarstjórnarfundinum. Vil-
hjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti sjálf-
stæðismanna, sagði að ef
sjálfstæðismenn hefðu ekki barist
fyrir auknum fjárveitingum til félags-
ins væri málið enn í skúffu borgar-
stjóra.
Uppdráttarsýki | Stefán Jón
Hafstein, R-lista, sagði að fjárhags-
leg- og félagsleg endurskipulagning
LR hefði orðið að fara fram. „Það má
segja að fyrir nokkrum árum hafi
húsið þjáðst af uppdráttarsýki,“ sagði
hann. Nú drægi leikhúsið fólk að og
rekstrarvanda ætti að leysa til langs
tíma. Það ætti að fara varlega með
skattfé borgaranna.
Sjálfumgleði | Björn Bjarnason,
D-lista, sagði að formaður menning-
armálanefndar ætti að rökstyðja full-
yrðingu sína að uppdráttarsýki hefði
ríkt í LR. „Var það áður en þessum 54
starfsmönnum var sagt upp?“ spurði
Björn. „Ég held hann ætti að rök-
styðja þessar fullyrðingar sínar um
leið og hann talar hér í sinni alkunnu
sjálfumgleði um sjálfan sig og allt það
sem hann getur gert fyrir aðra.“
Brugðið | „Það lá við að mér
brygði svo mikið við að ég ætlaði ekki
í ræðustól við að heyra síðustu orð
borgarfulltrúa Björns Bjarnasonar
og dómsmálaráðherra, hvernig hann
talar til viðstaddra borgarfulltrúa hér
um alkunna sjálfumgleði,“ sagði borg-
arstjóri og bætti svo við að Björn væri
líka kirkjumálaráðherra. „Ég vona að
ættingjar mínir heyri það.“
Stjórnendaskipti | Stefán Jón
sagði að Björn ætti að kynna sér
skipti á framkvæmdastjórum, leik-
hússtjórum og deilur innan LR und-
anfarinn áratug til að skilja af hverju
hann notaði orðið uppdráttarsýki.
„Það má nota orðið sjálfumgleði um
þann sem hér stendur og nota það oft.
Í þessu tiltekna máli passar það ekki,“
sagði Stefán Jón og vísaði til þess ár-
angurs sem stjórnendur LR höfðu
náð.
Niðurrifssinnar | Ólafur F
Magnússon, F-lista, sagði ágreining
kominn upp innan R-listans varðandi
framtíð Austurbæjarbíós. Las hann
upp bókun í menningarmálanefnd þar
sem sagt er að húsið hafi ótvírætt
menningarsögulegt gildi. Þessu hefði
verið snúið á haus í borgarráði sem
sýndi að „niðurrifssinnar“ hefðu tögl
og hagldir þar.
Aldarafmæli | Ólafur sagði búið
að samþykkja að styrkja hátíðardag-
skrá um 250 þúsund í tilefni af ald-
arafmæli Ragnars í Smára. Á meðan
væru lögð á ráðin um að rífa Austur-
bæjarbíó, en hann hefði verið einn af
brautryðjendum þeirra sem vildu
reisa bíóið. Honum væri mikil óvirð-
ing sýnd með þessu.
Stefnubreyting | Vilhjálmur
sagði það auðvitað svo að fulltrúar
Vinstri grænna í borgarstjórn hefðu
lítinn áhuga á að rífa bíóið. Það fælist
stefnubreyting í þessari bókun menn-
ingarmálanefndar. Ef það væri ekki
rétt mat vildi hann að Árni Þór Sig-
urðsson forseti borgarstjórnar, leið-
rétti sig.
Sjónarmið | Björn sagði að nú
væru sjónarmið Steinunnar Birnu
Ragnarsdóttur að koma fram, sem
hefðu verið þögguð niður með þeim
afleiðingum að hún sagði af sér sem
varaborgarfulltrúi. „Hann virðist
vera með manneskjuna á heilanum,“
sagði Stefán Jón um að Steinunn
Birna væri nefnd í þessu samhengi.
„ÞAÐ er von að tölvukerfið klikki,“
sagði Pétur H. Blöndal, þingmaður
Sjálfstæðisflokks, á þingfundi í
fyrrakvöld, þegar forseti þingsins,
Halldór Blöndal, hafði tilkynnt þing-
heimi að vegna bilunar í tölvukerfi
færi lokaatkvæðagreiðslan um
sparisjóðafrumvarpið fram með
handauppréttingu. Pétur, eini þing-
maðurinn sem var á móti sparisjóða-
frumvarpinu, rauk eftir þessa til-
kynningu forsetans upp í pontu,
sagði fyrrgreinda setningu og rauk
svo aftur niður í þingsæti sitt. Hon-
um var greinilega mikið niðri fyrir
enda hafði hann fyrr um kvöldið haft
stór orð um samþykkt frumvarpsins.
Meðal annars lýsti hann því yfir að
samþykkt þess fæli í sér alvarlegt
brot á réttarríkinu.
Af svipbrigðum Halldórs Blöndal,
Helga Bernódussonar, aðstoð-
arskrifstofustjóra þingsins, og Vig-
dísar Jónsdóttur, forstöðumanns á
skrifstofu þingsins, sem sátu fyrir
aftan ræðustól og stjórnuðu fundi,
mátti ráða að þessi ferð Péturs upp í
pontu hefði komið þeim gjörsamlega
í opna skjöldu. Kannski ekki nema
von þar sem þingmaður þarf leyfi
forseta þingsins til að taka til máls.
Þremenningarnir litu sem
snöggvast hver á annan, síðan var
eins og Halldór ætlaði að segja eitt-
hvað, en hefði hætt við þegar Pétur
var á augabragði aftur kominn í sæt-
ið sitt. Engar athugasemdir voru því
gerðar að þessu sinni; þingfundi var
haldið áfram, eins og ekkert hefði í
skorist; atkvæðagreiðsla fór fram
með handauppréttingum og frum-
varpið var samþykkt með 43 at-
kvæðum gegn einu.
***
En áfram um bilunina í tæknibún-
aði þingsins í fyrrakvöld. Ástæðu
hennar mátti nefnilega rekja til bil-
unar í atkvæðagreiðsluhnappi á
borði Kristins H. Gunnarssonar,
þingmanns Framsóknarflokks.
Kristinn er jafnframt varaformaður
efnahags- og viðskiptanefndar
þingsins og hafði fyrr um kvöldið
mælt fyrir meirihlutaáliti nefnd-
arinnar, sem mælti með samþykkt
títtnefnds frumvarps. Pétur H.
Blöndal, sem jafnframt er formaður
nefndarinnar, hafði hins vegar mælt
fyrir minnihlutaáliti, gegn frum-
varpinu, sem hann stóð einn að.
Í þessu ljósi er því skondin til-
viljun að hnappur Kristins skyldi
einmitt bila á ögurstundu. Kristinn
hafði eins og aðrir þingmenn tekið
þátt í atkvæðagreiðslum um ein-
stakar greinar frumvarpsins fyrr
um kvöldið og ævinlega ýtt á „græna
takkann“ eða „já-takkann“. En þeg-
ar leið á atkvæðagreiðsluna fór
takkinn að bila. Að lokum logaði
bara rautt ljós á borði Kristins – sem
þýðir nei – hvernig sem þingmað-
urinn hamaðist á „já-takkanum“.
Þingmenn gerðu síðar grín að þessu
og sögðu að „einhverjum álfum“ í
tölvukerfinu hefði þótt nóg um hve
Kristinn væri orðinn hliðhollur
frumvarpi frá ríkisstjórninni. Þeir
hefðu því tekið upp á því að sýna
rautt ljós þrátt fyrir ítrekaðar til-
raunir Kristins til að ýta á „já“.
***
Viðskiptaráðherra, Valgerður
Sverrisdóttir, lagði fram sparisjóða-
frumvarpið á Alþingi á þriðjudag,
eins og kunnugt er, þegar ljóst var
að mikill stuðningur var meðal al-
mennra þingmanna um slíka laga-
setningu, þ.e. að skil yrðu sett milli
stofnfjáreigenda í sparisjóði annars
vegar og stjórnar sjálfseignarstofn-
unarinnar hins vegar. Þegar Val-
gerður hafði boðað frumvarpið
ákváðu Einar Oddur Kristjánsson,
Sjálfstæðisflokki, og Lúðvík Berg-
vinsson, Samfylkingu, að draga til
baka áform um að leggja fram sam-
bærilegt frumvarp.
Samkvæmt heimildum undirrit-
aðrar var frumvarp ráðherra samið í
viðskiptaráðuneytinu á mánudags-
kvöld og aðfaranótt þriðjudags.
Fyrsta umræða fór síðan fram á
miðvikudag og á fimmtudag var mál-
ið tekið til umfjöllunar í efnahags- og
viðskiptanefnd. Stefnan var sú að af-
greiða málið frá þingi síðar þann
sama dag. Meirihluti nefndarinnar
tók hins vegar sinn tíma til að fara
yfir málið og kallaði m.a. til sín lög-
fræðinga frá viðskiptaráðuneytinu. Í
samráði við þá var unnið að því að
lagfæra frumvarpið, þannig að
markmið þess yrðu skýrari. Eftir að
hafa fundað frá morgni til kvölds
skilaði meirihlutinn hins vegar áliti
sínu og var frumvarp ráðherra sam-
þykkt, með áorðnum breytingum
meirihlutans, á ellefta tímanum á
fimmtudagskvöld. Og það þrátt fyrir
bilanir í tölvukerfi og þingmann á
rauðu ljósi.
Þingmaður á rauðu ljósi
EFTIR ÖRNU SCHRAM
ÞINGFRÉTTAMANN
arna@mbl.is
VALGERÐUR Sverrisdóttir við-
skiptaráðherra sagði í umræðum
um sparisjóðafrumvarpið á Alþingi
í fyrradag að frumvarpið hefði
ekki verið beint lagt fram til að
koma í veg fyrir viðskiptin milli
Sparisjóðs Reykjavíkur og ná-
grennis, SPRON, og KB banka.
Pétur H. Blöndal, þingmaður
Sjálfstæðisflokks, fullyrti hins veg-
ar að frumvarpinu væri stefnt
gegn samningum þessara aðila.
Ráðherra sagði að það væri ekk-
ert launungarmál að frumvarpið
hefði verið lagt fram í ljósi þess að
uppi hefðu verið áform um við-
skipti milli SPRON og KB banka.
„Það [er] hins vegar ekki lagt fram
til þess beint að koma í veg fyrir
þau viðskipti. Það er hins vegar
þannig [...] að SPRON eins og
önnur fyrirtæki þarf að taka mið
af lögum og lagaumhverfið breyt-
ist með þessu frumvarpi verði það
að lögum og það er aðalatriðið.“
SPRON þarf að taka ákvarð-
anir á grundvelli laganna
Pétur sagðist ekki skilja þessa
afstöðu ráðherra. „Hæstvirtur ráð-
herra segir að þessu lagafrum-
varpi sé ekki stefnt gegn samn-
ingum SPRON og Kaupþings
banka. En samt muni stjórn
SPRON þurfa að taka veigamiklar
ákvarðanir á grundvelli þessara
breyttu laga. Bíðum nú við. Af
hverju þarf hún að taka einhverjar
ákvarðanir? Hún er búin að gera
samning. Hún ætlar bara að fram-
kvæma samninginn. Hún ætlar
bara að ganga eftir þeim samningi
í samræmi við gildandi lög sem
enn eru í gildi akkúrat núna
klukkan tíu,“ sagði Pétur. Við-
skiptaráðherra kallaði þá úr sæti
sínu: „Þeim verður breytt.“ Pétur
hélt þá áfram og sagði: „Já verður
breytt, einmitt. Og þá þarf hún
[stjórn SPRON] að gera eitthvað
nýtt. Þá vil ég fullyrða að þessum
lögum er stefnt gegn þessum
samningum og það mun nefnilega
hafa í för með sér að það verður að
rifta þeim.“
Stefnt gegn samningnum
Um klukkutíma eftir þessi orða-
skipti fór fram lokaatkvæða-
greiðsla um sparisjóðafrumvarpið,
þar sem það var samþykkt með 43
atkvæðum gegn einu atkvæði Pét-
urs. Hann sagði rétt fyrir at-
kvæðagreiðsluna að augljóst væri
að Alþingi væri að setja lög gegn
einum ákveðnum samningi. „Það
er alveg á hreinu,“ sagði hann,
„miðað við það sem kom hér fram
áðan að Alþingi telur nauðsynlegt
að flýta þessu frumvarpi þvílíkt að
klukkan hálfellefu að kvöldi er
verið að hefja þriðju umræðu með
afbrigðum. Málið var lagt fram í
gær [á miðvikudag]. Þvílíkur er
hraðinn. Það er sem sagt greini-
legt að þessu frumvarp er stefnt
gegn ákveðnum samningi sem
gerður hefur verið í samræmi við
lög og það er með ólíkindum,
herra forseti, að slíkt skuli vera að
gerast“.
Valgerður Sverrisdóttir um sparisjóðafrumvarpið
Ekki lagt fram til að hindra
viðskipti SPRON og KB banka
Morgunblaðið/Golli
Þingmennirnir Einar K. Guðfinnsson, Pétur Blöndal, Birgir Ármannsson og Ögmundur Jónasson ræðast við.
FYLGI Sjálfstæðisflokks og Sam-
fylkingarinnar hefur aukist lítillega
frá síðasta mánuði skv. nýjum nið-
urstöðum fylgiskönnunar Þjóðar-
púls Gallup. Ef kosið yrði til Alþingis
í dag fengi Sjálfstæðisflokkurinn
tæplega 38% fylgi en var 35% og
Samfylkingin mælist með 30% fylgi
en það var 28% fyrir mánuði. Í skýr-
ingum Gallup er þó bent á að ekki sé
marktækur munur á breytingum
sem mældar eru í könnuninni.
Aðrir flokkar mælast með svipað
fylgi og síðast, Framsóknarflokkur-
inn fengi 14%, Vinstrihreyfingin –
grænt framboð 13% og Frjálslyndi
flokkurinn tæplega 6% ef kosið yrði
nú.
Stuðningur við ríkisstjórnina
mælist nú 54% en mældist 53% í síð-
ustu könnun.
Tæplega 17% taka ekki afstöðu í
könnuninni eða neita að gefa hana
upp og rúmlega 8% sögðust myndu
skila auðu eða ekki kjósa ef kosn-
ingar færu fram nú.
Könnunin fór fram í gegnum síma
dagana 6. til 27. janúar. Úrtakið var
1.789 manns á aldrinum 18 til 75 ára
og var svarhlutfallið 64%. Vikmörk í
könnuninni eru á bilinu 1–3 pró-
sentustig.
Fylgi Sjálfstæðisflokks og
Samfylkingar eykst lítillega